Stjórnarfundir ÍRA

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2009.09.27 kl 11.00 í Skeljanesi

Mættir: TF2JB, TF3SG, TF3SNN og TF3BJ. TF3GL, TF3JI og TF3EE höfðu boðað forföll.

1. Fundarsetning

Formaður setti fund kl. 11:00 og lagði fram tillögu að dagskrá sem var samþykkt.

2. Fundargerð síðasta fundar

Uppkast að fundargerð fundar nr. 3/2009 var lögð fram til samþykktar. TF2JB gerði tillögu um breytingu á orðalagi 5. töluliðar. Í stað orðanna “heppilegra væri” komi “heppilegra gæti verið”. Fundargerðin var samþykkt með þeirri breytingu.

3. Fundur stjórnar ÍRA með prófnefnd

Farið var yfir ágætan fund sem stjórn átti með prófnefnd þann 18. ágúst s.l.

4. Vetrardagskrá 2009-2010

TF3SG skýrði frá hugmynd þess efnis að hafa opið á sunnudagsmorgnum í vetur þar sem lögð yrði m.a. áhersla á að setja upp loftnet og verklegar framkvæmdir í félagsaðstöðunni. Gert er ráð fyrir að áframhald verði á fræðslu- og kynningarkvöldum á fimmtudögum í vetur og einu myndbandskvöldi. Guðmundur mun senda dagskrána til ritstjóra CQ TF til birtingar í næsta tölublaði.

5. Næsta tölublað CQ TF (4. tbl. 2009)

Undirbúningur að útgáfu næsta tölublaðs CQ TF er í fullum gangi og er stefnt að því að blaðið komi út í byrjun október n.k.

6. Morsenámskeið og námskeið til amatörprófs

TF3SG skýrði frá Morsenámskeiði TF3AX, sem hófst 1. september. Alls mættu 12 manns til að byrja með en eitthvað hefur fækkað síðan. Námskeiðið er mjög vel heppnað. TF2JB skýrði frá væntanlegu námskeiði til amatörprófs sem hefst í byrjun október og Hrafnkell, TF3HR, mun stjórna. Rætt var m.a. um heppilegt húsnæði fyrir námskeiðið og námskeiðsgjald. Það er hugmynd stjórnarmanna að fjárhæð þess verði óbreytt frá sem hún var síðast – þó þannig að námskeiðið standi undir sér. Rædd var óformleg tillaga TF3GL um hækkun gjaldsins en henni hafnað. Fundarmenn eru sammála um að stilla verði í hóf í ljósi þeirra efnahagslegu þrenginga sem nú eru í þjóðfélaginu.

7. Staða félagssjóðs

Innheimta félagsgjalda hefur gengið vel og er staða félagssjóðs góð.

8. TF útileikar 2009

TF3SG (tengiliður stjórnar) fór yfir úrslit og sagði frá því að menn væru almennt þeirrar skoðunar að mjög vel hafi til tekist. Stjórn ÍRA færir öllum þeim sem komu að undirbúningi og úrvinnslu gagna TF útileikanna 2009 þakkir fyrir frábær störf.

9. Starfshópar

Samþykkt að skipaður verði starfshópur innan félagsins til að endurskoða reglur fyrir TF útileikana. Auglýst verði eftir áhugasömum félagsmönnum til starfa í hópnum.
Undir dagskrárliðnum var einnig samþykkt að skipaður verði starfshópur innan félagsins til að gera tillögur um hvort efna beri til (og þá á hvaða hátt) kynningar á amatörradíói fyrir almenning í tilefni alþjóðadags radíóamatöra (World Amateur Radio Day) 18. apríl 2010. Auglýst verði eftir áhugasömum félagsmanna til starfa í hópnum.

10. Framleiðsla á gólffána með merki félagsins

Samþykkt að framleiða gólffána á standi með félagsmekinu (með tilvísan til samþykkta fyrri stjórna). Formanni var falið að leita til Ársæls, TF3AO, um að hrinda málinu í framkvæmd.

11. Fundargerðir stjórnar

Samþykkt tillaga TF2JB þess efnis að fundargerðir stjórnar verði hengdar upp og gerðar aðgengilegar félagsmönnum í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Athugað verði á hvern hátt má miðla þessu efni til félagsmanna á netinu.

12. Nettenging

Samþykkt að hrinda í framkvæmd nettengingu félagsaðstöðunnar sbr. samþykkt stjórnarfundar nr. 3/2009. TF3EE og TF3SNN taka að sér kaup á nauðsynlegum búnaði.

13. Radíódagbækur félagsins á rafrænu formi

Tillaga þess efnis að radíódagbækur félagsins sem til eru á rafrænu formi verði settar inn á „Club Log” heimasíðuna ræddar. Stöðvarstjóri, TF3SNN, óskaði eftir að fá tækifæri til að kynna sér málið. Samþykkt að fresta umfjöllun.

14. Heimild til útgjalda úr félagssjóði

TF3JB lagði fram tillögu þess efnis, að keyptar verði pöllur og (hand) Morselykill til nota fyrir TF3IRA; þannig verði báðar stöðvar útbúnar varanlega með þessum aukahlutum. Innkaupsverð nemur alls €192.58, þ.e. „The Kent Hand Key” (€86.98) og „The Kent twin paddle morse key” (€105.60). Tillagan samþykkt.

15. Önnur mál

 1. TF3SNN velti fyrir sér ályktunarhæfni stjórnarfunda þegar færri en fimm manns eru mættir. Fram kom m.a. í umræðum að e.t.v. bæri að skerpa á þessu í lögum félagsins.
 2. TF3SNN spurði um erindi sem nýrri stjórn hafi borist þann tíma sem hún hefur starfað. TF2JB sagðist ekki hafa séð nein slík – utan umsagnarerinda frá PFS vegna kallmerkja. Sveinn tekur að sér að kanna hvort eitthvað hefur safnast upp hjá ritara, TF3GL.
 3. TF3SNN spurði um fjölda þeirra sem hafa skráð sig á námskeið til amatörprófs á heimasíðu félagsins. TF2JB sagðist aðeins vita um heildarfjöldann, þ.e. 42. Hins vegar hafi verið opið fyrir skráningu í nokkuð langan tíma og því óljóst um endanlegan fjölda. TF3SNN tekur að sér að hafa samband við TF3GL um að hann sendi tölvupóst á þá sem hafa skráð sig til að kanna hvort þeir standi við skráningu sína miðað við að námskeið verði haldið í október-nóvember n.k.

