CQ World Wide DX CW keppnin 2019 var haldin helgina 23.-24. nóvember.

Gögnum var skilað inn fyrir átta TF kallmerki, þar af keppnisdagbókum fyrir fjögur og skiptust stöðvarnar á fjóra keppnisflokka:

 • TF3VS – einm. flokkur, 20 metrar, lágafl.
 • TF3W – einm. flokkur, 20 metrar, aðstoð, háafl (op. TF3DC).
 • TF3JB – einm. flokkur, 40 metrar, háafl.
 • TF3EO – einm. flokkur, öll bönd, aðstoð, lágafl.
 • TF3DC, TF3SG, TF3Y og TF4M sendu inn samanburðardagbók (e. check-log).

Vitað er um tvo íslenska radíóamatöra sem tóku þátt í keppninni erlendis frá, þá Sigurð R. Jakobsson, TF3CW og Ómar Magnússon, OZ1OM (TF3WK). Sigurður virkjaði ED8W á eyjunni La Palma, sem er ein af sjö eyjum Kanaríeyja og Ómar var QRV frá Óðinsvéum í Danmörku.

 • ED8W – einm. flokkur, 40 metrar, háafl.
 • OZ1OM – einm. flokkur, öll bönd, aðstoð, lágafl, “classic”.

Bráðabirgðaniðurstöður (e. raw scores) eru væntanlegar fljótlega.https://www.cqww.com/logs_received_cw.htm

Kristinn Andersen, TF3KX, mætti í Skeljanes á vetrardagskrá ÍRA þann 28. nóvember með erindið „QRP afl, heimasmíði og notkun QRP senda“.

Hann fór fyrst yfir QRP skilgreiningarnar, en QRP afl miðast oftast við mest 5W á morsi (10W á SSB) og QRPp  við mest 1W. Hann útskýrði vel hversu vel QRP afl skilar sér í raun. Því til sönnunar lék hann upptöku af sendingu á morsi frá radíóvita 4U1UN/B í New York á 14.100 MHz. Fyrst var sent stutt merki á 100W, síðan á 10W, þá á 1W og loks á 0,1W. Sérlega áhugavert var að heyra hversu læsilegt merkið var í öllum afldæmunum – meira að segja á 0,1W í restina.

Kristinn lýsti eigin reynslu af að vinna á QRP afli og var áhugavert að skoða fjarskiptadagbók hans (sem gekk á milli manna á meðan hann flutti erindið). Hann fjallaði um mikilvægi góðra loftneta, en að sama skapi væri einnig spennandi að nota algeng loftnet eins og t.d. hálfbylgju endafæddan vír (t.d. á 20 metrum) og benti á að þannig væri auðvelt að hafa sambönd yfir þúsundir kílómetra um allan heim.

Hann fór yfir QRP stöðvar og búnað sem eru í boði í dag, bæði samsettar og ósamsettar. Nefndi í því sambandi eigin QRP stöð (2W á morsi) frá Small Wonder Labs  og Elecraft stöð, K2 (0-15W á morsi og SSB) sem voru til sýnis á staðnum, en báðar voru keyptar ósamsettar. Hann útskýrði einnig, að 2W stöðin væri hluti af búnaði sem hann hefði í tösku sem væri þægilegt að grípa með sér, t.d. í sumarbústað eða jafnvel erlendis (sem hann hefur gert).

Erindi Kristins var afar vel heppnað. Það var vel flutt, skemmtilegt og fróðlegt og veitti góða innsýn í þennan áhugaverða þátt áhugamálsins sem nýtur vaxandi vinsælda með hverju ári sem líður. Held að allir viðstaddir geti tekið undir með TF3OM, sem þakkaði Kristni á Facebook í morgun fyrir „stórgóðan fund í gærkvöldi“. Alls mættu 33 félagsmenn í Skeljanes þetta kyrrláta vetrarkvöld í Vesturbænum.

Ánægjulegt er jafnframt að geta um góða gjöf Hans Konrads Kristjánssonar, TF3FG, sem færði félaginu tvo „signal gererator‘a“, HF sendi og 1000W HF magnara (hvorutveggja af Harris gerð, sbr. ljósmynd). Bestu þakkir til Hans Konrads.

