Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 30. júlí. Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti. QSL stjóri tæmir pósthólfið í dag, miðvikudag, og verður búinn að flokka innkomin kort.

Framundan eru TF útileikarnir um verslunarmannahelgina, 1.-3. ágúst. Einar Kjartansson, TF3EK, umsjónarmaður leikanna, verður á staðnum og svarar spurningum, auk þess sem keppnisreglur verða í boði útprentaðar.

Vefslóð á fróðlegar og vandaðar glærur frá erindi Einars um útileikana: http://eik.klaki.net/tmp/utileikar18.pdf

Vegna COVID-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Frá kynningu Einars Kjartanssonar TF3EK á úrslitum TF útileikana í fyrra (2019) í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 30. júlí. Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti.

QSL stjóri félagsins tæmir pósthólfið á miðvikudag og verður búinn að flokka innkomin kort. Síðast bárust 8 kg…og því ekki ólíklegt að svipað magn berist þessa vikuna þar sem QSL stofur um allan heim eru komnar í gang á ný.

TF útileikarnir nálgast og verða um verslunarmannahelgina 1.-3. ágúst. Eintak af reglunum verður til afhendingar, þar sem þetta er síðasta opnunarkvöldið fyrir stóru helgina.

Vegna COVID-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Inngangur í félagsaðstöðuna í Skeljanesi er nú greiður og snyrtilegur eftir mikla tiltekt sem gerð var helgina 18.-19. júlí. Mynd: TF3JB.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A; Georg Kulp, TF3GZ og Árni Þór Ómarsson, TF3CE gerðu góða ferð á fjallið Búrfell síðdegis í dag, sunnudaginn 26. júlí. Og nákvæmlega kl. 20:00 varð TF3RPE, Búri, QRV á ný.

Þetta eru frábærar fréttir. Þegar þetta er skrifað er endurvarpinn búinn að vera rúmt korter í loftinu og menn eru að ná sambandi allsstaðar að. Ari sagði, að samhliða viðgerð tækisins hafi verið farið yfir allar stillingar þannig að endurvarpinn sé nú jafn góður ef ekki betri en þegar hann var keyptur nýr.

Bestu þakkir til þeirra Ara, Georgs og Árna Þórs fyrir að drífa sig austur og koma Búra í loftið. Vel af sér vikið!

Stjórn ÍRA.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Árni Þór Ómarsson TF3CE í tengivinnu fyrir TF3IRA í Skeljanesi í september 2018 ásamt Sigurði Óskari Óskarssyni TF2WIN. Ljósmynd: TF3JB.
Georg Kulp TF3GZ í loftnetavinnu fyrir TF3IRA í Skeljanesi í ágúst 2019. Ljósmynd: TF3JB.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Georg Kulp, TF3GZ gerðu góða ferð í Bláfjöll að morgni fimmtudagsins 23. júlí og skiptu um loftnet við endurvarpann TF3RPE. Nýja Kathrein loftnetið hefur komið mjög vel út.

Að því verkefni loknu, héldu þeir félagar ferðinni áfram að fjallinu Búrfelli, þar sem endurvarpinn TF3RPE (Búri) er staðsettur, en hann hafði verið QRT um tíma. Eftir athugun, kom í ljós að Búri var bilaður og tóku þeir félagar stöðina í bæinn til viðgerðar.

Samkvæmt upplýsingum frá TF1A, lauk hann við viðgerð á stöðinni í gær (laugardag). Hann er bjartsýnn um að það verði ferð austur fljótlega og þá verður Búri tengdur og QRV á ný.

Bestu þakkir til Ara og Georgs fyrir vel heppnað verkefni og til Ara fyrir viðgerð á stöðinni.

Stjórn ÍRA.

TF3RPE (Búri) er búinn endurvarpsstöð félagsins sem er af gerðinni Kenwood TKR-750.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Georg Kulp, TF3GZ gerðu góða ferð í Bláfjöll í morgun, fimmtudaginn 23. júlí og settu upp Kathrein loftnet fyrir endurvarpann TF3RPB. Nýja netið er samsett úr tveimur lóðréttum „folded“ tvípólum sem eru fasaðir saman.

Árangurinn lét ekki á sér standa og var merkið úr Bláfjöllum betra bæði hjá TF1EIN í Hveragerði, TF2MSN á Akranesi, TF3IRA í Reykjavík og í bíl í Kömbunum og á Hellisheiði þar sem áður var erfitt að halda sambandi.

