Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu 3. tölublaðs CQ TF 2018, sem nú kemur út á stafrænu formi hér á heimasíðunni.

Margir hafa lagt hönd á plóg og mörgum ber að þakka, en sér í lagi TF3VS sem annaðist umbrotsvinnu.

CQ TF er að þessu sinni 57 blaðsíður að stærð.

Blaðið má finna hér: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2018/10/cqtf_32arg_2018_03tbl.pdf

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Forsíða CQ TF – 32. árg. 2018, 3. tbl

Fyrsti viðburður á nýrri vetrardagskrá ÍRA verður haldinn í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 11. október. Þá mætir Einar Kjartansson TF3EK á staðinn  og kynnir úrslit í TF útileikunum 2018 og veitir viðurkenningar félagsins.

Síðan er hugmyndin að ræða stuttlega hvort menn vilja eitthvað breyta núverandi fyrirkomulagi eða keppnisreglum fyrir leikana 2019, en þá verða liðin 40 ár frá því fyrstu TF útileikarnir voru haldnir.

Stjórn ÍRA hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar verða í boði félagssjóðs.

Myndin var tekin í Skeljanesi 26. júlí s.l. þegar Einar Kjartansson TF3EK kynnti TF útileikana 2018. Ljósmynd: TF3JB.

ÍRA auglýsti eftir áhuga á að taka þátt í námskeiði til amatörprófs þann 17. september. Tíu dögum síðar var fresturinn framlengdur til 2. október. Fyrirspurnir voru nokkrar, en aðeins tveir skráðu sig. Þetta kemur ekki á óvart þar sem námskeiðshald hefur verið mjög þétt undanfarin misseri.

Í ljósi þessa hefur verið ákveðið, í samráði við prófnefnd og umsjónarmann námskeiða, að falla frá námskeiðshaldi nú, en stefna þess í stað að námskeiði eftir áramót.

Þegar nær dregur, mun félagið því auglýsa á ný eftir áhuga á að taka þátt í námskeiði til amatörprófs, sem myndi hefjast 12. febrúar og ljúka með prófi PFS, annaðhvort 4. eða 11. maí 2019.

Stjórn ÍRA.

Það var TF1A sem tók svona til orða þegar við yfirgáfum félagsaðstöðuna í Skeljanesi í gær, laugardag, rétt fyrir kl. 18. Alls höfðu 19 félagar mætt á staðinn þegar yfir lauk.

Eftirfarandi var komið í verk:

  • Nýtt Diamond VHF/UHF loftnet félagsins var sett upp og staðfest (með mælingum) að RG-8/U fæðilínan var í lagi.
  • TF3CE var með sýnikennslu í ásetningu N-tengja og kom vel útbúinn af sérverkfærum.
  • Kenwood TS-2000 stöð félagsins var tengd og er nú notast við Heil grindarhljóðnema og fótrofa félagsins. Allt prófað á VHF við þá TF3VP og TF8V.
  • Staðfest að Yaesu G-5400B, sambyggður rótor félagsins fyrir gervihnattaloftnetin (og MS) er í lagi. Loftnetin eru frá framleiðandanum M2; af 2MCP14 og 436CP30 gerðum. Eftir er að prófa VHF og UHF formagnarana frá SSB-Electronic.
  • TF3DT kom með Wellbrook viðtökuloftnet fyrir 10 kHz-30 MHz sem er lúppuloftnet rúmlega 1 metri í þvermál (e. magnetic loop) og sýndi mönnum.
  • Loks kom TF3GB með ýmsa hluti sem vinna á GHz bandinu og bauð viðstöddum að fá gefins og fengu þeir sem fyrstir voru og gekk allt út.

Bestu þakkir til Ara, TF1A og Jóns, TF3LM fyrir áhugaverðan laugardag í Skeljanesi.

73 de TF3JB.

TF1A og TF3LM skipulegja daginn yfir kaffibolla og góðgæti úr bakaríi Costco.

Góðar umræður verða ávallt betri með góðu kaffi. Félagarnir TF3GB, TF3SB og TF3PW.

