Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 28. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Kristinn Andersen TF3KX í Skeljanes með erindið „QRP afl, heimasmíði og notkun QRP senda“.

Hin síðari ár hefur framboð á QRP stöðvum fyrir radíóamatöra aukist með hverju árinu. Í boði eru í dag, hvorutveggja gott úrval af samsettum og ósamsettum tækjum við hagstæðu verði. Tilkoma stafrænna tegunda útgeislunar hefur mikið aukið vinsældir QRP, sem og framboð á ódýrum stöðvum og búnaði frá Kína.

Kristinn mun ræða um QRP afl, samspil QRP afls og tíðna og um mikilvægi góðra loftneta og m.a. skýra frá eigin reynslu af notkun færanlegra QRP stöðva innanlands og erlendis.

Þetta er áhugavert efni og eru félagsmenn hvattir til að mæta tímanlega. Góðar kaffiveitingar.

Stjórn ÍRA.

Á myndinni heldur Kristinn á eigin QRP tækjum sem hann keypti ósamsett frá Elecraft. Efri stöðin er Elecraft K1; tveggja banda CW stöð, sendiafl: 0.1-5W. Hægt er að velja tvö bönd, þ.e. á 80, 40, 30, 20, 17 og 15M. Neðri stöðin er Elecraft 2; SSB/CW stöð á 80-10M (hægt er að bæta við 160M). Sendiafl: 0.1-15W. LJósmynd: Jón Svavarsson TF3JON.

Önnur sunnudagsopnun á vetrardagskrá ÍRA var sunnudaginn 24. nóvember. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, mætti í Skeljanes og fjallaði um „Hvernig er að vera QRV á FT4?“

Fram kom m.a. að FT4 sem er samskiptaháttur sem hefur verið kynntur sem tilraun sem beint er sérstaklega að keppni. Hann lagði áherslu á að FT4 er ekki mótunaraðferð heldur samskiptareglur undir MFSK mótun. Sendir eru 4 tónar í tíðnihliðrunarlyklun og er heildarbandbreidd sendingarinnar 90Hz. Til samanburðar er FT8 8 tónar og heildarbandbreiddin 50Hz. Samskiptahátturinn er nauðalíkur FT8 að mörgu leyti, bæði í innri uppbyggingu og í notendaskilum:

  • Sendingarnar standa alltaf yfir í fastsettan ákveðinn tíma
  • Fyrirfram er ákveðið að miklu leyti hvað fram fer í sendingunni
  • Afar öflug villuleiðrétting á sér stað í móttökunni
  • Hver sendilota er aðeins 6 sekúndur, FT4 er því 2,5x hraðvirkara en FT8
  • FT4 er því að jafnaði á sama hraða og RTTY … en
  • FT4 getur unnið með merki sem er 10dB veikara en RTTY ræður við
  • FT4 notar bara brot af bandbreidd RTTY fyrir hverja sendingu

Þetta er hægt m.a. með síunartækni þar sem kassabylgjuformið er rúnnað af til að eyða smellum, rétt eins og í morsi (sjá meðf. mynd neðar).

Allt FT4 utanumhaldið fer fram í forritinu sem mótar/afmótar en nokkur forrit eru í boði, t.d. WSJT-X, JTDX og MSHV eru þekktust. FT4 hefur sérstakt tíðniplan, oft aðeins ofar í tíðni en FT8 en þó ekki alltaf. Í JTDX forritinum má hlaða öllu tíðniplaninu inn með einum smelli í uppsetningarhætti forritsins. Undantekning frá því getur verið þegar stórir/eftirsóttir DX leiðangrar eru virkir, þá er móttakan iðulega höfð annarsstaðar. Dæmi 1A0C sendi á venjulegu 14,080 en hlustaði á 14,090, en næstum allir á 14,090 voru þá að kalla á þá. Að lokum sýndi Vilhjálmur hvernig QSO í FT4 fara fram og notaði hann til þess Logger32 forritið með JTDX uppsettu sem undirforriti í því, en þannig loggast öll sambönd jafnóðum beint í loggforitið sem hann notar að jafnaði auk þess sem það sést jafnóðum hvaða sambönd hafa verið átt við stöðvarnar sem kalla, hver sem mótunin hefur verið fyrr.

