Ólafur B. Ólafsson, TF3ML, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 6. desember með erindið „6 metrar á sterum – árið 2018 gert upp“.

Ólafur flutti skemmtilegt, afar fróðlegt og myndrænt erindi um stórverkefni sumarsins sem var uppsetning stærsta 50 MHz loftnets hér á landi hingað til, þ.e. 24 elementa – fjögurra samfasaðra 6 elementa einsbands Yagi loftneta.

Hann lýsti vel þeirri gríðarmiklu vinnu sem fylgdi verkefninu á Eyrarbakka sem upphaflega átti að taka nokkra daga, en endaði með að taka heilan mánuð með daglegri viðveru. Hvorutveggja var, að loftnetin sem keypt voru erlendis frá stóðust ekki gæði, auk þess sem umbúnaðurinn kallaði á næstum stöðuga endurhönnun á staðnum. Þá gerði mikið rigningarsumar verkefnið ekki auðveldara.

Ólafur þakkaði Baldvin Þórarinssyni TF3-033 ómetanlega aðstoð við verkefnið og sagði að oft þegar hann hafi verið við það að gefast upp hafi Baldi rekið þá áfram.

Ólafur lýsti síðan ævintýralegum árangri í DX á 6 metrunum þegar „loftnetavirkið“ var tilbúið og farið að virka. Útgeislunin var það þröng, að hann gat hann nánast beint merkinu niður á einstakar sýslur í Japan og sýndi m.a. skjámyndir af merkjarunu japanskra FT8 merkja á bandinu. Hann lýsti einnig vel daglegum opnunum á Bandaríkin (og víðar um heim).

Ólafur sýndi félagsmönnum hvað er mögulegt að gera í DX á 50 MHz með djörfung, áræðni og stórhug í loftnetamálum með „loftnetavirki“ sem gefur 24 dBi ávinning í 20 metra hæð yfir jörðu.

Hann leysti greiðlega úr fjölda fyrirspurna og var að lokum þakkað fróðlegt og vel heppnað erindi með lófaklappi. Alls mættu 32 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta frábæra fimmtudagskvöld.

Þess má geta, að Ólafur vígði nýja aðstöðu félagsins fyrir erindisflutning í fundarsal í Skeljanesi sem m.a. er búin 250 sentímetra breiðu sýningartjaldi.

Skeljanesi 6. desember. Ólafur B. ÓLafsson TF3ML gerir upp árið á 50 MHz.

Með breytingum í fundarsal fer betur um gesti. Frá vinstri, Njáll H. HIlmarsson TF3NH, Jón Björnsson TF3PW, Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Jón Gunnar Harðarson TF3PPN, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Anna Henriksdóttir TF3VB og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.

Hluti fundargesta. Aftast frá vinstri: Baldvin Þórarinsson TF3-033, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Þórður Adolfsson TF3DT, Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Mathías Hagvaag TF3MH, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Valgeir Pétursson TF3VP, Einar Kjartansson TF3EK, Sigmundur Karlsson TF3VE, Anna Henriksdóttir TF3VB, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Ársæll Óskarsson TF3AO, Einar Kjartansson TF3EK, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Óskar Sverrisson TF3DC, Sigurður Óskar Óskarsson TF3WIN og Yngvi Harðarson TF3Y. Ljósmyndir: TF3JB.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 6. desember kl. 20:30. Þá mætir Ólafur B. Ólafsson, TF3ML í Skeljanes með erindið „6 metrar á sterum – árið 2018 gert upp“.

Sumarið 2018 var viðburðarríkt hjá Ólafi, en þá reisti hann m.a. stærsta 50 MHz loftnet sem sést hefur hér á landi – staðsett hjá færanlegu „fjarskiptavirki“ hans á Eyrarbakka. Hann setti upp 24 element á bandinu, þ.e. fjögur 6 elementa einbands Yagi loftnet, fest á öflugan heimasmíðaðan „H-ramma“ og fösuð saman.

Ávinningur var mikill, eða 24 dBi og hæð frá jörðu 20 metrar í miðju H-rammans. Þess má geta, að „loftnetavirkið“ var reist aðeins örfáa metra frá Atlantshafinu á Bakkanum. Ólafur kemur og segir okkur frá þessu spennandi ævintýri og mörgum fleirum.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar.

Ólafur B. Ólafsson TF3ML í fjarskiptabifreiðinni sumarið 2018. Ljósmynd: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.

Fjarskiptaaðstaðan á Eyrarbakka sumarið 2018. Ljósmynd: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.

