Yngvi Harðarson, TF3Y

Stefán Arndal, TF3SA

 

 

 

 

 

 

 

 

Guðmundur Sveinsson, TF3SG

Benedikt Guðnason, TF3TNT

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þrír viðburðir verða í boði á vetrardagskrá Í.R.A. í félagsaðstöðunni í Skeljanesi um komandi helgi. Tveir verða í boði á laugardag. Sá fyrri er hraðnámskeið í keppnisdagbókarforritinu Win-Test (upprifjun-2). Yngvi Harðarson, TF3Y, leiðbeinir og hefst námskeiðið stundvíslega kl. 10 árdegis. Félagsmönnum er bent á, að þetta er upplagt tækifæri fyrir fyrir þá, sem t.d. eru komnir af stað með notkun forritsins, en hafa sérstakrar spurningar og óska leiðbeininga.

Síðari viðburðurinn á laugardag, er stöðutaka í morsi í boði þeirra Stefáns Arndal, TF3SA og Guðmundar Sveinssonar, TF3SG. Stöðutakan er hugsuð fyrir alla leyfishafa, þ.e. jafnt fyrir þá sem eru rétt að byrja að læra mors sem og þá sem lengra eru komnir. Viðburðurinn hefst stundvíslega kl. 15:00 í Skeljanesi. Svipað fyrirkomulag verður og síðast (13. október), þ.e. upphitunaræfingar með texta í fimm stafa „grúppum” annarsvegar, og á mæltu máli, hinsvegar. Menn geta valið um að slá textann inn á lyklaborð (tölvu) eða að skrá niður á pappír. Þá er val um að hlusta á sendingarnar í gegnum hátalara eða heyrnartól (og eru menn hvattir til að koma með heyrnartól sem það vilja).

Þriðji viðburður helgarinnar er 3. sunnudagsopnun vetrarins. Benedikt Guðnason, TF3TNT, stjórnar umræðum í stóra sófasettinu og verður með sýnikennslu. Yfirskrift dagsins er: „Að gera upp kapal á réttan hátt”. Húsið opnar kl. 10 árdegis, en viðburðurinn hefst stundvíslega kl. 10:30 og stendur til hádegis.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega.

TF3TNT gengur frá loftnetinu fyrir TF1RPB í Bláfjöllum. Ljósmynd: TF3ARI.

Í.R.A. boðar hér með til sérstaks fimmtudagsfundar í félagsaðstöðunni við Skeljanes fimmtudaginn
14. mars kl. 20:30 um skipulag VHF/UHF mála. Um er að ræða framhald fundar um sama málefni sem haldinnn var þann 24. janúar s.l.

Dagskrá verður tvíþætt. Annarsvegar, inngangur Benedikts Guðnasonar, TF3TNT,VHF stjóra Í.R.A. og hinsvegar, umræður. Fundarstjóri verður Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ, gjaldkeri Í.R.A.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar.

________

Til upplýsingar: Þessi viðburður kemur í stað áður auglýsts fimmtudagserindis
TF3AM um hönnun og smíði loftnetsaðlögunarrása, sem þurfti að fresta. Ný dag-
setning þess verður auglýst sérstaklega.

Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN skoðar „spýtumorslykil” TF3VS samkvæmt forskrift TF3DX á sunnudag.

Skemmtilegir viðburðir voru í boði á vetrardagskrá Í.R.A. helgina 7.-10. mars. Helgin hófst á hefðbundnu fimmtudagserindi, síðan var hraðnámskeið í gær (laugardag) og sunnudagsopnun í morgun, á messutíma. Samtals sóttu yfir 40 félagsmenn þessa þrjá viðburði.

TF3JB flutti fimmtudagserindið þann 7. mars. Það fjallaði um „nýju böndin” svokölluðu, þ.e. 4 metra, 60 metra, 160 metra (1850-1900 kHz) og 630 metra. Þá leiðbeindi TF3Y á upprifjun-1 í notkun Win-Test keppnisdagbókarforritsins laugardaginn 9. mars og loks hafði TF3SA umsjón með 2. sunnudagsopnun vetrarins þann 10. mars, þar sem yfirskriftin var: „Félagar koma með morslykla sína í Skeljanes”.

