Félagsheimili ÍRA verður að venju lokað að kvöldi skírdags.

Gleðilega páska.

Málefni aðalfundar ÍRA 2014:

Brynjólfur Jónsson, TF5B hefur sent inn tillögu til lagabreytingar.

Þessi breyting  á við fyrstu grein laganna og afleiður af þeim.

Lagt er til að breytt verði til fyrra horfs frá 1945 og skammstöfun félagsins verði  Í.R.A. en  ekki ÍRA.

Rökstuðningur.

Sjá Blaðsíðu 9 í meðfylgjandi PDF sklali

Fimmtudagkvöldið 10. apríl var G4ASR með mjög áhugaverða kynningu hjá ÍRA á VHF- samböndum yfir langar leiðir. David ætlar að senda okkur hlekk á kynninguna þegar hann kemst heim til sín aftur eftir páska og verður þá betur fjallað um kynninguna. David sagði að besta aðferðin til að ná gildum QSO-um á slíkum samböndum hefði verið að nota ofurhratt morse en að nýju stafrænu samskiptaaðferðirnar væru smá saman að taka yfir og að því fylgdi reyndar að ekki væri þörf á jafn mikilu afli og áður sem er hið besta mál. Hann lagði áherslu á að amatörar notuðu aldrei meira afl en nauðsynlegt væri til að ná sambandi. Vel var mætt í Skeljanesið og sáust þar nokkur andlit sem ekki eru þar oft á ferðinni.

Á myndinni er David fyrir miðju en til hægri er Villi, TF3DX og til vinstri Ómar, OZ1OM.

Líflegar umræður mynduðust í öllum hornum félagsheimilisins á eftir sem kannski verða til þess að fleiri TF stöðvar fari að fikta við ofurvegalöng VHF/UHF/GHF sambönd en David var hissa á hve fáir hér á landi hafa reynt það hingað til. Ekki er úr vegi að minna á að fjarlægðin frá Íslandi til Noregs er ekki nema 1000 km og VHF stöðvar staðsettar á háu fjöllunum á austurlandi ættu að geta náð samböndum við Noreg, Færeyjar og Bretland.

Prófnefnd ÍRA ályktaði eftirfarandi á fundi sínum 29. apríl 2013:

————————————————————————————————————————————————–

Ályktun 29. apríl 2013

 

Prófnefnd ÍRA ályktar að í bókinni “Siðfræði og samskiptasiðir radíóamatöra” séu afar góðar ráðleggingar um siðfræði og aðferðir í starfi radíóamatöra. Þess heldur er mjög óheppilegt hve alvarlegar villur hafa slæðst inn í kaflann um símritun. Hann kennir áður óþekkta merkingu og notkun símritunartákna sem stríðir gegn Alþjóða fjarskiptareglugerðinni og venju til langs tíma. Það ýtir undir rugling og getur stíað í sundur byrjendum og reyndum iðkendum símritunar. Bókin verður ekki sett á lista nefndarinnar yfir námsefni eins og hún er.

—————————————————————————————————————————————————

 

Þessari ályktun var beint til stjórnar ÍRA 6. maí 2013. Þá stóðu yfir viðræður við höfunda bókarinnar, í þeirri von að þeir myndu gera nauðsynlegar leiðréttingar sjálfir. Því var stjórn beðin um að bíða með kynningu uns niðurstaða fengist í það hvort svo yrði.

Mikil og vingjarnleg samskipti tókust við Belgíu sem stóðu yfir lengur en ætlað var. Á fundi stjórnar ÍRA þann 10. október 2013, þar sem mættir voru TF3SG, TF3AM, TF3CY og TF3HRY, var málið tekið fyrir og samþykkt að boða til fundar með Prófnefnd. Þá voru viðræður við höfundana á lokasprettinum, og um miðjan nóvember varð ljóst að ekki næðist samkomulag sem duga myndi til að vinda ofan af alvarlegustu villunni (AR í stað K á eftir CQ). Fundur stjórnar og Prófnefndar var þá haldinn 16. nóvember með þátttöku TF3SG, TF3AM, TF3HRY, TF3VS og TF3DX.

Þann 3. mars s.l. sendi ÍRA bréf til IARU. Þar er í grundvallaratriðum spurt hvort það hafi verið ætlun IARU að breyta ríkjandi samskiptareglum á morsi með viðurkenningu sinni á bókinni. Þremur vikum síðar barst svarbréf frá IARU, þar sem spurningunni var ákveðið svarað neitandi. Enn fremur að mikilvægt væri að snúa sér að því að koma í veg fyrir þann rugling sem bókin veldur. ÍRA var hvatt til að leggja tillögu fyrir ráðstefnu IARU-svæðis 1 (Region 1) í haust, og á það bent að aðeins vika væri til stefnu fyrir skilafrest. Stjórn ÍRA skipaði TF3DX (form. prófn.), TF3VS (ritara prófn. og þýðanda bókarinnar) og TF3KB (IARU tengilið)  í vinnuhóp til að leiða þetta mál til lykta og erindið til ráðstefnunnar náði inn á elleftu stundu.

