,

100 ára afmæli radíófjarskipta til og frá Íslandi

Dagana 25. – 27. júlí verður á Smiðjuhátíð á Seyðisfirði þess minnst að 100 ár eru liðin frá fyrstu radíófjarskiptunum til og frá Íslandi.

Í frétt Þjóðviljans þann 16. júní 1985 segir:

…Eftir Titanic-slysið 1913 vaknaði áhugi fyrir skiparadíói í Reykjavík eða nágrenni. Alþingi fól ráðherra að koma upp stöðinni en ekkert gerðist í málinu fyrr en 1915. Það ár komu fyrstu skip Eimskipafélags íslands, Gullfoss og Goðafoss, til landsins með radíótæki innanborðs. Þegar Goðafoss kom til landsins í júnímánuði 1915 var hann fyrsta íslenska skipið sem var búið loftskeytatækjum. í þessum mánuði eru því 70 ár liðin frá þeim atburði. Við komu Fossanna varð augljós þörfin fyrir loftskeytastöð í landi. Eina loftskeytastöðin, sem til var, bæði til sendinga og móttöku, var tilraunastöð er Þorsteinn Gíslason, síðar símstjóri á Seyðisfirði, hafði smíðað og náði hann sambandi við Goðafoss þegar hann var á siglingu til landsins út af Austfjörðum. Var þetta fyrsta loftskeytasamband milli skips og lands, en þremur árum áður höfðu þeir Þorsteinn og Friðbjörn Aðalsteinsson, síðar stöðvarstjóri loftskeytastöðvarinnar á Melunum við Reykjavík, sent loftskeyti milli Gíslahúss og Stefánshúss (Th.jónssonar) á Seyðisfirði. Tæki Þorsteins munu enn varðveitt…

ÍRA hefur tekið að sér að aðstoða við að koma upp loftneti og sendibúnaði á gömlu ritsímastöðinni á Seyðisfirði. Ætlunin er að kynna þar félagið, starfssemi þess og radíóamatöráhugamálið. Kallmerki stöðvarinnar verður TF6TFY,  en kallmerki fjarskiptastöðvarinnar á Seyðisfirði var TFY.

Dagskrá Smiðjuhátíðarinnar er á heimasíðu Tækniminjasafnsins á Seyðisfirði, tekmus.is.

Teikning af tilrauna neistasendi sem Hertz smíðaði 1887

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

five × 5 =