Stjórn Í.R.A. þakkar þeim Jónasi Bjarnasyni, TF3JB; Yngva Harðarsyni, TF3Y og Stefáni Arndal, TF3SA, fyrir vel heppnaða viðburði. Ennfremur þakkir til Sigurbjörns Þórs Bjarnasonar, TF3SB, fyrir ljósmyndir.

Skeljanesi 7. mars. TF3JB flutti erindi um nýju böndin. Fjallað var m.a. um tímabundnar sérheimildir á 5 MHz og á 70 MHz, sérheimild um aðgang að tíðnisviðinu 1850-1900 kHz og um nýja tíðnisviðið á 472-479 kHz.

Skeljanesi 9. mars. Frá vinstri: TF3JA og TF3Y. Yngvi leiðbeindi á upprifjun-1 um Win-Test keppnisforritið.

Skeljanesi 10. mars. TF3SG (fremst), TF3SA og TF3SB. Lyklar og pöllur (spaðalyklar) prófaðir.

Skeljanesi 10. mars. TF3SA útskýrði vel hinar mismunandi gerðir Vibroplex spaðalykla.

Skeljanesi 10. mars. TF3SG, TF3JA, TF3HP, TF2WIN, TF3SB, TF3VS, TF3DC, TF3SA og TF3CY.

Skeljanesi 10. mars. Nokkrir af þeim morslyklum sem menn tók með sér í Skeljanes í morgun. Allir sem komu með lykla, útskýrðu tegund og gerð og jafnframt ef einhver saga var sem fylgdi. Stöðin á myndinni er Elecraft K3.

Skeljanesi 10. mars. TF3HP kom með nokkra morslykla, þ.á.m. þennan handmorslykil frá Kent.

Stefán Arndal TF3SA við stjórnvölinn á TF3IRA í Skeljanesi í september s.l. Ljósm.: TF3JA.

2. sunnudagsopnun Í.R.A. á yfirstandandi vetrardagskrá verður haldin í félagsaðstöðunni í Skeljanesi sunnudaginn 10. mars n.k. Yfirskriftin er: „Félagar koma með morslykla sína í Skeljanes”. Stefán ætlar að koma með sex morslykla úr eigin safni og skorar á aðra félaga að taka sem flesta lykla með sér. Húsið opnar kl. 10 árdegis. Miðað er við að dagskrá verði tæmd á hádegi.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar frá Björnsbakaríi.

Handmorslykill frá Kent Engineers, sömu gerðar og notaður er við félagsstöðina TF3IRA.

Yngvi Harðarson, TF3Y.

Í.R.A. gengst fyrir upprifjun-1 á notkun Win-Test keppnisdagbókarforritsins laugardaginn 9. mars n.k. kl. 10:00-12:00. Námskeiðið verður haldið í fjarskiptaherbergi TF3IRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Leiðbeinandi: Yngvi Harðarson, TF3Y.

Félagsmönnum er bent á, að þetta er upplagt tækifæri fyrir fyrir þá, sem e.t.v. þurfa smávægilega upprifjun, eða hafa spurningar um grundvallarþætti í notkun forritsins. Þeir sem lengra eru komnir, myndu e.t.v. frekar mæta á síðari hluta námskeiðsins hjá Yngva (upprifjun-2) sem verður haldinn eftir viku á sama stað, þ.e. laugardaginn 16. mars og verður auglýstur þegar nær dregur.

Stjórn Í.R.A. hvetur áhugasama félaga til að nýta þetta frábæra tækifæri.

