Erindi frá Hrafnkeli Sigurðssyni TF8KY, umsjónarmanni Páskaleika ÍRA:
(Uppfært 11.4. kl. 08:50)

Kæru félagar !

Byrjum að hlaða byssurnar!  Nú fer að styttast í stóru stundina.  Allir með!

Leikjasíðan fyrir Páskaleika 2020 er komin í loftið.  Fyrir þá sem ekki hafa séð síðuna áður, þá er þetta frekar þægilegt.  Fara í nýskrá, gefa upp kallmerki, nafn eða gælunafn, tölvupóst og lykilorð (tvisvar). Þú færð tölvupóst með PIN númeri sem þú notar í fyrsta skipti þegar þú skráir þig inn (notar lykilorðið og PIN númerið). Mátt gleyma PIN númerinu eftir það, skráir þig framvegis inn, bara með kallmerki og lykilorði.

http://leikar.ira.is/paskar2020/

Skráningarblað fyrir Páskaleika.
Hér má hlaða niður skráningarblaði fyrir Páskaleika, hlekkurinn virðist ekki virka í kerfinu: QsoSkraning.pdfPDF

Fyrir leikinn þá kynnir þú þér reitanúmerið.  Það er hægt að gera með „appi“ í snjallsíma, t.d. “QTH Locator”.  Á Íslandi byrja allir reitir á HP eða IP, t.d. HP83TX.  Ef „appið“ gefur upp 8-stafa reitanúmer þá notar þú fyrstu 6 stafina.  Eftir fyrsta samband man kerfið reitanúmerið og þarft ekki að slá það inn nema þú færir þig á annan stað.  Við hvert samband gefur þú upp reitanúmer og QSO númer.  Tekur við því sama frá hinum og skráir það ásamt bandinu sem var notað, t.d. 70cm.

Ef eitthvað er óljóst, ekki hika við að hafa samband.  Ég og fleiri erum meira en til í að aðstoða; “hrafnk hjá gmail.com”

Það eru þegar komin „feik“ QSO í kerfið, endilega prófið að logga sambönd.  Bæði til að átta ykkur á þessu og til að „spotta“ mögulegar villur í kerfinu.  Þetta er ekki fullkomið og það væri vel þegið að fá að vita af villum sem finnast.  QSO „loggurinn“ verður hreinsaður eftir kl. 19 á föstudag og allt gert klárt fyrir leikinn.

Sjáumst í loftinu, góða skemmtun !

73 de TF8KY.

TF3IRA verður QRV í páskaleikunum 2020. Til gamans er birt mynd úr Skeljanesi þegar félagsstöðin tók þátt í fystu páskaleikunum 31. mars til 1. apríl 2018. Ljósmynd: TF3JB.

Erindi frá Elínu Sigurðardóttur, TF2EQ, Ungmennafulltrúa ÍRA:

Kæru félagsmenn:

Um páskahelgina, 10.-13. apríl, verður NOTA (Nordics On The Air) viðburðurinn í loftinu. Kallmerki landsfélagana á Norðurlöndum (með YOTA viðskeyti) verða virkjuð hvern páskadag. Það verður auglýst á samfélagsmiðlum (sjá vefslóðir neðar) hvenær hver stöð fer í loftið. Endilega reynið að ná sambandi við okkur eða láta heyra í ykkur í loftinu, ég stóla á ykkur!

Vala Dröfn, TF3VD og Oddný ætla að virkja TF3YOTA heiman að frá sér í Garðabæ, a.m.k. á annan í páskum (13. apríl). Frekari upplýsingar um þeirra virkni verður einnig auglýst á samfélagsmiðlum. Undirrituð, PA/TF2EQ verður QRV frá Hollandi á mánudag.

73, Elín TF2EQ.

www.ham-yota.com/nota-activation

http://www.facebook.com/hamyota/

Ágæt skilyrði hafa verið á 80 metrum um helgina á innanlandstíðninni 3637 kHz. Þar eru menn aðallega virkir á tali (SSB) um helgar, á bilinu frá klukkan 9 árdegis fram að hádegi. Þessar stöðvar voru virkar í morgun, sunnudaginn 5. apríl:

TF4AH (Patreksfirði); TF7DHP (Akureyri); TF2LL (Borgarfirði); TF8PB (Vogum); TF1EIN (Hveragerði); TF3OM (Geysi í Haukadal); TF1JI (undir Eyjafjöllum); TF3VE (Hafnarfirði) og TF1A og TF3Y (Reykjavík).

