CQ World-Wide RTTY WPX keppnin 2020 verður haldin 8.-9. febrúar.

Þetta er tveggja sólarhringa keppni og markmiðið er að ná samböndum við eins margar aðrar stöðvar radíóamatöra um heiminn, með eins mörgum mismunandi forskeytum og frekast er unnt.

Keppnin hefst á 00:00 á laugardag og lýkur kl. 23:59 á sunnudag.

Vefslóð á keppnisreglur: https://cqwpxrtty.com/rules.htm

Örnólfur Hall, TF3AH, hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag, að Örnólfur hafi látist á heimili sínu þann 30. janúar s.l. Hann var á 84. aldursári, leyfishafi nr. 132.

Um leið og við minnumst Örnólfs með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 6. febrúar. Að venju verður húsið opnað kl. 20:00.

Góður félagsskapur, kaffi, te og meðlæti og nýjustu tímaritin.

Eins og gjarnan er á þessum árstíma, berast nýjar sendingar af QSL kortum þétt til landsins. QSL stjóri tæmir pósthólf félagsins sérhvern miðvikudag og sér um að flokka nýjar sendingar í hólfin fyrir opnunartíma á fimmtudagskvöld.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Baldvin Þórarinsson, TF3-Ø33, mætti í Skeljanes upp úr hádeginu 29. ágúst 2019. Á dagskrá var að hreinsa til og gera snyrtilegt við húsið sjálft og við innganginn. Verkið gekk hratt og fljótt fyrir sig og síðdegis var orðið boðlegt fyrir félagsmenn og gesti að heimsækja staðinn. Baldvin sagðist nokkuð ánægður en benti á að næst mætti huga að því að mála, a.m.k. trévegginn þar sem TF3IRA skiltið er fest. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Ný vetrardagskrá ÍRA fyrir tímabilið febrúar-maí 2020 var birt í 1. tbl. CQ TF, sem kom út í síðustu viku (sjá bls. 48).

Fjölmargir hafa haft samband og spurt hvort dagskráin verði fáanleg prentuð. Svo verður einnig að þessu sinni og verður hún til afhendingar í Skeljanesi frá og með næsta fimmtudegi, 30. janúar.

Alls eru 27 viðburðir í boði, í flutningi 14 félagsmanna. Margt nýtt kemur inn nú, m.a. hefðbundinn flóamarkaður, sunnudaginn 8. mars. Nýtt fyrirkomulag verður í boði fyrir þá félaga sem óska að selja stöðvar og/eða búnað (verður kynnt þegar nær dregur).

Stjórn ÍRA.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 30. janúar. Húsið verður opnað kl. 20:00.

Góður félagsskapur, kaffi, te og meðlæti og nýjustu tímaritin. Nýjar sendingar af QSL kortum verða klárar og flokkaðar í hólfin.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Elín Sigurðardóttir TF2EQ, ungmennafulltrúi ÍRA, við hljóðnemann frá TF3YOTA í Skeljanesi 29. desember. Hún hafði alls yfir 1000 QSO að þessu sinni í desember, bæði á HF og um  Es’hail-2/P4A / Oscar 100 gervitunglið. Mynd: TF3JB.

Góð mæting var í Skeljanes fimmtudaginn 23. janúar, þrátt fyrir ekta janúarveður, snjó- og slydduél í allhvössum suðvestan vindsveipum.

TF3MH, QSL stjóri félagsins, hafði flokkað kortasendingar gærdagsins þannig að flestir fengu kort, auk þess sem áhugaverður fjarskiptabúnaður var til sýnis.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, kom með ICOM IC-SAT100. Tækið notar Iridium gervitunglin til að koma skilaboðum áleiðis um allan heim, en getur jafnframt notast sem handstöð til fjarskipta (við aðrar slíkar) á landssvæðum þar sem ekki er GSM eða önnur fjarskiptaþjónusta (sjá frásögn í 4. tbl. CQ TF 2019, bls. 40). Ari kom með aðra af stöðvum Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML, og var talað við Óla úr Skeljanesi sem var staddur í Árnessýslu (sjá mynd).

Hann kom einnig með þrjú bílnet, AMPRO-80 fyrir 3500-3800 kHz (2,4m á hæð) og 2375T og 1675T Ham-tenna bílnet frá MFJ fyrir (3800-3900 kHz). Þau eru annars vegar 91cm og 122cm á hæð. Styttra netið er það létt að þá má nota það á segulfæti.

Loks kom Ari aftur með 50W FM VHF/UHF stöð frá Vero Telecom (VGC), VR-N7500 með APRS (fyrir þá sem ekki gátu komið síðasta fimmtudag). Óvanaleg stöð, því hún er „andlitslaus“ og er stýrt frá snjallsíma  (með „bluetooth“) eða Android spjaldtölvu og er forrituð þráðlaust. Fyrirferðarlítil, ódýr og fær góða dóma.