Mynd af “loftnetavirkinu” á 50 MHz. Ljósmynd: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.

Þrennt var í gangi í félagsaðstöðunni í gær, laugardaginn 1. desember.

Elín TF2EQ og Árni Freyr TF8RN settu nýja kallmerkið TF3YOTA í loftið og höfðu nær 100 QSO. Þau voru sammála um að móttökur hafi verið góðar og höfðu m.a. sambönd við fjölda annarra kallmerkja sem enda á „YOTA“.

Á neðri hæðinni var haldið áfram með þær breytingar að flytja myndvarpann, færa til húsgögn í fundarsalnum og mála, en vegna góðrar aðsóknar á erindi á vetrardagskrá var núverandi aðstaða orðin of þröng. Bætt aðstaða fyrir erindisflutning verður tilbúin og tekin í notkun n.k. fimmtudag, 6. desember. Þá verður m.a. vígt nýtt sýningartjald.

Radíódót af ýmsu tagi sem félaginu barst m.a. úr dánarbúi Reidars J. Óskarssonar, TF8RO, hefur nú verið sameinað á einn stað í ganginum niðri í Skeljanesi. Verulegur hluti dótsins hefur þegar gengið út, en margt er eftir af nýtilegum hlutum sem félagsmenn geta nýtt sér frítt næstu fimmtudagskvöld.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ og Árni Freyr Rúnarsson TF8RN settu TF3YOTA í loftið 1. desember og voru ánægð með viðtökur.

Nýja sýningartjaldið var sett upp í vesturenda salarins. Þar til vinstri, má sjá fundarpúlt félagsins, stól og tölvuaðstöðu fyrir erindisflutning. Eftir þessar breytingar rúmar salurinn nær 40 manns í sæti.

Radíódót úr dánarbúi TF8RO var vistað á tveimur stöðum í forstofu og á gangi í Skeljanesi en hefur nú verið sameinað á einn stað.

(Ljósmyndir: TF3JB).

Á stjórnarfundi í ÍRA þann 13. nóvember s.l. var samþykkt að félagið verði þátttakandi í YOTA verkefni IARU. Í framhaldi var sótt um kallmerkið TF3YOTA til Póst- og fjarskiptastofnunar.

Að sögn Lisu Leenders, PA2LS, ungmennafulltrúa IARU Svæðis 1 og stuðningsaðila „Youngsters on The Air, YOTA“ verður verkefnið rekið í desembermánuði ár hvert og er hugsað til að auka áhuga ungs fólks á amatör radíói. Kallmerki með viðskeytið YOTA verða því áberandi í loftinu í desembermánuði ár hvert, en 2018 er fyrsta árið sem það fer af stað. Flest landsfélög radíóamatöra í IARU eru þátttakendur í verkefninu.

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ er frumkvöðull að þátttöku ÍRA og er YOTA verkefnisstjóri félagsins. Þetta verður síðasta verkefnið sem hún tekur að sér fyrir hönd félagsins a.m.k. að sinni, en hún flytur af landi brott um áramót. Aðstoðarverkefnisstjóri ÍRA YOTA verkefnisins, er Árni Freyr Rúnarsson, TF8RN. Hann mun formlega taka við verkefninu frá þeim tíma. Mathías Hagvaag, TF3MH, umsjónarmaður kortastofu ÍRA mun annast QSL mál.

Stefnt er að því að setja kallmekið í loftið í dag, 1. desember 2018.

Árni Freyr Rúnarsson TF8RN og Elín Sigurðardóttir TF2LQ í fjarskiptaherbergi ÍRA í Skeljanesi. Myndin var tekin þegar þau virkjuðu kallmerkið TF3JAM 20. október s.l. þegar skátar fjölmenntu í félagsaðstöðuna á JOTA viðburðinn „Jamboree-On-The-Air“. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Ágúst H. Bjarnason, TF3OM, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 29. nóvember og hélt erindið: „Að fjarstýra stöð yfir netið.“

Ágúst var með afar greinargott erindi um reynslu sína í þessum efnum, en hann hefur aðstöðu fyrir loftnet og búnað í sumarhúsi í u.þ.b. 100 km fjarlægð frá heimili sínu í Garðabæ.

Hann notar Kenwood TS-480 stöð og tengibúnað frá RemoteRig. Stöðin er með laustengdu stjórnborði, þannig að RF hlutinn er hafður í sumarhúsinu og stjórnborðið heima. Kosturinn við þetta fyrirkomulag er, að ekki þarf sérstaka tölvu í sveitinni. Ágúst nefndi, að sambærilegt fyrirkomulag sé í boði fyrir fleiri gerðir af stöðvum sem eru með laustengd stjórnborð, t.d. Icom IC-7100. Hefðbundnar stöðvar þurfa hins vegar flestar tölvur á báðum endum.