Það og önnur gögn eru aðgengileg á slóðinni http://bit.ly/MGrcRj

Allir félagar ÍRA eru hvattir til að sýna fyllstu tillitssemi og kurteisi í garð höfunda bókarinnar ef þeir ræða málið út á við.  Hér er eingöngu um málefnalegan ágreining að ræða, alls ekki persónulegan.

 

73

Guðmundur, TF3SG

David Butler, G4ASR verður með fimmtudagserindi næstkomandi fimmtudag 10. apríl. Gert er ráð fyrir að erindið hefjist upp úr kl. 20.00
David kallar erindið “Making more Miles at VHF”
Erindið er um það bil 1 klukkustund.
David hefur í mörg ár verið virkur á VHF.  Hann var til að mynda VHF Manager RSGB í 21 ár.  Hætti 2012.
Eftir David eru margar greinar í Practical Wireless, þar skrifaði hann um VHF mál í 25 ár.
73
Guðmundur, TF3SG

Stjórn Íslenskra radíóamatöra minnir á að ráðgert er að halda aðalfund ÍRA þann 17. maí 2014 í sal TR að Faxafeni 12.

Minnt er á að tillögum að lagabreytingum sem um er fjallað í 27. grein félagslaga ÍRA  verður að skila inn fyrir 15. apríl

27. gr.

Félagslögum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda hafi frumvarp að nýjum eða breyttum greinum borist stjórn félagsins fyrir 15. apríl og verið dreift með aðalfundarboði. Þó getur aðalfundur samþykkt breytingar á félagslögum, sem fram koma á fundinum, séu 88% fundarmanna samþykkir. Breytingartillögur sem fram koma á aðalfundi skulu einungis varða þær tillögur er þar liggja fyrir og nauðsynlegar afleiðingar þeirra. Með tillögum að breytingum skal fylgja skrifleg greinargerð þar sem gerð er grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntum áhrifum þeirra. Sé ætlunin að lagabreyting hafi víðtækari áhrif en eingöngu á félagslögin sjálf, svo sem ógildi sérstakar aðalfundarályktanir eða sérstakar samþykktir fyrri aðalfunda skal sérstaklega vísað til þeirra í viðkomandi breytingartillögu og greinargerð.

 

73

Guðmundur, TF3SG

Holly Wilson, KG5AOG. Myndina tók Cassie Smith

Holly notar frítíma sinn til að æfa sig í að setja upp loftnet og varast að loftnetið komi nálægt rafmagnslínum en þegar hún leggur frá sér talstöðina snýr hún sér að gullfiskinum sínum eða leikur sér í Mincraft. Reglan segir Holly er að gefa upp kallmerkið ekki sjaldnar en með tíu mínútna millibili. Í USA hefur á undanförnum árum í kjölfar náttúruhamfara eins og fellibylsins Katarínu verið gert átak í að fjölga radíóamatörum og L.B. Little formaður radíóklúbbsins í Texas Beaumont Amateur Radio Club þar sem Holly býr er ánægður því undanfarin ár hefur meðalaldur þeirra sem sækja námskeið og fá leyfi verið yfir 30 ár. Holly segist upphaflega fengið áhuga á geta talað við föður sinn, Joseph Wilson í talstöðinni.
Holly tók tæknileyfispróf en segist ákveðin í að halda áfram að læra meira og ná hærra leyfi.

…þessi frétt kom upp þegar leitað var að nýjum YL á internetinu í tilefni af YL fundinum sem verður hér í vor…

Nokkrir kjarkmiklir karlamatörar, rúmlega einn tugur, áttu mjög skemmtilega stund með þeim Önnu, TF3VG og Völu, TF3VD í Skeljanesi í gærkvöldi. Þær kynntu alþjóðlega YL ráðstefnu sem fram fer í Reykjavík núna í maí og var kynningin allt að einu fróðleg, lifandi og framúrskarandi vel flutt.

Það var áhugavert að fá þessa skemmtilegu kynningu á YL starfinu og á vönduðum undirbúningi þeirra fyrir ráðstefnuna og heyra líka af SYLRA 2015, Scandinavian Young Ladies Radio Amateurs ráðstefnunni sem verður haldin hér á landi á næsta ári.

