Stjórnarfundir ÍRA

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2009.02.03 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3GL og TF3SNN

1. Auknar tíðniheimildir

TF3GL setti sig í samband við Póst- og fjarskiptastofnun til að athuga með hvernig standa skyldi að beiðni um aukningu á heimildum á 40 metrunum skv. ákvörðun ITU. Hörður Harðarson hjá P&F svaraði því til að hægt væri að sækja um þetta og fá heimildina með bréfi, sem látið yrði gilda fram að næstu reglugerðarbreytingu. TF3HR og TF3GL munu semja og senda þetta bréf.

Varðandi 70 MHz-sviðið voru svör P&F þau, að líklega væri hægt að fá tilraunaleyfi einhvers staðar á sviðinu 70.0-70.5 MHz þrátt fyrir að tvær tíðniúthlutanir væru á sviðinu sem þó væru líklega lítið notaðar. TF3SG tekur saman efni í þetta bréf og semur í samráði við stjórnina. TF3GL sendir svo bréfið.

Einnig var spurt út í áframhaldandi heimildir til keppnisþátttöku á 1.850-1.900 kHz. Fram kom hjá P&F að ekkert fararsnið væri á skiparadíóinu en að öllum líkindum væri áfram hægt að fá áfram keppnisheimildir á sama grundvelli og verið hefur.

Ákveðið var að sækja ekki um heimildir á tíðnisviðinu kringum 500 kHz að sinni.

2. Útgáfumál

Ritstjóri CQTF TF3JA sagði af sér embætti í janúar eftir hlé á útgáfu blaðsins frá ágúst 2008. Í kjölfarið gaf stjórn út CQTF í janúarlok, og leitar nú að nýjum ritstjóra. Ákveðið var að næsta CQTF kæmi út kringum 15. apríl, og þá með aðalfundarboði og mögulegum lagabreytingartillögum.

3. Félagsfundur

Þar sem oft hefur verið haldið félagsfundur að áliðnum vetri var ákveðið að stjórn sendi út á vefspjall félagsins almenna fyrirspurn til félagsmanna um hvort menn teldu tilefni til að halda slíkan fund, og hver fundarefni ættu þá að vera. TF3HR mun senda tilkynninguna og taka saman svörin.

4. Flóamarkaður

Ákveðið var að halda flóamarkað í mars. Þar sem verið er að gera tilraunir með sunnudagsopnun í sjakknum í vetur var álitið upplagt að halda flóamarkaðinn við slíkt tækifæri. TF3SG sér um þetta í samráði við TF3SNN.

5. Aðstöðumál

Rætt var um möguleg prójekt í loftnetamálum í kjölfar opnunar nýja sjakksins. Fyrir utan nýjan turn sem verið hefur á stefnuskránni, var rætt um möguleikana á vírloftneti – t.d. 40 metra vír sem ynni sem hálfbylgja á 80 og kvartbylgja á 160 metrunum. Ákveðið var að gangast fyrir slíkum tilraunum einhvern sunnudagsmorguninn. TF3SG tímasetur og tilkynnir.

6. Námskeið

Örfáir hafa lýst áhuga á amatörnámskeiði í vetur. Ákveðið var að auglýsa námskeið á heimasíðunni og hugsanlega hafa samband við Ferðaklúbbinn 4×4 og Landsbjörgu varðandi auglýsingu á námskeiðinu og hugsanlega fjárhagslegan stuðning.

Fundi slitið kl 22.30

Fundargerð ritaði TF3GL

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2009.01.14 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3GL og TF3SNN

1. Umsóknir um eins stafs kallmerki

Umsókn frá Gísla G Ófeigssyni TF3US um að fá úthlutað TF3G var tekin fyrir, vonum seinna, en umsókn Gísla barst í upphafi árs 2008. Stjórnin sér sér því fært að vinna eftir þeim reglum sem voru í gildi fyrir síðasta aðalfund, en samkvæmt þeim uppfyllir Gísli þau skilyrði sem þarf til að fá úthlutað eins stafs kallmerki. Stjórnin samþykkti því að mæla með úthlutun á kallmerkinu TF3G til TF3US.