16. Ákvörðun um dagtsetningu og tímasetningu næsta stjórnarfundar

Endanleg dagsetning var ekki ákveðin en miðað er við næsta næsta stjórnarfund í viku 44.

17. Fundarslit

Fundi var slitið kl. 13.30.

Fundargerð ritaði TF3SG

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2009.08.11 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru: TF2JB, TF3SG, TF3GL og TF3BJ. TF3EE, TF3SNN og TF1JI höfðu boðað forföll.

1. Fundarsetning

Formaður TF2JB setti fundinn kl. 21:05.

2. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð fundar 2009.07.07 var lögð fram og samþykkt án athugasemda.

3. Umsókn um kallmerkið TF4X til rekstrar sameiginlegrar stöðvar

Til umsagnar stjórnar ÍRA liggur erindi dagsett 11. júlí 2009 með ósk um úthlutun kallmerkisins TF4X til rekstrar sameiginlegrar stöðvar sem staðsett er í Otradal hjá Þorvaldi Stefánssyni TF4M. Ábyrgðarmaður sameiginlegu stöðvarinnar er Yngvi Harðarson TF3Y. Stjórnin samþykkti samhljóða að mæla með úthlutun kallmerkisins til þessarar sameiginlegu stöðvar.

4. Vetrardagskrá 2009-2010

TF3SG lagði fram til umræðu frumdrög að vetrardagskrá. Ekkert var fært til bókar um dagskrárliðinn, og bíður endanleg útfærsla hans næsta fundar.

5. TF útileikar 2009

TF útileikarnir 2009 voru haldnir 1.-3. ágúst. Ágæt þátttaka var, og svipuð og á síðasta ári. TF3KX er að safna loggum og mun hann ásamt TF5B hafa umsjón með útreikningi stiga og útgáfu verðlaunaskjala líkt og í fyrra.

Umræða spannst um nýja TF0-svæðið vegna þátttöku manna í útileikum. Var það sameiginlegt álit stjórnarmanna að óheppilegt væri að undanskilja mannvirkjabelti hér og hvar um hálendið frá TF0, enda sé erfitt að henda reiður á því hvort maður sé staddur á slóða sem tilheyrir mannvirkjabelti (t.d. belti meðfram veginum inn að Eldgjá að Fjallabaki, eða belti meðfram línuveginum norðan Skjaldbreiðs sem jafnvel útilokar Hlöðufell frá TF0), eða hvort maður er staddur á slóða sem ekki tilheyrir mannvirkjabelti TF0 (t.d. Dómadalsleið að Fjallabaki eða veginum upp að Hlöðufelli sunnan úr Laugardal).

Á aðalfundi Í.R.A. 23. maí 2009 var samþykkt svohljóðandi skilgreining á TF0-svæðinu:

TF0 er lokað svæði sem umlykur óbyggðir og miðhálendi landsins að undanskildum mannvirkjabeltum. Lokaða svæðið og mannvirkjabeltin er skv. skilgreiningu samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins. Í mannvirkjabeltum miðhálendisins gildir venjuleg kallsvæðaskipting eftir staðsetningu miðað við stjórnsýslumörk.

Stjórnin ályktaði að heppilegra væri að undanskilja ekki þessi mannvirkjabelti, og notast við skilgreiningu óbyggðanefndar á þjóðlendukorti um “Samgöngur og ferðamál” sem sjá má á vef óbyggðanefndar http://www.halendi.is/media/files/C4-a3-sg-fe.jpg

6. Vitahelgin 2009

Vitahelgin 2009 verður haldin 14.-15. ágúst 2009. Skrifleg heimild er komin frá Siglingastofnun um notkun á vitanum og kann stjórnin stofnuninni og vitaverði bestu þakkir fyrir. Nokkrir hafa boðað komu sína til stöðvarstjóra TF3SNN, sem heldur utan um þátttökutilkynningar þeirra sem hyggjast operera frá vitanum.

7. Erindisbréf neyðarfjarskiptastjóra

Erindisbréf neyðarfjarskiptastjóra TF3JA tekið fyrir og samþykkt.

8. Tillaga að samþykkt um hlutverk TF3IRA

TF2JB bar fram til umræðu skjal með skilgreiningu á hlutverki félagstöðvarinnar TF3IRA. Afgreiðslu málsins frestað til næsta fundar og e.t.v. samþætt væntanlegu erindisbréfi stöðvarstjóra.

9. Fundur með prófnefnd félagsins 18. ágúst

Stjórnin leggur til eftirfarandi markmið í námskeiðs- og prófhaldi:

 1. Námskeið verði 1-2 á ári, tímasetning verði a.m.k. um haust, en annars einnig um vor
 2. Möguleiki sé að efna til prófa oftar en námskeið eru haldin
 3. Mögulegt verði að halda styttra námskeið til N-leyfis
 4. Námskeiðsgögn komi inn á netið í auknum mæli (http://ira.is/display/namsefni/Home)

10. Fjarskiptaherbergi

Framkvæmdir í fjarskiptaherbergi hafa miðað að því að gera aðstöðuna notendavænni. Fór stjórnin um herbergið og tók út hið vel unna verk sem TF2JB og TF3SNN hafa borið hitann og þungann af.

