Ágæt mæting var í Skeljanes fimmtudagskvöldið 23. maí. Þar sem vetrardagskrá félagsins lauk í byrjun mánaðarins, var í boði svokölluð „opin málaskrá“ sem er þegar félagarnir koma saman og ræða málin yfir kaffibolla, skoða nýjustu tímaritin og velta fyrir sér hinum ýmsu hliðum áhugamálsins.

Að þessu sinni lágu frammi 70 ára gömul QSL kort Sigurðar Finnbogasonar, TF3SF (sk). Þetta eru kort fyrir sambönd frá árunum 1948-1951 og var mjög áhugavert að skoða kortin og sjá hvaða sambönd menn voru að hafa á þessum tíma. Stjórn félagsins bárust þessi gögn til varðveislu í síðasta mánuði.

Um er að ræða 54 QSL kort í pakkningu frá ARRL, sem hafa verið endursend til landsins árið 1951 eftir DXCC uppfærslu vestanhafs. Kortin eru vel varðveitt og pakkningin heilleg og höfðu viðstaddir ánægju af að fletta þeim og spá og spekúlera. Kortin verða varðveitt í Skeljanesi og er félagsmönnum velkomið að skoða þau á opnunarkvöldum.

Stutt samantekt verður um kortin í næsta hefti CQ TF, 3. tbl. 2019, sem kemur út þann 30. júní n.k.

Skeljanesi 23. maí. Ljósmyndin er af pakkningunni frá ARRL, kortabunkanum sjálfum og A4 blaði þar sem QSL kortin fyrir sambönd sem voru höfð fyrir 70 árum eru sett upp í stafrófsröð eftir forskeytum kallmerkja. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Yngvi Harðarson TF3Y og Mathías Hagvaag TF3MH QSL stjóri ÍRA, skoða kortabunkann. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Laugardagsopnun verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi laugardaginn 25. maí. Húsið opnar kl. 14:00.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætir á staðinn og sýnir okkur hve auðvelt það er að taka á móti merkjum frá nýja EsHailSat  / OSCAR 100 gervihnettinum sem allir eru að tala um þessa dagana.

Þetta er gert með ódýrum og einföldum búnaði sem hann sýnir okkur.

Kaffi á könnunni og meðlæti.


Fyrsta sambandið gegnum Oscar 100 frá Íslandi. Myndin var tekin í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi 9. maí s.l., þegar Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A (VHF-stjóri ÍRA) og Erik Finskas TF3EY (OH2LAK) settu upp búnað og gerðu tilraunir í gegnum nýja Es’hail-2/P4A / Oscar 100 gervitunglið. Alls náðust 13 sambönd á SSB frá félagsstöðinni í gegnum tunglið. Fyrsta sambandið var við IT9CJC á Sikiley. Önnur DXCC lönd voru CT1, DL, EA5, F, G, OZ, PA og PY. Til fróðleiks má geta þess, að fjarlægðin frá Íslandi til Brasilíu (PY2RN) er 9.937 km. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 23. maí frá kl. 20-22:00.

Opin málaskrá, nýjustu tímaritin og góður félagsskapur. Kaffi, kex og kökur. Og frá og með þessu opnunarkvöldi verður jafnframt í boði Dilmah te í Skeljanesi.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Myndin var tekin í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 21. september 2018. Frá vinstri: Sigurður Kolbeinsson TF3-Ø66, Erik Finskas TF3EY (OH2LAK) og Njáll H. Hilmarsson TF3NH. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðunni Skeljanesi fimmtudaginn 16. maí kl. 20:00-22:00.

Opin málaskrá, kaffi, kex, kökur og góður félagsskapur.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi 27. september 2018. Jón G. Guðmundsson TF3LM við VHF/UHF stöð félagsins. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Laugardaginn 11. maí voru menn árrisulir og var mætt í Skeljanes í morgunkaffi. Verkefni dagsins var að færa og setja Diamond SX-200N VHF/UHF stangarloftnet TF3IRA á nýja festingu. Veður var eins og best verður á kosið, sól og vart ský á himni en nokkuð napurt eða um 6°C.