Skeljanesi 28. nóvember. Kristinn Andersen TF3KX flutti erindi í félagsaðstöðu ÍRA um “QRP afl, heimasmíði og notkun QRP senda”.
Eftir erindið sýndi Kristinn QRP stöðvar og búnað, m.a. Elecraft K2 sem er sendi-/móttökustöð á 10-80M sem hann keypti ósamsetta frá Bandaríkjunum (hún getur einnig unnið á 160M ef bætt er við aukabúnaði). Hún er búin 0-15W sendi á morsi og tali (SSB) og er fyrirferðarlítil og létt. K2 getur unnið á innbyggðum rafhlöðum (endurhlaðanlegum) jafnt sem utanaðkomandi 13.8VDC. Á mynd frá vinstri: Gunnar Bergþór Pálsson TF3-017, Kristinn Andersen TF3KX og Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN.
Þórður Adolfsson TF3DT og Ari Þór Jóhannesson TF1A tryggðu sér bestu sæti áður en erindið hófst. Tíðindamanni er ókunnugt um merkingu fingrasetningar Ara…
Í fundarhléi vann gjarldkeri félagsins m.a. sín störf, sem að þessu sinni var að taka á móti félagsgjaldi. Frá vinstri: Jón Björnsson TF3PW gjaldkeri ÍRA handleikur seðla, Kristján Benediktsson TF3KB, Ársæll Óskarsson TF3AO, Yngvi Harðarson TF3Y, Óskar Sverrisson TF3DC, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG (standandi), Stefán Arndal TF3SA og Þór Þórisson TF1GW.
Frá vinstri: Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Mathías Hagvaag TF3MH (sitjandi), Þór Þórisson TF1GW, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Kristinn Andersen TF3KX og Gunnar Bergþór Pálsson TF3-017.
Eftir erindið var skeggrætt um QRP hluta áhugamálsins. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Yngvi Harðarson TF3Y, Óskar Sverrisson TF3DC og Kristinn Andersen TF3KX.
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG færði félaginu góða gjöf. Það eru “signal gerator’ar” af vandaðri gerð og HF sendir og HF magnari (1000W) af Harris gerð. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Áramótasending korta frá TF ÍRA QSL Bureau (kortastofu) fer að þessu sinni fram í janúar 2020. Þá verða öll kort sem borist hafa til stofunnar (þ.á.m. til smærri staða) póstlögð til kortastofa systurfélaganna um allan heim.

Síðasti skiladagur vegna áramótaútsendingar 2019/20 verður fimmtudagskvöldið 9. janúar 2020. Þau kort sem berast í QSL kassann í Skeljanesi það kvöld verða örugg með að komast í flokkun og til útsendingar. Gjaldskrá er óbreytt, 10 krónur á kort, sama hvert sem er í heiminum.

28. nóvember 2019,

73,
Mathías Hagvaag, TF3MH,
QSL stjóri ÍRA.

Mathías Hagvaag TF3MH QSL stjóri TF QSL Bureau við QSL kassa kortastofunnar í Skeljanesi. Hægra megin við hann má sjá sérstakan kassa þar sem félagsmenn setja kort til útsendingar. Vinstra megin við QSL kassann (sést ekki á mynd) eru bakkar á veggnum með skilagreinum og árituðum umslögum sem eru afhent frítt til félagsmanna. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 28. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Kristinn Andersen TF3KX í Skeljanes með erindið „QRP afl, heimasmíði og notkun QRP senda“.

Hin síðari ár hefur framboð á QRP stöðvum fyrir radíóamatöra aukist með hverju árinu. Í boði eru í dag, hvorutveggja gott úrval af samsettum og ósamsettum tækjum við hagstæðu verði. Tilkoma stafrænna tegunda útgeislunar hefur mikið aukið vinsældir QRP, sem og framboð á ódýrum stöðvum og búnaði frá Kína.

Kristinn mun ræða um QRP afl, samspil QRP afls og tíðna og um mikilvægi góðra loftneta og m.a. skýra frá eigin reynslu af notkun færanlegra QRP stöðva innanlands og erlendis.

Þetta er áhugavert efni og eru félagsmenn hvattir til að mæta tímanlega. Góðar kaffiveitingar.

Stjórn ÍRA.

Á myndinni heldur Kristinn á eigin QRP tækjum sem hann keypti ósamsett frá Elecraft. Efri stöðin er Elecraft K1; tveggja banda CW stöð, sendiafl: 0.1-5W. Hægt er að velja tvö bönd, þ.e. á 80, 40, 30, 20, 17 og 15M. Neðri stöðin er Elecraft 2; SSB/CW stöð á 80-10M (hægt er að bæta við 160M). Sendiafl: 0.1-15W. LJósmynd: Jón Svavarsson TF3JON.