11. Heimildir til útgjalda úr félagssjóði

Samþykkt var að heimila eftirtaldar ráðstafanir:

 1. Kaup á aflgjafa fyrir rótor og SteppIR-loftnet
 2. Kaup á korti í stjórnkassa fyrir SteppIR-loftnet
 3. Kaup á Yaesu SP-8-hátalara fyrir FT-1000-stöð
 4. Kaup á Kenwood SP-23-hátalara fyrir TS-2000-stöð
 5. Kaup á morselykli (handlykli) frá Kent UK
 6. Kaup á nettengingu fyrir félagsaðstöðuna

12. Önnur mál

Ritari TF3GL boðar að sakir vinnu erlendis muni hann ekki geta mætt á nokkra næstu stjórnarfundi en taki þó þátt í starfi stjórnar að öðru leyti.

13. Dagsetning næsta stjórnarfundar

14. Fundarslit

Fundi slitið kl 23.10.

Fundargerð ritaði TF3GL

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2009.07.07 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru: TF2JB, TF3SG, TF3EE, TF3SNN og TF1JI. TF3BJ og TF3GL höfðu boðað forföll. Gestur á fundinum var TF3VS vegna dagskrárliðar 6.4 og sat hann fundinn frá kl. 21:30 til kl. 21:45.

1. Fundarsetning

Formaður TF2JB setti fundinn kl. 21:08.

2. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð fundar nr. 1/2009 var lögð fram og samþykkt án athugasemda.

3. Erindi til afgreiðslu frá fyrra fundi/fundum

Eitt mál bíður afgreiðslu, þ.e. umsókn frá TF4M um úthlutun sérstaks klúbbstöðvarkallmerkis í Otradal. Vegna fjarveru ritara reyndist ekki unnt að ræða málið þar gögn málsins eru í hans vörslu. Málinu frestað. Fundarmenn voru sammála um að hraða ber afgreiðslu málsins.

4. Staða mála sem kynnt voru og/eða rædd á síðasta stjórnarfundi

 1. Nefnd um endurúthlutun kallmerkja (JB)._ Jónas skýrði frá því að nefndin hafi tekið til starfa með því að skiptast á upplýsingum um netið. Fyrsti formlegur fundur er fyrirhugaður 23. þ.m.
 2. Vetrardagskrá (SG). Guðmundur mun hraða sem kostur er að leggja fram drög að dagskrá.
 3. Eignalisti (SNN og JI). Málið er til skoðunar.
 4. Sýning radíótækja (JI). Málið er til skoðunar.
 5. Smíðaaðstaða (SNN og JB). Sveinn Bragi og Jónas hafa skoðað hvernig koma má upp aðstöðu í QSL-herberginu.
 6. Námskeiðsmál/nýliðun (JB). Efnt verður til fundar með prófnefnd og stjórn 18. ágúst næstkomandi.
 7. Verkfæri (SNN). Sveinn Bragi hefur fest kaup á nauðsynlegustu verkfærum.
 8. Vitahelgin „International Lighthouse Weekend” (SNN).Sveinn Bragi hefur verið í sambandi við lykilmenn og vinnur að undirbúningi.
 9. Neyðarfjarskipti (JB). Jónas hefur verið í sambandi við TF3JA og mun Jón gera uppkast að erindisbréfi embættis neyðarfjarskiptastjóra ÍRA.
 10. Friedrichshafen 2009 (SG). Guðmundur skýrði frá óformlegum fundi í IARU Region 1 sem fram fór í Friedrichshafen 26. júní s.l. Hann mun setja sig í samband við TF3KB vegna þeirra mála.

5. Erindi radíóskáta.

Samþykkt að heimila radíóskátum afnot af húsnæði og fjarskiptabúnaði Í.R.A. helgina 17. og 18. október n.k. vegna „Jamboree on the air 2009″.

6. Eftirfarandi erindi lögð fram til til umfjöllunar og samþykktar

 1. Heimild til framleiðslu á 200 bílrúðumerkjum með félagsmerki ÍRA. Samþykkt að leita samninga við Vörumerkingu ehf. sem átti lægst tilboð. Gangi það tilboð eftir var samþykkt að hvert merki verði selt á 200 krónur en þrjú merki saman á 500 krónur.
 1. Heimild til kaupa á aflgjafa fyrir TF3RPA. Tilboð: 20.111 krónur m/vsk. Samþykkt að kaupa PS 1330 aflgjafa frá HQ Power hjá fyrirtækinu Íhlutir ehf.
 1. Heimild til kaupa á aflgjafa fyrir TF3IRA. Samþykkt skv. sömu forsendum og í lið b.
 1. Heimild til útgáfu á þýðingu TF3VS á bók ON4UN og ON4WW, _Siðfræði og samskiptasiðir radíóamatöra. Tilboð reyndist hagkvæmast hjá Prentsmiðjunni Odda hf., 236.550 krónur m/vsk. miðað við stafræna prentun í lit í 200 eintökum og frágang (þ.e. forsíðu í 140 gr. pappír og límingu á kjöl). Bókin er alls 72 bls. að stærð og er framleiðslukostnaður því 1183 krónur á hvert eintak. Vilhjálmur, TF3VS, var mættur á fundinn og tók þátt í umræðum. Fram kom m.a. að heppilegasta útgáfuformið væri í stærðinni A4 (en A5 er töluvert dýrara). Vilhjálmur hefur ennfremur gert tillögu að forsíðu bókarinnar sem sýnd var á fundinum. Með tilvísan til umræðna á aðalfundi 2009 og í ljósi þess að hér er um dýrmæt námsgögn að ræða gagnvart nýjum leyfishöfum var samþykkt að ganga að tilboði Odda. Samþykkt ennfremur að eintak bókarinnar verði til dreifingar til allra skuldlausra félagsmanna á árinu 2009 með tilvísan til umræðna á aðalfundinum í maí s.l. Vilhjálmur hvarf af fundi við svo búið.

7. Tillaga um innsetningu ljósmynda (þ.e. andlitsmynda) við nöfn í félagatali

Samþykkt að það skuli vera valkvætt fyrir félagsmenn og fara þess á leit við TF3KJ að taka verkefnið að sér.