Hlekkur á heimasíðu Win-Test: http://www.win-test.com/

Á myndinni má sjá hluta af loftnetum Georgs Magnússonar TF2LL sem TF2RR notaði í CQ WW RTTY keppninni 2012. Á turninum eru OptiBeam 18-6 fyrir 40 til 10 metra böndin og OptiBeam 1-80 fyrir 80 metrana. Turninn er 28 metra hár, að stærstum hluta heimasmíðaður.

Þrjár íslenskar stöðvar skiluðu gögnum til keppnisnefndar CQ tímaritsins vegna þátttöku í CQ World-Wide DX RTTY keppninni 2012, sem haldin var helgina 29.-30. september síðastliðinn. Í marshefti CQ tímaritsins 2013 eru birtar niðurstöður úr keppninni. Samkvæmt þeim, náði TF2RR 11. sæti yfir Evrópu og 14. sæti yfir heiminn í sínum keppnisflokki. Að baki þessum árangri voru 2.968 QSO og 3,382,323 heildarstig. Þetta er glæsilegur árangur þegar tekið er tillit til þess hve skilyrði versnuðu síðari dag keppninnar sem endaði með því, að hópurinn ákvað að ljúka þátttöku síðdegis þann dag. Þrátt fyrir allt, er þetta líklega besti árangur sem náðst hefur frá TF stöð í alþjóðlegri RTTY keppni hingað til.

Í keppninni var unnið var frá vel útbúinni stöð TF2LL í Borgarfirði. TF2RR keppti í „fleirmenningsflokki/einn sendir/öll bönd/hámarksafl”. TF2RR (og TF3RR) eru kallmerki Radíóklúbbsins Radíó refir. Klúbbfélagar eru: Ársæll Óskarsson TF3AO, Georg Magnússon TF2LL, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Haraldur Þórðarson TF3HP og Jón Gunnar Harðarson TF3PPN, auk Andrésar Þórarinssonar TF3AM, sem nýlega gekk til liðs við refina.

Tvær aðrar TF stöðvar skiluðu inn keppnisgögnum. Það voru TF3G sem var með 120 QSO og 16.940 heildarstig. Gísli keppti í „einmenningsflokki/einn sendir/öll bönd/lágafl”. Þá skilaði TF8SM samanburðargögnum (e. check-log) til keppnisnefndar

Stjórn Í.R.A. óskar Radíó refum innilega til hamingju með frábæran árangur í keppninni, svo og öðrum íslenskum leyfishöfum sem tóku þátt að þessu sinni.

TF5RPD notar svarta stangarloftnetið, en loftnetið sem stendur út frá H-staurnum er „Slimminn” sem er varanet endurvarpans. Ljósmynd: Þór Þórisson TF3GW.

Endurvarpi félagsins í Vaðlaheiði, TF5RPD, var gangsettur á ný þann 1. mars. Hann hafði þá verið úti um nokkurn tíma. Að sögn Guðmundar Sigurðssonar, TF3GS,hafði aflgjafinn slegið út. Hann segir að allt virðist nú í góðu lagi, m.a. auðkenni á morsi.

Endurvarpinn hefur annars gengið mjög vel eftir að hann var settur yfir á „stóra” loftnetið sem tengt var á ný í júlí s.l. sumar (sbr. mynd). En við það tækifæri var m.a. skipt um festingar, fæðilínu og tengi.

Stjórn Í.R.A. þakkar Guðmundi Sigurðssyni, TF3GS, fyrir gangsetningu endurvarpans.

TF3WO sýnir virkan „Sky Command System II+” í félagsaðstöðunni í Skeljanesi þann 3. mars.

Guðjón Helgi Egilsson, TF3WO, stýrði 1. sunnudagsopnun vetrarins í Skeljanesi þann 3. mars. Yfirskrift viðburðarins var kynning á Kenwood „Sky Command System II+”.

