Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 7. febrúar og flutti áhugavert erindi um stafræna fjarskiptakerfið D-STAR (e. Digital Smart Technologies for Amateur Radio).

D-STAR á sér yfir 20 ára sögu, og komu japönsk stjórnvöld fyrst að fjármögnun þess sem rannsóknarverkefnis með aðkomu landsfélags japanskra radíóamatöra, JARL og fleirum. Icom kom síðar að verkefninu og fyrir 15 árum var D-STAR markaðssett. Kenwood bættist í hópinn fyrir tveimur árum en Yaesu notar annað kerfi.

D-STAR tengir saman stafræn fjarskipti radíóamatöra og netið. Stafrænn D-STAR endurvarpi er starfræktur í Bláfjöllum á UHF (TF3RPI). Hann hefur gátt yfir netið út í heim. Endurvarpinn er í eigu Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML.

D-STAR fjarskiptastöðvar eru fáanlegar fyrir HF, VHF og UHF tíðnisviðin og fór Ari vel yfir möguleikana og hvernig tengjast má kerfinu. Í raun er kallmerkið lykillinn og aðgangur að kerfinu um allan heim.

Ari flutti okkur fróðlega innsýn í þennan forvitnilega heim fjarskiptanna sem hefur ekki mikið verið nýtur hér á landi. Þó kom fram hjá Ara að 18 íslensk kallmerki eru skráð í gagnagrunn D-STAR.

Alls mættu 24 félagsmenn í Skeljanes á þetta fyrsta erindi á nýrri vetrardagskrá ÍRA fyrir febrúar-maí 2019. Ari fékk að lokum gott klapp fyrir fróðlegt og áhugavert erindi þetta ágæta fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 7. febrúar. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A flutti afar áhugavert erindi um D-STAR fjarskiptakerfið. Ljósmynd: TF3JB.
Frá vinstri: Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Guðmundur Sigurðsson TF3GS. Næsta röð (aftar): Jón Björnsson TF3PW, Wihelm Sigurðsson TF3AWS, Georg Kulp TF3GZ. Næsta röð (aftar): Ársæll Óskarsson TF3AO, Pier Albert Kaspersma TF3PKN, Þórður Adolfsson TF3DT og Baldvin Þórarinsson TF3-033. Næsta röð (aftar): Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Fyrsta erindi á nýrri vetrardagskrá ÍRA fyrir tímabilið febrúar-maí verður í boði fimmtudaginn 7. febrúar kl. 20:30.

Þá mætir Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A í Skeljanes með erindi um D-STAR fjarskiptakerfið (e. Digital Smart Technologies for Amateur Radio).

D-STAR fjarskiptastöðvar eru fáanlegar fyrir HF, VHF og UHF tíðnisviðin. Stafrænn D-STAR endurvarpi er starfræktur í Bláfjöllum á UHF (TF3RPI). Hann hefur gátt yfir netið út í heim.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar.

Slegið á létta strengi við mælingar í Skeljanesi 8. september 2018. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Elín Sigurðardóttir TF2EQ og Jón Björnsson TF3PW. Þórður Adolfsson TF3DT og Jón G. Guðmundsson TF3LM snúa baki í myndavél. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

ÍRA auglýsti 6. janúar s.l. eftir áhuga á að taka þátt í námskeiði til amatörprófs í febrúar-maí 2019. Frestur var gefinn til 20. janúar, en síðar framlengdur til 31. janúar. Fyrirspurnir bárust, en aðeins fjórir skráðu sig.

Í ljósi þessa hefur verið ákveðið í samráði við prófnefnd og umsjónarmann námskeiða, að falla frá námskeiðshaldi nú, en stefna þess í stað að námskeiði í október-desember n.k.

Til greina kemur að félagið fari þess á leit við Póst- og fjarskiptastofnun að efnt verði til prófs til amatörleyfis  í maí n.k. (án undangengins námskeiðs).

Áhugasamir eru beðnir um að senda tölvupóst til félagsins á „ira hjá ira.is“ fyrir 15. febrúar n.k.  Slíkum pósti fylgir engin skuldbinding, en veitir félaginu mikilvægar upplýsingar um áhuga á prófi.


Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A með mælitækin í Skeljanesi 5. janúar s.l. Frá Vinstri: Guðmundur G. 
Guðmundsson TF3LM, Ari Þórólfur TF1A, Yngvi Harðarson TF3Y og Þórður Adolfsson TF3DT. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A kemur með mælitækin í Skeljanes laugardaginn 2. febrúar. Húsið opnar kl. 14:00.

Að þessu sinni verða gerðar mælingar á fjórum ICOM HF/50 MHz stöðvum, IC-7100, IC-7300, IC-7610 og IC-7851. Þess má geta að 7851 er flaggskipið frá Icom og aðeins er vitað um tvær ICOM IC-7851 stöðvar á landinu.

Í boði verður kaffi og gott meðlæti.


Opið hús verður í Skeljanesi fimmtudaginn 31. janúar kl. 20-22.

Opin málaskrá, kaffi, kex, kökur og góður félagsskapur.

Vetrardagskrá 2019 hefst síðan þarnæsta fimmtudag, 7. febrúar,

sbr. bls. 70 í 1. tbl. CQ TF 2019.

Með tilvísan til 17. gr. félagslaga er hér með boðað til aðalfundar ÍRA laugardaginn 16. febrúar 2019. Fundurinn verður haldinn í fundarsal Esju á Radisson BLU Hótel Sögu við Hagatorg í Reykjavík og hefst stundvíslega kl. 13:00. Dagskrá er samkvæmt 19. gr. félagslaga.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF3JB,

formaður.

Fyrsta titilblað 2019 CQ TF er komið út. Hér fyrir neðan má finna hlekk á blaðið í PDF formi sem og hlekk á heimasíðu CQ TF.

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/01/cqtf_33arg_2019_01tbl.pdf

Heimasíða CQ TF

Christine Duez K4KJN við stöðina í fjarskiptaherbegi ÍRA. Mathías Hagvaag TF3MH og Bernhard Svavarsson TF3BS segja henni til.

Það var opið hús í Skeljanesi fimmtudaginn 24. janúar. Þrátt fyrir vetrarfærð í höfuðborginni var góð mæting.

Christine Duez, K4KJN var gestur okkar. Hún mætti með DMR (Digital Mobile Radio) handstöðina sína, en var upplýst um að við værum enn ekki með endurvarpa fyrir þá tegund útgeislunar. Christine er áhugasöm um neyðarfjarskipti og er m.a. félagi í „Skywarn“ deild bandarísku veðurstofunnar. Hún mjög hrifin af fjarskiptaherbergi félagsins og hafði nokkur sambönd.

Þá mætti Bernhard, TF3BS, á staðinn með nýsamsetta Hendricks PFR-3 QRP stöð sína sem vinnur á 40, 30 og 20 metum og sýndi viðstöddum.

Gott kaffi og kaffibrauð var í boði þetta ágæta fimmtudagskvöld. Alls mættu 14 félagsmenn og 1 gestur á staðinn.

Opið hús verður í Skeljanesi fimmtudaginn 24. janúar kl. 20-22.

Opin málaskrá, kaffi & kex og góður félagsskapur.

Vetrardagskrá 2019 hefst síðan fimmtudaginn 7. febrúar n.k.

Nýr APRS búnaður ÍRA var tekinn í notkun 15. desember s.l. Tækin eru staðsettt vinstra megin við Yaesu VHF/UHF stöð félagsins. APRS kallmerki er TF3IRA-10.
Elín Sigurðardóttir TF2EQ er nýr ungmennafulltrúi ÍRA.

Á stjórnafundi í félaginu þann 16. janúar var Elín Sigurðardóttir, TF2EQ skipuð í embætti ungmennafulltrúa ÍRA. Elín fluttist erlendis nú um áramótin, en hefur tekið að sér að móta nýtt embætti ungmennafulltrúa sem er verðmætt verkefni til framtíðar.

Elín mun m.a. annast samskipti við Lisu Leenders, PA2LS sem er Youth Coordinator í IARU Svæði 1.

Stjórn félagsins býður hana velkomna til starfa væntir mikils af störfum hennar.