Loftnetið var fyrst sett upp á bráðabirgðafestingu 29. september (2018) og síðan á nýja öfluga veggfestingu 15. desember (2018). Nýja festingin var hins vegar með stuttu röri þannig að loftnetið lækkaði nokkuð frá því sem áður var. Það hafði m.a. þau áhrif, að ekki náðist ekki að opna endurvarpann Búra á 2 metrum.

Þessu var kippt í liðinn þegar Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Georg Kulp TF3GZ og Jónas Bjarnason TF3JB, mættu í félagsaðstöðuna til góðra verka. Georg gekk frá loftnetinu á nýja veggfestingu, Ari stjórnaði verkinu og JB lagaði kaffi.

Skemmst er frá því að segja, að verkefnið heppnaðist vel og Búri kemur nú inn í Skeljanesi ca. S5 á mæli enda er loftnetið a.m.k. 1 metra hærra en áður. Þórður Adolfsson, TF3DT og Wilhelm Sigurðsson, TF3AWS aðstoðuðu við prófanir á 2 metrum og 70 sentímetrum eftir færslu netsins.

Verkinu var lokið laust eftir kl. 12 og náðu menn að komast heim í hádegismat. Stjórn ÍRA þakkar viðeigandi fyrir vel heppnað verk.

Georg TF3GZ gengur frá Diamond loftnetinu á nýrri veggfestingu. Ari TF1A er ábúðarmikill enda stillti hann sér sértaklega upp fyrir myndatökuna.
Georg búinn að ganga frá netinu á leið inn af þakinu til að sjá hvort standbylgjumæling væri í lagi áður en gengið yrði endanlega frá fæðilínunni.
Ari mundar RigExpert AA-1400 loftnetsgreininn til að ganga úr skugga um að standbylgja væri í lagi.
RigExpert AA-1400 loftnetsgreinirinn sýndi að standbylgja gat ekki verið betri.
Diamond SX-200N VHF/UHF stangarloftnet TF3IRA komið upp á nýja veggfestingu. Ákveðið var að eiga gömlu festinguna (til vinstri) til góða í framtíðinni. Hægra megin má sjá J-pól loftnet sem notast við APRS búnað félagsins (TF3IRA-1Ø) og Vilhjálmur Í. Sigurjóns-son TF3VS smíðaði fyrir félagið. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, VHF-stjóri ÍRA og Erik Finskas TF3EY/OH2LAK, settu upp búnað og gerðu tilraunir í gegnum nýja Es’hail-2/P4A / Oscar 100 gervitunglið í fjarskiptaherbergi ÍRA þann 9. maí. Til að gera langa sögu stutta, náðust 13 sambönd á SSB frá TF3IRA í gegnum nýja tunglið. Fyrsta sambandið var við IT9CJC á Sikiley þann 9. maí kl. 20:40 GMT. Önnur DXCC lönd voru CT1, DL, EA5, F, G, OZ, PA og PY. Til viðmiðunar má geta þess, að fjarlægðin frá Íslandi til Brasilíu (PY2RN) er 9.937 km.

Settur var upp 85 cm metra diskur á þrífót við austurglugga á herberginu sem gaf góð merki. Fimm dögum áður hafði verið prófað að taka á móti merkjum frá tunglinu á 40 cm disk í salnum á neðri hæð sem gekk vel og þann 11. apríl hafði Erik náð merkjum í fjarskiptaherberginu með því að taka á móti merkjum á LNB (einnig í gegnum glugga).

Ari og Erik lánuðu búnaðinn sem til þurfti og var settur upp til bráðabirgða, en Kenwood TS-2000 stöð félagsins og annar búnaðar stöðvarinnar var einnig notaður. Þeir félagar, Ari og Erik, voru að vonum hæstánægðir með árangurinn. Stefnt er að því að varanlegur búnaður til fjarskipta frá TF3IRA um Oscar 100 verði settur upp fyrir lok næsta mánaðar (júní).

