Hermann Georg Karlsson, TF3KC, hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Samkvæmt upplýsingum frá Frímanni Birgi Baldurssyni, TF1TB, andaðist hann í Landsspítalanum í Fossvogi þann 3. nóvember s.l.

Hermann var á 78. aldursári; handhafi leyfisbréfs nr. 137.

Um leið og við minnumst Hermanns með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður

ÍRA stóð fyrir þremur fjarskiptaviðburðum á árinu 2020. Um er að ræða: (1) Páskaleikana sem haldnir voru 11.-12. apríl; (2) VHF/UHF leikana sem haldnir voru 10.-12. júlí ; og (3) TF útileikana sem haldnir voru 1.-3. ágúst.

Líkt og flestum er kunnugt tókst ekki að afhenda verðlaun og viðurkenningar á árinu 2020 vegna Covid-19 faraldursins. Vonir eru bundnar við að nú rofi til með tilslakanir á næstunni, svo hægt verði að opna félagsaðstöðuna í Skeljanesi, þar sem skýrt verður formlega frá úrslitum og umsjónarmenn viðburðanna munu afhenda viðurkenningar.

Glæsilegir verðlaunagripir verða til afhendingar fyrir 1.-3. sætin í Páskaleikunum og fyrir 1.-3. sætin í VHF/UHF leikunum, auk þess sem sérstök viðurkenningarskjöl verða nú afhent í fyrsta skipti í VHF/UHF leikunum. Þá verður sérstakur ágrafinn verðlaunaplatti afhentur fyrir 1. sætið í TF útileikunum, auk þess sem viðurkenningarskjöl verða veitt fyrir fyrstu 5 sætin.

Þessu til viðbótar voru framleidd glæsileg verðlaun fyrir nýtt Íslandsmet í lengd fjarskiptasambands á 1.2 GHz tíðnisviði í VHF/UHF leikunum (nú annað árið í röð). Þau verða til afhendingar á aðalfundi 2021.

Marko-Merki ehf., og Brynjólfur Jónsson, TF5B fá þakkir fyrir framleiðslu verðlaunagripa og skrautritun viðurkenningarskjala.

Stjórn ÍRA.

Verðlaun og viðurkenningar sem bíða afhendingar. Viðurkenningarskjöl fyrir 1.-5. sætið í TF útileikunum (rauðbrúnir rammar). Viðurkenningarskjöl fyrir bestu ljósmyndina sem tekin var í VHF/UHF leikunum og fyrir skemmtilegustu færsluna á Fésbókinni í VHF/UHF leikunum (svartir rammar). Verðlaunagripir fyrir 1.-3. sæti í VHF/UHF leikunum (aftast). Þar fyrir framan eru verðlauna-gripir fyrir 1.-3. sætin í Páskaleikunum. Fremst má síðan sjá verðlaun fyrir nýtt Íslandsmet í vegalengd fjarskiptasambands á 1.2 GHz í VHF/UHF leikunum. Á milli þeirra er ágrafinn veggplatti á viðargrunni sem veittur er fyrir 1. sætið í TF útileikunum. Ljósmynd: TF3JB.

Stjórn ÍRA hefur ákveðið að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði lokuð áfram vegna Covid-19 faraldursins.

Ástæðan er ný reglugerð heilbrigðisráðherra um tímabundna takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem tekur gildi á morgun, 13. janúar og gildir til 17. febrúar n.k.

Þrátt fyrir að takmarkanir á samkomum séu nokkuð rýmkaðar (mest 20 manns) er óbreytt ákvæði þess efnis að tryggja skuli a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.

Vonir eru bundnar við að slakað verði á kröfum vegna faraldursins með nýrri reglugerð ráðherra sem er að vænta eftir miðjan febrúar n.k. (eða fyrr). Gangi mál á besta veg horfum við til að geta opnað á ný fimmtudaginn 18. febrúar.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

Á hverju ári eru haldnar fjölmargar ráðstefnur og sýningar fyrir radíóamatöra um allan heim. Þrjár eru stærstar sem eiga það sameiginlegt að vera, hver um sig, alþjóðlegur vettvangur áhugamálsins. Þetta eru Ham Radio í Friedrichshafen í Þýskalandi, Dayton Hamvention í Ohio í Bandaríkjunum og Tokyo Ham Fair í samnefndri höfuðborg Japans.

