TF útileikarnir eru haldnir um verslunarmannahelgina ár hvert á vegum ÍRA. Leikarnir voru haldnir fyrst árið 1979. Tilgangur útileikanna er að örva áhuga og hæfni íslenskra radíóamatöra í notkun færanlegra stöðva og eflingu fjarskipta innanlands. Fjörið eykst þegar íslendingar búsettir eða staddir erlendis taka þátt. Leikarnir eru tilvaldir til að sameina útivist og amatörradíó.

Samband má hafa hvenær sem er um verslunarmannahelgina en heildar þáttökutími hverrar stöðvar má ekki vera meiri en 9 klukkustundir.

Aðalþáttökutímabilin eru: laugardag kl 1700-1900, sunnudag kl 0900-1200, sunnudag kl 2100-2400 og mánudag kl 0800-1000

Þáttakendur verða í það minnsta að skiptast á upplýsingum um RST og QSO-númer. QSO-tími og staðsetning verða að koma fram í loggnum.

Reglur leikanna eru á heimasíðu félagsins í kaflanum “Upplýsingar”: http://www.ira.is/tf-utileikar/

Villi, TF3DX einn ötulasti þáttakandi Útileikanna gegnum árin sagði aðspurður í símtali í gærkvöldi að einfaldasta loftnetið fyrir HF-böndin til að hafa með sér í útileikana, útileguna um helgina væri 39 metra langur vír sem komið væri eins hátt upp og aðstæður leyfðu á hverjum stað ásamt loftnetsstilli, einföld L-rás dugir vel og nægilegt væri að leggja út tvo til þrjá metra sem jörð eða tengja í einn eða fleiri tjaldhælinn. Hann mælti ekki með að menn tengdu jörðina í tána á ferðafélaganum…betri helmingnum sofandi inni í tjaldi, hversu freistandi sem það væri.

Góða helgi og skemmtilega keppni.

Mirek, VK6DXI hefur boðað myndakvöld á fimmtudaginn kemur.1. ágúst þar sem hann mun sýna frá ferðum sýnum og DX leiðangrum sem hann hefur farið.  Gert er ráð fyrir að sýningin hefjist strax upp úr kl. 20.00. Ljóst er að mikill fengur er að fá Mirek í heimsókn.  Hann hefur óþrjótandi áhuga á fjarskiptum og morsi.

73 Guðmundur de TF3SG

TF3TNT og TF3ARI hafa unnið að ýmsum tilraunum með TF1RPB, endurvarpann í Bláfjöllum í góðviðrinu undanfarna daga. Nýr búnaður og loftnet  voru sett upp í öðru tækjahúsi á fjallinu þar sem væntanlega er minna um truflanir. Loftnetið er nokkra metra hringgeislandi fiberstöng með 8 dBi ávinningi í allar áttir.  Prófaðar verða ýmsar gerðir af lyklun og halinn er hafður nokkuð langur til að auðveldara sé að prófa drægni endurvarpans. Myndin sýnir tækjahúsið og loftnetið á toppi 20 metra masturs. Frekari uppýsingar og fréttir verða birtar hér af þessum tilraunum og árangri á næstu vikum. Fyrstu fréttir af drægni lofa góðu og náðist endurvarpinn til dæmis við Landmannahelli í dag, þar var á ferðinni TF3WJ á sínum velbúna fjallabíl.

Frumgerð myndarinnar er á fésbókarsíðu TF3ARI, þar eru fleiri myndir tengdar þessum tilraunum.

Nýtt tveggja dípóla loftnet, lóðrétt pólað var sett upp á Skálafelli í gær.

Á eftir myndinni eru upplýsingar um útgeislun frá svipuðu loftneti og eins sést þá er ávinningurinn af tveimur dípólum mest rúm 4 db fram yfir einn dípól. Loftnetið var sett upp með mesta ávinning í norður, norðvestur eða í átt að Borgarfirði og Snæfellsnesi. Önnur loftnet, möstur og burðarrör nýja loftnetsins á Skálafelli skékkja myndina eflaust eitthvað. Til dæmis er Bifröst á bak við stóra sjónvarpsmastrið á Skálafellinu frá lofnetinu séð. Óvíst er hver áhrifin eru á merkisstyrk Péturs í Borgarfirðinum en til stendur að kanna það.

TF3ARI tók myndina

TF3ARI tók myndina

Fyrirhuguðum flóamarkaði 2. júní er frestað fram á sumar. Von er á tækjum og búnaði sem settur verður á flóamarkað félagsins. Nánar verður sagt frá þessum viðburði seinna í sumar. 73 Guðmundur de TF3SG

Stjórnarskiptafundur var í kvöld 23. maí 2013. Ný stjórn ÍRA skipa: Formaður, Guðmundur Sveinsson, TF3SG, varaformaður, Andrés þórarinsson, TF3AM, ritari, Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB, gjaldkeri Benedikt Sveinsson, TF3CY, meðstjórnandi, Henry Hálfdánarson, TF3HRY, varamenn Georg Magnússon, TF2LL og Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN. Tengiliður stjórnar við Póst og fjarskiptastofnun er Henry Hálfdánarson.
Stjórn ÍRA færir fráfarandi stjórn bestu þakkir fyrir allt það frábært starf í þágu félagsins og radíóamatöra.