Þegar tíðindamaður hafði samband við þá félaga kl. 16 voru þeir að nálgast fjallið Búrfell til að líta einnig á endurvarpann TF3RPE sem ekki hefur verið QRV undanfarið.

Bestu þakkir til Ara og Georgs fyrir frábært framlag.

Uppfærð frétt kl. 17:15. Þeir félagar höfðu símasamband. Endurvarpinn TF3RPE reyndist bilaður.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A gengur frá fæðilínu við nýja Katherein loftnetið fyrir TF3RPB. Ljósmynd: Georg Kulp TF3GZ.
Nýja loftnetið fyrir endurvarpann TF3RPB komið upp. Ljósmynd: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.

Landsfélag radíóamatöra á Ítalíu (ARI), hefur ákveðið að bjóða radíóamatörum um allan heim opinn aðgang að júlí-ágústhefti félagsblaðsins Radio Revista. Blaðið er á ítölsku.

Á síðunni má hlaða blaðinu niður á PDF formi og nota þýðingarforrit í boði á netinu. Jafnframt er boðið niðurhal á félagsblaðinu frá og með 4. tbl. 2020.

ÍRA þakkar ARI fyrir boðið sem hér með er komið á framfæri við félagsmenn.

Stjórn ÍRA.

http://www.ari.it/en/radiorivista-online.html

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 23. júlí frá kl. 20:00.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti. Mathías Hagvaag, QSL stjóri félagsins, tæmir pósthólfið á miðvikudag og verður búinn að flokka innkomin kort.

Vegna COVID-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Wilhelm Sigurðsson TF3AWS á hljóðnemanum frá TF3IRA í TF útileikunum í fyrra. Útileikarnir 2020 nálgast, en þeir verða haldnir um verslunarmannahelgina 1.-3. ágúst n.k. Ljósmynd: TF3JB.

Líkt og skýrt er frá (sjá frétt neðar), var hluti af eldri tækjum og búnaði í eigu ÍRA flutt til bráðabirgða til geymslu í stöðvarhúsi RÚV á Vatnsendahæð árið 2017 eftir að vatn flæddi inn í herbergi okkar í kjallaranum í Skeljanesi. Síðdegis 16. júlí var dótið sótt upp á Vatnsendahæð og flutt að nýju í Skeljanes. Sama kvöld var sendiferðabifreiðin affermd og dótið sett til bráðabirgða inn í gang hússins. Ákveðið var því að nota helgina til að koma dótinu fyrir.

Þar sem dagana á undan hafði hellirignt í Vesturbænum (sem og annarsstaðar á landinu) var gólfið á floti í geymslu félagsins í kjallaranum. Í stað þess að flytja dótið þangað, var gripið til þess ráðs að endurskipuleggja herbergi QSL stofunnar á 2. hæð og flytja hluta dótsins þangað. Sá hluti sem gekk af var fluttur í hliðarrými á ganginum niðri, samhliða inngangi í húsið. Hvorutveggja gekk eftir og er hugmyndin að dótið verði geymt á þessum tveimur stöðum uns hægt verður að gera geymsluna nothæfa á ný.

Jónas Bjarnason, TF3JB og Baldvin Þórarinsson, TF3-Ø33 önnuðust flutninga og tilfærslur innanhúss. Eftirtaldir félagar mættu á staðinn til að spjalla, gefa góð ráð eða til að færa okkur kaffibrauð. Á laugardag: Mathías Hagvaag, TF3MH, Ari Þór Jóhannesson, TF1A og Garðar Valberg Sveinsson, TF8YY. Á sunnudag: Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB, Wilhelm Sigurðsson, TF3AWS og Mathías Hagvaag, TF3MH.

Fyrirkomulagi í herbergi QSL stofunnar á 2. hæð var breytt til bráðabirgða svo hægt væri að koma fyrir hluta dótsins.
Baldvin Þórarinsson TF3-Ø33 við hliðarrýmið við inngang í húsið þar sem dóti var komið fyrir til bráðabirgða. Ljósmyndir: TF3JB.