8. Tillaga um að útbúið verði sérstakt umslag til afhendingar nýjum félagsmönnum

Tillagan rædd. Samþykkt að útbúin verði mappa með ljósrituðum gögnum um félagið sem verði til afhendingar til nýrra félagsmanna, sbr. upptalningu hér að neðan:

 1. Félagslög ÍRA
 2. Reglugerð um starfsemi radíóamatöra
 3. Fjarskiptalögin
 4. Nýjasta prentaða eintakið af CQ TF
 5. Bílrúðumerki með félagsmerki ÍRA (2 stk.)
 6. Annað sem hér kann að hafa gleymst að telja upp

9. Tillaga um að ÍRA beiti sér fyrir að gömul TF QSL kort verði skönnuð og birt á heimasíðu

Tillagan samþykkt samhljóða. TF2JB tekur að sér undirbúning.

10. Önnur mál

 1. Félagsmerki ÍRA; á ÍRA merkið eða er það í einkaeign?TF3SNN var málshefjandi. Hann bar upp spurningar sem tengjast merki félagsins. Samþykkt að koma á fundi með TF3KB og stjórninni m.a. til að fara yfir það mál. Kristján er höfundur merkisins.
 1. Verklags/vinnureglur fyrir embætti félagsins, t.d. prófnefnd/námskeiðahald; endurvarpa; IARU-tengil; neyðarfjarskiptastjóra, o.fl. Sveinn Bragi var málshefjandi. Fram kom m.a. í svari formanns, að hann fyrirhugar að kalla embættismenn félagsins á fund hjá stjórninni þar sem farið verði yfir þessi mál. Hann hefur þegar óskað eftir því við IARU-tengil félagsins, TF3KB, og neyðarfjarskiptastjóra félagsins, TF3JA, að þeir geri uppkast að embættisbréfum sínum.
 1. TF3RPA QRV á ný 7. júlí. Formaður skýrði frá því að TF3GW og TF3WS hafi fyrr um daginn komið endurvarpanum í gang á ný.
 1. Nýtt CQ TF, 3. tbl. 2009. Stjórnarmenn lýstu yfir ánægju með útkomu nýs tölublaðs af CQ TF og voru samþykktar sérstakar þakkir til nýs ritstjóra, TF3KX. Einnig voru samþykktar sérstakar þakkir til fráfarandi ritstjórna, TF3GL, sem hljóp í skarðið fyrir TF3JA án mikils fyrirvara í byrjun ársins.

8. Fundarslit.

Fundi slitið kl 23.20.

Fundargerð ritaði TF3SG

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2009.06.02 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF2JB, TF3SG, TF3EE, TF3GL, TF3SNN og TF1JI. TF3BJ hafði boðað forföll.

1. Kynning á nýrri stjórn

Formaður TF2JB setti fundinn og bauð nýja stjórn velkomna til starfa. Allir tóku góðan tíma í að kynna sig, og þeir stjórnarmenn sem sátu frá fyrra ári kynntu embætti sín og önnur embætti, eins og haldið var á þeim í tíð fyrri stjórnar.

2. Stjórn skiptir með sér verkum

Stjórnin kom sér saman um eftirfarandi skipan embætta: TF3SG varaformaður, TF3EE gjaldkeri, TF3GL ritari og TF3SNN meðstjórnandi, auk TF2JB sem var kjörinn formaður á aðalfundi og TF1JI og TF3BJ sem kjörnir voru varamenn. Hefðbundin ábyrgðarsvið embætta haldast, nema hvað varaformaður og gjaldkeri munu saman vinna að gerð ársreiknings.

3. Aðrir embættismenn

Farið var yfir lista núverandi embættismanna og þeir nefndir “de facto”:

 • Prófnefnd:TF3KB, TF3KX, TF3DX, TF3VS og TF8SM
 • Spjaldskrárritari: TF3SNN
 • Ritstjóri CQ TF: TF3GL (starfandi, leitað að nýjum ritstjóra)
 • Vefstjóri: TF3GL (ritstjórnarlegur) og TF3BNT (tæknilegur)
 • Viðurkenningarstjóri: TF5B
 • QSL-stjóri: TF3PPN og TF3GB
 • Stöðvarstjóri: TF3SNN
 • Póst- og fjarskiptastofnunartengill: TF3GL
 • Endurvarpar: TF3GS (TF3GW)
 • IARU-tengill: TF3KB
 • Neyðarfjarskiptastjóri: TF3JA

Engar sérstakar óskir hafa komið fram um tilnefningu til annarra embætta (fyrir utan tilnefningu TF3JA sem var samþykktur í embætti neyðarsjarskiptastjóra) og óskaði TF2JB eftir því við núverandi embættismenn að þeir haldi embættum sínum áfram.

4. Aðalfundur ÍRA 23. maí 2009

Samþykkt var að fela fundarritara að ganga frá lokaútgáfu fundargerðar til birtingar í CQ TF, en einhverjar athugasemdir munu hafa borist honum við fyrstu drög, sem sett voru inn á vefinn.

Á fundinum var skipuð nefnd til að fjalla um og gera tillögur um hversu langur tími þarf að líða unz stjórnvöld geta endurúthlutað kallmerki. Nefndina skipa TF3JA, TF3KX, TF3HP og TF5B. Formaður TF2JB hefur með höndum samskipti við nefndina, sem á að skila af sér tillögum til næsta aðalfundar.

5. Útgáfumál CQ TF

Síðan ritari TF3GL tók við ritstjórn CQ TF hefur verið leitað að “varanlegum” ritstjóra að blaðinu. Samþykkt að leita til TF3KX í þessum efnum. Munu TF3GL og TF2JB ræða þetta við hann.

