Á myndinni má sjá hluta af fundaraðstöðu Í.R.A. á fyrstu hæð í félagsaðstöðunni við Skeljanes.

Hér með er boðað til sérstaks fimmtudagsfundar í félagsaðstöðunni við Skeljanes þann 15. september n.k. kl. 20:30.
Dagskrá verður sem hér segir:

1. Kynning á fyrri hluta á vetrardagskrár félagsins 2011/2012, fyrir tímabilið október-desember n.k.
2. Kynning á helstu alþjóðlegum keppnum á næstunni.
3. Opin málaskrá.

Félagar, mætum stundvíslega! Kaffiveitingar verða í boði félagsins.

F.h. stjórnar Í.R.A.,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, var með afgerandi bestan árangur TF-stöðva.

Í septemberhefti CQ tímaritsins 2011 eru birtar niðurstöður úr CQ World-Wide DX CW keppninni sem fram fór dagana 27.-28. nóvember 2010. Ágæt þátttaka var frá TF, en alls sendu sjö TF-stöðvar inn keppnisdagbækur; þær dreifast á eftirfarandi sex keppnisflokka:

Öll bönd, SOP-H: Einmenningsflokkur, öll bönd, hámarks útgangsafl.
Öll bönd, SOP-H-a: Einmenningsflokkur, öll bönd, hámarks útgangsafl – aðstoð.
Öll bönd, SOP-L: Einmenningsflokkur, öll bönd, mest 100W.
Öll bönd, SOP-L-a: Einmenningsflokkur, öll bönd, mest 100W útgangsafl – aðstoð.
7 MHz, SOP-H-a: Einmenningsflokkur, 7 MHz, hámarks útgangsafl – aðstoð.
1.8 MHz, SOP-H-a: Einmenningsflokkur, 1.8 MHz, hámarks útgangsafl – aðstoð.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW náði afgerandi bestum árangri af TF-stöðvum í keppninni og var með 734,880 stig – 2,737 QSO. Sigurður keppti í einmenningsflokki á 7 MHz, hámarks afli – aðstoð. Óskar Sverrisson, TF3DC, náði ágætum árangri og var með 154,840 stig – 414 QSO. Óskar keppti í einmenningsflokki á öllum böndum, 100W – aðstoð. Þorvaldur Stefánsson, TF4M, náði einnig athyglisverðum árangri, en hann keppti í einmenningsflokki á 1.8 MHz í erfiðum skilyrðum og var með 31,032 stig – 197 QSO. Sjá nánar í meðfylgjandi töflu.

Keppnisflokkur

Kallmerki

Árangur

QSO

CQ svæði

DXCC einingar

Öll bönd (SOP-H) TF3SG

638

21

8

14

Öll bönd (SOP-H-a) TF3IG*

5,624

127

17

57

Öll bönd (SOP-L) TF8GX*

31,428

134

43

65

Öll bönd (SOP-L-a TF3AO

7,625

99

12

49

Öll bönd (SOP-L-a) TF3DC*

154,840

414

44

201

7 MHz (SOP-H-a) TF3CW*

734,880

2,737

38

122

1.8 MHz (SOP-H-a) TF4M*

31,032

197

21

73

*Bestur árangur í viðkomandi keppnisflokki (innan TF) og handhafi viðurkenningarskjals.
Lágmarks þátttökutími til að hljóta viðurkenningarskjal í keppninni er 12 klukkustundir.

Hamingjuóskir til þátttakenda með árangurinn.

Sveinn Guðmundsson, TF3T, hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað, RST 000.

Synir hans, Benedikt Sveinsson, TF3CY og Guðmundur Sveinsson, TF3SG, settu tilkynningu þessa efnis á póstlista félagsins í gær, 7. september. Sveinn var á 82. aldursári, leyfishafi nr. 24 og heiðursfélagi í Í.R.A.

Um leið og við minnumst Sveins með þökk og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF2JB, formaður.

Comment frá TF5B

Ég Votta þeim bræðrum og fjölskyldunni innilega samúð mína.

Billi TF5B

DXCC viðurkenningarskjöl félagsstöðvarinnar TF3IRA eru komin til landsins og tilbúin til innrömmunar.

