JIDX CW CONTEST.
Hefst laugardag 13. apríl kl. 07:00 og lýkur sunnudag 14. apríl kl. 13:00.
Keppnin fer fram á CW á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð JA-stöðva: RST + 2 stafir fyrir hérað (e. prefecture).
Skilaboð annarra: RST + CQ svæði.
http://www.jidx.org/jidxrule-e.html

SKCC WEEKEND SPRINTATHON.
Hefst laugardag 13. apríl kl. 12:00 og lýkur sunnudag 14. apríl kl. 24:00.
Keppnin fer fram á CW á 160, 80, 40, 20, 15, 10 og 6 metrum.
Skilaboð: RST + (ríki/fylki/DXCC eining) + SKCC númer/“none“.
https://www.skccgroup.com/operating_activities/weekend_sprintathon

OK/OM DX CONTEST, SSB.
Hefst laugardag 13. apríl kl. 12:00 og lýkur sunnudag 14. apríl kl. 12:00.
Keppnin fer fram á SSB á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð OK/OM stöðva: RS + 3 stafa landkóði.
Skilaboð annarra: RS + raðnúmer.
http://okomdx.crk.cz/index.php?page=SSB-rules-english

YURI GAGARIN INTERNATIONAL DX CONTEST.
Hefst laugardag 13. apríl kl. 12:00 og lýkur sunnudag 14. apríl kl. 12:00.
Keppnin fer fram á CW og SSB á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum og um gervitungl.
Skilaboð: RS(T) + ITU svæði.
http://gccontest.ru/en/rules-gc-2024/

IG-RY WORLD WIDE RTTY CONTEST.
Hefst laugardag 13. apríl kl. 12:00 og lýkur sunnudag 14. apríl kl. 18:00.
Keppnin fer fram á RTTY á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð: RST + 4 tölustafir (ártal sem leyfishafi fékk fyrst útgefið leyfisbréf).
https://www.ig-ry.de/ig-ry-ww-contest

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

.

Myndin er af Yaesu FTdx5000 100W HF SSB/CW stöðinni sem kom á markað árið 2009 og varð strax vinsæl á meðal radíóamatöra sem tóku þátt í alþjóðlegum keppnum. Ofan á stöðinni er SM-5000 “Station Monitor” sem var selt sem aukahlutur.

Áður kynnt erindi Georgs Kulp, TF3GZ „Félagsstöðin TF3IRA; nýjungar“ sem vera átti í Skeljanesi fimmtudaginn 11. apríl n.k., frestast af óviðráðanlegum ástæðum.

Félagsaðstaðan verður opin frá kl. 20:00-22:00 og er almenn málaskrá í boði á opnu húsi í stað erindisins.

Nýjustu tímaritin liggja frammi. Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri félagsins verður búinn að flokka QSL kort í hólf félagsmanna. Kaffiveitingar.

Beðist er velvirðingar á þessari breytingu.

Stjórn ÍRA.

Félagsaðstaða ÍRA er í þessu húsi í Skeljanesi.

CQ World Wide WPX SSB keppnin var haldin 30.-31. mars s.l. Keppnisnefnd bárust alls 8.126 dagbækur. Þar af voru 8 TF kallmerki sem kepptu í  sex keppnisflokkum, auk viðmiðunardagbókar (e. Check-Log).

Bráðabirgðaniðurstöður (e. raw scores) liggja fyrir frá keppnisnefnd samkvæmt áætlaðri stöðu í viðkomandi keppnisflokki yfir heiminn og yfir Evrópu. Lokaniðurstöður verða tilkynntar síðar.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

.

CQ World Wide WPX SSB keppnin var haldin 30.-31. mars s.l. Keppnisnefnd bárust alls 8.048 dagbækur þegar frestur var úti til að skila gögnum á miðnætti á föstudag. Þar af voru 8 TF kallmerki sem kepptu í  6 keppnisflokkum, auk viðmiðunardagbókar (e. Check-log).

Í fyrra (2023) voru send inn gögn fyrir 6 TF kallmerki sem kepptu í 3 keppnisflokkum, auk 2 viðmiðunardagbóka (e. Check-logs).