6. Önnur mál

Nettenging: Rætt var um möguleika á nettengingu í félagsheimilinu, en sömu vandamál og endranær standa í veginum: Einungis ein símalína er í húsinu, og er hún í notkun. Rætt var um hugsanlega 3G-tengingu, en kostnaður af því væri töluverður. Hægt væri að reyna að tengjast gegnum TF3SG, sem býr í nágrenninu. Afgreiðslu málsins var frestað.

Vetrardagskrá: TF3SG bryddaði upp á umræðu um sunnudagsopnanir í sambandi við vetrardagskrá. Var það mál manna að vel hefði tekist til í stórum dráttum, og ráð var fyrir gert að halda þessu í vetrardagskránni.

Eignalisti: Rætt var um eignalista félagsins og munu TF3SNN og TF1JI taka að sér að koma honum inn á Google Docs-skjalageymslu félagins.

Sýning radíótækja: TF1JI stakk upp á að sett verði upp sýning á gömlum tækjum í samráði við safn Ríkisútvarpsins. Mun hann hafa samband við TF3KB hjá RÚV til að skoða hvort fletir gætu verið á samstarfi við þá um þessi mál.

Smíðaaðstaða: TF2JB stakk upp á að sett verði upp smíðaaðstaða í QSL-herberginu. TF2JB og TF3SNN vinna saman í að móta tillögu um hvort eða hvernig þetta yrði gert.

Námskeiðsmál og nýliðun: TF3GL tók upp þráðinn með námskeiðshald sem staðið hefur til í vetur en ekki orðið af, og lagði til að málið yrði rætt við prófanefnd. TF2JB mun heyra í prófanefnd um stöðu mála.

Verkfæri: TF3SNN sagði vanta verkfæri í félagsaðstöðuna. Samþykkt var að veita TF3SNN innkaupaheimild upp á 20 þúsund krónur til verkfærakaupa.

Vitahelgin: Þótt vitahelgin sé ekki formlega á höndum félagsins var ákveðið að félagið muni áfram styðja við viðburðinn. TF3SNN tekur að sér að kanna með vilja félagsmanna með að leggja félaginu lið.

Neyðarfjarskipti: TF2JB sagði TF3JA hafa komið að máli við sig og lýst áhuga á málaflokknum. Mun TF2JB ræða þetta nánar við TF3JA og leggja tillögu um útfærslu fyrir komandi stjórnarfund. Skipan TF3JA í embættið að öðru leyti samþykkt.

Kallmerki með einum staf í viðskeyti: Ein umsókn liggur fyrir hjá Póst- og fjarskiptastofnun og bíður umsagnar ÍRA. Umsóknin barst í tíð fyrri stjórnar. Aðalfundur 2009 ályktaði um vinnureglur félagsins við úthlutun kallmerkja með einn staf í viðskeyti. Afgreiðsla bíður næsta stjórnarfundar.

Friedrichshafen: TF3SG mun mæta fyrir hönd Í.R.A. á 60. ársfund DARC sem haldinn er í tengslum við “Ham Radio 2009” sýninguna í Friedrichshafen í Þýzkalandi. Um er að ræða samkomu boðsgesta DARC frá landsfélögum IARU föstudaginn 26. júní n.k. kl. 16:00 til 17:30 í viðhafnarherbergi sýningarhallarinnar í Friedrichshafen “Room Bodensee”. Þar mun dr. Walter, DL3OAP m.a. flytja ávarp. TF3SG lætur félagsmenn vita á vefnum ef einhver vill benda á tiltekin erindi sem félagið ætti að koma á framfæri.

7. Næsti fundur

Rætt var um tímasetningu reglulegra stjórnarfunda og var ákveðið að hafa fundi kl 21.00 fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði. Samþykkt að stjórnin muni ekki taka sumarfrí að þessu sinni og að boðað verði til næsta stjórnarfundar þriðjudaginn 7. júlí n.k.

Fundi slitið kl 23.20

Fundargerð ritaði TF3GL

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2009.05.12 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3SNN, TF3HP og TF3PPN.

1. Ársreikningur

Gjaldkeri leggur fram ársreikning ÍRA. Gjaldkeri fór yfir fjárhagsstöðu félagsins og sagði frá tapi félagsins á peningabréfum. Tapið er tilkomið vegna bankahruns á síðasta ári. TF3AO fór yfir félagatal, félagsmenn eru 176. Rætt um fjölda þeirra sem greiddu félagsgjald. Um það bil 100 greiddu fullt gjald, 23 greiddu hálft gjald, 19% höfðu ekki greitt. Rætt um skoðunarmenn ársreiknings félagsins. Guðmundur lýsti þeirri skoðun sinni að stjórn félagsins áritaði ársreikning félagsins.

2. Aðalfundur

Rætt um fundarstjóra á aðalfundi. Stungið upp á að ræða við TF3KX. Rætt um dagskrá aðalfundar og að TF3HP geri grein fyrir ferð sinni til Norðurlanda í vetur. Rætt um einsstafstillögu og rétt að hún verði afgreidd á aðalfundi. Rétt að minna nefndarmenn að huga að úthlutun til keppnisstöðva. Þessu tengt var rætt um vinnureglur stjórnar varðandi endurúthlutun kallmerkja. Ekki hefur verið fjallað um málið í CQTF.

3. CQ TF

Rætt um ritstjórn CQTF. TF3JA er enn skráður á heimasíðu sem ritstjóri blaðsins þótt ritari TF3GL hafi haldið blaðinu úti. Fyrir liggur að TF3GL vill losna við þetta aukastarf.

4. Önnur mál

 • Rætt um lén IRA. TF3VS hefur verið tengiliður. Er nú tekinn af skrá sem tæknilegur tengiliður og Benedikt TF3BNT settur í staðinn.
 • Halli sagði frá endurvarpa sem félagið hefur þegið að gjöf, sem áður var í eigu Almannavarna.
 • Kjörseðill Kongo í Region 1. Stórn sammála um að merkja við já. TF3HR sér um að senda kjörseðilinn.