DXCC viðurkenningarskjölin frá ARRL fyrir TF3IRA komu í hús á fimmtudag. Um er að ræða þrjú viðurkenningarskjöl, þ.e. fyrir mors (CW), tal (Phone) og allar tegundir útgeislunar (Mixed). Hugmyndin var upphaflega að leitast við að fá skjölin til landsins í tíma fyrir 65 ára afmæli félagsins þann 14. ágúst s.l., sem náðist ekki. Mestu skiptir þó að þau eru komin í hendur félagsins (á afmælisárinu) og verða sett í innrömmun þegar í næstu viku. Í framhaldi verður þeim valin staðsetning í fjarskiptaherbergi félagsins í samráði við Benedikt Sveinsson, TF3CY, stöðvarstjóra. Búist er við, að hægt verði að sækja um fjórða skjalið fyrir stafrænar mótanir (Digital modes), s.s. RTTY, PSK-31, JT65 og fleiri, síðar á árinu. Þess má geta, að ARRL hefur staðfest að þetta eru fyrstu DXCC skjölin sem gefin hafa verið út fyrir TF3IRA.


Stjórn Í.R.A. þakkar þeim Matthíasi Hagvaag, TF3-Ø35 og Guðlaugi K. Jónssyni, TF8GX, fyrir aðkomu þeirra að verkefninu, en Matthías tók saman kortin og vann umsóknir og Guðlaugur, sem er trúnaðarmaður ARRL vegna DXCC-umsókna hér á landi, annaðist yfirferð og sendingu gagna vestur um haf.

Matthías Hagvaag, TF3MG og Guðlaugur K. Jónsson, TF8GX.

Myndin var tekin í félagsaðstöðu Í.R.A. 21. júlí s.l. þegar Matthías lagði fyrir Guðlaug, síðustu kortin vegna DXCC umsóknanna til ARRL.

Framkvæmdanefnd IARU Svæðis 1 fyrir starfstímabilið 2011-2014.

22. ráðstefna IARU Svæðis 1 var haldin í Sun City í Suður-Afríku dagana 12.-19. ágúst s.l. Alls sóttu fulltrúar 54 landsfélaga viðburðinn og var þetta í fyrsta skipti sem hann er haldinn í Afríku. Landsfélag radíóamatöra í Suður-Afríku, SARL, hafði veg og vanda af undirbúningi ráðstefnunnar sem þótti heppnast vel. Í.R.A. sendi ekki fulltrúa á fundinn að þessu sinni (vegna kostnaðar) en stjórn félagsins veitti fulltrúum norska landsfélagsins, NRRL, umboð til að fara með atkvæði Í.R.A. á ráðstefnunni og annaðist Kristján Benediktsson, TF3KB, IARU tengiliður félagsins þau samskipti.

Eftirtaldir leyfishafar skipa framkvæmdanefnd IARU Svæðis 1 næstu þrjú ár (2011-2014): Hans Blondeel Timmerman, PB2T (formaður), Hani Raad, OD5TE (varaformaður), Dennis Green, ZS4BS (ritari), Andreas Thiemann, HB9JOE (gjaldkeri), Thilo Kootz, DL9KCE (meðstjórnandi), Colin Thomas, G3PSM (meðstjórnandi), Nikola Percin, 9A5W (meðstjórnandi), Anders Larsson, SM6CNN (meðstjórnandi) og Panayot Danev, LZ1US (meðstjórnandi. Hans Blondeel Timmerman, PB2T, formaður, er þriðji frá vinstri á meðfylgjandi ljósmynd. Næsta ráðstefna Svæðis 1 (nr. 23) verður haldin í Varna í Búlgaríu í september 2014.

Nánar verður fjallað um ráðstefnuna í 4. tbl. CQ TF sem kemur út í september n.k.

Fréttatilkynningu frá ráðstefnunni má lesa á meðfylgjandi hlekk: http://www.iaru-r1.org/index.php?option=com_content&view=article&id=826:iaru-region-1-22nd-general-conference-news-release&catid=1:latest-news&Itemid=50

Margir tóku þátt úr bílnum í TF útileikunum um s.l. verslunarmannahelgi.