Kristinn Andersen TF3KX var fundarstjóri á aðalfundi Í.R.A. 2013 á Radisson Blu Hótel Sögu í Reykjavík.

Aðalfundur Í.R.A. 2013 var haldinn þann 18. maí í Snæfelli, fundarsal Radisson Blu Hótel Sögu í Reykjavík. Á fundinum fóru fram venjuleg aðalfundarstörf; kosin ný stjórn, samþykktar lagabreytingar ásamt umræðum undir liðnum önnur mál. Embættismenn fundarins voru kjörnir þeir Kristinn Andersen, TF3KX fundarstjóri og Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ, fundarritari. Alls sóttu 19 félagsmenn fundinn úr kallsvæðum TF1, TF2, TF3 og TF8 samkvæmt skráningu í viðverubók. Fundurinn var settur kl. 13:10 og slitið kl. 16:20.

Eftirtaldir skipa nýja stjórn félagsins fyrir starfstímabilið 2013-2014: Guðmundur Sveinsson, TF3SG, formaður; Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY og Benedikt Sveinsson, TF3CY (kjörnir til tveggja ára), Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB (kjörinn stjórnarmaður til eins árs í stað Sæmundar E. Þorsteinssonar, TF3UA sem óskaði lausnar sitt síðara ár af kjörtímabilinu) og Andrés Þórarinsson, TF3AM, sem nú situr sitt síðara ár.

Varamenn voru kjörnir þeir Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN og Georg Magnússon, TF2LL. Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir þeir Óskar Sverrisson, TF3DC og Haukur Konráðsson, TF3HK; og til vara, Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson, TF3VS. Félagsgjald var samþykkt 6500 krónur fyrir starfsárið 2013-2014. Stjórnin mun skipta með sér verkum fljótlega.

Fráfarandi formaður, Jónas Bjarnason, TF3JB, lýsti kjöri heiðursfélaga sem samþykkt var á síðasta fundi fráfarandi stjórnar, þann 12. maí s.l. Nýir heiðursfélagar eru þeir Kristján Benediktsson, TF3KB og Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX.Fundarmenn klöppuðu þeim til heiðurs.

Skýrsla stjórnar og reikningur félagssjóðs munu fljótlega verða til birtingar hér á heimasíðunni ásamt fundargerð og upplýsingum um lagabreytingar og aðrar samþykktir.

Aðalfundur Í.R.A. 2013 verður haldinn í dag, laugardaginn 18. maí. Fundurinn verður
haldinn í Snæfelli, fundarsal Radisson Blu Hótel Sögu, við Hagatorg í Reykjavík og
hefst stundvíslega kl. 13:00. Dagskrá er samkvæmt félagslögum.

Sjá nánari upplýsingar í 2. tbl. CQ TF 2013.

F.h. stjórnar Í.R.A.,

Jónas Bjarnason, TF3JB,
formaður.

Hluti af gjöfinni kominn í jeppakerruna. Baldvin Þórarinsson TF3-Ø33 og Stefán Þórhallsson TF3S.

Stefán Þórhallsson, TF3S, hafði nýlega samband við stjórn félagsins og sagði að sig langaði til að gefa félaginu nokkrar fjarskiptastöðvar, fjarskiptabúnað, mælitæki og fleira radíódót vegna flutninga. Það varð úr að Baldvin Þórarinsson, TF3-Ø33 og Jónas Bjarnason, TF3JB heimsóttu Stefán með jeppakerru Baldvins þann 15. maí.

Það sem sótt var fyrri daginn (15. maí) var m.a. Texscan AL-4C Spectrum Analyzer 0-300 MHz; Icom IC-701 SSB/CW/RTTY 100W 160-10m (e. WARC) sendi-/móttökustöð; Icom IC-740 SSB/CW/RTTY 100W 160-10m (með WARC) sendi-/móttökustöð; og Yaesu Musen FT-101E SSB/CW 100W 160-10m (með WARC) sendi-/móttökustöð. Ýmsir aukahlutir, s.s. Icom IC-701PS aflgjafi með innbyggðum hátalara; Icom IC-RM2 stjórntölva (2 stk.) fyrir Icom IC-701, Icom IC-211 og Icom IC-745; Icom IC-EX1 (Extension Terminal); Icom IC-SM5 borðhljóðnemi; Icom AT-500 sambyggð sjálfvirk loftnetsaðlögunarrás fyrir 160-10 metra (m. WARC) og loftnetaskiptara; Yaesu Musen FV-101B External VFO; Kenwood S-599 hátalarakassi o.m.fl. Tækin verða listuð upp síðar.