Hluti af eldri tækjum og búnaði í eigu ÍRA voru flutt til bráðabirgða til geymslu í stöðvarhúsi RÚV á Vatnsendahæð árið 2017 eftir að vatn flæddi inn í herbergi okkar í kjallara hússins í Skeljanesi. Þetta dót hefur verið þar síðan.

Skömmu fyrir miðjan júlí bárust boð frá Henry Arnari Hálfdánarsyni, TF3HRY, starfsmanni RÚV, þess efnis að nú væri komið að því að sækja dót félagsins.

Fimmtudaginn 16. júlí mættu fulltrúar félagsins á staðinn og fluttu dót félagsins í Skeljanes. Guðmundur Sigurðsson, TF3GS, hafði útvegað sendiferðabifreið til verksins sem þar með gekk greiðlega, en auk hans voru til aðstoðar: Henry Arnar, TF3HRY; Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB; Guðjón Egilsson, TF3WO, Benedikt Guðnason, TF3TNT og Jónas Bjarnason, TF3JB.

Félaginu er ekki kunnugt um fyrirætlanir með stöðvarhúsið sem reist var á árunum 1929-1930. Sumir höfðu viðrað þá hugmynd, að þar gæti orðið framtíðarhúsnæði fyrir ÍRA. Landið í næsta nágrenni er í eigu Kópavogsbæjar sem líklega mun ráðstafa því á næstunni.

Þakkir til RÚV fyrir að hafa hlaupið undir bagga með félaginu.

Málin rædd yfir kaffi og vínarbrauði í stöðvarhúsinu á Vatnsendahæð. Henry Arnar TF3HRY og Guðmundur Sigurðsson TF3GS.
Henry Arnar TF3HRY og Guðmundur TF3GS gera sig klára í að flytja fyrstu tækin yfir í sendiferðabílinn.
Henry Arnar TF3HRY, Benedikt Guðnason TF3TNT og Guðmundur Sigurðsson TF3GS taka til dót í bílinn. Ljósmyndir: TF3JB.

Góð mæting var í Skeljanes fimmtudagskvöldið 16. júlí.

Að venju voru fjörugar umræður yfir kaffinu. DX’inn er ætíð ofarlega á dagskrá og félagarnir sögðu frá góðum skilyrðum, m.a. niður í Kyrrahafið (KHT, ZL og VK) og til Afríku (D2 og S7). Þá voru líflegar umræður um stöðvar, tilheyrandi búnað og loftnet sem menn eiga í pöntun og um TF útileikana sem verða um verslunarmannahelgina.

Við stóra fundarborðið skoðuðu menn nýtt plakat frá DARC í stærðinni A3 með tíðniplani fyrir þýska radíóamatöra. Hugmyndin er, að útbúa slíkt fyrir okkur og fá leyfi Þjóðverjanna til að nota þeirra uppsetningu. Menn voru mjög hlynntir hugmyndinni, en það yrði bæði boðið prentað (í tveimur stærðum) og til niðurhals á heimasíðu félagsins.

Umræður stóðu fram undir kl. 23 (á báðum hæðum) þegar húsið var yfirgefið í hellirigningu þetta vel heppnaða sumarkvöld í Skeljanesi. Alls mættu 24 félagar og 1 gestur á staðinn.

Frá vinstri: Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL og Kristján Benediktsson TF3KB. Plakatið frá DARC lá frammi; „Kurzwellen-Bandplan DL + 6m“. Hugmyndin er að fá leyfi Þjóðverjanna til að nota þeirra uppsetningu fyrir sérstakt TF tíðniplan. Málið á rætur að rekja til vel heppnaðrar kynningar Kristjáns, TF3KB um tíðniplön á HF amatörböndunum sem haldin var í Skeljanesi 8. desember  s.l., en í umræðum eftir kynninguna kom fram mikill áhugi manna að félagið láti útbúa sérstakt plakat fyrir TF.
Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Baldvin Þórarinsson TF3-033, Sigurður Kolbeinsson TF8TN og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS (fyrir enda borðs).
Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Þórður Adolfsson TF3DT, Þór Þórisson TF1GW, Einar Kjartansson TF3EK, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Guðmundur Sigurðsson TF3GS og Jón G. Guðmundsson TF3LM. Einar KJartansson TF3EK, umsjónarmaður TF útileikanna, svaraði spurningum um sérstaka vefsíðu útileikana og um keppnisreglurnar. Ljósmyndir: TF3JB.