Frestur til að skila fjarskiptadagbókum (eða afritum þeirra) fyrir QSO í útileikunum, rennur út miðvikudaginn 31. ágúst n.k. Engar kröfur eru um að menn reikni stig sín sjálfir (frekar en þeir vilja) því það verður hvort eð er gert af þeim sem fara yfir dagbækurnar. Framsetning dagbókarfærslna er tiltölulega frjáls og því er unnt að skila inn ljósriti af pappírsloggum, í Excel, textaskrá eða á öðru formi sem auðvelt er að prenta á pappír. Þeir sem hafa dagbókina í gagnagrunni, eru þó beðnir um að senda ekki ADIF-skrár, heldur velja fremur Cabrillo-útgáfu sem sýnir samböndin listuð upp í röð. Munið að láta upplýsingar um stöðina ykkar fylgja (tæki, loftnet, QTH, afl, o.s.frv.) og myndir úr útileikunum eru alltaf vel þegnar fyrir CQ TF og vefsíðu ÍRA. Nánari upplýsingar um útileikana má t.d. sjá í júlíhefti CQ TF 2011 og á vef ÍRA á netinu.

Allir sem senda inn fjarskiptadagbók (sama hversu fá samböndin voru) fá viðurkenningu fyrir þátttöku og að auki fá stigahæstu menn sérstakar viðurkenningar. Menn eru hvattir til að skila gögnum inn ekki síðar en 31. ágúst n.k. Bjarni Sverrisson, TF3GB, veitir dagbókunum viðtöku. Hann svarar jafnframt spurningum um skil á gögnunum ef menn óska.

Bjarni Sverrisson, TF3GB,
Hnjúkaseli 4,
109 Reykjavík.
Netfang: tf3gb@islandia.is

Að sjálfsögðu eru myndir og frásagnir úr útileikunum alltaf vel þegnar! Þeim má skila um leið til Bjarna Sverrissonar, TF3GB, eða beint til Kristins Andersen, TF3KX, ritstjóra CQ TF. Netfang: cqtf@ira.is

Myndin var tekin snemma í morgun (laugardag) þegar búið var að tjalda fjarskiptatjaldi Í.R.A. Smári, TF8SM og Jón Gunnar, TF3PPN, tjölduðu. Til hægri á myndinni má sjá bíl þeirra TF/G4ODA og TF/G1GSN sem komu suður eftir í gærkvöldi. Ljósm.: TF3IG.

Vita- og vitaskipahelgin fer fram við Garðskagavita nú um helgina. Fyrstu félagsmennirnar mættu suður eftir þegar á miðvikudag, en vitasúpan fræga verður framreidd stundvíslega kl. 12 á hádegi í dag (laugardag). Það eru þau Guðlaugur K. Jónsson, TF8GX og XYL Birna, sem hafa undirbúið þessa kraftmiklu súpu af kostgæfni. Gulli sagði, að lykillinn að gæðum súpunnar væri 1. flokks hráefni af Suðurnesjum. Það skal tekið fram að súpan er ókeypis fyrir félagsmenn og fjölskyldur þeirra og verður framreidd fram eftir degi á meðan hún endist. Í samtali við Sigurð Smára Hreinsson, TF8SM, í morgun, sem er í forsvari fyrir undirbúnings- og framkvæmdanefnd, voru veðuraðstæður hinar ákjósanlegustu, þ.e. sól, logn, blíðviðri og um 14°C hiti.

Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM, sagði veðrið gæti ekki verið betra við vitann.

Við vitann er framúrskarandi góð aðstaða fyrir fjölskyldur, m.a. frí tjaldsvæði og góð aðstaða fyrir hjól- og tjaldhýsi, auk W.C. aðstöðu. Stórt gasgrill er komið á stðainn og geta allir fengið að nota það sem þess óska. Miðað er við að fólk hafi sjálft með sér matföng ásamt meðlæti og drykkjarföngum. Stóra gasgrillið verður tilbúið til afnota á dag (laugardag) frá kl. 18:00.

Stjórn Í.R.A. þakkar undirbúnings- og framkvæmdanefnd góð störf og óskar félagsmönnum ánægjulegrar vitahelgar.