Dayton Hamvention sýningunni 2021 sem fyrirhugað var að halda 21.-23. maí n.k., hefur nú verið aflýst þann 11. janúar vegna Covid-19 faraldursins. Menn líta til næsta árs, 2022. Þetta verður 2. árið í röð sem aflýsa þarf sýningunni, sem annars hefur verið haldin árlega, óslitið frá 1952.

Verulegar líkur eru á að Ham Radio sýningunni í Friedrichshafen 2021, sem fyrirhugað er að halda 25.-27. júní n.k., verði einnig aflýst – en það hefur ekki verið ákveðið þegar þetta er skrifað. Verði henni ennfremur aflýst, verður það 2. árið í röð sem aflýsa þarf sýningunni, sem annars hefur verið haldin árlega, óslitið frá árinu 1975.

Óvissa ríkir ennfremur um Tokyo Ham Fair sem fyrirhugað er að halda 2.-3. október n.k.

Um 30 þúsund gestir heimsækja Dayton Hamvention ár hvert en sýningin hefur verið haldin óslitið frá árinu 1952 (ef frá eru talin 2020 og 2021). Ljósmynd: ARRL.

Til fróðleiks voru teknar saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) vikuna 3.-9. janúar 2021. Kallmerki birtast þar hafi leyfishafi haft samband og/eða heyrt í viðkomandi TF kallmerki og skráð það, auk þess sem hlustarar setja inn skráningar.

Þessa viku voru skilyrði ekkert sérstök á HF þannig að yfirleitt er meiri virkni hér á landi sem annars staðar ef böndin eru „lifandi“. Upplýsingarnar eru fengnar á vefsíðunni: http://www.dxsummit.fi/#/  Taka ber fram, að fleiri sambærilegar síður eru í boði á netinu og sem skoða má til samanburðar.

Samkvæmt ofangreindu voru 14 TF kallmerki skráð þessa viku. Flestar stöðvarnar voru virkar á stafrænum mótunum og RTTY, en einnig á morsi (CW) og tali (SSB). Stöðvarnar voru virkar á 15, 17, 20, 40, 60 og 80 metrum.

Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund útgeislunar og band/bönd sem kallmerki fær skráningu á:

TF1A – SSB – 80 metrar
TF1AM – RTTY – 15 og 20 metrar
TF1EIN – FT8 – 80 metrar
TF1OL – FT8 – 60 metrar
TF2CT – FT4 – 40 og 80 metrar
TF2MSN – RTTY/FT8 – 17, 30 og 60 metrar
TF3AO – RTTY – 15 og 20 metrar
TF3IG – FT4 – 20 metrar
TF3JB – FT8 – 30 metrar
TF3LB – CW/FT8 – 15, 17 og 30 metrar
TF3MH – FT8 – 30 metrar
TF3PPN – FT8 – 17 metrar
TF3VG – FT8 – 17 metrar
TF5B – FT8 – 17, 30 og 40 metrar

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Stjórn ÍRA.

Myndin er af Reyni Björnssyni TF3JL, þegar hann tók þátt í TF útileikunum 2020 á morsi frá félagsstöðinni TF3IRA í Skeljanesi ásamt fleiri félagsmönnum. Ljósmynd: TF3JB.

Brynjólfur Jónsson, TF5B hafði alls 30.103 QSO á árinu 2020. Samböndin voru öll höfð á FT8 samskiptareglum undir MFSK mótun. Fjöldi DXCC eininga varð alls 156 og fjöldi staðfestra DXCC eininga alls 151. Forskeyti voru alls 1.956 og CQ svæði 39.

Þess má geta að Billi missti niður hluta loftneta sinna um miðjan desember 2019 og varð ekki að fullu QRV á ný fyrr en í maímánuði (2020) þegar voraði á ný. Sjá má myndir af loftnetum hans eftir óveðrið og eftir að þau höfðu verið viðgerð og enduruppsett á bls. 42 í 3. tbl. CQ TF 2020. Vefslóð: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2020/06/cqtf_34arg_2020_03tbl.pdf

Flest sambönd voru höfð á 30 metrum, eða 8.729. Þrjú bönd voru með ámóta mikinn fjölda sambanda, þ.e. 40 metrar 5.159 QSO; 20 metrar 6.391 QSO og 17 metrar 5.128 QSO.

