Morshluti CQ World Wide WPX keppninnar fór fram helgina 30.-31. maí s.l. Fjórar TF stöðvar skiluðu gögnum til keppnisnefndar tímaritsins samkvæmt eftirfarandi:

TF3W, einmenningsflokkur, öll bönd, aðstoð, háafl (op. TF3DC).
TF3VS, einmenningsflokkur, öll bönd, lágafl.
TF3JB, einmenningsflokkur, 20 metrar, lágafl.
TF3SG, viðmiðunardagbók (e. check-log).

Þátttakendur voru sammála um að skilyrði hafi almennt verið ágæt.

https://www.cqwpx.com/logs_received_cw.htm

Ólafur B. Ólafsson, TF3ML, varð QRV á ný á 50 MHz og 70 MHz laugardaginn 30. maí. Hann setti upp, fyrir utan bílskúrinn á planinu hjá sér í Grímsnesi, sérútbúinn 4 tonna vagn (sem hann keypti á sínum tíma frá Frakklandi) með áfestum turni, sem hækka má í allt að 28 metra hæð yfir jörðu. Öflugur rótor fylgir með turninum.

Að þessu sinni setti hann upp ný Yagi loftnet fyrir 6 metra og 4 metra böndin frá InnovAntennas. Það er annarsvegar, 8 el LFA Yagi á 50 MHz. Bómulengd: 12.5m og ávinningur: 14.05 dBi. Og hinsvegar, 9 el LFA Yagi á 70 MHz. Bómulengd: 10.4m og ávinningur: 14.72 dBi. Óli sagðist vera ánægður með árangurinn það sem af er þegar haft var samband við hann.

Myndin af Ólafi var tekin í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Turninn er glæsilegur og verkleg smíð. Hann er gerður fyrir færanleg fjarskiptavirki. Ljósmynd: Ólafur B. Ólafsson TF3ML.
Nýju loftnetin eru ekki síður glæsileg. Loftnetið fyrir 6M bandið er neðar og fyrir 4M ofar. Ljósmynd: Ólafur B. Ólafsson TF3ML.

 

Nú styttist í júníhefti CQ TF, 3. tbl. 2020, sem kemur út sunnudaginn 28. júní n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur efnis er til 16. júní n.k. Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Góð DX-skilyrði hafa verið undanfarna daga bæði á HF og VHF.

Efri böndin hafa verið vel opin á 17, 15, 12 og 10 metrum. Á „cluster“ má sjá að mörg TF kallmerki hafa haft áhugaverð DX-sambönd, m.a. TF1OL, TF2MSN, TF3GB, TF3VS, TF5B, TF6JZ og fleiri.

6 metra bandið verið líka verið spennandi; og eins og einn leyfishafi lýsti skilyrðunum þar, „…að 6 metrarnir hafi nánast verið opnir allan sólarhringinn að undanförnu“. TF1A, TF2MSN og TF8KY eru allir með ný loftnet á bandinu, þar af eru Óðinn og Hrafnkell báðir með stór 6el LFA Yagi loftnet frá InnovAntennas.

Spennandi opnanir hafa ennfremur verið á 4 metrum (70 MHz). Smári, TF8SM, birti t.d. mynd á FB síðum af skráningum á „cluster“ sem sýna sambönd 28. og 29. maí, m.a. við 9A, 9H1/9H4, DL, EA8, G (mörg kallsvæði), OX, PA og S5. Þess má geta að Smári er með nýtt Yagi loftnet á bandinu.

Radíóvitar TF3ML á Mýrum í Borgarfirði hafa sannað gildi sitt að undanförnu (eins og svo oft áður) og margar skráningar hafa borist inn á “cluster”. Þeir er á 6M (50.457 MHz) og 4M (70.057 MHz). Báðir nota sama kallmerki, TF1VHF.

Myndin er af glæsilegu 6 el LFA Yagi loftneti TF2MSN fyrir 50 MHz bandið sem hann setti saman ásamt Hannesi syni sínum 23. maí s.l. Þess má geta, að Hrafnkell TF8KY, setti samskonar loftnet upp skömmu áður. Ljósmynd: Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN.

Stjórn ÍRA samþykkti á fundi sínum í gær, 27. maí, að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði opin frá og með fimmtudeginum 11. júní n.k. Þá verða liðnir réttir 3 mánuðir frá því síðast var opið, þann 12. mars s.l.

Ákvörðunin byggir á minnisblaði sóttvarnalæknis varðandi afléttingu takmarkana á samkomum vegna COVID-19 dags. 25. maí 2020. Ný skilgreining á tveggja metra reglu er, að hún geti verið val fólks. Þannig má fólk sitja eða standa þétt en bjóða þarf þeim sem það vilja að halda tveggja metra fjarlægð. Allir einstaklingar eru engu að síður hvattir til að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu í samskiptum við aðra, eftir því sem aðstæður leyfa.

Um leið og við fögnum því að veiran er á undanhaldi og að óhætt er talið að opna félagsaðstöðuna á ný, eru það eru tilmæli stjórnar að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes á fimmtudagskvöldum, fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes.

Stjórn ÍRA.

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ, ungmennafulltrúi ÍRA vill koma því á framfæri, að vinnuhópur um málefni ungmenna innan IARU Svæðis 1, kynnir nýtt verkefni undir heitinu „YOTA online“. Á mánaðarlegum fundum á netinu, er markmiðið að kynna YOTA hugsunina og þar með vekja athygli á því að ungt fólk er þátttakendur í amatör radíói.

Hópur ungra virkra radíóamatöra mun kynna mismunandi hliðar áhugamálsins, samtímis því að svara spurningum á netinu. Ennfremur mun verða boðið upp á umfjöllun þar sem leyfishafar sem staðið hafa í forsvari fyrir hina ýmsu YOTA viðburði munu skýra frá reynslu sinni, ásamt því að svara spurningum.