Önnur sunnudagsopnun á vetrardagskrá ÍRA var sunnudaginn 24. nóvember. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, mætti í Skeljanes og fjallaði um „Hvernig er að vera QRV á FT4?“

Fram kom m.a. að FT4 sem er samskiptaháttur sem hefur verið kynntur sem tilraun sem beint er sérstaklega að keppni. Hann lagði áherslu á að FT4 er ekki mótunaraðferð heldur samskiptareglur undir MFSK mótun. Sendir eru 4 tónar í tíðnihliðrunarlyklun og er heildarbandbreidd sendingarinnar 90Hz. Til samanburðar er FT8 8 tónar og heildarbandbreiddin 50Hz. Samskiptahátturinn er nauðalíkur FT8 að mörgu leyti, bæði í innri uppbyggingu og í notendaskilum:

 • Sendingarnar standa alltaf yfir í fastsettan ákveðinn tíma
 • Fyrirfram er ákveðið að miklu leyti hvað fram fer í sendingunni
 • Afar öflug villuleiðrétting á sér stað í móttökunni
 • Hver sendilota er aðeins 6 sekúndur, FT4 er því 2,5x hraðvirkara en FT8
 • FT4 er því að jafnaði á sama hraða og RTTY … en
 • FT4 getur unnið með merki sem er 10dB veikara en RTTY ræður við
 • FT4 notar bara brot af bandbreidd RTTY fyrir hverja sendingu

Þetta er hægt m.a. með síunartækni þar sem kassabylgjuformið er rúnnað af til að eyða smellum, rétt eins og í morsi (sjá meðf. mynd neðar).

Allt FT4 utanumhaldið fer fram í forritinu sem mótar/afmótar en nokkur forrit eru í boði, t.d. WSJT-X, JTDX og MSHV eru þekktust. FT4 hefur sérstakt tíðniplan, oft aðeins ofar í tíðni en FT8 en þó ekki alltaf. Í JTDX forritinum má hlaða öllu tíðniplaninu inn með einum smelli í uppsetningarhætti forritsins. Undantekning frá því getur verið þegar stórir/eftirsóttir DX leiðangrar eru virkir, þá er móttakan iðulega höfð annarsstaðar. Dæmi 1A0C sendi á venjulegu 14,080 en hlustaði á 14,090, en næstum allir á 14,090 voru þá að kalla á þá. Að lokum sýndi Vilhjálmur hvernig QSO í FT4 fara fram og notaði hann til þess Logger32 forritið með JTDX uppsettu sem undirforriti í því, en þannig loggast öll sambönd jafnóðum beint í loggforitið sem hann notar að jafnaði auk þess sem það sést jafnóðum hvaða sambönd hafa verið átt við stöðvarnar sem kalla, hver sem mótunin hefur verið fyrr.

Að lokum var farið í loftið á FT4 úr fjarskiptaherbergi TF3IRA og „runnu“ samböndin afar lipurt í gegn. Flestir viðstaddir voru á því að áhugavert væri að prófa FT4, en að sögn Vilhjálms er þó nokkur fjöldi TF-stöðva þegar virkur á FT4. Bestu þakkir til Vilhjálms fyrir skemmtilega og afar fróðlega kynningu og vel fram setta. Alls mættu 10 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan frostkalda sunnudagsmorgun í vetrarsól og lognblíðu í vesturbænum í Reykjavik.

Skeljanesi 24. nóvember. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS úrskýrir FT4 samskiptamátann í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Aðrir á mynd (frá hægri til vinstri): Óskar Sverrisson TF3DC og Þórður Adolfsson TF3DT (snúa baki í myndavél), Mathías Hagvaag TF3MH, Kristján Benediktsson TF3KB, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG og Vilhjálmur TF3VS. Þar sem viðburðurinn var “sófasunnudagur” voru málin bæði rædd á neðri hæð í leðursófasettinu – áður en farið var upp í fjarskiptaherbergi og eftir – yfir kaffi og meðlæti.
Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Óskar Sverrisson TF3DC (næst myndavél).
Óskar Sverrisson TF3DC og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS skoða FT4 merki á skjánum. Öllum viðkomnadi bauðst að prófa að fara í loftið á FT4 með leiðsögn. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Í gömlu Loftskeytastöðinni við Brynjólfsgötu er óvenjuleg ljósasería á þakkanti hússins.