Það sem sótt var síðari daginn (16. maí) var m.a. Yaesu Musen FT-7 SSB/CW 10W 80-10m (e. WARC) sendi-/móttkustöð. Töluvert af mælitækjum, íhlutum til smíða, aflgjafar, loftnetsaðlögunarrásir, bækur frá ARRL o.m.fl. Tækin verða listuð upp síðar. Sjá meðfylgjandi ljósmyndir.

Stjórn Í.R.A. þakkar Stefáni Þórhallssyni, TF3S, fyrir þessa rausnarlegu gjöf.

Það sem sótt var 16. maí komið í bráðabirgðageymslu í Skeljanesi.

Það sem sótt var 16. maí komið í bráðabirgðageymslu í Skeljanesi.

Við þetta tækifæri er ánægjulegt að rifja upp góða gjöf Stefáns sem hann færði félaginu í tilefni opnunar nýrra smíðaaðstöðu í Skeljanesi þann 23. mars 2010. Mælitæki sem komu í góðar þarfir og eru notuð enn í dag.

Póst- og fjarskiptastofnunin, PFS hefur nýlega úthlutað eftirtöldum nýjum kallmerkjum.

Kallmerki

Leyfi

Leyfishafi/not

Staðsetning stöðvar

Skýringar

TF1MMN N-leyfi Magnús H. Vigfússon 800 Selfoss Stóðst N-próf til amatörleyfis 4.5.2013.
TF2R G-leyfi Sameiginleg stöð 311 Borgarbyggð Fyrra kallmerki: TF2RR.
TF3CE G-leyfi Árni Þór Ómarsson 109 Reykjavík Stóðst G-próf til amatörleyfis 4.5.2013.
TF3EO G-leyfi Egill Ibsen Óskarsson 104 Reykjavík Stóðst G-próf til amatörleyfis 4.5.2013.
TF3MHN N-leyfi Mathías Hagvaag 113 Reykjavík Stóðst N-próf til amatörleyfis 4.5.2013.
TF3R G-leyfi Sameiginleg stöð 201 Kópavogur Fyrra kallmerki: TF3RR.
TF3TKN N-leyfi Sigurður Árnason 111 Reykjavík Stóðst N-próf til amatörleyfis 4.5.2013.

Stjórn Í.R.A. óskar hlutaðeigandi til hamingju með ný kallmerki.

Mynd frá Tungubökkum í Mosfellsbæ sem tekin var í ágúst í fyrrasumar.

Flugmódelmenn bjóða félagsmönnum Í.R.A. á Hamranesflugvöll næstkomandi miðvikudagskvöld, þann 15. maí. Veðurspáin lítur nokkuð vel út, en við erum auðvitað háðir veðri í módelflugi. Miðvikudagar eru klúbbkvöld á flugvelli Þyts og þar erum við mættir um kvöldmatarleytið.

Hamranesflugvöllur er örskammt frá Hvaleyrarvatni fyrir ofan Hafnarfjörð. Tvær leiðir liggja þangað:

  • Aka í átt að Kaldársseli og beygja til hægri inn að Hvaleyrarvatni. Aka framhjá vatninu og síðan um 500 metra.
  • Aka Krísuvíkurveginn og beygja til vinstri skömmu eftir að komið er fram hjá gulu spennistöð Landsvirkjunar. Aka um 1000 metra í átt að Hvaleyrarvatni.

Umfjöllun hér: http://frettavefur.net/Forum/viewforum.php?id=2


Með góðri kveðju,

Ágúst H. Bjarnason, TF3OM.

Mynd frá Tungubökkum í Mosfellsbæ sem tekin var í ágúst í fyrrasumar.

(Ljósmyndir: TF3OM).

Þátttakendur á samráðsfundi Í.R.A., IARU og IARU Svæðis 1 þann 7. maí. Frá vinstri: Hörður R. Harðarson, sérfræðingur hjá PFS; Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar PFS; Kristján Benediktsson TF3KB; Jónas Bjarnason TF3JB; Ole Garpestad LA2RR, varaforseti IARU; Hans Blondeel Timmerman PB2T, formaður IARU Svæðis 1; Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og Bjarni Sigurðsson, sérfræðingur hjá PFS.

Sérstakur fundur fulltrúa Í.R.A. og fulltrúa IARU og IARU Svæðis 1, var haldinn í húsnæði stofnunarinnar að Suðurlandsbraut 4 í Reykjavík, þann 7. maí. Efnt var til fundarins að ósk fulltrúa IARU sem staddir voru hér á landi sem gestir á fundi framkvæmdanefndar IARU Svæðis 1 helgina 4.-5. maí 2013.

Þeir Ole Garpestad, LA2RR, varaformaður IARU og Hans Blondeel Timmerman, PB2T, formaður IARU Svæðis 1 kynntu frumvarp IARU um nýtt amatörband á 60 metrum (5 MHz) sem verður lagt fyrir Alþjóðlega radíófjarskiptaráðstefnu ITU, WRC-15 (World Radiocommunication Conference) sem haldin verður í Genf í Sviss, 2.-27. nóvember 2015. Einnig var rætt almennt um tíðnimál radíóamatöra og EMC málefni. Fundurinn var mjög vinsamlegur.