Um þessar mundir er margt líkt að gerast í þróun fjarskipta og bílaumferðar. Margir eiga eftir að verða hissa og enn fleiri eiga ekki eftir að vita hvaðan á sig veðrið stóð eins og stundum er sagt. Google setti nýlega í gang tilraunarekstur á sjálfvirkum rennireiðum ætluðum til flutnings á fólki og þess vegna hverju sem er. Þessar rennireiðir er tæplega hægt að kalla bíla eins og við þekkjum bílana í dag því í raun eru þetta kassar eða klefar á hjólum sem rata sjálfvirkt frá einum stað til annars ekki ósvipað því sem mun gerast í pakkanetum náinnar framtíðar. Um allan heim er verið að vinna að þessum framtíðar flutningatækjum og fjarskiptaháttum. Í Hollandi var nýlega kynnt loftnet sem aðlagar sig sjálfvirkt að fjarskiptaumferðinni en í raun er varla hægt að kalla slíkan búnað loftnet því í loftnetinu eru bæði sendar og móttakarar ásamt stýritölvu.

Grein um nýju loftnetin

Kristins Andersen, TF3KX

Sameinumst í hamingjuóskum til félaga okkar TF3KX, Kristins Andersen, sem nýlega var skipaður prófessor við Háskóla Íslands. Kristinn er einnig formaður Verkfræðingafélags Íslands og í stjórn ÍRA. Kristinn hefur verið gegnheill í sínum verkum og lagt af mörkum mikið starf í þágu amatöra á Íslandi gegnum árin og ötull þátttakandi í amatörkeppnum.

Til hamingju Kiddi.

Um helgina er CQ World-Wide WPX CW keppnin. Keppnin byrjar klukkan 00:00 á laugardegi og endar klukkan 24:00 á sunnudegi. Einyrkjar mega mest vera 36 klukkutíma í loftinu og verða að taka hlé sem hvert um sig er að lágmarki ein klukkustund. Fjölmönnuð stöð má vera samfleytt alla 48 klukkkutímana í loftinu. Markmiðið er að ná eins mörgum samböndum og eins mögum löndum og unnt er. Keppendur er áminntir um að virða án undantekninga tíðninotkunarreglur IARU og ekki síst halda sig frá neyðarfjarskiptatíðnunum.

Hver keppandi og hvert keppnislið verða að vera við stöðina eða á einum stað ef stöðin er fjarstýrð. Fjarstýrð stöð verður að vera öll, viðtæki, sendir og loftnet, á einum stað. Keppnisþátttaka um fjarstýrða stöð verður að hlíta öllum stöðvarleyfum, keppendaleyfum og öðrum takmörkunum sem settar hafa verið í leyfisbréfi keppanda og stöðvarleyfi. Fjarstýrð viðtæki utan stöðvar eru ekki leyfð.

Nánari reglur eru á: http://www.cqwpx.com/rules.htm og keppnin er á fésbók: http://www.facebook.com/cqwpx

Félagar sem hafa áhuga á að taka þátt í keppninni á stöð ÍRA í Skeljanesi hafi samband við formann ÍRA.

High Frequency Active Auroral Research Program, HAARP loftnetin nálægt Gakona, Alaska voru gangsett 2007. HARRP loftnetin eru aðalhluti viðamikils verkefnis í háaflsradíóeðlisfræðilegum rannsóknum. Herinn telur ekki réttlætanlegt að leggja til þess lengur það fjármagn sem verkefnið kostar á hverju ári, nú er kominn tími til að snúa sér að öðrum nútímalegri verkefnum segir talsmaður hersins. HAARP loftnetasamstæðan kostaði 300 milljónir dollara og árlegur rekstrarkostnaður er um fimm milljónir dollara eða 600 milljónir íslenskra króna.

Á tímabili gekk sú saga um heiminn að með þessu mannvirki ætluðu Bandaríkjamenn að stjórna jónosferunni og þannig jafnvel stjórna veðurfari á jörðinni. En einn vísindamannanna sem unnið hafa við verkefnið segir að það væri álíka hugmynd eins og að ætla sér að stjórna Kyrrahafinu með því að henda út í það litlum steini.

Haraldur Þórðarson, TF3HP var í dag kjörinn formaður ÍRA á aðalfundi sem haldinn var í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur í Faxafeni 12.

Aðrir í stjórn voru kjörnir Óskar Sverrisson, TF3DC, Bjarni Sverrisson, TF3GB, Kristinn Andersen, TF3KX, Guðmundur Sveinsson, TF3SG

Varamenn voru kjörnir Þór Þórisson, TF3GW og Benedikt Guðnason, TF3TNT.

Haraldur Þórðarson, TF3HP

Við þetta tækifæri færir Guðmundur Sveinsson, TF3SG nýkjörinni stjórn heillaóskir

Ágæti félagsmaður!