Stjórn ÍRA.

.

Félagsstöð ÍRA, TF3W í Skeljanesi tók þátt í CQ WW WPX keppninni 2024.

Reynir Smári Atlason, TF3CQ hóf erindi sitt um skútusiglingar og um amatörradíó í skútu, fimmtudaginn 4. apríl kl 20:30. Hann sagði skemmtilega frá og sýndi fjölda mynda. Fyrri hlutinn var um hvernig það kom til að hann varð skútusiglari árið 2013 – um Miðjarðarhafið og siglingar þar, og hvað veðrið þar er alltaf með miklum ágætum. Þá var aldrei siglt svo langt út að ekki sæist til lands og aldrei í myrkri. Í lok sumars var skútunni siglt til Marseille og upp í Rón ánna og alla leið til vetursetu um 100 km upp með ánni. Straumurinn í ánni var slíkur að skútan hafði stundum ekki á móti og því var “húkkað” far með stærri bátum. Þarna inni í landi var báturinn settur í veturgeymslu. 

Næsta sumar mættu þeir Reynir og Atli faðir hans og sigldu upp ánna og upp ýmsar aðrar ár og niður aðrar ár – allt þar til var komið í Ermasundið við Le Harve. Þá tók við allt annar heimur, straumar, sjávarföll, og skipaumferð. Og nú var stundum siglt svo langt út að ekki sá til lands.

Svo var siglt inn í Holland, Þýskaland og komið inn á Östsee suður af Fjóni, og svo siglt til vetrarhafnar við Óðensvé. Þar rakst Reynir Smári á Íslending, Ómar Magnússon, TF3WK / OZ1OM, sem þar býr. Eitt leiddi af öðru, áhugi á amatörradíói, tók amatörpróf í Danmörku og í klúbbstöðinni á Fjóni kynntist fjölda danskra amatöra og setti upp sína Icom IC-7000 heima, en þeirri stöð hafði einmitt verið ætlað hlutverk í bátnum. 

Reynir Smári fékk fjölda spurninga um bátinn, um siglingar og ýmiss praktísk mál, og margir lögðu orð í belg, gamlir sjóarar og heimshornaflakkarar. Var gerður góður rómur að erindi Reynis Smára sem endaði loks kl 21:30. Þakkir til Ágústar H. Bjarnasonar, TF3OM fyrir að taka erindið upp.

Á eftir voru kaffiveitingar og gott spjall.  Alls mættu 29 félagar og 1 gestur á þessa ágætu kvöldstund í Skeljanesi.

F.h. stjórnar,

Andrés Þórarinsson, TF1AM
varaformaður ÍRA

.

Mynd úr sal. Reynir Smári byrjaði stundvíslega kl. 20:30.
Umræður héldu áfram eftir að erindinu lauk. Mathías Hagvaag TF3MH, Reynir Smári Atlason TF3CQ, Jóhannes Magnússon TF3JM og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Rætt um skútusiglingar í Miðjarðarhafi. Reynir Smári Atlason, TF3CQ og Benedikt Sveinsson TF3T.
Garðar Vilberg Sveinsson TF8YY, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmyndir: TF1AM.

Ný stjórn félagsins, sem kjörin var á aðalfundi ÍRA 2024, kom saman á 1. fundi þann 4. apríl og skipti  með sér verkum. Skipan embætta starfsárið 2024/25 er eftirfarandi:

Jónas Bjarnason TF3JB, formaður.
Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður.
Georg Kulp, TF3GZ ritari.
Jón Björnsson TF3PW, gjaldkeri.
Njáll H. Hilmarsson, TF3NH meðstjórnandi.
Sæmundur Þorsteinsson TF3UA, varamaður.
Heimir Konráðsson TF1EIN, varamaður.

Stjórn ÍRA.

.

Stjórn ÍRA starfsárið 2024/25. Frá vinstri: Njáll H. Hilmarsson TF3NH meðstjórnandi, Heimir Konráðsson TF1EIN varastjórn, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA varastjórn, Jónas Bjarnason TF3JB formaður, Jón Björnsson TF3PW gjaldkeri, Georg Kulp TF3GZ ritari og Andrés Þórarinsson TF1AM varaformaður. Ljósmynd: TF3JON.