Fundi slitið kl 22.30

Fundargerð ritaði TF3SG

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2009.03.03 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3GL, TF3SNN og TF3HP

1. Vetrardagskrá

Flóamarkaður: Stöðvarstjóri TF3SNN og TF3AO fóru yfir gripi í eigu félagsins m.t.t. að leggja til á flóamarkað. Ýmislegt er til sem gott væri að koma út fyrir lítinn pening. Stefnan er sett á sunnudaginn 15. mars. TF3SG stendur fyrir framkvæmdinni og kynningu á henni.

Sunnudagsopnun: Um var rætt að best væri að hafa yfirlýst markmið fyrir hvern sunnudag og að auglýsa þyrfti hvað gera ætti. Ákveðið var að halda sunnudagsopnun áfram út apríl.

Loks var farið yfir næstu fimmtudagsfyrirlestra en TF3SG heldur utan um þau mál að venju.

2. Aðalfundur

Ákveðið var að halda aðalfund félagsins laugardaginn 23. maí. TF3AO og TF3SNN ganga úr stjórn eftir 2 ára stjórnarsetu, og hyggst TF3AO ekki gefa kost á sér til endurkjörs að þessu sinni. Formaður TF3HR sendir út tilkynningu þessa efnis á vef félagsins.

3. Námskeið

Fjöldi áhugasamra þátttakenda hefur aukist verulega eftir að fyrirhugað námskeið var auglýst. Stefnt er að því að halda námskeið í vor, en vísir að fyrirlestraröð er kominn á wiki-vef félagsins ásamt námsefnis-gagnasafninu.

Fundi slitið kl 22.00

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2009.02.03 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3GL og TF3SNN

1. Auknar tíðniheimildir

TF3GL setti sig í samband við Póst- og fjarskiptastofnun til að athuga með hvernig standa skyldi að beiðni um aukningu á heimildum á 40 metrunum skv. ákvörðun ITU. Hörður Harðarson hjá P&F svaraði því til að hægt væri að sækja um þetta og fá heimildina með bréfi, sem látið yrði gilda fram að næstu reglugerðarbreytingu. TF3HR og TF3GL munu semja og senda þetta bréf.

Varðandi 70 MHz-sviðið voru svör P&F þau, að líklega væri hægt að fá tilraunaleyfi einhvers staðar á sviðinu 70.0-70.5 MHz þrátt fyrir að tvær tíðniúthlutanir væru á sviðinu sem þó væru líklega lítið notaðar. TF3SG tekur saman efni í þetta bréf og semur í samráði við stjórnina. TF3GL sendir svo bréfið.

Einnig var spurt út í áframhaldandi heimildir til keppnisþátttöku á 1.850-1.900 kHz. Fram kom hjá P&F að ekkert fararsnið væri á skiparadíóinu en að öllum líkindum væri áfram hægt að fá áfram keppnisheimildir á sama grundvelli og verið hefur.

Ákveðið var að sækja ekki um heimildir á tíðnisviðinu kringum 500 kHz að sinni.

2. Útgáfumál

Ritstjóri CQTF TF3JA sagði af sér embætti í janúar eftir hlé á útgáfu blaðsins frá ágúst 2008. Í kjölfarið gaf stjórn út CQTF í janúarlok, og leitar nú að nýjum ritstjóra. Ákveðið var að næsta CQTF kæmi út kringum 15. apríl, og þá með aðalfundarboði og mögulegum lagabreytingartillögum.

3. Félagsfundur

Þar sem oft hefur verið haldið félagsfundur að áliðnum vetri var ákveðið að stjórn sendi út á vefspjall félagsins almenna fyrirspurn til félagsmanna um hvort menn teldu tilefni til að halda slíkan fund, og hver fundarefni ættu þá að vera. TF3HR mun senda tilkynninguna og taka saman svörin.

4. Flóamarkaður

Ákveðið var að halda flóamarkað í mars. Þar sem verið er að gera tilraunir með sunnudagsopnun í sjakknum í vetur var álitið upplagt að halda flóamarkaðinn við slíkt tækifæri. TF3SG sér um þetta í samráði við TF3SNN.

5. Aðstöðumál

Rætt var um möguleg prójekt í loftnetamálum í kjölfar opnunar nýja sjakksins. Fyrir utan nýjan turn sem verið hefur á stefnuskránni, var rætt um möguleikana á vírloftneti – t.d. 40 metra vír sem ynni sem hálfbylgja á 80 og kvartbylgja á 160 metrunum. Ákveðið var að gangast fyrir slíkum tilraunum einhvern sunnudagsmorguninn. TF3SG tímasetur og tilkynnir.

6. Námskeið

Örfáir hafa lýst áhuga á amatörnámskeiði í vetur. Ákveðið var að auglýsa námskeið á heimasíðunni og hugsanlega hafa samband við Ferðaklúbbinn 4×4 og Landsbjörgu varðandi auglýsingu á námskeiðinu og hugsanlega fjárhagslegan stuðning.

Fundi slitið kl 22.30

Fundargerð ritaði TF3GL

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2009.01.14 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3GL og TF3SNN

1. Umsóknir um eins stafs kallmerki

Umsókn frá Gísla G Ófeigssyni TF3US um að fá úthlutað TF3G var tekin fyrir, vonum seinna, en umsókn Gísla barst í upphafi árs 2008. Stjórnin sér sér því fært að vinna eftir þeim reglum sem voru í gildi fyrir síðasta aðalfund, en samkvæmt þeim uppfyllir Gísli þau skilyrði sem þarf til að fá úthlutað eins stafs kallmerki. Stjórnin samþykkti því að mæla með úthlutun á kallmerkinu TF3G til TF3US.