ÍRA félagar eru hvattir til að taka þátt og mæta á kvöldverðinn í vor, ennþá er hægt að skrá sig með því að senda tölvupóst á Völu, tf3vd@centrum.is, sjá nánar fréttina hér á undan.

Anna og Vala

Takk Anna og Vala fyrir frábært kvöld

heimasíða ráðstefnunnar: www.iyl.ritmal.is

Anna og Vala verða á opnu húsi í kvöld í Skeljanesi og segja frá alþjóðlegu samstarfi YL, ráðstefnum sem þær hafa farið á og starfinu framundan. Dagana 9. til 12. maí næstkomandi verður haldin alþjóðleg ráðstefna kvenradíóamatöra hér á Íslandi, International Young Lady conference. 26 erlendir gestir, 16 YL og 10 OM hafa boðað komu sína á ráðstefnuna

Föstudaginn 9. maí fer hópurinn í skoðunarferð um Reykjavík sem endar í Skerjafirðinum hjá ÍRA um kl. 16. Félagsmenn ÍRA eru hvattir til að kíkja við í Skerjafirðinum á leið heim úr vinnu þann dag, hitta erlendu gestina, spjalla um áhugamálið og kynna sig.

Laugardaginn 10. maí ætla konurnar að eiga stund saman en karlarnir fara í “dagvistun” hjá ÍRA. Þann dag frá kl. 10 til 15 verður opið hús í Skerjafirðinum þar sem erlendu gestunum gefst tækifæri til að taka í lykilinn, prófa mækinn og skoða búnað TF3IRA, jafnvel taka þátt í einhverju verkefni við stöðina eins og að lagfæra eða setja upp loftnet.

Sunnudaginn 11. maí verður hinn eiginlegi ráðstefnudagur og eru ÍRA félagar og aðrir áhugasamir velkomnir á ráðstefnuna. Á ráðstefnunni kynna Íslenskir fyrirlesarar ýmis fjarskiptatengd verkefni á ensku. Meðal annars ætlar starfsmaður 112 að kynna öryggisfjarskiptakerfi landsins og Sólveig Þorvaldsdóttir fyrrum framkvæmdastjóri Almannavarna ætlar að segja frá ýmsum alþjóðlegum rústabjörgunarverkefnum og mikilvægi fjarskipta þeim tengdum. Ráðstefnan verður frá kl. 13 til  16 og er þátttökugjaldið 1.500 kr. Á ráðstefnunni verður boðið uppá kaffi og meðlæti.

Að kvöldi sunnudagsins stendur ÍRA félögum til boða að taka þátt í hátíðarkvöldverði ráðstefnunnar. Kvöldverður, 3 rétta, kostar 9.500 á mann. Þeir sem koma bæði á ráðstefnu og kvöldverð greiða fyrir það samtals 10.000 krónur.

Vegna vinnu við skipulag ráðstefnunnar er mikilvægt að áhugasamir skrái sig, að minnsta kosti á kvöldverðinn, sem fyrst. Vala tekur við skráningu í netfangið tf3vd@centrum.is. Heimasíða ráðstefnunnar er www.iyl.ritmal.is.

TF2SUT og TF3JA fóru í Bláfjöll um kvöldmatarleytið í gær og settu upp nýtt loftnet á APRS stafapéturinn, TF3APB. Sett var upp Kathrein tveggja staka loftnet sem vísar í austurátt og inná suðurhluta miðhálendis landsins. Búnaðurinn virkar vel að því er virðist við fyrstu prófanir. Loftnetið hafði brotnað og fokið út í veður og vind snemma vetrar. Stafavarpinn vann samt sem áður í allan vetur á slitnum RG-58 kóax en með mjög skertri ruglingslegri virkni sem skýrist af sveiflandi kóaxenda í ýmsum veðrum og vindum. Hér fyrir neðan er vindhraðakúrfa við Bláfjallaskála síðasta sólarhring. Verkinu lauk uppúr níu í gærkvöldi. Ekki verður sagt annað en að þjónusta Bláfjallastarfsfólks hafi verið frábær því þegar þeir sáu eftir að lyftum hafði verið lokað að einn lítill rauður Yaris stóð eftir mannlaus á bílastæðinu og óveður í aðsigi fundu þeir út með hjálp lögreglu hver var á bílnum og hringdu til að kanna hvort ekki væri allt í lagi. Svo vel vildi til að þeir TF2SUT og TF3JA voru þá eimmitt að týa sig til heimferðar og eins og hendi væri veifað kom Bláfjallastarfsmaður á vélsleða og skutlaði þeim niður á bílastæðið ásamt öllum búnaði í tveimur ferðum. Í vor er á döfinni loftbelgjaflug og jafnvel eldflaugarskot hér á skerinu.

Vindhraði við Bláfjallaskála