Skeggrætt um Wellbrook lúppuna. TF1A, TF3DT og TF3LM.

Kenwood TS-2000 stöð félagsins QRV. TF1A við stöðina, TF3DT (snýr baki) og TF2WIN.

TF3IG við tengivinnu. Aðrir í mynd: TF1A og TF3LM.

TF3CE sýnir hvernig N-tengi eru rétt sett á kóax. Aðrir á myndinni: TF1A og TF2WIN.

 

 

 

Diamond SX-200N VHF/UHF stangarloftnet TF3IRA komið upp. TF3LM leggur síðustu hönd á frágang.

 

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Jón G. Guðmundsson, TF3LM, verða með viðburð í Skeljanesi á morgun, laugardaginn 29. september, frá kl. 14.

Hugmyndin er m.a. að setja upp VHF loftnet á staðnum og gera mælingar. Vandaðir loftnetsgreinar verða á staðnum og önnur mælitæki.

Nýtt stangarloftnet TF3IRA (sem kom til landsins í síðustu viku) verður til sýnis. Það er Diamond glertrefjanet af gerðinni X-200N, sem er 2.5 metra hátt húsloftnet fyrir VHF og UHF. Ávinningur er 6 dBi og 8 dBi.

Ef tími gefst, verður skoðað ástand loftneta félagsstöðvarinnar til gervihnattafjarskipta, en mikill áhugi er er á meðal félagsmanna að TF3IRA verði QRV á ný um gervihnetti, samanber umræður á fimmtudagskvöldum undanfarið í Skeljanesi.

Vandaðar kaffiveitingar í sal.

Myndin er af TF1A og TF3LM við undirbúning vel heppnaðs mælingarlaugardags þann 1. september s.l.

Reidar J. Óskarsson, TF8RO, hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Sveinbjörn Jónsson, TF8V, hefur sent erindi til félagsins þess efnis, að Reidar hafi orðið bráðkvaddur. Hann var á 75. aldursári, leyfishafi nr. 278.

Um leið og við minnumst Reidars með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF3JB,
formaður.

Skráning á námskeið ÍRA til amatörprófs sem átti að ljúka 25. september hefur verið framlengd til 2. október n.k.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang á “ira hjá ira.is”. Ath. að skráningu fylgir engin skuldbinding, en veitir félaginu mikilvægar upplýsingar um fyrirhugaðan fjölda nemenda.

Félagið setur þann fyrirvara um námskeiðshald, að lágmarksþátttaka fáist.

Það tókst að ljúka stórum áfanga skömmu fyrir opnun félagsaðstöðunnar í Skeljanesi þann 20. september. Fyrr um daginn lauk vinnu við uppröðun húsgagna og tækja í fjarskiptaherbergi félagstöðvarinnar, TF3IRA, samkvæmt nýju skipulagi.

Þessi dagur, 20. september, markar á vissan hátt tímamót því þar með er lokið vinnu á vegum nýrrar stjórnar ÍRA við þrif, tiltekt, fegrun og endurskipulagningu innanhúss í Skeljanesi.

Fjarskiptaherbergi TF3IRA 20. september eftir tiltekt. Líkt og myndin ber með sér hefur orðið mikil breyting í herberginu. 

Fjarskiptaherbergið, séð í austur. Yaesu FT-1000 stöðin er nú staðsett á sér borði ásamt Ten-Tec 238 loftnetsaðlögunarrásinni.

Fjarskiptaherbergið, séð í vestur. Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN er við Icom IC-7610 stöðina.

Í samræmi við starfsáætlun stjórnar ÍRA og að höfðu samráði við Prófnefnd og Umsjónarmann námskeiða, hefur verið ákveðið að kanna áhuga á þátttöku í námskeiði til amatörprófs.

Fyrirhugað er að námskeiðið hefjist 12. október og ljúki með prófi Póst- og fjarskiptastofnunar 15. desember. Kennt verður tvo daga í viku í húsnæði Háskólans í Reykjavík, kl. 17-22. Námskeiðið er öllum opið og ekki eru gerðar kröfur um sérstaka menntun eða undirbúning.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang á “ira hjá ira.is”. Ath. að skráningu fylgir engin skuldbinding, en veitir félaginu mikilvægar upplýsingar um fyrirhugaðan fjölda nemenda.