Umsókn frá Ómari Frits Eiríkssyni um TF3C hefur borist Póst- og fjarskiptastofnun, og verið beint til ÍRA til umsagnar. Umsókn Ómars er dagsett þann 14. júní, eða eftir að aðalfundur 17. maí skipaði nefnd til að endurskoða reglur um eins stafs kallmerki. Því ákveðið að fresta afgreiðslu erindisins þar til næsti aðalfundur hefur staðfest nýjar reglur. Stjórnin bendir auk þess á að Ómar starfrækir að jafnaði stöð sína frá Danmörku en ekki Íslandi, og félagið geti ekki haft áhrif á það hvort P&F muni gefa út slíkt leyfi.

2. Vetrardagskrá

Eftirfarandi drög að vetrardagskrá voru rædd á fundinum:

  • 22. janúar: Formleg opnun sjakksins
  • 29. janúar: Erindi TF3DX með um Hveravalla-stöðina sem hann smíðaði í öndverðu. Þessi stöð var með fyrstu FET-magnara-stöðvum sem hannaðar voru fyrir SSB.
  • 12. febrúar: Erindi TF3BNT um solid state magnara
  • 5. mars: Kynning á notkun hugbúnaðarins MixW til notkunar í stafrænum mótunaraðferðum og til að logga.

Auk þess er TF3T með tilbúið erindi um magnetískar lúppur sem hægt er að grípa til. TF3SG mun arranséra endanlega og tilkynna dagskrárliðina.

3. Námskeið

Stefnt er að því að halda amatörnámskeið snemma vors líka. Hugmyndir hafa verið uppi um að halda morse-námskeið, og hefur TF3HR t.d. fengið vilyrði frá TF3AX um að sjá um námskeiðið. TF3HR heldur utan um þennan málaflokk.

Rætt var um erfiðleika við að koma mönnum, sem setið hafa námskeið, í loftið. Ræddar voru hugmyndir um að samþætta einhvers konar “elmer”-starf við námskeiðshaldið, auk þess að hafa meiri “hands-on” brag á námskeiðunum. TF3HR ræðir þetta við prófnefnd.

4. Auknar tíðniheimildir

Í framhaldi af umræðum á síðasta stjórnarfundi var TF3GL var falið að tala við P&F sem forundirbúning að erindi í þá veru að óska eftir útvíkkun á tíðniheimildum, en Íslendingar hafa nokkuð dregist afturúr sumum nágrannalandanna í heimildarmálum, t.d.:

  • 500 kHz-sviðiðb
  • 160 metrarnir, bilið milli 1850 og 1900 kHz og leyfilegt afl
  • 40 metrarnir, þegar amatörar verða primary notendur milli 7100 og 7200, spurning um hækkun afls í 1 kW
  • 70 MHz-sviðið, athuga hvaða heimildir eru í gangi í nágrannalöndunum

5. Útgáfumál

Ákveðið var að útvíkka ritnefnd CQTF og mun TF3SG taka að sér að vinna með TF3JA, ritstjóra CQTF, að útgáfu blaðsins.

Fundi slitið kl 22.30

Fundargerð ritaði TF3GL

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2008.12.09 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3GL, TF3SNN og TF3HP

1. Póstlistar félagsins

Rætt var um hvort bæri að flytja ÍRA-spjallið að meira leyti inn á nýju spjallþráðavélina. Hún þykir að flestu leyti henta betur en Yahoo-póstlistinn, sem er barn síns tíma. Að sinni verður ekki aðhafst annað en að reyna að beina því til félagsmanna að nota nýja spjallborðið meira, þannig að það komist á krítískur massi.

2. Sjakkurinn

Þarf að fastsetja rótorinn fyrir SteppIR-bímið, einnig setja loftnetsskipti milli þess og Hustlersins. Einnig á eftir að koma Navigator-stýriboxinu í samband og eitthvað fleira smálegt. TF3HR lagði til að stefnt skyldi að því að opna nýja sjakkinn formlega eftir áramót, t.d. í lok janúar. TF3SG setur þetta á vetrardagskrána.