Þarna hefur verið sett upp listaverkið „K“ (Með ósk um svar) eftir Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur. Það samanstendur af ljósaperum sem stafa á morsi, tegundaheiti hvalategunda. Það var einmitt í Loftskeytastöðinni sem þráðlaus samskipti komust á við útlönd fyrir um 100 árum og loftskeyti voru send og móttekin á morsi með útvarpsbylgjum. Listaverkið mun verða sýnt til 23. febrúar n.k.

Sjá nánar frásögn á þessari vefslóð Háskóla Íslands: https://www.facebook.com/HaskoliIslands/posts/10156302750290728

Sunnudaginn 24. nóvember kl. 11 árdegis verða 2. „sófaumræður“ vetrarins á yfirstandandi vetrardagskrá. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, mætir í sófann og leiðir umræður um hvernig er að vera QRV á FT4.

WSJT-X hópurinn, þeir K1JT, K9AN og G4WJ kynntu nýju FT4 mótunina vorið 2019. FT4 er þróað í framhaldi af FT8 og einkum hugsað til nota í keppnum.

FT4 er nánast hliðstæð í notkun og FT8 nema að samskipti eru 2,5 sinnum hraðari, þ.e. sending á FT4 tekur 4.48 sek. samanborið við 12.64 sek. á FT8. FT4 notar jafnframt minni bandbreidd, eða  90 Hz.

Á meðan hægt er að hafa QSO á FT8 allt niður í -26dB þarf FT4 u.þ.b. 5dB sterkara merki. Tíðnir fyrir FT4 QSO eru yfirleitt 4 kHz ofar á böndunum, en undantekningar eru frá því, t.d. á 20m þar sem tíðnin er 14.080 MHz.

Félagar, mætum tímanlega. Húsið opnar kl. 10:30. Kaffiveitingar frá Björnsbakaríi.

Stjórn ÍRA.

Haraldur Þórðarson, TF8HP, hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Þær upplýsingar bárust til félagsins í dag að Haraldur hafi látist á sjúkrahúsi í morgun, 21. nóvember. Hann var á 77. aldursári, heiðursfélagi í ÍRA og leyfishafi nr. 70.

Um leið og við minnumst Haraldar með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF3JB,

formaður.

Góðar fréttir bárust til félagsins í morgun, 21. nóvember,  þess efnis að radíótíðniráðstefna Alþjóða fjarskiptasambandsins ITU, WRC-19, hafi samþykkt frumvarp IARU um að 50 MHz bandinu verði úthlutað til radíóamatörþjónustunnar. Endanlegur frágangur samþykktarinnar verður afgreiddur þegar ráðstefnunni lýkur í næstu viku.

Samþykktin er stigskipt (eins og við var búist), þ.e. 44 þjóðríki á Svæði 1 munu veita leyfishöfum ríkjandi aðgang á 500 kHz (á 50-54 MHz) og 26 ríki munu veita ríkjandi aðgang að öllu sviðinu.  Öll þjóðríki í Svæði 1 hafa samþykkt að veita radíóamatörum víkjandi aðgang að tíðnisviðinu 50-52 MHz. Aðrar þjónustur sem fyrir voru með úthlutun í Svæði 1 og Svæði 3 munu halda heimildum. Núverandi ríkjandi aðgangur radíóamatöra að 50-54 MHz í Svæðum 2 og 3 helst óbreyttur.

Nánari útfærsla er gerð af stjórnvöldum í hverju þjóðríki eftir ráðstefnuna.

Stjórn ÍRA sendi erindi í morgun til Póst- og fjarskiptastofnunar og til framkvæmdastjórnar IRAU og IARU Svæðis 1 með þakklæti fyrir hönd íslenskra radíóamatöra.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 21. nóvember.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti.

Mathías Hagvaag, TF3MH, QSL stjóri félagsins, tæmir pósthólfið hvern miðvikudag og verður búinn að flokka nýjar QSL sendingar fyrir opnun á fimmtudagskvöld.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Myndin var tekin í fundarhléi 7. nóvember s.l., þegar Yngvi Harðarson TF3Y flutti erindið “Að minnka truflanir í móttöku í HF fjarskiptum“. Á myndinni stillir Yngvi inn tíðni í móttöku á magnetíska lúppu. Wilhelm Sigurðsson TF3AWS heldur á lúppunni og aðstoðar með að leita eftir besta merki. Hrafnkell Sigurðsson TF8KY fylgist með. Ljósmynd: TF3SB.