YBDXPI SSB CONTEST
Hefst laugardag 6. apríl kl. 00:00 og lýkur sunnudag 7. apríl kl. 23:59.
Keppnin er fram á SSB á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð: RS + raðnúmer.
http://contest.ybdxpi.net/ssb/rules/

EA RTTY CONTEST
Hefst laugardag 6. apríl kl. 12:00 og lýkur sunnudag 7. apríl kl. 12:00.
Keppnin fer fram á RTTY á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð EA stöðva: RST + 2 stafir [fyrir stjórnsýsluhérað/sýslu].
Skilaboð annarra: RST + raðnúmer.
https://concursos.ure.es/en/eartty/bases/

RSGB FT4 INTERNATIONAL ACTIVITY DAY
Hefst laugardag 6. apríl kl. 12:00 og lýkur sunnudag 7. apríl kl. 12:00.
Keppnin fer fram á FT4 á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð: Móttökustyrkur (e. signal report).
https://www.rsgbcc.org/hf/rules/2024/rallband_ft4.shtml

SP DX CONTEST
Hefst hefst laugardag 6. apríl kl. 15:00 og lýkur sunnudag 7. apríl kl. 15:00.
Keppnin fer fram á SSB og CW á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð SP stöðva: RS(T) + 1 bókstafur [fyrir stjórnsýsluhérað/sýslu].
Skilaboð annarra: RS(T) + raðnúmer.
https://spdxcontest.pzk.org.pl/2024/rules.php

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Næsta tölublað CQ TF, 2. tölublað ársins 2024, kemur út 28. apríl n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Félagsmönnum er boðið að auglýsa frítt í blaðinu notuð fjarskiptatæki og/eða búnað sem tilheyrir áhugamálinu.

Skilafrestur efnis er til 18. apríl n.k. Netfang: saemi@hi.is

Félagskveðjur og 73,

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA

ritstjóri CQ TF

ÍRA hefur borist jákvætt svar frá Fjarskiptastofu við ósk félagsins um endurnýjun aukinna heimilda á 6 metra bandi og veitir stofnunin íslenskum leyfishöfum auknar aflheimildir í 50-50,5 MHz tíðnisviðinu frá og með 1. maí 2024. Gildistími er 5 mánuðir eða til 31. september. G-leyfishafar fá heimild til að nota allt að 1kW og N-leyfishafar allt að 100W.

Hámarks bandbreidd sendinga er 18 kHz. Heimildin er með þeim fyrirvara að komi til truflana á annarri fjarskiptastarfsemi af völdum sendinganna þá skal þeim hætt. Æskilegt er að sendingar fari fram utan byggðar.

Ánægjulegt er, að gildistími heimildarinnar er nú mánuði lengri en á síðasta ári (2023) og hefst 1. maí í stað 1. júní áður.

Bent er á, að leyfishafar sem hafa áhuga á að stunda fjarskipti á auknu afli á 50 MHz tíðnisviðinu (6 metrum) í sumar, þurfa að senda beiðni þess efnis til Fjarskiptastofu áður en sendingar eru hafnar. Hafi verið fengin heimild í fyrra (2023) gildir hún ekki í ár. Póstfang: hrh(hjá)fjarskiptastofa.is  Tilgreina skal að sótt sé um aukið afl á 50 MHz.

Stjórn ÍRA.

Mynd úr fjarskiptaherbergi TF3IRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 4. apríl kl. 20:00-22:00 fyrir félagsmenn og gesti.

Sérstakur gestur okkar þetta fimmtudagskvöld verður Reynir Smári Atlason, TF3CQ sem mætir með erindið: „Amatörstöð í seglbáti þegar siglt er á milli landa“. Stefnt er að því að streyma/taka erindið upp.

Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30. Félagsmönnum er bent á að láta þetta áhugaverða erindi ekki framhjá sér fara.

QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og raða kortum í hólfin. Veglegar kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Myndin er af Reyni Smára TF3CQ um borð í skútunni í Miðjarðarhafinu. Ljósmynd: TF3CQ.