Líkt og skýrt var frá á þessum vettvangi þann 7. júlí s.l., kallaði Póst- og fjarskiptastofnun nýlega eftir samráði við hagsmunaaðila um nýja tíðnistefnu til næstu fjögurra ára, 2011-2014. Skjal stofnunarinnar þessa efnis, auk sérstaks umræðuskjals um farnetsþjónustur og úthlutun tilheyrandi tíðnisviða, hefur verið til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar frá 1. júlí s.l. og er frestur gefinn til að skila umsögnum og athugasemdum til 19. ágúst n.k.

Efni tíðnistefnunnar sem sérstaklega varðar radíóamatöra, er birt í kafla 6.11 (á bls. 27) í eftirfarandi texta: “6.11 Radíóáhugamannaþjónusta. Þjónusta fyrir radíóáhugamenn (radíóamatöra) er viðurkennd af hálfu ITU með formlegri þjónustuskilgreiningu í fjarskiptareglum og sérstaklega úthlutuðu tíðnisviði fyrir þá. Það er mat PFS að auka þurfi fræðslu og eftirlit með þessari þjónustu og meta hvort ástæða sé til að endurskoða hámarkssendistyrk sem leyfður er í þéttbýli Þá verður metið hvort ástæða er til að gera kröfur um tiltekna lágmarksfjarlægð loftnets frá íbúðarhúsnæði m.t.t. alþjóðlegra viðmiða”.

Á þeim tíma sem liðinn er frá kynningu PFS, hefur stjórn Í.R.A. fjallað um þau fjögur meginatriði tíðnistefnunnar sem snerta radíóamatöra, þ.e. mat stofnunarinnar um þörf á aukinni fræðslu, aukið eftirlit, hvort ástæða sé til að endurskoða hámarkssendistyrk í þéttbýli og lágmarksfjarlægð loftnets frá íbúðarhúsnæði. Í framhaldi umfjöllunar um þessi atriði, var formlega fjallað um málið á stjórnarfundi sem haldinn var í félaginu þann 19. júlí s.l. og samþykkt, að óska eftir samráðsfundi með fulltrúum stofnunarinnar. Sérstakur samráðsfundur var síðan haldinn með fulltrúum Póst- og fjarskiptastofnunar þann 16. ágúst s.l., þar sem m.a. var farið yfir framangreind meginatriði. Stjórn Í.R.A. er þeirrar skoðunar að fundurinn hafi verið mjög gagnlegur og þjónað tilgangi sínum í því að efla skilning hjá báðum aðilum. Nánar verður gerð grein fyrir fundinum í næsta tölublaði CQ TF sem kemur út í september n.k.

Tíðnistefnu PFS má nálgast á þessum hlekk: http://www.pfs.is/default.aspx?cat_id=112&module_id=220&element_id=3259

Hlé verður á morsæfingum fram yfir vitahelgina.  Það verður greint nánar frá fyrirkomulagi morsútsendinga í næstu viku.  Rétt þykir að segja frá því að þessar morsútsendingar eru ekki á vegum ÍRA.

73

Guðmundur, TF3SG

Tilbúinn til brottfarar. Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, við lestaða kerruna í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3ARI.

Þeir Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA og Ari Þór Jóhannesson, TF3ARI, lögðu upp frá félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi nú síðdegis, þann 17. ágúst, með dót frá félaginu til nota á Vita- og vitaskipahelginni við Garðskagavita um helgina. Meðferðis var samkomutjald félagsins, borð, stólar, Kenwood TS-2000 sendi-/móttökustöð ásamt aflgjafa, borðhljóðnema og morslyklum, auk Ten Tec loftentsaðlögunarrásar, kóax kapla og annars loftnetsefnis. Guðmundur Ingi Hjálmtýsson, TF3IG, var þegar kominn á staðinn suður við Garðskagavita með hjólhýsi sitt þegar þeir félagar renndu í hlað og skömmu síðar kom Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM, og TF8IRA var komið upp og tengd í gamla vitavarðarhúsinu. Þegar þetta er skrifað (kl. 20:30 á miðvikudag) hringdi Guðmundur Ingi, TF3IG, og sagði að það væri dúna logn á staðnum og veðurspáin væri mjög góð fyrir helgina, hlýindi og logn. Vita- og vitaskipahelgin hefst formlega um hádegi á laugardag.

Farmurinn komst óskemmdur til Garðskaga. Myndin er tekin fyrir utan gamla vitavarðarhúsið. Ljósmynd: TF3ARI.