Umsókn frá Ómari Frits Eiríkssyni um TF3C hefur borist Póst- og fjarskiptastofnun, og verið beint til ÍRA til umsagnar. Umsókn Ómars er dagsett þann 14. júní, eða eftir að aðalfundur 17. maí skipaði nefnd til að endurskoða reglur um eins stafs kallmerki. Því ákveðið að fresta afgreiðslu erindisins þar til næsti aðalfundur hefur staðfest nýjar reglur. Stjórnin bendir auk þess á að Ómar starfrækir að jafnaði stöð sína frá Danmörku en ekki Íslandi, og félagið geti ekki haft áhrif á það hvort P&F muni gefa út slíkt leyfi.

2. Vetrardagskrá

Eftirfarandi drög að vetrardagskrá voru rædd á fundinum:

 • 22. janúar: Formleg opnun sjakksins
 • 29. janúar: Erindi TF3DX með um Hveravalla-stöðina sem hann smíðaði í öndverðu. Þessi stöð var með fyrstu FET-magnara-stöðvum sem hannaðar voru fyrir SSB.
 • 12. febrúar: Erindi TF3BNT um solid state magnara
 • 5. mars: Kynning á notkun hugbúnaðarins MixW til notkunar í stafrænum mótunaraðferðum og til að logga.

Auk þess er TF3T með tilbúið erindi um magnetískar lúppur sem hægt er að grípa til. TF3SG mun arranséra endanlega og tilkynna dagskrárliðina.

3. Námskeið

Stefnt er að því að halda amatörnámskeið snemma vors líka. Hugmyndir hafa verið uppi um að halda morse-námskeið, og hefur TF3HR t.d. fengið vilyrði frá TF3AX um að sjá um námskeiðið. TF3HR heldur utan um þennan málaflokk.

Rætt var um erfiðleika við að koma mönnum, sem setið hafa námskeið, í loftið. Ræddar voru hugmyndir um að samþætta einhvers konar “elmer”-starf við námskeiðshaldið, auk þess að hafa meiri “hands-on” brag á námskeiðunum. TF3HR ræðir þetta við prófnefnd.

4. Auknar tíðniheimildir

Í framhaldi af umræðum á síðasta stjórnarfundi var TF3GL var falið að tala við P&F sem forundirbúning að erindi í þá veru að óska eftir útvíkkun á tíðniheimildum, en Íslendingar hafa nokkuð dregist afturúr sumum nágrannalandanna í heimildarmálum, t.d.:

 • 500 kHz-sviðiðb
 • 160 metrarnir, bilið milli 1850 og 1900 kHz og leyfilegt afl
 • 40 metrarnir, þegar amatörar verða primary notendur milli 7100 og 7200, spurning um hækkun afls í 1 kW
 • 70 MHz-sviðið, athuga hvaða heimildir eru í gangi í nágrannalöndunum

5. Útgáfumál

Ákveðið var að útvíkka ritnefnd CQTF og mun TF3SG taka að sér að vinna með TF3JA, ritstjóra CQTF, að útgáfu blaðsins.

Fundi slitið kl 22.30

Fundargerð ritaði TF3GL

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2008.12.09 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3GL, TF3SNN og TF3HP

1. Póstlistar félagsins

Rætt var um hvort bæri að flytja ÍRA-spjallið að meira leyti inn á nýju spjallþráðavélina. Hún þykir að flestu leyti henta betur en Yahoo-póstlistinn, sem er barn síns tíma. Að sinni verður ekki aðhafst annað en að reyna að beina því til félagsmanna að nota nýja spjallborðið meira, þannig að það komist á krítískur massi.

2. Sjakkurinn

Þarf að fastsetja rótorinn fyrir SteppIR-bímið, einnig setja loftnetsskipti milli þess og Hustlersins. Einnig á eftir að koma Navigator-stýriboxinu í samband og eitthvað fleira smálegt. TF3HR lagði til að stefnt skyldi að því að opna nýja sjakkinn formlega eftir áramót, t.d. í lok janúar. TF3SG setur þetta á vetrardagskrána.

3. Félagsgjöld

Greiðsluseðlar hafa verið sendir út og hefur innheimta félagsgjalda gengið vel. Engir vextir verða reiknaðir og eindagi var settur 15. mars 2009.

4. Fánasjóður

TF3AO lagði til að keyptur yrði hátíðarfáni á gólffæti með merki félagsins. Kostnaður við þetta er um 120.000 krónur, en í fánasjóði eru nú um 40.000 krónur. Ákveðið var að félagið legði fánasjóði til það sem upp á vantar. TF3AO hefur forgöngu um að panta fánann.

5. Auknar tíðniheimildir

Rætt var um tíðnimál íslenskra radíóamatöra, en Íslendingar hafa nokkuð dregist afturúr sumum nágrannalandanna í heimildarmálum, t.d.:

 • 500 kHz-sviðið
 • 160 metrarnir, bilið milli 1850 og 1900 kHz og leyfilegt afl
 • 40 metrarnir, þegar amatörar verða primary notendur milli 7100 og 7200, spurning um hækkun afls í 1 kW
 • 70 MHz-sviðið, athuga hvaða heimildir eru í gangi í nágrannalöndunum

6. Námskeiðsmál

Rætt var um að halda radíóamatörnámskeið eftir áramót. Þegar hafa nokkrir lýst áhuga sínum á námskeiðinu. TF3HR mun hafa forgöngu um að setja námskeiðið á laggirnar, og m.a. hafa samband við TF3IK varðandi áhuga jeppamanna innan vébanda .

Fundi slitið kl 22.30

Fundargerð ritaði TF3GL

Stjórnarfundur ÍRA

Haldinn 2008.11.04 kl 21.00 í Skeljanesi

Mættir voru
TF3HR, TF3SG, TF3AO, TF3GL, TF3SNN og TF3HP

1. NRAU-fundurinn í Stokkhólmi

TF3HP fór fyrir hönd stjórnar til á aðalfund norrænu radíóamatörsamtakanna NRAU í Stokkhólmi í október.