Fjarskiptaherbergi TF3IRA 9. maí 2019. Frá vinstri: Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Ari Þór Jóhannesson TF1A og Erik Finskas TF3EY/OH2LAK. Erik er á hljóðnemanum á SSB frá TF3IRA í fyrsta sambandinu frá Íslandi í gegnum nýja gervitunglið. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Erik, TF3EY/OH2LAK, tók alls 13 sambönd frá félagsstöðinni TF3IRA á SSB í gegnum nýja tunglið. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, gerði grein fyrir og kynnti úrslit í Páskaleikum ÍRA 2019 í Skeljanesi 9. maí. Leikarnir fóru fram 20.-21. apríl s.l. og var þátttaka góð en 17 leyfishafar skiluðu inn gögnum, af 20 skráðum. Keppnisreglum var breytt fyrir viðburðinn og sagði Hrafnkell að vænta mætti smávægilegra breytinga fyrir leikana á næsta ári (2020).

Þátttakendur voru ágætlega dreifðir um landið þótt flestir væru á Reykjavíkursvæðinu. Fjöldi sambanda í gagnagrunni var 390 og heildarvegalengd var alls 22.713 km. Leikarnir fóru fram á 2, 4, 6 og 80 metrum og 70 og 23 sentímetra böndunum.

Úrslit voru sem hér segir:

1. Óðinn Þór Hallgrímsson, TF2MSN, 4.655 stig.
2. Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, 3.456 stig.
3. Þórður Adolfsson, TF3DT, 3.249 stig.

Jónas Bjarnason, TF3JB, formaður ÍRA afhenti verðlaunagripi. Nánar verður sagt frá viðburðinum og úrslitum í grein í 3. tbl. CQ TF 2019 sem kemur út 30. júní n.k.

Skeljanesi 9. maí. Hrafnkell Sigurðsson TF8KY umsjónarmaður páskaleikanna flutti fróðlegan inngang um leikana og helstu úrslit. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Keli sýndi áhugaverðar glærur frá niðurstöðum leikanna, m.a. þessa sem sýnir lengstu sambönd í km á hverju bandi.
Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN varð í 1. sæti í Páskaleikunum 2019 með 4.655 stig. Jónas Bjarnason TF3JB, formaður ÍRA, les upp textann af verlaunagripnum. Óðinn Þór átti ekki heimangengt en Hrafnkell Sigurðsson TF8KY tók á móti verðlaununum félagsins fyrir hans hönd. Ljósmynd: Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Hrafnkell Sigurðsson TF8KY varð í 2. sæti í Páskaleikunum 2019 með 3.456 stig. Jónas Bjarnason TF3JB formaður ÍRA afhenti honum verðlaunagrip félagsins. Ljósmynd: Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Þórður Adolfsson TF3DT varð í 3. sæti í Páskaleikunum 2019. Jónas Bjarnason TF3JB formaður ÍRA afhenti honum verðlaunagrip félagsins. Ljósmynd: Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Glæsilegir verðlaunagripir í Páskaleikum ÍRA 2019. Þeir voru framleiddir af fyrirtækinu Marko-Merki í Hafnarfirði. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Njáll Hilmar Hilmarsson, TF3NH, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 9. maí og fjallaði um gervihnattasamskipti hjá radíóamatörum og iðnaðinum. Þetta var síðasta erindið á vetrardagskrá ÍRA í febúar-maí.

Erindi hans var fróðlegt og áhugavert og veitti góða innsýn í þennan spennandi „heim“ fjarskiptanna sem radíóamatörum stendur til boða og iðnaðurinn notar. Hann fór yfir sendingar frá geimstöðinni (þ.á.m. SSTV), fjallaði um nýja Es’hail-2/P4A / Oscar 100 gervitunglið sem er fyrsta amatörgervitunglið á staðbraut (e. geostationary). Hann útskýrði síðan „fótspor“ (e. footprint) fjarskiptahnatta s.s. Intelsat IS-907 sem er mjög sterkur yfir landinu.