Meginvandinn hefur verið netþjónustan sem er í boði á landssvæðinu þar sem sumarhúsið er staðsett. Aukin samkeppni og þróun í netbúnaði hefur hins vegar auðveldað málið og gat Ágúst þess, að í dag sé tengingin yfir netið hnökralaus og kostnaður ásættanlegur.

Ágúst hafði með sér fjarstýribúnað í fundarsal og sýndi virkan hans eftir erindið og mátti greinilega heyra að truflanir eru litlar sem engar í sveitinni. Hann fékk fjölda fyrirspurna sem hann leysti greiðlega úr.

Að lokum klappað og Ágústi þakkað fróðlegt og vel heppnað erindi. Alls mættu 24 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta frábæra fimmtudagskvöld.

Ágúst H. Bjarnason TF3OM í Skeljanesi 29. Fjær, Þórður Adolfsson TF3DT. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Sigurður Kolbeinsson TF3-066, Bjarni Sverrisson TF3GB, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Þórður Adolfsson TF3DT, Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Yngvi Harðarson TF3Y, Jón Björnsson TF3PW, Ágúst Sigurðsson TF3AU, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Einar Kjartansson TF3EK. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Njáll H. Hilmarsson TF3NH, Mathías Hagvaag TF3MH, Elín Sigurðardóttir TF2EQ, Óskar Sverrisson TF3DC og Kristján Benediktsson TF3KB. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður haldið fimmtudaginn 29. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Ágúst H. Bjarnason, TF3OM, í Skeljanes með erindi um: „Fjarstýringu á amatörstöð yfir netið“.

Ágúst hefur ekki farið varhluta af auknum truflunum í viðtöku í HF sviðinu hin síðari ár fremur en aðrir leyfishafar búsettir í þéttbýli. Hann býr það vel að hafa til ráðstöfunar sumarhús í uppsveitum Árnessýslu þar sem hann hefur komið fyrir stöð sem hann getur stjórnað yfir netið frá heimili sínu í Garðabæ.

Í sumarhúsinu notar hann endafætt 39 metra langt EFHW 80-10 vírloftnet, sem gerir honum kleift að vinna á 80/40/30/20/17/15/12/10 metra böndunum, án loftnetsaðlögunarrásar. Loftnetið er í um 8 metra hæð yfir jörðu þar sem lægst er.

Hann segir okkur m.a. frá reynslu sinni að nota RemoteRig búnað frá Mike Styrefors, SE2R í sumarhúsinu, þar sem nánast engar truflanir eða suð eru í stuttbylgjusviðinu. Þessi búnaður fær mjög góðar umsagnir á Eham.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

Ágúst H. Bjarnason TF3OM verður í Skeljanesi 29. nóvember. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.


Úr fjarskiptaherbergi TF3OM heima í Garðabæ. Ljósmynd: Ágúst H. Bjarnason.

TF3OM í fjarskiptaaðstöðunni í sumarhúsinu. Ljósmynd: Ágúst H. Bjarnason.

Helgina 24.-25. nóvember stóð hópur félagsmanna í ströngu í Skeljanesi. Verkefnið var að skipta út turni, Alfa Spid Rak rótor, Fritzel FB-33 loftneti og fæðilínu. Eftirfarandi var gert:

Nýr turn var settur upp – hærri og öflugri. TF2LL gaf og gerði nýjan turn kláran og smíðaði öflugar botnfestingar (fellanlegar) sem og rótorsæti sem er rétt staðsett í turninum. Nýi rótorinn er frá ítalska framleiðandanum Pro.Sis.Tel. af gerðinni PST-61 og stóð félagssjóður straum af kostnaði hans. Nýja loftnetið er breytt OptiBeam OB5-20 einsbands Yagi fyrir 14 MHz. Georg endurvann allar stærðir í samráði við framleiðandann og er nýtt loftnet félagsins í raun 4 elementa OptiBeam OB4-20OWA eftir þær breytingar. Ný fæðilína er „Hardline 1/2“ frá Andrews.