Dagskráin var þrískipt. Fyrst greinargóð PowerPoint kynning, síðan fluttu viðstaddir sig upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA og loks niður í stóra sófasettið á 1. hæð þar sem í boði var kaffi og meðlæti. Fram kom m.a., að kerfið er innbyggt í stöðvar af 2000 gerð frá Kenwood og bílstöðvar og handstöðvar frá sama framleiðanda, þannig að ekki þarf að nota (kaupa) sérstakan hugbúnað, aukalega. „Sky Command” gerir eigendum TS-2000 stöðva (og fleiri frá sama framleiðanda) kleift að stýra þeim frá bílstöðvum eða handstöðvum á 2 metrum eða 70 cm, t.d. gerðum TH-D7A/G, TM-D700A eða TM-D710A. Umræðum lauk á settum tíma, upp úr hádegi. Alls mættu 10 félagar í Skeljanes þennan veðurmilda sunnudagsmorgun í höfuðborginni, úr kallsvæðum TF1, TF2 og TF3.

Stjórn Í.R.A. þakkar Guðjóni Helga Egilssyni, TF3WO, fyrir fróðlegan og vel heppnaðan viðburð.

Guðjón Helgi Egilsson, TF3WO, flutti greinargóða PowerPoint kynningu á „Sky Command System II+”.

Henry Arnar Hálfdánarson TF3HRY flutti fimmtudagserindið í þann 28. febrúar. Ljósmynd: TF3LMN.

Vetrardagskrá Í.R.A. var haldið áfram í félagsaðstöðunni fimmtudagskvöldið 18. febrúar. Að þessu sinni kom Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY, í Skeljanes með erindi sem hann nefndi: „Væntanlegt stafrænt sjónvarp á Íslandi”.

Erindið var afar fróðlegt og áhugavert. Henry er hvorutveggja vel heima í fræðunum og áhugasamur um viðfangsefnið. Hann útskýrði vel tæknilegar forsendur og möguleika stafræns sjónvarps umfram hliðræntog þá möguleika sem felast í nýrri tækni. Félagsmenn höfðu margs að spyrja og var greiðlega leyst úr spurningum þeirra. Alls mættu 26 félagsmenn í Skeljanes þetta veðurmilda

fimmtudagskvöld í höfuðborginni.

Stjórn Í.R.A. þakkar Henry Arnari Hálfdánarsyni, TF3HRY, fyrir heppnað erindi og Jóni Svavarssyni, TF3LMN, og Sigurbirni Þóri Bjarnasyni, TF3SB, fyrir ljósmyndir.

Erindi TF3HRY endaði á „vettvangsferð” í útsendingarbifreið RÚV fyrir utan félagsaðstöðuna í Skeljanesi.

Jónas Bjarnason, TF3JB

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið fimmtudaginn 7. mars n.k. kl. 20:30 í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Fyrirlesari kvöldsins er Jónas Bjarnason, TF3JB og nefnist erindi hans: „Nýju böndin á 4, 60 og 630 metrum”.

Sérstakar tímabundnar sérheimildir íslenskra radíóamatöra á 5 MHz (60 metrum) og á 70 MHz (4 metrum) voru nýverið endurnýjaðar af Póst- og fjarskiptastofnun fyrir almanaksárin 2013 og 2014. Ennfremur var sérheimild um aðgang að tíðnisviðinu 1850-1900 kHz í tilgreindum alþjóðlegum keppnum á almanaksárinu 2013, nýverið endurnýjuð. Loks fengum við nýju tíðnisviði úthlutað á 472-479 kHz (630 metrum) þann 16. janúar s.l.

Í erindi sínu, mun Jónas fara stuttlega yfir hvert band fyrir sig. Útskýrt verður m.a. hvað og hvernig menn þurfa að bera sig að til að fá heimildir. Við hverju er að búast hvað varðar útbreiðslu. Einnig verður farið yfir sameiginlega tíðniskiptingu NRRL og Í.R.A. á 60 metra bandinu, ásamt því að veitt verður yfirlit yfir praktíska þætti, s.s. útvegun/smíði sendi-/móttökustöðva og loftneta í þessum tíðnisviðum.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta stundvíslega.