3. Félagsgjöld

Greiðsluseðlar hafa verið sendir út og hefur innheimta félagsgjalda gengið vel. Engir vextir verða reiknaðir og eindagi var settur 15. mars 2009.

4. Fánasjóður

TF3AO lagði til að keyptur yrði hátíðarfáni á gólffæti með merki félagsins. Kostnaður við þetta er um 120.000 krónur, en í fánasjóði eru nú um 40.000 krónur. Ákveðið var að félagið legði fánasjóði til það sem upp á vantar. TF3AO hefur forgöngu um að panta fánann.

5. Auknar tíðniheimildir

Rætt var um tíðnimál íslenskra radíóamatöra, en Íslendingar hafa nokkuð dregist afturúr sumum nágrannalandanna í heimildarmálum, t.d.:

  • 500 kHz-sviðið
  • 160 metrarnir, bilið milli 1850 og 1900 kHz og leyfilegt afl
  • 40 metrarnir, þegar amatörar verða primary notendur milli 7100 og 7200, spurning um hækkun afls í 1 kW
  • 70 MHz-sviðið, athuga hvaða heimildir eru í gangi í nágrannalöndunum

6. Námskeiðsmál

Rætt var um að halda radíóamatörnámskeið eftir áramót. Þegar hafa nokkrir lýst áhuga sínum á námskeiðinu. TF3HR mun hafa forgöngu um að setja námskeiðið á laggirnar, og m.a. hafa samband við TF3IK varðandi áhuga jeppamanna innan vébanda .

Fundi slitið kl 22.30

Fundargerð ritaði TF3GL

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2008.11.04 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3GL, TF3SNN og TF3HP

1. NRAU-fundurinn í Stokkhólmi

TF3HP fór fyrir hönd stjórnar til á aðalfund norrænu radíóamatörsamtakanna NRAU í Stokkhólmi í október.

Nokkur atriði:

  • Ákveðið var að styðja áform um beacon-a á 80 og 40 metra böndunum.
  • Rætt var “direct QSL only”-vandamálið, þar sem sumir amatörar virðast gera út á að fá QSL-kortin beint og með peningagreiðslu til að fjármagna endursendingu.
  • QSL-kort sem koma á bureau-in en ekki stíluð á félagsmenn er almennt fargað meðal félaganna
  • Samþykkt var að styðja umleitanir amatöra um að fá úthlutað tíðnum kringum 500 kHz t
  • Franskir amatörar hafa óskað eftir að fá að senda á AM efst á CW-bandinu, en norrænu félögin lýstu sig mófallin því, og beina því til Frakka að fara skuli eftir bandplaninu.
  • Suður-Afrískir amatörar hafa óskað eftir að fá að nota SSB á 30 m bandinu. Þeir vinna á þessu bandi í dagsbirtu skv. sérstakri heimild til Afríkuríkja, og vilja nú fá að vinna á þessu bandi á SSB allan sólarhringinn. NRAU-félögin lögðust gegn þessu.
  • Vinna var sett í gang undir stjórn Norðmanna við að leggja drög að áætlun við að samræma betur bandplönin milli IARU-svæða.
  • Vandamál með ítalskan amatör sem gerst hefur þaulsetinn á 14.195 var rætt og endurteknum tilmælum beint til ítalska félagsins um að þeir taki á málinu.
  • Varðandi fyrirhugaða 100 kHz stækkun á 40 m bandinu var það skoðun félaganna að öll mode ættu að njóta.
  • Tillögur um contest-frí segment á 80 og 20 metra böndunum voru samþykktar. 40 metra bandið er erfiðara uns komin er 100 kHz-viðbótin. Þetta verður tekið upp á IARU Region 1-fundinum.
  • Tillögum sem lágu fyrir fundinum um evrópskan DX-kontest var hafnað.
  • Farið var yfir agamálin. Aðferð Finna af hvernig tekið er á þeim var lýst, en þar byrja menn á að fara með menn í sauna og útskýra vandamálið. Ef það dugir ekki, er farið aðra ferð í sauna, en í þetta sinn er hlustað á upptökur af framferðinu. Ef menn láta sér ekki segjast, þá er leyfið tekið af þeim. Þetta er framkvæmt af landsfélaginu með fulltingi yfirvalda.
  • Rætt var um split operation. Fundurinn sá ekki ástæðu til að takmarka slíkt, en erindið sem lá fyrir fundinum fjallaði um að slíkri operasjón skuli stillt í hóf og ekki hlustað á of breiðu tíðnibili.
  • Rætt var um framtíð í QSL-málum, m.a. hvort ætti að hætta rekstri bureau-a og fara alfarið yfir í stafrænt QSL. Fundurinn var mótfallinn þessum hugmyndum.
  • Heimatilbúinn kallmerkisnotkun svo sem TF3xx/QRP fylgir engum heimildum og félögin voru andsnúin slíkri notkun. Undantekning frá þessu var viðskeytið /D (þar sem D táknar disaster eða distress), sem ákveðið var að landsfélögin skyldu leita eftir heimildum fjarskiptayfirvalda til að nota í neyð.