Ástæða þess að farið er af stað með þetta málefni nú er vegna áhrifa Covid-19 faraldursins, sem hefur m.a. haft þau áhrif að öllum YOTA viðburðum á IARU Svæðum 1, 2 og 3 hefur verið aflýst eða frestað, sem og YOTA verkefninu sem fyrirhugað var að halda á Ham Radio sýningunni í Friedrichshafen í sumar.

Fyrsti „YOTA online“ viðburðurinn fer fram í kvöld, fimmtudaginn 28. maí, kl. 18:00 GMT. Fyrirhugað er, að viðburðurinn (livestream) mun standa yfir í u.þ.b. klukkustund. Gerð verður upptaka sem síðan má kalla fram á netinu. Þátttaka er opin öllum, allsstaðar í heiminum. Vefslóðin á viðburðinn:  https://www.facebook.com/hamyota/posts/2787529188035538

Nánar á vefslóðinni:  https://www.ham-yota.com/

Fylgist með frá byrjun. Góða skemmtun!

73, Elín, TF2EQ.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ í fjarskiptaherbergi ÍRA í Skeljanesi þegar hún virkjaði kallmerkið TF3YOTA í desember s.l. Ljósmynd: TF3JB.

Landsfélag radíóamatöra á Spáni (URE), hefur ákveðið að bjóða radíóamatörum um allan heim opinn aðgang að júníhefti félagsblaðsins RadioAficionados 2020. Blaðið er á spænsku, en smella má á neðri vefslóðina til að fá enska þýðingu.

ÍRA þakkar URE fyrir boðið sem hér með er komið á framfæri við félagsmenn.

Stjórn ÍRA.

Smellið á “Descargas” (hægra megin) og síðan á “Junio 2020 – Revista”
https://www.ure.es/descargas/

Google þýðing á ensku:
https://tinyurl.com/SpainURE

Morshluti CQ World Wide WPX keppninnar fer fram 30.-31. maí n.k. Markmiðið er að hafa sambönd við kallmerki með eins mörg mismunandi forskeyti (e. prefixes) og mögulegt er, á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Keppnin stendur yfir í 48 klst., en einmenningsstöðvar mega mest taka þátt í 36 klst. Á þátttökutímanum má taka eins mörg hlé og menn vilja, en hvert miðast að lágmarki við 60 mínútur.

  • Samband við hverja stöð gefur punkta einu sinni á bandi.
  • Sambönd við stöðvar í Evrópu (en utan Íslands) gefa 1 punkt á 14, 21 og 28 MHz; en 2 punkta á 1.8, 3.5 og 7 MHz.
  • Sambönd við stöðvar utan Evrópu gefa 3 punkta á 14, 21 og 28 MHz; en 6 punkta á 1.8, 3.5 og 7 MHz.
  • Margfaldari er summa fjölda mismunandi forskeyta sem haft er samband við og reiknast einu sinni, burtséð frá fjölda sambanda eða fjölda banda.

Í boði eru 9 mismunandi þátttökuflokkar fyrir einmenningsstöðvar, auk 5 flokka fleirmenningsstöðva.

Þess má geta til fróðleiks, að fimm TF stöðvar tóku þátt í keppninni í fyrra (2019): TF3AO, TF3DC, TF3GB, TF3VS og TF3Y.

Vefslóð á keppnisreglur: https://www.cqwpx.com/rules.htm

IEC (International Electrotechnical Commission) hefur hafnað frumvarpi WPT (Wireless Power Transfer) sem hefði geta haft í för með sér mengun í RF sviðinu upp í 30 MHz.

IARU sendi frumvarpið til aðildarfélaganna til kynningar. Stjórn ÍRA fjallaði um það á stjórnarfundum nr. 3 og 5 starfsárið 2018/19. Það var í framhaldi sent EMC nefnd félagsins til nánari umfjöllunar. Íslenskir radíóamatörar fagna þessari niðurstöðu sem er jákvæð fyrir radíóamatöra sem og aðra notendur sviðsins.

Stjórn ÍRA.

Vefslóð á kynningu IARU: http://rsgb.org/main/files/2018/06/WPT-for-MS_v2brief.pdf

Upplýsingar hafa komið fram um sex ný TF kallmerki sem voru handhafar DXCC viðurkenningarinnar þegar fyrir 67 árum. Þetta kemur m.a. fram í viðtali sem birtist í Alþýðublaðinu 10. janúar 1953 við þáverandi formann ÍRA, Ásgeir Magnússon, TF3AB. Nöfn og kallmerki:

Árni Egilsson, TF3AR.
Einar Pálsson, TF3EA.
Hannes Thorsteinsson, TF3ZM.
Sigurður Finnbogason, TF3SF.
Ingi Sveinsson, TF5SV (síðar TF3SV og TF3C).
Þórhallur Pálsson, TF5TP.

Í 2. tbl. CQ TF 2020 er birt uppfærð DXCC staða TF stöðva 7. mars 2020. Þar koma fram alls 17 íslensk kallmerki. Í ljósi þessara nýju upplýsinga er ljóst, að heildarfjöldi TF kallmerkja, sem eru handhafar DXCC, er a.m.k. 23 talsins. Þakkir til Kristjáns Benediktssonar, TF3KB, fyrir þessar upplýsingar.

Meðfylgjandi lJósmynd er af Einari Pálssyni TF3EA, fyrsta formanni ÍRA, í fjarskiptaherbergi sínu árið 1955. Sjá má m.a. áhugaverðar fjarskiptaviðurkenningar sem prýða herbergið.