Njáll fór yfir sérhæfð loftnet, þ.e. föst og mótorstýrð (og uppbyggingu þeirra) og sýndi okkur m.a. einfalt handloftnet á 2 metrum og 70 sentímetrum frá fyrirtækinu Arrow Antenna sem nota má til fjarskipta um gervitungl og sem nokkrir radíóamatörar hafa notað með góðum árangri hér á landi um árabil.

Hann fjallaði að lokum um geimfjarskipti og útskýrði m.a. töp vegna andrúmsloftsins, vegalengdar og seinkun á samskiptum vegna vegalengdar.

Njáll svaraði spurningum viðstaddra greiðlega og voru menn mjög ánægðir með greinargott erindi og hlaut hann gott klapp að lokum. Alls mættu 22 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta sólríka fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 9. maí. Njáll Hilmar Hilmarsson TF3NH flutti erindi um gervihnetti. Á myndinni skoðaði hann Iridium gervitunglið og útskýrði m.a. getu þess til fjarskipta.
Njáll útskýrði þau mörgu not sem iðnaðurinn (í víðum skilningi) hefur af fjarskiptum um gervihnetti og sýndi okkur m.a. myndir frá heimsókn hans til Þýskalands þar sem uppsettir eru á tiltölulega litlu landsvæði yfir 70 gervihnattadiskar og stýrt er frá sérstakri stjórnstöð.
Tiltölulega einfalt er að átta sig á töpum vegna vegalengdar í geimnum þegar slíkt er vel útskýrt af þeim sem til þekkir.
Njáll fór yfir SDR tæknina sem í dag er fáanleg við tiltölulega lágu verði fyrir radíóamatöra, m.a. til viðtöku merkja frá gervitunglum. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Síðasta erindið á vetrardagskrá ÍRA í febrúar-maí 2019 verður í boði fimmtudaginn 9. maí kl. 20:30. Þá mætir Njáll Hilmar Hilmarsson, TF3NH, í Skeljanes og flytur erindi um „Gervihnattasamskipti“.

Talað verður um gervihnattasamskipti sem radíóamatörar nota og sem notuð eru í iðnaði. Farið verður yfir þróun í þessum geirum og m.a. rætt um samskiptaleiðir með ýkt töp, m.a. vegna speglunar merkja af tunglum og reikistjörnum.

Í kaffihléi mun Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, kynna niðurstöður í Páskaleikunum 2019 ásamt því að veitt verða verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin.

Félagsmenn mætið tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

.

Í kaffihléi verða kynntar niðurstöður í Páskaleikum ÍRA 2019 ásamt því að afhending verðlauna fer fram til þeirra sem náðu bestum árangri.

Kaffispjall á laugardegi var í boði í félagsaðstöðu ÍRA þann 4. maí, frá kl. 13:30.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti á staðinn með nýju Icom IC-9700 stöðina, nýjan FeelElec  FY-6800 „signal generator“ og loftnet og mælitæki til móttöku merkja frá nýja Oscar 100 gervitunglinu. Daggeir Pálsson, TF7DHP, mætti einnig á staðinn með nýja Kenwood TS-590SG HF stöð, afmælisútgáfu, þ.e. „Special Edition 70th Anniversary“.

Byrjað var að skoða FY-6800 “signal generator’inn” og bar öllum saman um að miðað við 96 dollara verð (flutningur með DHL innifalinn) þá væru mjög góð kaup í þessu tæki. Það er vandað, með litaskjá og hefur komið vel út í prófunum hjá TF1A.

Daggeir, TF7DHP, sýndi okkur síðan afmælisútgáfu Kenwood TS-590SG stöðvarinnar sem hann hefur átt í nokkurn tíma. Þessi stöð var framleidd í takmörkuðu magni og er búin aukinni tæknilegri getu samanborið við TS-590SG grunnútgáfuna; glæsileg stöð.

Mikil spenna ríkti þegar 40cm diskloftnetið var sett á þrífótinn í salnum (við gluggann) og því beint í austurátt. Og viti menn, ótrúlega gott merki náðist fljótlega eins og sjá má á skjá Promax DVB mælitækisins (sbr. ljósmynd).