Vel þótti hafa tekist til með aðkomu ÍRA að NRAU-fundinum, ekki síst m.t.t. eflingar samskipta og aukinna tengsla félaganna. Ákveðið var að birta frétt um fundinn í CQTF og mun TF3HP semja pistilinn.

2. Vetrardagskrá

TF3KX hefur óskað eftir aðstoð við yfirferð álitamála í stigagjöf til Útileika. Stjórnin tilnefnir Bjarna Sverrisson og Óskar Bjarnason til starfans. Stefnt er að kynningu á úrslitunum fimmtudagskvöldið 13. nóvember.

TF3GL og TF3HR munu kynna ný veftól félagsins á fundi 27. nóvember.

TF3HR kom með hugmynd um að sýna heimildarmynd í amatörbíó 4. desember.

TF3T getur síðan haldið fræðslukvöld um lúppur í janúar.

Þetta verður kynnt á vef félagsins og póstlistum. TF3SG sér um málaflokkinn.

3. Aðstöðumálin

Síðan síðasti stjórnarfundur var haldinn er búið að taka nýja sjakkinn í gegn og koma honum í gagnið, setja upp turninn og SteppIR-netið, þótt rás í stýriboxi hafi brunnið yfir og þurft að fá lánað box hjá TF3IGN. Einnig á eftir að stilla rótorinn. Nýi sjakkurinn var svo vígður með félagsþátttöku í CQWW SSB. Óskaði TF3HR eftir að sérstaklega yrði fært til bókar þakklæti félagsins til þeirra félagsmanna sem lagt hafa hönd á plóginn.

Rætt var um að sækja um leyfi fyrir öðrum turni. TF3HP tekur að sér að skoða hvar þetta mál er á vegi statt og undirbúa umsókn til viðeigandi aðila um uppsetningu turnsins.

4. Fjarskiptasafn

Þjóðminjasfnið f.h. Fjarskiptasafnsins á Melunum hafur óskað eftir aðkomu amatöra að sýningunni. Ákveðið var að leggja til við safnið að einfaldlega yrði sett upp radíóamatörstöð á staðnum þar sem skólakrakkar geta prófað að hlusta. Einnig þyrfti að útbúa veggspjald til að kynna ÍRA og amatörmennskuna. Hugsanlega myndi radíóklúbbur Háskóla Íslands vilja koma að þessu.

Stjórnin ákvað að beina því til Harðar Mar TF3HM hjá HÍ hvort þeir vildu koma að þessu og fá aðstoð félagsins ef með þarf.

5. Tíðnimál

TF3SG ætlar að virkja félagsmenn til að vinna að tíðnimálunum með félaginu með það að markmiði að vera í farabroddi meðal nágrannaþjóðanna hvað tíðniheimildir varðar. TF3GL hefur áhuga á að kortleggja tíðniheimildir sem amatörum hefur verið veittur aðgangur að í gegnum tíðina.