Aðalfundur ÍRA 2014

Aðalfundur ÍRA fer fram
Laugardaginn 17. maí 2014
Í sal Taflfélags Reykjavíkur, Faxafeni 12
Fundurinn hefst klukkan 13:00.

Dagskrá fundar:

  1. Kosinn fundarstjóri.
  2. Kosinn fundarritari.
  3. Könnuð umboð.
  4. Athugasemdir við fundargerð síðasta fundar, ef einhverjar hafa borist, ræddar og bornar undir atkvæði.
  5. Formaður gefur skýrslu um starfsemi félagsins.
  6. Aðrir embættismenn gefa skýrslu um starfsemi  sinna embætta.
  7. Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins til samþykktar.
  8. Lagabreytingar.
  9. Stjórnarkjör.
  10. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
  11. Ákvörðun árgjalds.
  12. Önnur mál.

F.h. stjórnar ÍRA.
Guðmundur Sveinsson, TF3SG
formaður ÍRA

Ingólfur Haraldsson kynnti Fjarskiptahóp Björgunarsveitar Hafnarfjarðar á velsóttu fimmtudagskvöldi hjá ÍRA, rúmlega tuttugu félagar komu og hlustuðu á frásögn og sáu myndir af Ingólfi og félögum á Haiti og Grænlandi.

Nokkrir félagar sátu lengi áfram í Skeljanesi og ræddu um ýmiskonar HF loftnet sem virðast fallin í gleymsku eins og til dæmis “curtain antenna” sem TF3WO stakk upp á að ÍRA fengi leyfi til að byggja á Vatnsendahæðinni milli gömlu langbylgjumastranna.

Ávinningur loftnetsins gæti verið allt að 20 db á 14 MHz undir lágu útgeislunarhorni. http://hfradio.org/ace-hf/ace-hf-antenna_is_key.html

Lengst, vel fram yfir miðnætti, sátu TF3SG, TF3KB, TF3TB og TF3JA og ræddu um IARU Region 1 fund sem hugsanlega mætti halda á Íslandi á árinu 2017. Evrópa, Afrika, Mið-Austurlönd og Norður-Asía tilheyra IARU svæði 1. Næsti fundur er í Varna í Búlgaríu í september á þessu ári.

Ingólfur Haraldsson radíóamatör og starfsmaður Neyðarlínunnar að kemur í Skeljanes í kvöld og segir frá Fjarskiptahópi Björgunarsveitar Hafnarfjarðar. Hópurinn hefur verið til í um áratug og er útbúinn til að sinna með stuttum fyrirvara beiðnum um að koma upp fjarskiptum með ýmsu móti hvar sem er á jarðarkringlunni. Hópurinn hefur tekið þátt í nokkrum slíkum atburðum á undanförnum árum og er virkilega áhugavert og aðdáunarvert hversu færir þeir eru. Flestir ef ekki allir í hópnum eru radíóamatörar og eru með búnað til HF fjarskipta á amatörböndum. Kynningin hefst klukkan 8:15.

Kallmerkið verður TF3RU sendir út APRS á 434.550 MHz
Við höfum fjóra tímaramma:
6:45
7:45
8:45
16:45
Allt á UTC.
Video straumar verða á
http://bifrostaurora.org
http://www.siminn.is/mjolnir/
73 de TF2SUT – Samúel

TF3Y var rétt áðan að setja inná írapóstinn upplýsingar um Baltic-keppnina sem fer fram um næstu helgi. Eitt af aðalsmerkjum radíóamatöra er að vera góður keppnismaður og taka þátt. Aðalatriðið er ekki að vinna heldur vera með, vera hluti af amatörsamfélaginu.

Baltic keppnin á 50 ára afmæli á þessu ári og er haldin næstu helgi á undan WPX CW keppninni. Í tilefni af afmælinu eru vegleg verðlaun í boði og keppt er í mörgum flokkum sem eykur líkindin á að ná til verðlaunasætis.

Lauslega þýddur póstur frá Mindis LY4L:

Kæri félagi,

Veistu af mörgum keppnum fyrir fimmtíu ára og eldri? ein slík er Baltic keppnin, með mikla virkni á 80 metrum.  Með nokkurra klukkutíma þátttöku á laugardagskvöld og nótt áttu gott tækifæri til að ná í einhvern af hinum mörgu minjagripum í tilefni af fimmtíu ára afmæli Baltic keppninnar.

Til viðbótar venjulegum verðlaunum hefur Lithuanian Radio Sport Federation gefið sérstök  50 ára Baltic keppnis verðlaun og minjagripi fyrir þáttakendur sem hafa:

– 100 QSO samanlagt við LY, YL og ES stöðvar;

– 50 QSO við LY stöðvar;

– 500 QSO;

– 50 QSO við LY, 50 QSO við YL stöðvar  og 50 QSO við ES stöðvar;

– til þeirra sem eru nákvæmlega  50 ára, hvorki meira né minna og ná flestum  QSOum;

– sem ná besta síðasta klukkutíma skorinu eða flestum QSOum á síðasta klukkutíma keppninnar.