Sex félagar báru hitann og þungann af uppsetningu og frágangi í Skeljanesi um helgina. Það voru Georg Magnússon, TF2LL sem gaf turninn, 4 staka einsbands Yagi loftnet og alla undirbúningsvinnu sem var gríðarlega mikil eða nær 200 tímar – auk vinnu þessa tvo daga. Ólafur B. Ólafsson, TF3ML, sem tengdi og gaf 40 metra langa fæðilínu og kom að undirbúningsvinnu, auk vinnu þessa tvo daga. Þórður Adolfsson, TF3DT sem gaf alla vinnu þessa tvo daga og kom með vörubíl með krana, sem reyndist ómetanlegt framlag. Jón Gunnar Harðarson, TF3PPN, sem gaf alla vinnu þessa tvo daga, en hann annaðist m.a. alla vinnu uppi í turninum. Baldvin Þórarinsson, TF3-Ø33, sem kom að undirbúningsvinnu, auk vinnu þessa tvo daga svo og Ásgeir Bjarnason sem aðstoðaði fyrri daginn.

Stjórnarmenn á staðnum: Jónas Bjarnason, TF3JB; Óskar Sverrisson, TF3DC og Elín Sigurðardóttir, TF2EQ. Einnig: Mathías Hagvaag, TF3MH; Guðmundur Ingi Hjálmtýsson, TF3IG (fyrri dag) og Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A (síðari dag). Gestir: Jón Björnsson, TF3PW (fyrri dag) og Wilhelm Sigurðsson, TF3AWS (síðari dag).

Bóma nýja loftnetsins er 7,5 metrar að lengd, lengsta element er 11,16 metrar og þyngd 60 kg. Ávinningur er 6,3 dbd / 13,6 dBi og 23 dBi F/B. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, tengdi RigExpert loftnetsgreini TF2LL við nýja netið eftir uppsetningu og kom það afar vel út, eða með standbylgju 1.1 á 14.175 MHz; 1.3 á 14.000 MHz og 1.2 á 14.350 MHz.

Það var síðan Þórður Adolfsson, TF3DT, sem hafði fyrsta sambandið frá TF3IRA á nýja loftnetinu síðdegis á sunnudeginum við EA9ACE. Skilaboðin voru góð frá Ceuta eða R/S 5/9 plús 20dB.

Stjórn ÍRA þakkar viðkomandi frábært framlag í þágu félagsins.

25. nóvember í Skeljanesi. Nýtt 4 el Yagi loftnet fyrir TF3IRA komið upp á nýjan turn, með nýjum rótor og tengt nýrri fæðilínu.

Turninum lyft í fullri lengd.

Loftnetið komið á turninn.

Jón Gunnar Harðarson TF3PPN uppi í turninum að festa Yagi loftnetið.

Óskar Sverrisson TF3DC rúllar út “hardline” fæðilínunni á meðan hann ræðir við Ásgeir Bjarnason. Fjær: Georg Magnússon TF2LL vinnur við nýja Yagi loftnetið.

Baldvin Þórarinsson TF3-033 gengur frá “hardline” fæðilínunni frá turni í fjarskiptaherbergi TF3IRA.

Kátt á hjalla. Ólafur B. Ólafsson TF3ML, Óskar Sverrisson TF3DC, Þórður Adolfsson TF3DZ og Baldvin Þórarinsson TF3-033.

Þórður Adolfsson TF3DT fjarstýrði krananum á vörubílnum af mikilli leikni. Óskar Sverrisson TF3DC fylgist með. Í fjarlægð: Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG og Ásgeir Bjarnason.

Stund á milli stríða. Georg Magnússon TF2LL og Jón Gunnar Harðarson í stiganum að ganga frá fæðilínunni.

Þórður Adolfsson TF3DT tók fyrsta QSO’ið frá TF3IRA á nýja Yagi loftnetið. Óskar Sverrisson TF3DC fylgist með.

Veðrið var eins og “pantað” báða dagana í Skeljanesi; blankandi logn og hitastigið í kringum frostmarkið.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 22. nóvember og hélt erindi undir heitinu: „Möguleikar radíóamatöra til smíða á eigin búnaði.“

Útgangspunkturinn var að kynna þá fjölbreyttu möguleika sem radíóamatörum bjóðast í dag í heimasmíðum, án þess (eins og hann sagði sjálfur) að þurfa að hafa heilt radíóverkstæði í bílskúrnum.

Vilhjálmur fór fyrst yfir hefðbundin sendi- og viðtæki og skipti þeim í þrjá smíðaflokka: Framleidd ósamsett tæki, hálf-framleidd tæki og tæki smíðuð alveg frá grunni.