Fundi slitið kl 23.00

Fundargerð ritaði TF3GL

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2008.10.07 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3GL, TF3SNN og TF3HP

1. NRAU-fundur í Stokkhólmi

TF3HP er fulltrúi stjórnar félagsins á NRAU-fundi í Stokkhólmi 10.-12. október 2008. Kynnti TF3HP þau málefni sem ætlunin er að ræða á ráðstefnunni og stjórnin réð ráðum sínum um helstu áherslumál, svo sem agamál og tíðnimál. Þessi mál verða síðan tekin upp á IARU-ráðstefnunni í Króatíu. TF3HP mun skila félaginu yfirliti yfir niðurstöður fundarins þegar heim er komið.

Til stendur að framselja atkvæðisrétt ÍRA á IARU-ráðstefnunni til Svía. TF3HP og TF3SG munu sjá um að koma réttum pappírum áleiðis.

Þá var farið yfir glærusýningu þá sem TF3HP mun halda til að kynna félagið. Fylgir hún viðfest hér IRA NRAU 2008.10.ppt.

2. Húsnæðismál

TF3HR greindi frá því að Ættfræðiþjónustan ORG hafi sótt um og fengið leyfi hjá Reykjavíkurborg til að setja upp “tæknisafn” í öðrum enda sameiginlega rýmisins. Lagði hann til að félagið sendi bréf til eignasviðs Reykjavíkurborgar þar sem þessari ráðstöfun væri mótmælt á þeim forsendum að salurinn sé sameiginlegur leigjendum í húsinu.

Þá fengust þau svör hjá eignasviði að farsímamastrið sem Vodafone hafði hug á að setja upp á húsinu væri alfarið á valdi ÍRA að hlutast til um. Í ljósi þessa var ekki talin þörf á að setja saman sérstaka greinargerð um málið, heldur benda á að sakir töluverðra líka á gagnkvæmum truflunum legðist félagið gegn þeim ráðahag.

3. Vetrardagskráin

Nauðsynlegt er að kynna vetrardagskrá félagsins á vefnum næstu daga. Þegar liggja fyrir góð drög að dagskrárliðum. Semja þarf við TF3KX um dagsetningu fyrir uppgjör útileika, og mun TF3SG sjá um þessi mál.

4. CQTF

TF3GL lagði til að óskað yrði eftir því við ritstjóra CQTF TF3JA að hann héldi áfram útgáfu CQTF á sama formi og hingað til (Word-skjal fært yfir í PDF, dreift á tölvupósti og prentað út eftir atvikum). Voru menn á því að það væri góð ráðstöfun þar til blaðið ratar á vefinn í gagnvirkara formi í framtíðinni.

5. Félagsgjöld

Að sögn TF3AO hefur lítið skilað sér fram að þessu af félagsgjöldum með millifærslum beint inn á reikning félagsins, en TF3AO áformar að senda brátt út gíróseðlana.

6. Félagsstöðin

Nýi sjakkurinn var tekinn í gegn og lögðu þar margir gjörva hönd á plóg, en þó langar stjórn félagsins að þakka TF1EIN sérstaklega fyrir hans þátt, en hann lagði m.a. þriggja fasa rafmagn að aðstöðunni. Að sögn TF3AO eru varahlutir í SteppIR-netið nú á leiðinni. Stöðvarstjóri TF3SNN hyggst gangast fyrir vinnudegi til undirbúnings loftnetsuppsetningu.

Fundi slitið kl 22.30

Fundargerð ritaði TF3GL

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2008.09.09 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3GL, TF3SNN, TF3HP og TF3PPN

1. Vetrardagskrá

Ræddar voru hugmyndir um vetrarstarfið. Varaformaður TF3SG mun hafa yfirumsjón með útfærslu vetrardagskrárinnar. Meðal hugmynda sem upp komu voru:

  • Kynning á nýjum veftólum (TF3GL, TF3BNT, TF3HR)
  • Kynning á Mix W (TF3AO, TF3PPN)
  • Kynning á D-STAR (TF3JA gæti kynnt)
  • Show and tell / græjusýning
  • Amatörbíó (TF3HR getur útvegað aðstöðu í Marel)
  • Flóamarkaður
  • Fyrirlestur um operation og report-gjöf
  • Kynning á LoTW (TF3Y)

2. Félagsheimilið

TF3HR skýrði frá að samningar hefðu fengist við ÍTR um að fá afnot af stærra herbergi í félagsaðstöðunni í Skeljanesi, en láta af hendi gamla sjakk-herbergið. Stjórnin samþykkti að þiggja boðið, enda enginn aukakostnaður þessu samfara.

