Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 19. september.

Nýjustu tímaritin, góður félagsskapur, kaffi og meðlæti.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Hressir menn í Skeljanesi. Frá vinstri: Íslandsvinirnir Salvatore Sasso IC8SQS og Claudio Corcione TF2CL (IC8BNR) ásamt Jónasi Bjarnasyni TF3JB, Ara Þór Jóhannessyni TF1A og Yngva Harðarsyni TF3Y. Myndin var tekin í fjarskiptaherbergi TF3IRA 26. apríl 2012. Ljósmynd: TF3JON.

Í samræmi við starfsáætlun stjórnar og að höfðu samráði við Prófnefnd og Umsjónarmann námskeiða, hefur verið ákveðið að kanna áhuga á þátttöku í námskeiði til amatörprófs.

Fyrirhugað er að námskeiðið hefjist 14. október n.k. og ljúki með prófi Póst- og fjarskiptastofnunar í desember. Kennt verður á kvöldin tvo daga í viku í húsnæði Háskólans í Reykjavík. Námskeiðið er öllum opið og ekki eru gerðar kröfur um sérstaka menntun eða undirbúning.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang á “ira hjá ira.is”. Skráningu fylgir engin skuldbinding, en veitir félaginu upplýsingar um fyrirhugaðan fjölda þátttakenda.

Fyrirspurnum má beina á sama tölvupóstfang.

Skráning er opin til 11. október n.k. Félagið setur þann fyrirvara um námskeiðshald, að lágmarksþátttaka fáist.

Stjórn ÍRA.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 12. september.

Nýjustu tímaritin, góður félagsskapur, kaffi og meðlæti.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Hressir félagar á góðri stund í Skeljanesi. Frá vinstri: Haraldur Þórðarson TF8HP, Jón Gunnar Harðarson TF3PPN og Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG. Myndin var tekin 26.4.2012. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Sveinbjörn Jónsson, TF8V, hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Bragi Reynisson, TF3BR, hefur sett upplýsingar inn á Facebook þess efnis, að Sveinbjörn hafi látist á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eftir stutt veikindi 6. september. Hann var á 55. aldursári, leyfishafi nr. 206.

Um leið og við minnumst Sveinbjörns með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður

Efnt var til kynningar- og umræðufundar í Skeljanesi 5. september í tilefni bráðabirgðaákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 17/2019.

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA, formaður EMC nefndar félagsins hafði framsögu og fór yfir ákvörðunina, sem varðar kvörtun vegna truflana frá radíóamatör á sjónvarpsmóttöku og gæðum nettengingar hjá nágranna hans.

Við mælingar tæknideildar PFS á vettvangi var truflunin staðfest. Ekki kemur fram að búnaði leyfishafa sé áfátt, en ýmislegt fannst sem betur mátti fara hjá nágrannanum, sem m.a. varðar VDSL fastlínusamband (tengingar í götuskáp), aðrar tengingar og tækjabúnað hans.

Málið er ekki einfalt, því sem dæmi kemur m.a. fram, að radíóamatörinn var beðin um að vera ekki í loftinu í eina viku (sem hann samþykkti), en á þeim tíma komu áfram fram truflanir hjá nágrannanum.

Stjórn ÍRA mun ráðfæra sig við EMC nefnd félagsins og stefnt er að því að birta umfjöllun um málið í heild í næsta hefti CQ TF sem kemur út 29. september n.k.

Alls mættu 30 félagsmenn og 1 gestur í Skeljanes þetta fróðlega fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 5. september. Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA formaður EMC nefndar ÍRA fór yfir og ræddi bráðabirgðaákvörðun PFS nr. 17/2019. Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Einar Kjartansson TF3EK, Snorri Ingimarsson TF3IK og Georg Kulp TF3GZ.
Sæmundur svaraði fjölmörgum spurningum félagsmanna um málið. Frá vinstri: Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Einar Kjartansson TF3EK, Snorri Ingimarsson TF3IK, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN og Georg Kulp TF3GZ.
Góð mæting var á fundinn og voru félagsmenn dreifðir um fundarsalinn eins og sjá má á myndinni. Frá vinstri: Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, Snorri Ingimarsson TF3IK, Georg Kulp TF3GZ, Gunnar Helgason TF3-017, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Ársæll Óskarsson TF3AO, Georg Magnússon TF2LL, Kristján Benediktsson TF3KB, Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Mathías Hagvaag TF3MH.
Frá vinstri: Georg Magnússon TF2LL, Ársæll Óskarsson TF3AO, Jón Björnsson TF3PW, Jón G. Guðmundsson TF3LM, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB og Yngvi Harðarson TF3Y.
Góður gestur heimsótti félagið 5. september. Það var Nina Riehtmüller DL2GRC. Henni á hægri hönd er Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og á vinstri hönd, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS. Hún er í heimsókn hér á landi ásamt OM Holger Riehtmüller DL8SCU og syni þeirra. Hún sagði fjölskyldan væri mjög hrifin af íslenskri náttúru auk þess sem þau hafi verið heppin með að sjá mikla norðurljósavirkni. Nina hafði m.a. sambönd um nýjan búnað TF3IRA til fjarskipta um Es’Hail-2/P4A / Oscar 100 gervitunglið er varð þar með fyrsti YL radíóamatörinn sem hefur samband um tunglið frá TF. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Skýrt var frá bráðabirgðaákvörðun PFS nr. 17/2019 er varðar fjarskiptatruflanir af völdum talstöðvarnotkunar á heimasíðu ÍRA þann 23. ágúst s.l.

Stjórn ÍRA hefur ákveðið, að höfðu samráði við EMC nefnd félagsins, að málið verið til umræðu í Skeljanesi, fimmtudaginn 5. september n.k., kl. 20:30.

