,

Mbl: Reistu fjarskiptabúðir á eyjunni Pétri fyrsta

Hópur radíóamatöra fór í svokallaðan DX-leiðangur

Carlos "NP4IW" George-Nascimento, einn leiðangursmanna stundar fjarskipti við radíóamatöra úti í heimi á eyjunni Pétri I.

Carlos “NP4IW” George-Nascimento, einn leiðangursmanna stundar fjarskipti við radíóamatöra úti í heimi á eyjunni Pétri I.

Eftir Svavar Knút Kristinsson svavar@mbl.is HÓPUR radíóamatöra steig nýverið á land á eyjunni Pétri fyrsta, sem er við Suðurskautslandið. Færri hafa stigið fæti á eyjuna heldur en hafa farið út í geim.

HÓPUR radíóamatöra steig nýverið á land á eyjunni Pétri fyrsta, sem er við Suðurskautslandið. Færri hafa stigið fæti á eyjuna heldur en hafa farið út í geim. Tilgangur ferðar radíóamatöranna var að reka fjarskiptabúðir á eyjunni til að gera öðrum amatörum kleift að ná sambandi þangað. Þetta er í þriðja skiptið sem eyjan er gerð að fjarskiptastöð fyrir amatöra.

Það er metnaðarmál fyrir marga radíóamatöra að ná staðfestu sambandi við sem flesta fjarlæga og sjaldgæfa staði í heiminum, en það er kallað að “DX-a”. Því fara hópar radíóamatöra gjarnan í nokkurs konar DX-leiðangra til að gera öðrum amatörum kleift að takast á við það krefjandi verkefni að ná sambandi við hina framandi staði. Sumir af þeim stöðum sem skilgreinast sem “lönd” í heiminum eru óbyggðir og því gerist það öðru hverju að amatörar taka sig saman, ferðast til viðkomandi lands og reisa þar tjaldbúðir til að veita öðrum amatörum talstöðvarþjónustu.

Leiðangursmenn voru 22 talsins. Leiðangursmenn náðu að mynda alls 87.034 sambönd við radíóamatöra víðs vegar um heim á þeim ellefu dögum sem þeir ráku fjarskiptabúðirnar á eyjunni. Þannig þótti ljóst að mikill áhugi var meðal amatöra að ná sambandi við eyjuna. Leiðangurinn var því ekki til einskis, að sögn Hrafnkels Eiríkssonar, verkfræðings og radíóamtörs, en hann svarar kallmerkinu TF3HR.

Blanda af tækni- og náttúruáhuga

Hrafnkell náði sjálfur ekki sambandi við Pétur fyrsta, en sendistöð hans lá niðri á þessum tíma. Hann hlustaði þó eftir merkjum frá fjarskiptabúðunum. “Það er margt sem spilar inn í hvort maður nær sambandi eða heyrir í fjarlægum stöðvum,” segir Hrafnkell. “Það fer m.a. eftir sólblettum, tíma dags og ástandi himinhvolfa, því radíóbylgjurnar speglast af himinhvolfum.” Hrafnkell segir marga líta á radíóamatöráhugann sem eitthvað gamalt og úrelt sem heyri sögunni til, eins og morsekerfið, en það sé alrangt.

“Þetta er í raun visst birtingarform áhuga á náttúrunni, að spá í stöðu sólar og himinhvolfa,” segir Hrafnkell og bætir við að áhugamálinu tengist líka mikill tækniáhugi, því radíóamatörar eru tæknigrúskarar upp til hópa, sífellt að spá í nýjustu tækni til fjarskipta þótt margir hafi einnig áhuga á gamalli tækni á þessu sviði. Þá eiga samtök radíóamatöra AMSAT gervihnetti sem amatörar eiga margir í tölvusamskiptum gegnum.

Erlendis skiptir starfsemi Radíóamatöra miklu máli í öryggis- og björgunaraðgerðum, að sögn Hrafnkels. “T.d. skiptu viðbrögð radíóamatöra miklu máli þegar fellibylurinn Katrín reið yfir Bandaríkin,” segir Hrafnkell. “Þá voru fyrstu fjarskiptin sem komust á eftir Tsunami bylgjuna í Asíu á vegum radíóamatöra. Radíóamatörar hafa einnig spilað hlutverk í almannavörnum hér á landi.”

Náði sambandi á morse

Yngvi Harðarson, hagfræðingur og radíóamatör var meðal þeirra Íslendinga sem náðu í gegn til búðanna á Pétri fyrsta og bætti því landinu í sambandabók sína, sem telur nú rúmlega 300 lönd af þeim 335 sem hægt er að ná til í dag. Yngvi náði sambandi með morse skilaboðum. “Morsið er aðalfjörið,” segir Yngvi en bætir við að ólíklegt sé að það komi nokkurn tíma í góðar þarfir, nema mögulega í neyðartilfellum. “En þetta er eins og að kunna tónlist, svona skemmtilegur hæfileiki.”

Yngvi hefur stundað radíósamskipti frá barnsaldri með hléum, en áhuginn kviknaði þegar hann fylgdist með afa sínum sem hafði mikinn áhuga á tilraunum með rafeindatæki. Aðspurður hvað felst í því að ná sambandi við erlenda aðila segir Yngvi málið snúast um að taka niður kallmerki hver hjá öðrum og skiptast á stuttum skilaboðum. “Í dag er þetta ekki upp á marga fiska, tiltölulega stutt og stöðluð skilaboð varðandi merkisstyrk og slíkt.”

Á Íslandi eru um 200 skráðir radíóamatörar sem hafa lokið prófi og fengið leyfi til að starfrækja sendistöð og segir Hrafnkell það mikilvægt að gott eftirlit sé haft með því hverjir fái að vinna með senda sem mögulega geta truflað útvarpsbylgjur og fleira, enda séu þetta vandmeðfarin fyrirbæri. Íslenskir radíóamatörar eru með opið hús í félagsheimili sínu í þjónustumiðstöð ÍTR við Skeljanes á fimmtudögum kl. 19.

www.peterone.com

Eftir Svavar Knút Kristinsson svavar@mbl.is

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

17 − 10 =