Vona að sem flestir taki þátt um næstu helgi frá klukkan 21 á laugardagskvöldinu og alla 5 klukkutímana.

CU um næstu helgi, Baltic keppnisnefndin.

Með bestu 73 kveðju!

Mindis LY4L

…………………………………………………………………………………………..

Nánari upplýsingar um keppnina eru á: http://www.lrsf.lt/bcontest/english/rules_html.htm

og hér er vísun á aðdáendanetsíðu keppninnar:  http://ua9qcq.com/en/contestinfo.php?lang=&t_id=145&mo=5&Year=2013

… keppnin er tilvalið tækifæri til allskonar loftnetatilrauna og útiveru í góða veðrinu..sumarið er að koma og ekki seinna vænna að hita upp fyrir útileikana, 80 metrarnir eru sérstaklega velnýttir í þessari keppni og gott tækifæri til að ná nýjum löndum og svæðum..

EU6NN Nina

Áætlað er eldflaugaskot á vegum Bifröst Aurora Project og Háskólans Í Reykjavík næstkomandi fimmtudag eða föstudag. Heimasmíðaðri eldflaug verður skotið upp af gömlum frönskum eldflaugapalli sem byggður var á Mýrdalssandi 1964. Í flauginni verða ýmis mælitæki og fjarrita/fjarmælingasendir ásamt UHF APRS-sendi á 434,550 MHz. Kallmerkið verður TF3RU. Nákvæmari tímasetning verður tilkynnt þegar nær dregur og veðurspáin fer að verða öruggari/stöðugri.
TF3OM skrifar 19. mars 2008 eftirfarandi á bloggið sitt:
Það kemur mörgum á óvart að heyra að franskir vísindamenn hafi skotið fjórum eldflaugum út í geiminn frá Íslandi fyrir rúmlega fjórum áratugum. Út í geiminn? Já, og meira að segja í 440 km hæð eða um 100 kílómetrum hærra en Alþjóða geimstöðin (Internartional Space Station) svífur umhverfis jörðu. Eldflaugarnar féllu í hafið langt fyrir sunnan land.
Sumarið 1964 settu frönsku vísindamennirnir frá CNES (Centre National d’Etudes Spatiales) upp búðir sínar á Mýrdalssandi á móts við Höfðabrekku og skutu upp tveim eldflaugum. Sumarið 1965 settu þeir upp búðir á Skógasandi og skutu aftur upp tveim eldflaugum. Höfundur vefsíðunnar var þarna á staðnum á vegum Almannavarna ríkisins, sem auðvitað var bara yfirskin til að fá leyfi til að komast í návígi við þennan einstæða atburð, og hafði tækifæri til að njóta geimskotanna, enda vantaði ekki áhugann. Myndavélin var auðvitað með í för.
Tilgangur geimskotanna var að rannsaka Van Allen beltið, en þar sem það kemst næst jörðu við heimskautin myndast oft norðurljós. Rafagnir sólvindsins festast í Van Allen beltinu, þjóta fram ag aftur milli segulskauta jarðar, og mynda norðurljós þegar þær rekast á loftagnir í háloftunum, segir í flestum kennslubókum. Nú á tímum er reyndar talið að atburðarásin sé töluvert flóknari. Ísland hentaði vel til þessara rannsókna frönsku vísindamannanna vegna legu sinnar nærri norðurljósabeltinu, og væntanlega einnig vegna eyðisandanna á Suðurlandi og opna hafinu þar fyrir sunnan.

Upphaf umfjöllunar Ágústar H. Bjarnasonar sem lesa má í heild á http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/477982/

Núna á fimmtudaginn fimmtánda maí ætlar Ingólfur Haraldsson radíóamatör og starfsmaður Neyðarlínunnar að koma í Skeljanes og segja frá Fjarskiptahópi Björgunarsveitar Hafnarfjarðar. Hópurinn hefur verið til í um áratug og er útbúinn til að sinna með stuttum fyrirvara beiðnum um að koma upp fjarskiptum með ýmsu móti hvar sem er á jarðarkringlunni. Hópurinn hefur tekið þátt í nokkrum slíkum atburðum á undanförnum árum og er virkilega áhugavert og aðdáunarvert hversu færir þeir eru. Flestir ef ekki allir í hópnum eru radíóamatörar og eru með búnað til HF fjarskipta á öllum amatörböndum. Ingólfur ætlar að mæta klukkan átta á fimmtudagskvöld og kynningin hefst klukkan 8:15. Ef þið hafið áhuga á sjá og heyra hvernig á að gera hlutina þá er tilvalið að koma og fræðast af Ingólfi.

heimasíða sveitarinnar er: http://www.spori.is/

http://www.wirelesscommunication.nl/