Búið að tæma kerruna. Guðmundur Ingi Hjálmtýsson, TF3IG og Jón Þ. Jónsson, TF3JA. Ljósmynd: TF3ARI.

Stöðin komin upp í turnherbergi gamla vitavarðarhússins. Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM og Jón Þóroddur, TF3JA.

Bestu þakkir til Ara Þórs Jóhannessonar, TF3ARI, fyrir ljósmyndirnar.

Hustler G6-144B loftnetið komið upp og tengt við TF3RPC. Ljósmynd: TF3WS

Endurvarpsstöðin TF3RPC (Einar) varð QRV á ný í dag, þriðjudaginn 16. ágúst, kl. 14:00 og annaðist Sigurður Harðarson, TF3WS, tenginguna. Ástæða þess að endurvarpinn hefur verið úti að undanförnu er, að unnið var að breytingum og endurnýjun raflagna í þeim hluta byggingarinnar þar sem hann er staðsettur. Ekki þurfti að færa til loftnet og er búnaður óbreyttur frá því sem áður var. Framkvæmdum lauk síðan í morgun (þriðjudag) og því var unnt að tengja hann á ný í dag. Bestu þakkir til Sigurðar Harðarsonar, TF3WS. Ennfremur þakkir til Ara Þórs Jóhannessonar, TF3ARI, sem gerði prófanir til að ganga úr skugga um að endurvarpsstöðin vinnur eðlilega.

Vinnutíðnir TF3RPC: 145.175MHz RX / 145.775MHz TX.

Hin árlega Vita- og vitaskipahelgi verður haldin helgina 20. til 21. ágúst n.k. við Garðskagavita, nú annað árið í röð. Aðstæður suður frá eru hinar ákjósanlegustu, góð aðstaða fyrir fjölskyldur, m.a. frí tjaldsvæði og góð aðstaða fyrir hjól- og tjaldhýsi, auk W.C. aðstöðu. Miðað er við að flestir hafi komið sér fyrir eftir hádegi á laugardag, en kraftmikil súpa verður ókeypis í boði Guðlaugs K. Jónssonar, TF8GX og XYL, Birnu, frá kl. 12 á hádegi og fram eftir laugardegi, svo lengi sem hún endist. Stórt gasgrill verður á staðnum og geta allir fengið að nota það sem þess óska. Miðað er við að fólk hafi sjálft með sér matföng ásamt meðlæti og drykkjarföngum. Nefndin býr yfir magni af einnota diskum og hnífapörum fyrir þá sem það vilja. Stóra gasgrillið verður tilbúið til afnota frá kl. 18:00.

Guðmundur Ing Hjálmtýsson, TF3IG, mætir suður eftir á miðvikudag og mun hann taka frá tjald- og hjólhýsastæði fyrir félagsmenn Í.R.A., næst gamla vitavarðarhúsinu. Á vegnum undurbúnings- og framkvæmdanefndar félagsins verða starfræktar tvær stöðvar undir kallmerkinu TF8IRA; önnur á CW og hin á SSB. Þær verða staðsettar í gamla vitavarðarhúsinu (örskammt frá vitanum) og opnar öllum leyfishöfum. Auðvelt er að koma fyrir þriðju stöðinni, ef áhugi er fyrir hendi.

Á staðnum er byggðasafn og handverkssala (sem er á efri hæð í gamla vitavarðarhúsinu). Þar er í boði úrval af vörum frá handverksfólki á Suðurnesjum. Þá er veitingastaðurinn Tveir vitar starfræktur skammt þar frá (á efri hæð fyrir ofan byggðasafnið). Þaðan er frábært útsýni og er hægt að sitja úti þegar veður er gott. Garðskagaviti er 28,5 metra hár og hæsti viti landsins. Hann var reistur árið 1944. Fjarlægð frá Reykjavík er um 57 km. Nefndin hvetur félagsmenn til að fjölmenna.

F.h. Undirbúnings- og framkvæmdanefndar Í.R.A.,

Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM.
(hs. 422-7109; gsm 899-0438; netfang: tf8sm hjá simnet.is).


Það er Ayr Amateur Radio Group í Skotlandi sem stendur fyrir Vita- og vitaskipahelgunum. Sjá hlekk: http://illw.net/