,

Dyrhólaey, einn af tveimur til þremur bestu HF fjarskiptastöðum á Íslandi

TF2LL vakti athygli okkar í gær á nýju frímerki með mynd af Dyrhólavita. Á teikningum má sjá að þar hefur verið gert ráð fyrir loftneti, löngum vír með upphækkuðu jarðneti og á vefnum eru myndir sem sýna gamlar stagfestur eða undirstöður. TF3G, Gísli segir að samkvæmt Vitaskrá 1937 hafi verið radíóviti á langbylgju í Dyrhólaey. Afl út í loftnet var 50 wött og útgeislað afl 9 wött. Að sögn Gísla settu Bretar upp búnað og tengdu við loftnetið í Dyrhólaey á stríðsárunum fyrir fjarskipti við skipalestirnar sem sigldu yfir Atlantshafið. “Morselykill var skilinn eftir þarna og gamall starfsmaður Vitastjórnar hirti hann og gaf mér svo 1981.  Frekar ómerkilegur, satt að segja.” segir Gísli. Samskonar loftnet voru sett upp á fleiri stöðum um landið, Malarrifi, Hornbjargi, Raufarhöfn, Dalatanga og standa enn. Loftnetið á Raufarhöfn er enn í notkun fyrir útsendingu GPS leiðréttingarmerkis á langbylgju að sögn Gísla.

TF3DX segir á irapóstinum í dag “að Google hafi gefið sér vísun á Sjóminjar Íslandsþar sem kemur fram að þetta var fyrsti radíóvitinn á Íslandi, tekinn í gagnið 1928 og því eðlilegt að loftnetið sé á teikningunni frá 1927. Hann var starfræktur fram yfir síðari heimsstyrjöld. Á árum mínum hjá radíóverkstæði Landssímans um og upp úr 1960 var Reynisfjall vettvangur radíómála á svæðinu, en þar hafði verið reist Loran-A stöð. Ríkharður Sumarliðason, TF3RS og yfirmaður radíóverkstæðisins, setti upp sendi á fjallinu fyrir bílabylgjuna 2790 kHz, sem hægt var að fjarstýra frá Gufunesi. Þetta var einhver gamall sendir frá stríðsárunum ef ég man rétt, sem gekk brösulega. Man líka eftir umræðum um erfiðleika þess að fá góða RF jörð í grjótinu á fjallinu, kannski hefði fljótandi mótvægi verið lausnin!”

Í vitaskránni á heimasíðu Sjóminja Íslands er skráð: “Fyrst var reistur viti í Dyrhólaey árið 1910. Þetta var sænskur járngrindarviti og var fyrsti járngrindarvitinn sem settur var upp hér á landi. Núverandi viti var byggður árið 1927. Í þessu reisulega steinsteypumannvirki var komið fyrir ljóssterkum vitatækjum sem sendu frá sér ljósgeisla sem sást langt á haf út. Dyrhólaeyjarvitinn var og er ljóssterkasti viti landsins og fyrsti eiginlegi landtökuvitinn sem hér var byggður. Auk ljósvitans var radíóviti í Dyrhólaey frá árinu 1928 fram yfir seinni heimsstyrjöld og tæki hans voru á annarri og þriðju hæð vitahússins. Var þetta fyrsti radíóviti sem starfræktur var hérlendis. Í annarri viðbyggingunni var gashylkjageymsla, en hin öflugu vitatæki kröfðust allmikils eldsneytis. Í hinni var varðstofa fyrir vitavörð þar sem gert var ráð fyrir því að vitavörður gæti þurft að hafa viðdvöl í vitanum ef veður spilltist þegar hann var þar við umhirðu og eftirlitsstörf. Gasljóstæki var í vitanum frá 1927 til 1964 að hann var rafvæddur. Ljóshúsið er sænsk smíð og ljóstæki einnig. Linsan er 1000 mm snúningslinsa og er öflugasta linsa í vita hér á landi.”

TF3GB segir á irapóstinum, “1993 var farinn fjarskiptaleiðangur í Dyrhólaey. Ég sá um HF hlutann. TF3CY (þá BNT), TF3SNN, TF3BRT, TF3WOT og TF3TXT, sáu um VHF/UHF hlutann. Þetta var litlu eftir að ég fékk B-leyfið, sem þá var í gangi. Ég lenti í miklu kraðaki, hvort sem ég var á morsi eða tali og réði ekki meira en svo við það. Stöðin var Kenwood TS520, sem félagið átti og langur vír. Hinir settu upp heilmikinn staur og langar greiður, sem sveiflað var með AZ/EL rótorum. Þeir höfðu dágóðan slatta af samböndum. QSL kortið sem ég notaði fyrir þessi sambönd var venjulegt póstkort með mynd af eyjunni og vitanum. Hef oft hugsað um það síðan að gaman væri að taka þátt í keppni frá þessum stað. Man enn hvað gulræturnar, sem bóndinn í Dyrhólaey nestaði okkur með á heimleiðinni, voru safaríkar.”

Hringvíðsýn frá Raufarhöfn

Hringvíðsýn frá Dyrhólaey

Vísun á frímerkið

Stagfestan, undirstaðan sést á annarri myndinni.

 

 

 

 

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

twelve + 4 =