Í gær, laugardag 4. apríl, voru að auki þessi kallmerki QRV á 3637 kHz: TF3GS (Úlfljótsvatni) og TF8SM (Garði).

Tilkynning til félagsmanna frá Hrafnkeli Sigurðssyni, TF8KY, umsjónarmanni páskaleikana:

Þá er stóra stundin að renna upp. Páskaleikar 2020 renna upp um næstu helgi.  Vika til stefnu!!!

Leikurinn byrjar á laugardag 11. apríl kl. 00:00 (eftir miðnætti föstudagskvöld) og endar sunndag (Páskadag) 12. apríl kl. 23:59.

Að venju verður “online” loggur og rauntíma stigaskráning sem uppfærist um leið og hvert samband er skráð og staðfest.  Hlekkurinn á síðuna verður kynntur síðar.

Notum HF / VHF / UHF og hvetjum til notkunar hærri tíðna í tilraunaskyni.

Leikurinn er alltaf í þróun og vegna fjölda áskoranna er verið að endurskoða stigareikninginn. Það er helst fólgið í að verðlauna langdræg sambönd betur en síðast en halda þó margfaldarakerfinu sem fyrir var.

Fyrirspurnir má senda á tölvupóstfangið “hrafnk hjá gmail.com”

73 de TF8KY.

Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, umsjónarmaður Páskaleikana. Myndin var tekin á aðalfundi ÍRA 15. febrúar s.l. Ljósmynd: TF3JON.
Mynd af viðurkenningum félagsins fyrir bestan árangur í Páskaleikunum í fyrra (2019). Ljósmynd: TF3JB.

Keppnisnefnd CQ hefur birt bráðabirgðaniðurstöður (e. raw scores) í SSB-hluta CQ World Wide WPX keppninnar 2020, sem fram fór helgina 28.-29. mars s.l.

5 TF-stöðvar sendu inn gögn í 4 keppnisflokkum.

TF1AM – Öll bönd, einmenningsflokkur, háafl.
TF8KY – Öll bönd, einmenningsflokkur, lágafl.
TF3AO – 20 metrar, einmenningsflokkur, aðstoð, háafl.
TF2LL – 80 metrar, einmenningsflokkur, háafl.
Viðmiðunardagbók (e. check-log): TF3SG.

https://www.cqwpx.com/logs_received_ssb.htm

Japanskir radíóamatörar hafa í dag heimildir á tíðnisviðunum 1810-1825 kHz á morsi og 1907.5-1912.5 á morsi og stafrænum tegundum útgeislunar. Þeir fá nú uppfærða tíðniúthlutun á 160 metrum, þ.e. á 1800-1810 kHz og 1825-1875 kHz, auk þess sem talheimild (SSB) bætist við.

Fram að þessu hafa sambönd við Japan á FT8 samskiptahætti á 160 metrum farið fram á skiptri tíðni (e. split frequency). Þessi breyting mun hafa verulega einföldum í för með sér á þessu erfiða bandi. Nýjar heimildir þeirra taka gildi á næstunni.

Frá 4. desember 2018 á QRG 1840 kHz. Á skjánum á tölvunni má m.a. sjá japönsk kallmerki á FT8 samskiptahætti. Ljósmynd: TF3JB.

Niðurstöður í CQ WW DX SSB keppninni 26.-27. október 2019 hafa verið birtar í marshefti CQ tímaritsins.

Níu TF kallmerki skiluðu inn gögnum, þar af fimm keppnisdagbókum og skiptust íslensku stöðvarnar á fjóra keppnisflokka. Árangur: EU=yfir Evrópu, AF=yfir Afríku og  H=yfir heiminn.