TF3AO skýrði frá því að varahlutir í SteppIR-loftnetið hafa tafist vegna villu í afgreiðslu SteppIR-megin. Verið er að vinna í málinu. Turninn er í lagi og allt tilbúið til uppsetningar

TF3SG mun hafa forgöngu að því að koma nýja sjakkherberginu í stand; fyrsta verk er að mála. Safnað verður liði laugardaginn 13. september.

TF3SNN mun svo smala saman í þrifahóp til að fríska upp á aðstöðuna. TF3HR mun hafa samband við framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar til að athuga hvort þeir gætu komið að frágangi á rafmagnstöflu, fá aðgang að salerni vinnuskólans í kjallara og e.t.v. slípun á gólfum.

3. Vodafone / farsímamastur á húsinu

Vodafone hefur sótt um leyfi til Reykjavíkurborgar um að fá að setja upp farsímamastur og -búnað á húsinu, líklega á norðurgafli þess. Borgin hefur spurt félagið um afstöðu þess, en að öðru óbreyttu fær Vodafone þessa aðstöðu.

Rætt var um hættuna á truflunum: Líklegt er að truflana frá farsímasendi gæti orðið vart á VHF/UHF, samkvæmt reynslunni af slíku sambýli af endurvörpum í Reykjavík, Skálfelli og Vaðlaheiði. Sömuleiðis var talið líklegt að hætt væri á truflunum inn á farsímabúnaðinn, ef 1 kW HF yrði bímað á farsímamastrið.

Stjórnin er í stórum dráttum andvíg þessari tilhögun og ákveðið var að fela TF3GL að safna saman punktum í svar til Vodafone.

4. Nefndir

Aðalfundur 2008 stofnaði tvær nefndir:

  • Nefnd um framtíð eins-stafs-viðskeytis-kallmerkja sem í sitja TF3Y, TF3DX og TF3KB.
  • Nefnd um skilgreiningu núllsvæðis sem yrði lokaður ferill um miðhálendi Íslands. Þar sem aðalfundur kaus ekki tiltekna menn í þessa nefnd, ákvað stjórn að biðja TF3EK og TF2LL, sem voru langt komnir með þetta starf í síðustu núll-nefnd, að fullvinna tillögur sínar.

TF3GL hefur samband við báða þessa hópa og fylgist með tillögum þeirra, en ætlunin er að skilað verði tillögum til næsta aðalfundar.

5. Vefmálin

Nýr wiki-baseraður, gagnvirkur vefur er í smíðum hjá félaginu og verður hann komið í loftið síðar í septembermánuði. Sama á við um nýja spjallþráðavél. Stjórnin mun taka ákvörðun um að færa ira.is yfir á nýja vefinn þegar allt innihaldsefni þykir vera komið í gott horf.

6. Skjalavarsla

TF5B hefur sent ritara félagsins fyrir félagsins hönd afrit af fundargerðum og ýmsum skjölum félagsins sem hann hafði í fórum sínum. Fól stjórnin skjalaverði TF3SNN að taka skjölin til vörslu, en hann er að hefur einnig verið að skanna og flokka önnur skjöl í eigu félagsins.

7. Önnur mál

Tekið var fyrir bréf til stjórnar frá TF2WIN um tillögur að endurbótum á félagsaðstöðu. TF3SG mun svara bréfinu.

TF3SG vakti máls á og mun athuga með aðgangsheimildir nágrannalanda að 70 MHz-bandinu m.t.t. undirbúnings að umsókn til Póst- og fjarskiptastofnunar um aðgang að þessu tíðnisviði.