Skemmtilegt fimmtudagskvöld.  Alls mættu 29 félagar og 1 gestur í Skeljanes í hressilegu vetrarveðri í byrjun Þorra.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A handleikur ICOM IC-SAT100 stöðina. Aðrir: Sveinn Aðalsteinsson TF1SA og Yngvi Harðarson TF3Y.
Stutta MFJ bílnetið (á borðinu) er á segulfæti, aðeins 91cm. Næst myndavél er VHF/UHF stöðin frá Vero Telecom (VGC), VR-N7500. Fjær, ICOM IC-SAT100. Við hlið hennar sér í loftnetsspólu á keramik formi, sem má festa á milli Ham stick loftnets og festingar. Á mynd: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Yngvi Harðarson TF3Y.
Mest spennandi þetta fimmtudagskvöld var þegar ICOM IC-SAT100 handstöðin var prófuð í gegnum iridium gervitungl. Menn fjölmenntu út að glugga í salnum (sem snýr í vestur) þar sem náðist á augnabliki glimrandi gott samband um Iridium tunglið við Ólaf B. Ólafsson TF3ML, sem var staddur í Árnessýslu. Tandurhreint merki og afar læsileg mótun. Á mynd (frá vinstri): Baldvin Þórarinsson TF3-033, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Georg Kulp TF3GZ, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Þórður Adolfsson TF3DT sem prófaði tækið fyrstur og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A (snýr baki í myndavél).
Við stóra borðið. Frá vinstri: Einar Kjartansson TF3EK, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Jón Björnsson TF3PW, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Mathías Hagvaag TF3MH sem skoðar tímarit (við enda borðsins).
Áhugaverðar umræður voru einnig í fjarskiptaherberginu. Wilhelm Sigurðsson TF3AWS (með bak í myndavél). Frá vinstri: Georg Kulp TF3GZ, Björgvin Víglundsson TF3BOI, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, áhugasamur gestur félagsins og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS (með bak í myndavél). Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu 1. tölublaðs CQ TF 2020, sem nú kemur út á stafrænu formi hér á heimasíðunni.

Margir hafa lagt hönd á plóg og mörgum ber að þakka, en sér í lagi TF3VS sem annaðist umbrotsvinnu.

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Hér má nálgast blaðið: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2020/01/cqtf_34arg_2020_01tbl.pdf

Með tilvísan til 17. gr. félagslaga er hér með boðað til aðalfundar ÍRA laugardaginn 15. febrúar 2020.

Fundurinn verður haldinn í fundarsalnum Heklu 1 á Radisson BLU Hótel Sögu við Hagatorg í Reykjavík og hefst stundvíslega kl. 13:00. Dagskrá er samkvæmt 19. gr. félagslaga.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður ÍRA

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 23. janúar.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti.

QSL stjóri tæmir pósthólfið á miðvikudag og flokkar innkomin kort fyrir opnun á fimmtudagskvöld.

TF3JB kemur með „Knarrevik“ hillueiningu frá IKEA sem verður til sýnis á staðnum.

Stjórn ÍRA.

Hillueiningin „Knarrevik“ sparar mikið pláss á skrifborðinu og hýsir auðveldlega ICOM IC-7410 HF stöð, SteppIR SDA 100 stýrikassa, ICOM PS-300 aflgjafi, DAIWA CN-801HP sambyggðan standbylgju- og aflmæli og Palstar SP3 kassahátalara. Á borðinu er ETM-4C C-MOS rafmagnsmorslykill frá DJ2BW. Hillueiningin var keypt í IKEA á 1690 krónur (ath. ekki útsöluverð). Ljósmynd: TF3JB.

Góð mæting var í Skeljanes fimmtudaginn 16. janúar. QSL stjóri hafði flokkað kort í hólfin úr sendingum erlendis frá og félagar komu með á staðinn áhugaverðan búnað sem var til sýnis, auk þess sem félaginu voru færðar góðar gjafir.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, sýndi nýja 50W FM VHF/UHF stöð frá Vero Telecom (VGC) af gerðinni VR-N7500 með APRS. Óvanaleg stöð, því hún er „andlitslaus“ og er stýrt frá snjallsíma  (með „bluetooth“) eða Android spjaldtölvu og er forrituð þráðlaust. Hann kom líka með bílnet fyrir 160 metrana frá AM PRO og Watson Multiranger-9 bílnet, sem er fyrir 80, 40, 20, 15, 10, 6, 2M, 70CM og flugvélabandið.

Kristján Benediktsson, TF3KB, kom með eintak af nýjustu ARRL handbókinni 2020. Þetta er 97. útgáfa, en handbókin kom fyrst út árið 1926. Nýja handbókin er 1280 blaðsíður í stóru broti. Kristján sagði, að bókin væri einnig boðin í sex bóka formi sem kostar þá 10 dollurum meira, en handbókin sjálf kostar 49.95 dollara.

Félaginu bárust ennfremur tvær gjafir. Annars vegar, vandaður hægindastóll úr formuðu birkilímtré í fjaðrandi grind. Áklæði er svarbrúnt. Stóllinn kemur í góðar þarfir og var strax fundinn staður í fundarsal. Gefandi er Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A.

Þá barst félaginu upptaka á geisladiski af síðustu sendingunni sem fram fór á morsi á 500 kHz frá Gufunes radíói þann 1. febrúar 1999, þegar sendingar voru lagðar niður á þeirri tíðni. Ólafur K. Björnsson loftskeytamaður sendi skeytið, sbr. meðfylgjandi ljósmynd. Það var Sigurður Harðarson, TF3WS, sem gaf félaginu upptökuna. Hann útbjó einnig upplýsingablaðið með ljósmyndinni af Ólafi. Bestu þakkir til Ara og Sigurðar fyrir góðar gjafir.

Alls mættu 27 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.

VHF/UHF bílstöðin frá kínverska framleiðandanum Vero Telecom (VGC) er af gerðinni VR-N7500. Hún er fyrirferðarlítil og fær góða dóma. Verðið er hagkvæmt eða um 160 dollarar á innkaupsverði.
ARRL handbókin 2020 er mikið rit (1280 blaðsíður) og henni var mikið flett í Skeljanesi á fimmtudagskvöldið.
Nýi hægindastóllinn kominn á sinn stað í salnum. Ekki amarlegt að fá sér sæti og fletta bók eða tímariti.
Mynd af gjöf Sigurðar Harðarsonar TF3WS. Minning sögulegs eðlis frá 1. febrúar 1999. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.