TF2LL – einmenningsflokkur, 20m, háafl: 14.819st; EU-46; H-80.
TF3T – einmenningsflokkur, 80m, háafl: 37.157st; EU-6; H-10.
TF2MSN – einmenningsflokkur, öll bönd, lágafl: 31.239st; EU-337; H-519.
TF8KY – einmenningsflokkur, öll bönd, lágafl: 13.575st;  EU-536; H-844.
TF3DT- einmenningsflokkur, öll bönd, aðstoð, háafl: 63.048st; EU-290; H-693.

Samanburðardagbækur (e. check-log): TF3DC, TF3SG, TF3VS og TF3Y.

Tveir íslenskir leyfishafar, Sigurður R. Jakobsson, TF3CW og Elín Sigurðardóttir, TF2EQ tóku þátt í keppninni undir kallmerkjum erlendis:

ED8W – fleirmenningsflokkur, 2 sendar (TF3CW og fleiri); 10.937.124st; AF=1; H=1.
PI4D – fleirmenningsflokkur, fl. sendar (TF2EQ og fleiri); 1.187.956st; EU=8; H=33.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

“Nordics on the air, NOTA” ungmennabúðir radíóamatöra sem halda átti í Noregi 10.-13. apríl n.k. hefur verið aflýst vegna útbreiðslu kórónaveiru sem veldur CONVID-19 sjúkdómi.

Að sögn Elínar Sigurðardóttur, TF2EQ, ungmennafulltrúa ÍRA, er hugsanlegt að viðburðurinn verði haldinn í haust eða frestist jafnvel um eitt ár. Hún segir, að framkvæmdanefnd NOTA mun taka ákvörðun um framhaldið þegar faraldinum linnir.

Sambærilegum viðburðum í Serbíu, Ungverjalandi, Króatíu, Spáni og í Thailandi hefur ennfremur verið aflýst/frestað af sömu ástæðum.

Til stóð að tveir félagsmenn ÍRA myndu sækja viðburðinn, þær Elín Sigurðardóttir, TF2EQ og Oddný Þóra Konráðsdóttir.

Í kvöld, 26. mars, kl. 20, var kallað CQ TF á 3637 kHz. Þessir mættu: TF3JB, TF3OM, TF3VS og TF8SM. Þótt ekki hafi mætt fleiri á tíðnina, þá voru t.d. KiwiSDR viðtækin virk og sagðist TF3GZ hafa heyrt vel í öllum í gegnum þau upp í Borgarfjörð. Einnig var kallað CQ TF á endurvarpanum á 145.650 MHz. Þessir mættu: TF3GZ, TF3JB og TF8YY.

Hugmyndin er að hittast á 80 metrum (og VHF/UHF) á fimmtudagskvöldum kl. 20, a.m.k. þar til hægt verður að opna félagsaðstöðuna í Skeljanesi á ný.

Í kvöld var í gangi RSGB keppni á SSB á 80 metrunum, auk þess sem DX skilyrði voru góð, þannig að það var mikið QRM…en það hjálpaði að færa fjarskiptin 1 kHz niður frá 3637 kHz. Hugmyndin er annars, að vera einnig QRV á 80 metrum á laugardags- og sunnudagsmorgnum frá kl. 11.

Stjórn félagsins ákvað síðdegis í dag, 23. mars, að félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verði lokuð, frá og með deginum í dag, um óákveðinn tíma. Engin starfsemi verður því í húsnæðinu á okkar vegum, þar til annað verður ákveðið.

Ástæðan er ákvörðun heilbrigðisráðherra, sem er í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, að takmarka samkomur enn frekar en áður, vegna hraðari útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu. Ákvörðun ráðherra tekur gildi á miðnætti í kvöld, mánudaginn 23. mars. Nánar er vísað í upplýsingar í fjölmiðlum.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Sett er fram sú hugmynd, á meðan þetta ástand varir, að félagar hittist í loftinu á fimmtudagskvöldum kl. 20:00 á 3637 kHz og um helgar kl. 11:00 fyrir hádegi. Fyrir þá sem ekki hafa loftnet á 80 metrum, er lagt til að hittast á hefðbundnum tíðnum á 2m og 70cm.

Stjórn ÍRA.