Fundi slitið kl 23.00

Fundargerð ritaði TF3GL

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2008.08.06 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3AO, TF3SNN

1. Tengiliður PFS

TF3VS hefur tilkynnt að hann óski eftir að láta af störfum sem tengiliður ÍRA við Póst- og fjarskiptastofnun (PFS). Ritari TF3GL mun hér eftir sjá um um þessi samskipti. Stjórn þakkar TF3VS fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

2. Aðstaða ÍRA í Skeljanesi

Félagið mun enn um sinn hafa aðstöðu í Skeljanesi, vonandi í einhver ár til viðbótar. Varahlutir í StepIR loftnet hafa verið pantaðir. Stefnt er að uppsetningu í byrjun september. TF3SNN mun gera tillögur um frágang loftnetsbúnaðar.

Þrífa þarf aðstöðuna. TF3SNN kaupir þrifavörur. Stefnt er á þrif eftir Vitahelgi. TF3HR athugar með að fá aðgang að endaherbergi því sem sjóstangveiðimenn hafa. TF3SNN gerir að tillögu að setja eitthvað af eldri búnaði sem félagið á upp sem sýningargripi. Það mun skoðast í vetur.

3. Vitahelgin

TF3AO er búinn að afla leyfis hjá Siglingamálastofnun til að nota Knarrarósvita og verður í sambandi við Sigurð vitavörð. TF3HR mun senda tiltektarlista á stjórn. TF2LL mun sjá um að elda súpu í þátttakendur eins og hefð er fyrir. Reynt verður að reka 2 stöðvar, aðra á SBB/CW og hina á digital módum.

Fundi slitið kl 22.30

Fundargerð ritaði TF3HR

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2008.05.20 kl 20.30 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3GL, TF3SNN og TF3HP

1. Skipting í embætti

Tillaga formanns TF3HR er sú að sitjandi stjórnarmenn haldi sínum embættum og TF3AO haldi þannig gjaldkeraembættinu, en TF3SG verði varaformaður, TF3GL ritari og TF3SNN meðstjórnandi. Þessi verkaskipting var samþykkt.

2. Umræður um ársreikninga

Talið var fullnægjandi að setja ársreikning félsgsins fram með sama hætti og gert hefur verið undanfarin ár. Þótt ekki sé formlegt sjóðsstreymi í reikningunum er það ekki talið vera til vandræða þar sem hvorki eru lántökur né afskriftir í bókum félagsins. Í framhaldi af ábendingu á aðalfundi var ákveðið að setja eignaskrá félagsins inn á lokað skráasafn félagsmanna á rabbsíðum félagsins á Netinu.

3. Tilkynning um nýja stjórn

Ritara var falið að senda tilkynningu um nýja stjórn til NRAU IRAU og PogF, sem og á heimasíðu félagsins.

4. Innheimta árgjalda

Rætt var um innheimtu árgjalda 2008-2009. TF3AO áformar að senda út greiðsluseðla í september eða október og nefndi að reiknaðir hefðu verið vextir af árgjöldum síðasta árs eftir ákveðinn tíma og lagði fyrir fundinn hvort rétt þætti að reikna vexti. TF3SG stakk upp á að hafa eindaga 31. desember og reikna vexti eftir það. Ákveðið var að fresta umræðu um þetta atriði þar til nær dregur hausti.

5. Umsóknir um meðmæli ÍRA með útgáfu eins stafs viðskeyta á kallmerki

Nýafstaðinn aðalfundur 17. maí 2008 samþykkti að það nægði að hafa haft radíóamatörleyfi í 25 ár, hafi G-leyfi og 100 DXCC lönd til að stjórn félagsins geti mælt með úthlutu eins stafs viðskeytis á kallmerki.

Fyrir fundinum lá erindi frá TF5BW sem sækir um breytingu kallmerkis síns í TF5B. Eftir ítarlega skoðun gagna sem TF5BW hefur lagt fram ályktar stjórn að TF5BW uppfylli ofangreindar kröfur. Stjórn ÍRA samþykkir því að mæla með umsókn TF5BW til Póst- og fjarskiptastofnunarum breytingu á kallmerki sínu í TF5B.