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA, formaður EMC nefndar, mun hafa framsögu.

Kaffiveitingar.

Stjórn ÍRA.

Nú styttist í septemberhefti CQ TF.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur efnis er til 14. september n.k. Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

ÍRA hefur borist að gjöf tveir vandaðir stólar til notkunar í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Það var Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, sem færði félaginu þessa nytsömu gjöf fimmtudaginn 29. ágúst. Stólarnir koma í góðar þarfir og hefur verið fundinn staður í fundarsal á 1. hæð.

Sama dag komu Thomas W. Brooks, KE1R og XYL Rosemarie Bagioni, N1DSP í heimsókn í Skeljanes og  færðu félaginu að gjöf bækurnar Guide to HF Data on FT8 & PSK using WSJT-X and Fldigi eftir Rob Walker, G3ZJQ og Energy Choices for the Radio Amateur eftir Bob Bruninga, WB4APR. Báðar eru nýjar á markaði og komu fyrst út á þessu ári, 2019. Þá færðu þau okkur ennfremur nýjustu útgáfurnar af QEX og NCJ tímaritunum sem eru gefin út af ARRL. Gjafirnar verða merktar og munu liggja frammi í Skeljanesi.

Stjórn ÍRA þakkar gefendunum góðar og nytsamar gjafir.

Leðurstólarnir sem TF1A færði félaginu að gjöf 29. ágúst. Þeim hefur verið valinn staður í fundarsal í Skeljanesi. Mynd: TF3JB.
Bækurnar og tímaritin sem þau KE1R og N1DSP færðu félaginu að gjöf 29. ágúst munu liggja frammi í Skeljanesi. Mynd: TF3JB.

Fundi í undirbúningsnefnd ITU vegna tíðniákvörðunarráðstefna ITU 2019 og 2023 (WRC) lauk í Ankara í Tyrklandi í gær, 29. ágúst.

Meðal mála sem varða tíðnisvið radíóamatöra, er léttir að skýra frá því að tillögu franskra stjórnvalda um hugsanlegan aðgang flugþjónustunnar að 144-146 MHz bandinu (mál vegna WRC 2023), var felld á fundinum.

Í annan stað verður tillaga um úthlutun 50-52 MHz bandsins til radíóamatöra tekin á dagskrá á ráðstefnunni 2019, á víkjandi grundvelli, með neðanmálsgrein um lönd sem munu heimila sínum leyfishöfum að fá ríkjandi aðild að tíðnisviðinu 50-50.5 MHz.

ÍRA þakkar Póst- og fjarskiptastofnun fyrir stuðninginn við ofangreind mál (og fleiri) á þessum vettvangi. Síðast, en ekki síst, ber að þakka fulltrúum radíóamatörþjónustunnar, IARU, fyrir góðan undirbúning og skeleggan málflutning.

Nánar verður fjallað um þessi mál (og fleiri) í næsta hefti CQ TF (4. tbl. 2019) sem kemur út sunnudaginn 29. september n.k.

Stjórn ÍRA.

Góð mæting var í félagsaðstöðuna í Skeljanesi 29. ágúst. Heiðursgestir kvöldsins voru Thomas W. Brooks, KE1R og XYL Rosemarie Bagioni, N1DSP frá Connecticut í Bandaríkjunum. Ennfremur kom Elín Sigurðardóttir, TF2EQ, á staðinn en hún er í stuttri heimsókn á Íslandi um þessar mundir.

Þau hjón búa steinsnar frá aðalstöðvum ARRL í Connecticut og starfar Tom þar m.a. sem sjálfboðaliði og Rosemarie er virk í neyðarfjarskiptum radíóamatöra þar um slóðir. Þau voru afar ánægð með ferðina til Íslands og áttu vart nógu sterk orð um fegurð náttúru landsins.

Þau voru jafnframt mjög ánægð með að hitta svo marga íslenska leyfishafa, en 24 félagsmenn mættu í Skeljanes þetta síðasta kvöld ágústmánaðar.

Tom KE1R í fjarskiptaherbergi félagsins. Hann var afar ánægður með að ná samböndum frá TF3IRA við vini sína heima í Connecticut. Hann sagði að fjarskiptaaðstaðan væri fyrsta flokks hjá félaginu. Ljósmynd: TF3JB.
Rosemarie N1DSP átti gott samtal við Eínu TF2EQ. Hún er mjög áhugasöm um allt í sambandi við amatör radíó og er m.a. virk í neyðarfjarskiptum í Connecticut. Ljósmynd: TF3JB.
Við stóra borðið. Frá vinstri (næst myndavél): Einar Kjartansson TF3EK, Jón Björnsson TF3PW, Benedikt Sveinsson TF3T, Baldvin Þórarinsson TF3-033, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB og Bernhard M. Svavarsson TF3BS. Ljósmynd: TF3JB.
Vel fór á með þeim Jóni E. Guðmundssyni TF8-020 og Hans Konrad Kristjánssyni TF3FG í leðursófasettinu. Ljósmynd: TF3JB.
Ólafur Örn Ólafsson TF1OL og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS litu upp eitt augnablik frá umræðum um loftnet. Ljósmynd: TF3JB.
Bernhald M. Svavarsson TF3BS og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A. Ari hélt áfram stillingum þetta fimmtudagskvöld á búnaði TF3IRA til fjarskipta um Es’Hail-2/P4A / Oscar 100 gervitunglið. Fróðlegt og áhugavert var að heyra hann hafa sambönd, m.a. við radíóamatöra í Suður-Afríku um gervitunglið. Góður styrkur, ekkert QSB o.s.frv. sem vaninn er að þurfa að lifa við á HF-böndunum. Ljósmynd: TF3JB.