Þá fjallaði hann um ýmis önnur tæki sem nýtast í fjarskiptunum, s.s. magnara, loftnetsaðlögunarrásir og margt fleira í þeim dúr. Í framhaldi tók hann fyrir ýmsar aðferðir til að útfæra tæki, fyrirkomulag á prentplötum og frágangsmöguleika í kassa og aðrar umbúðir.

Hann sýndi dæmi um það sem hann fjallaði um – ýmist með myndum og ekki síður – með heimasmíðuðum tækjum sem hann dró fram meðan á erindinu stóð. Í lokin gafst svo tækifæri til að skoða búnaðinn nánar, spyrja og spjalla.

Að lokum (kl. 22:35) var klappað vel og Vilhjálmi þakkað fróðlegt og vel heppnað erindi. Alls mættu 33 félagsmenn í Skeljanes þetta frábæra fimmtudagskvöld.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 22. nóvember.

Setið var í öllum rýmum. Frá vinstri: Stefán Arndal TF3SA, Eiður Kristinn Magnússon TF3-071, Einar Kjartansson TF3EK, Óskar Sverrisson TF3DC, Bjarni Sverrisson TF3GB, Elín Sigurðardóttir TF2EQ, Mathías Hagvaag TF3MH, Kristján Benediktsson TF3KB, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Sæmundur Þorsteinsson TF3UA, Þórður Adolfsson TF3DT og Sigurður Kolbeinsson TF3-066.

Frá vinstri: Elín Sigurðardóttir TF2EQ, Annna Henriksdóttir TF3VB, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Mathías Hagvaag TF3MH, Njáll H. Hilmarsson TF3NH, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Sigurður Kolbeinsson TF3-066, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Kristján Benediktsson TF3KB, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Sæmundur Þorsteinsson TF3UA og Þórður Adolfsson TF3DT.

Frá vinstri: Jón Hörður Guðjónsson TF3JHG, Bjarni Sverrisson TF3GB, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Stefán Arndal TF3SA og Jón Björnsson TF3PW.

TF3TB og TF3KB ræða málin. Á myndinni: Sigurður Kolbeinsson TF3-066, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Kristján Benediktsson TF3KB og Mathías Hagvaag TF3MH.

Hver segir að YLs hafi ekki áhuga á smíðum? Anna Henriksdóttir TF3VB og Elín Sigurðardóttir TF2EQ. Í bakgrunni: TF3-071, TF3SB og TF3DC.

Smíðahlutir TF3VS sem voru til sýnis. Allt saman heimasmíðað. Til þess var tekið hve vel íhlutum var fyrir komið í tilheyrandi kössum.

(Ljósmyndir: Mynd nr. 1: TF3SB; aðrar myndir: TF3JB).

CQ World Wide DX morskeppnin 2018 verður haldin 24.-25. nóvember. CQ WW er 48 klst. keppni og hefst kl. 00:00 á laugardag og lýkur kl. 23:59 á sunnudag.

Keppnin fer fram á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Í boði eru fjölmargir keppnisriðlar, bæði fyrir einmennings- og fleirmenningsþátttöku (sjá reglur).

Þátttaka var ágæt frá okkur í fyrra (2017); þá sendu sjö TF kallmerki inn keppnisdagbækur: TF3CW, TF3DC, TF3GB, TF3JB, TF3SG, TF3VS og TF3W.

Á þessu ári eru 70 ár liðin frá fyrstu CQ WW DX keppninni árið 1948. Þá voru 3 íslenskir leyfishafar á meðal þátttakenda í morshlutanum, þeir Ásgeir Magnússon TF3AB, Einar Pálsson, TF3EA og Sigurður Finnbogason TF3SF.

Keppnisreglur: https://www.cqww.com/rules.htm
Heimasíða keppninnar: http://www.cqww.com/

Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS verður með erindið „Möguleikar radíóamatöra til smíða á eigin búnaði“ í félagsaðstöðunni í Skeljanesi 22. nóvember kl. 20:30.

Vilhjálmur ræðir þá fjölbreyttu möguleika sem radíóamatörum bjóðast í dag í heimasmíðum, án þess (eins og hann segir sjálfur) að þurfa að hafa heilt radíóverkstæði í bílskúrnum.

Hann nefnir þá miklu breidd sem býðst í þeim efnum eða í raun allt frá því að smíða nútíma sendistöð yfir í einföld hljóðkortatengi.

Vilhjálmur kemur með tillögur og tekur með sér sýnishorn af eigin smíðum.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS verður með erindi í Skeljanesi þann 22. nóvember um möguleika radíóamatöra til smíða á eigin búnaði. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.