Viðstaddir fluttu sig næst upp í fjarskiptaherbergi félagsins á efri hæð og þar var nýja IC-9700 stöðin tengd. Hafi einhver verið í vafa áður, þá var svo ekki eftir að búið var að kveikja á tækinu. Hér vinnur saman afar vel heppnuð hönnun á stjórnborði og glæsileg bandsjá sem er ótrúlega þægileg aflestrar. Höfð voru sambönd á FM og SSB á 2 metrum og 70 cm við þá TF3AK, TF2MSN og TF8YY. Viðtaka var skýr og greinileg og allir gáfu umsögn þess efnis að mótun væri skýr og góð frá stöðinni.

Loks var haldið utanhúss og hugað að heppilegri staðsetningu fyrir diskloftnet fyrir nýja Oscar 100 gervitunglið og fannst sá staður fljótlega á veggnum fyrir neðan fjarskiptaherbergið á 2. hæð. Hugmynd VHF stjóra er, að gengið verði frá nýju loftneti eftir að sýningin í Friedrichshafen er yfirstaðin (í júní) þar sem heppilegt gæti verið að afla ýmissa smáhluta til verksins þar.

Stjórn ÍRA þakkar Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF1A, fyrir að eiga frumkvæði að því að hittast í kaffispjalli á laugardegi í Skeljanesi. Jafnframt eru þakkir til Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML, fyrir að lána nýju Icom IC-9700 stöðina og síðast en ekki síst, þakkir til Daggeirs Pálssonar, TF7DHP, fyrir innlitið. Alls mættu 12 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan ánægjulega sumardag.

Skeljanesi 4. maí. Fyrstu menn á staðinn byrjuðu að ræða málin yfir kaffisopa. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Jón E. Guðmundsson TF8-020, Mathías Hagvaag TF3MH, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Daggeir Pálsson TF7DHP.
TF3MH og TF1A voru ábúðarmiklir þegar kom að kynningu á FeelElec FY-6800 “Signal generator’num” sem er framleiddur í Kína. Hann lítur vel út og smíði hans virðist vönduð. Tækið var síðan sett í samband og þá kom í ljós litaskjár með upplýsingum. Ari kynnti getu tækisins sem m.a. getur einnig unnið sem tíðniteljari.
Menn fóru á netið í GSM símunum til að lesa nánar um tæknilega getu FY-6800 tækisins. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Þórður Adolfsson TF3DT og Jón E. Guðmundsson TF8-020.
40cm diskloftnetið komið á þrífót við austurgluggann í salnum. Merki frá Oscar 100 kom vel inn sbr. næstu mynd. Ari var spurður um þrífótinn og sagði hann að hann væri fáanlegur í BYKO og væri ætlaður til uppsetningar fyrir ljóskastara (og kostaði ekki mikið…).
Sjá má styrk merkisins frá Oscar 100 gervitunglinu á Promax mælitækinu. Mikil ánægja ríkti með þessa fyrstu niðurstöðu í ljósi þess hve lítið diskloftnet var notað.
Menn fylltu aftur á kaffibollana og veltu fyrir sér niðurstöðum mælinga á merkinu frá Oscar 100. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Þórður Adolfsson TF3DT, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Jón E. Guðmundsson TF8-20, Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Mathías Hagvaag TF3MH.
Myndin er af nýju Icom IC-9700 stöðinni. Til skýringar skal þess getið að skjámyndin sem sést á tækinu er aðeins ein af mörgum sem eru í boði. Bandsjáin er t.d. ekki sýnd á þessari mynd.
Góðar umsagnir við prófun á IC-9700 í QSO’um við TF3AK, TF2MSN og TF8YY. Tvær IC-9700 stöðvar eru komnar til landsins (sem vitað er um), þ.e. stöð Ólafs B. Ólafssonar TF3ML og stöð Garðars Valbergs Sveinssonar TF8YY. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.