Fyrir fundinum lá erindi frá TF3YH sem sækir um breytingu kallmerkis síns í TF3Y. Eftir ítarlega skoðun gagna sem TF3YH hefur lagt fram ályktar stjórn að TF3YH uppfylli ofangreindar kröfur. Stjórn ÍRA samþykkir því að mæla með umsókn TF3YH til Póst- og fjarskiptastofnunar um breytingu á kallmerki sínu í TF3Y.

Fyrir fundinum lá erindi frá TF3US sem sækir um breytingu kallmerkis síns í TF3U, en hefur ekki sent inn gögn til stjórnar ÍRA til staðfestingar gjaldgengi sínu samkvæmt ofangreindum kröfum. Stjórn frestar því afgreiðslu umsóknar TF3US um kallmerkið TF3U.

Ritara var falið að tilkynna um þessar afgreiðslur til umsækjenda og tengiliðs PogF TF3VS.

Frekari skýringar og greinargerð fyrir niðurstöðu stjórnarinnar:

Stjórnin fór ítarlega yfir málið og bar saman við vinnureglur um endurúthlutun kallmerkja látinna leyfishafa annars vegar, og um úthlutun keppniskallmerkja hins vegar.

Í tilfelli TF5B var það ályktun stjórnar að fyrri úthlutun TF3B stangist hvorki á við reglugerðina (sem segir einungis að forðast skuli að úthluta sömu bókstöfum á mismunandi svæðum en bannar það vitanlega ekki), né við endurúthlutunarreglur sem stjórnin hefur áður sett sér, um að fimm ár skuli líða frá andláti leyfishafa til þess að stjórn mæli með endurútgáfu kallmerkis hans (þótt í þessu tilfelli sé hið úthlutaða merki TF5B raunar aðeins líkt kallmerkinu TF3B en er ekki sama merkið, og falli því ekki undir þessa vinnureglu).

Í síðara tilfellinu var það ályktun stjórnar að þar sem TFnY væri ekki úthlutað merki hjá PogF heldur aðeins “frátekið” í þeim skilningi að stjórn félagsins hafði í eina tíð hugsað nokkur slík merki (W, X, Y og Z) til afnota fyrir keppnisstöðvar, væri stjórninni heimilt að endurákvarða um þessi keppnisafnot. Var það niðurstaða stjórnarinnar að hagsmunir einstakra félagsmanna gætu einfaldlega vegið þar þyngra, og því var umsókn TF3Y samþykkt.

6. Minnisblað um kallmerkjanotkun

TF3HR lagði fram minnisblað um vinnureglur stjórnar um úthlutun kallmerkja frá 8. febrúar 2006. Stjórn samþykkti að notast skyldi við eftirfarandi vinnureglur úr þessu minnisblaði varðandi endurúthlutun kallmerkja:

  • Að kallmerki látinna leyfishafa verði ekki endurnýtt fyrr en 5 árum eftir andlát, þó verði kallmerkjum látinna heiðursfélaga ÍRA ekki úthlutað aftur fyrr en að 15 árum liðnum. Kallmerki sem menn afsala sér, t.d. vegna þess að þeir taki annað kallmerki, verði ekki endurnýtt í 2 ár.
  • Að vísað sé til ályktunar aðalfundar 2008 um úthlutun eins stafs viðskeyta.
  • Að reglugerðin teljist fullnægjandi skýring á öðrum úthlutunarreglum kallmerkja.

7. Heimasíðumál

Það er álit stjórnar að vefsíður félagsins verði að vera aðgengilegri fyrir félagsmenn til að uppfæra og halda þeim lifandi. Einnig var rætt að opna spjallkerfið yfir í opnara umhverfi og tóku fundarmenn almennt vel í þær hugmyndir. Almennt var það talið þess virði að huga meira að vefmálum þess.

Ritari gerir heildarúttekt á heimasíðumálum og skilar yfirliti fyrir næsta stjórnarfund.

8. Sumaraktífítet

Rætt var um að hafa aktífítet fyrir jeppadag, svo sem field-strength-mælingar.

9. Húsnæðismál

Engar nýjar fréttir voru af húsnæðismálum hjá ÍTR, en stjórnin heldur áfram að leita hófanna annars staðar.

Fundi slitið kl 22:30

Fundargerð ritaði TF3GL