Fyrirspurnum má beina á sama tölvupóstfang. Námskeiðsgjald verður 19 þúsund krónur fyrir félagsmenn, en 29 þúsund krónur fyrir aðra. Inni í þessu verði eru öll námsgögn.

Skráning er opin til 25. september n.k. Félagið setur þann fyrirvara um námskeiðshald, að lágmarksþátttaka fáist.

Háskólinn í Reykjavík er staðsettur við Menntaveg í Öskjuhlíðinni skammt frá Reykjavíkurflugvelli.

 

Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Ágætu félagsmenn!

3. tbl. CQ TF 2018 er framundan.

Félagsmenn eru hvattir til að leggja til efni, annaðhvort með því að skrifa sjálfir, eða senda ritstjóra línu og fá aðstoð.

Skilafrestur efnis er til 22. september n.k.  Netfang: tf3sb@ox.is

CQ TF kemur síðan út sunnudaginn 7. október á stafrænu formi á heimasíðu félagsins.

73 de TF3SB.

TM64YL var kallmerki YL DX-leiðangurs sem var QRV frá eyjunni Noirmoutier í Frakklandi 25.-31. ágúst s.l.

Þær Anna Henriksdóttir, TF3VB og Vala Dröfn Hauksdóttir, TF3VD voru hluti af 14 kvenna hópi frá Frakklandi, Þýskalandi, Sviss og Íslandi sem virkjuðu IOTA EU-064 að þessu sinni.

Þrátt fyrir óhagstæð skilyrði framan af, hafði hópurinn 5000 QSO.

QSL er í boði gegnum OQRS á Clublog, vefslóð: https://clublog.org/logsearch/TM64YL
Í bígerð er að setja samböndin fljótlega inn á LoTW. Þá má senda kort beint á Christine Carreau, F4GDI, 13 Chemin aux Boeufs, F72230, Guecelard, France.

Félagsstöðin okkar, TF3IRA, hafði samband við leiðangurinn. Það var Óskar, TF3DC, sem talaði við þær á morsi.

Hamingjuóskir til Önnu og Völu Drafnar með vel heppnaða ferð.

YL hópurinn sem starfrækti TM64YL frá Noirmoutier í Frakklandi dagana 25.-31. ágúst 2018. Ljósmynd: QRZ.COM

Laugardagsopnum var í Skeljanesi 1. september. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti á staðinn með sérhæfð mælitæki og búnað.

Að þessu sinni voru skoðaðar 19 VHF og/eða VHF/UHF handstöðvar og 2 VHF bílstöðvar. Áhersla var lögð á sendigæði, þ.m.t. yfirsveiflur. Jón G. Guðmundsson, TF3LM, aðstoðaði Ara með skráningu upplýsinga. Gerð verður grein fyrir mælingum í 3. tbl. CQ TF sem kemur út þann 7. október n.k.

Mæting var góð, alls 20 manns. Á milli mælinga var í boði Gevalia kaffi og vínarbrauðslengjur frá Bakarameistaranum, auk Baklava hunangshnetukonfekts. Bestu þakkir til Ara, TF1A, fyrir áhugaverðan laugardag í félagsaðstöðunni.

Mæliaðstaðan gerð klár. Frá vinstri: Óskar Sverrisson TF3DC, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Jón G. Guðmundsson TF3LM.

Hver segir að mælingar séu ekki skemmtilegt verkefni? Frá vinstri: Arnþór Wilhelm Sigurðsson TF8AWS, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Elín Sigurðardóttir TF2EQ, Jón Björnsson TF3PW og Þórður Adolfsson TF3DT og Jón G. Guðmundsson TF3LM (snúa baki í myndavélina).

Skeggrætt um mælingarnar. Frá vinstri: Jón Björnsson TF3PW, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Jón G. Guðmundsson TF3LM, Heimir Konráðsson TF1EIN, Arnór Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Mathías Hagvaag TF3MH og Einar Þór Ívarsson TF3PON. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.