Nokkur atriði:

 • Ákveðið var að styðja áform um beacon-a á 80 og 40 metra böndunum.
 • Rætt var “direct QSL only”-vandamálið, þar sem sumir amatörar virðast gera út á að fá QSL-kortin beint og með peningagreiðslu til að fjármagna endursendingu.
 • QSL-kort sem koma á bureau-in en ekki stíluð á félagsmenn er almennt fargað meðal félaganna
 • Samþykkt var að styðja umleitanir amatöra um að fá úthlutað tíðnum kringum 500 kHz t
 • Franskir amatörar hafa óskað eftir að fá að senda á AM efst á CW-bandinu, en norrænu félögin lýstu sig mófallin því, og beina því til Frakka að fara skuli eftir bandplaninu.
 • Suður-Afrískir amatörar hafa óskað eftir að fá að nota SSB á 30 m bandinu. Þeir vinna á þessu bandi í dagsbirtu skv. sérstakri heimild til Afríkuríkja, og vilja nú fá að vinna á þessu bandi á SSB allan sólarhringinn. NRAU-félögin lögðust gegn þessu.
 • Vinna var sett í gang undir stjórn Norðmanna við að leggja drög að áætlun við að samræma betur bandplönin milli IARU-svæða.
 • Vandamál með ítalskan amatör sem gerst hefur þaulsetinn á 14.195 var rætt og endurteknum tilmælum beint til ítalska félagsins um að þeir taki á málinu.
 • Varðandi fyrirhugaða 100 kHz stækkun á 40 m bandinu var það skoðun félaganna að öll mode ættu að njóta.
 • Tillögur um contest-frí segment á 80 og 20 metra böndunum voru samþykktar. 40 metra bandið er erfiðara uns komin er 100 kHz-viðbótin. Þetta verður tekið upp á IARU Region 1-fundinum.
 • Tillögum sem lágu fyrir fundinum um evrópskan DX-kontest var hafnað.
 • Farið var yfir agamálin. Aðferð Finna af hvernig tekið er á þeim var lýst, en þar byrja menn á að fara með menn í sauna og útskýra vandamálið. Ef það dugir ekki, er farið aðra ferð í sauna, en í þetta sinn er hlustað á upptökur af framferðinu. Ef menn láta sér ekki segjast, þá er leyfið tekið af þeim. Þetta er framkvæmt af landsfélaginu með fulltingi yfirvalda.
 • Rætt var um split operation. Fundurinn sá ekki ástæðu til að takmarka slíkt, en erindið sem lá fyrir fundinum fjallaði um að slíkri operasjón skuli stillt í hóf og ekki hlustað á of breiðu tíðnibili.
 • Rætt var um framtíð í QSL-málum, m.a. hvort ætti að hætta rekstri bureau-a og fara alfarið yfir í stafrænt QSL. Fundurinn var mótfallinn þessum hugmyndum.
 • Heimatilbúinn kallmerkisnotkun svo sem TF3xx/QRP fylgir engum heimildum og félögin voru andsnúin slíkri notkun. Undantekning frá þessu var viðskeytið /D (þar sem D táknar disaster eða distress), sem ákveðið var að landsfélögin skyldu leita eftir heimildum fjarskiptayfirvalda til að nota í neyð.

Vel þótti hafa tekist til með aðkomu ÍRA að NRAU-fundinum, ekki síst m.t.t. eflingar samskipta og aukinna tengsla félaganna. Ákveðið var að birta frétt um fundinn í CQTF og mun TF3HP semja pistilinn.

2. Vetrardagskrá

TF3KX hefur óskað eftir aðstoð við yfirferð álitamála í stigagjöf til Útileika. Stjórnin tilnefnir Bjarna Sverrisson og Óskar Bjarnason til starfans. Stefnt er að kynningu á úrslitunum fimmtudagskvöldið 13. nóvember.

TF3GL og TF3HR munu kynna ný veftól félagsins á fundi 27. nóvember.

TF3HR kom með hugmynd um að sýna heimildarmynd í amatörbíó 4. desember.

TF3T getur síðan haldið fræðslukvöld um lúppur í janúar.

Þetta verður kynnt á vef félagsins og póstlistum. TF3SG sér um málaflokkinn.

3. Aðstöðumálin

Síðan síðasti stjórnarfundur var haldinn er búið að taka nýja sjakkinn í gegn og koma honum í gagnið, setja upp turninn og SteppIR-netið, þótt rás í stýriboxi hafi brunnið yfir og þurft að fá lánað box hjá TF3IGN. Einnig á eftir að stilla rótorinn. Nýi sjakkurinn var svo vígður með félagsþátttöku í CQWW SSB. Óskaði TF3HR eftir að sérstaklega yrði fært til bókar þakklæti félagsins til þeirra félagsmanna sem lagt hafa hönd á plóginn.

Rætt var um að sækja um leyfi fyrir öðrum turni. TF3HP tekur að sér að skoða hvar þetta mál er á vegi statt og undirbúa umsókn til viðeigandi aðila um uppsetningu turnsins.

4. Fjarskiptasafn

Þjóðminjasfnið f.h. Fjarskiptasafnsins á Melunum hafur óskað eftir aðkomu amatöra að sýningunni. Ákveðið var að leggja til við safnið að einfaldlega yrði sett upp radíóamatörstöð á staðnum þar sem skólakrakkar geta prófað að hlusta. Einnig þyrfti að útbúa veggspjald til að kynna ÍRA og amatörmennskuna. Hugsanlega myndi radíóklúbbur Háskóla Íslands vilja koma að þessu.

Stjórnin ákvað að beina því til Harðar Mar TF3HM hjá HÍ hvort þeir vildu koma að þessu og fá aðstoð félagsins ef með þarf.

5. Tíðnimál

TF3SG ætlar að virkja félagsmenn til að vinna að tíðnimálunum með félaginu með það að markmiði að vera í farabroddi meðal nágrannaþjóðanna hvað tíðniheimildir varðar. TF3GL hefur áhuga á að kortleggja tíðniheimildir sem amatörum hefur verið veittur aðgangur að í gegnum tíðina.

Fundi slitið kl 23.00

Fundargerð ritaði TF3GL