Skipting sambanda: Evrópa 23.819 QSO, N-Ameríka 2.982 QSO, Asía 2.643 QSO, Afríka 140 QSO, S-Ameríka: 263 QSO og Eyjaálfa: 256 QSO.

Loftnet TF5B eftir viðgerð í maí 2020. Fritzel Fritzel FB-33, 3 staka Yagi loftnet fyrir 14, 21 og 28 MHz; Fritzel tvípóll fyrir 10, 18 og 24 MHz; Hamstick tvípóll (láréttur) fyrir 3.5 MHz; Hamstick tvípóll (láréttur) fyrir 1.8 MHz og Diamond X-30 stangarloftnet fyrir 144/430 MHz. Ljósmynd: Brynjólfur Jónsson TF5B.

Næsta tölublað CQ TF, 1. hefti þessa árs, kemur út fimmtudaginn 28. janúar n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur er til 16. janúar n.k.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

Áramótakveðjur og 73,
TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á nýju ári.

Kallmerkið TF3YOTA var aftur virkjað í dag (29. desember) um gervihnöttinn ES‘hail-2 / Oscar 100. Elín Sigurðardóttir, TF2EQ ungmennafulltrúi ÍRA, setti stöðina í loftið frá Skeljanesi en hún var síðast QRV um gervitunglið þann 1. desember s.l. Hún hafði að þessu sinni sambönd við alls 95 stöðvar, þ.á.m. á öllum Norðurlöndunum, annars staðar í Evrópu, Afríku, Austurlöndum nær (fyrir botni Miðjarðarhafs), Asíu og í Suður-Ameríku.

Svo skemmtilega vildi til, að eitt af fyrstu samböndunum var við Ninu Riehtmüller, DL3GRC. En Nina heimsótti félagsaðstöðuna í Skeljanesi 5. september í fyrra (2019) og varð fyrsta konan til að virkja TF3IRA í gegnum Oscar 100. Það urðu því fagnaðarfundir þegar þær Elín náðu saman í gegnum gervitunglið. Nina bað Elínu fyrir bestu kveðjur til félagsmanna ÍRA og sagðist hlakka til að koma aftur í heimsókn til Íslands sumarið 2021.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, VHF stjóri félagsins aðstoðaði Elínu og birti „vefstreymi“ á FB þar sem hægt var að fylgjast með samskiptunum frá TF3YOTA í gegnum gervitunglið í rauntíma.

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ er ungmennafulltrúi félagsins og YOTA verkefnisstjóri ásamt Árna Frey Rúnarssyni, TF8RN. Frekari virkni er áformuð frá TF3YOTA fyrir áramót.

Stjórn ÍRA.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ virkjaði TF3YOTA í fjarskiptaaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 29. desember. Fjarskiptin fóru fram um Es’hail-2 / Oscar-100 gervitunglið. Ljósmynd: TF3JB.
Nina Riehtmüller DL2GRC í fjarskiptaherbergi TF3IRA 5. september 2019. Henni á hægri hönd er Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og á vinstri hönd, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS. Ljósmynd: TF3JB.

ÍRA hafa borist upplýsingar um að tíðnir á 80 metrum og 40 metrum hafa verið teknar til notkunar fyrir neyðarfjarskipti eftir jarðskjálftann (6.4 á Richter) sem varð í Petrinja í Króatíu í hádeginu í dag, 29. desember, u.þ.b. 50 km frá höfuðborginni Zagreb. Skjálftans var jafnframt vart í nágrannalöndum.

Tíðnirnar eru: 3.675 MHz og 7.125 MHz. Þess er farið á leit að íslenskir radíóamatörar taki tillit til þessara forgangsfjarskipta, a.m.k. næstu daga.

Stjórn ÍRA.

Upptök skjálftans voru í Króatíu, en hans varð einnig vart í Bosníu Herzegoviníu, Tékklandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Ítalíu, Montenegro, Rúmeníu, Slóvakíu, Serbíu og Austurríki.