Að lokum var farið í loftið á FT4 úr fjarskiptaherbergi TF3IRA og „runnu“ samböndin afar lipurt í gegn. Flestir viðstaddir voru á því að áhugavert væri að prófa FT4, en að sögn Vilhjálms er þó nokkur fjöldi TF-stöðva þegar virkur á FT4. Bestu þakkir til Vilhjálms fyrir skemmtilega og afar fróðlega kynningu og vel fram setta. Alls mættu 10 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan frostkalda sunnudagsmorgun í vetrarsól og lognblíðu í vesturbænum í Reykjavik.

Skeljanesi 24. nóvember. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS úrskýrir FT4 samskiptamátann í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Aðrir á mynd (frá hægri til vinstri): Óskar Sverrisson TF3DC og Þórður Adolfsson TF3DT (snúa baki í myndavél), Mathías Hagvaag TF3MH, Kristján Benediktsson TF3KB, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG og Vilhjálmur TF3VS. Þar sem viðburðurinn var “sófasunnudagur” voru málin bæði rædd á neðri hæð í leðursófasettinu – áður en farið var upp í fjarskiptaherbergi og eftir – yfir kaffi og meðlæti.
Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Óskar Sverrisson TF3DC (næst myndavél).
Óskar Sverrisson TF3DC og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS skoða FT4 merki á skjánum. Öllum viðkomnadi bauðst að prófa að fara í loftið á FT4 með leiðsögn. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Í gömlu Loftskeytastöðinni við Brynjólfsgötu er óvenjuleg ljósasería á þakkanti hússins.

Þarna hefur verið sett upp listaverkið „K“ (Með ósk um svar) eftir Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur. Það samanstendur af ljósaperum sem stafa á morsi, tegundaheiti hvalategunda. Það var einmitt í Loftskeytastöðinni sem þráðlaus samskipti komust á við útlönd fyrir um 100 árum og loftskeyti voru send og móttekin á morsi með útvarpsbylgjum. Listaverkið mun verða sýnt til 23. febrúar n.k.

Sjá nánar frásögn á þessari vefslóð Háskóla Íslands: https://www.facebook.com/HaskoliIslands/posts/10156302750290728

Sunnudaginn 24. nóvember kl. 11 árdegis verða 2. „sófaumræður“ vetrarins á yfirstandandi vetrardagskrá. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, mætir í sófann og leiðir umræður um hvernig er að vera QRV á FT4.

WSJT-X hópurinn, þeir K1JT, K9AN og G4WJ kynntu nýju FT4 mótunina vorið 2019. FT4 er þróað í framhaldi af FT8 og einkum hugsað til nota í keppnum.

FT4 er nánast hliðstæð í notkun og FT8 nema að samskipti eru 2,5 sinnum hraðari, þ.e. sending á FT4 tekur 4.48 sek. samanborið við 12.64 sek. á FT8. FT4 notar jafnframt minni bandbreidd, eða  90 Hz.

Á meðan hægt er að hafa QSO á FT8 allt niður í -26dB þarf FT4 u.þ.b. 5dB sterkara merki. Tíðnir fyrir FT4 QSO eru yfirleitt 4 kHz ofar á böndunum, en undantekningar eru frá því, t.d. á 20m þar sem tíðnin er 14.080 MHz.

Félagar, mætum tímanlega. Húsið opnar kl. 10:30. Kaffiveitingar frá Björnsbakaríi.

Stjórn ÍRA.

Haraldur Þórðarson, TF8HP, hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Þær upplýsingar bárust til félagsins í dag að Haraldur hafi látist á sjúkrahúsi í morgun, 21. nóvember. Hann var á 77. aldursári, heiðursfélagi í ÍRA og leyfishafi nr. 70.

Um leið og við minnumst Haraldar með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF3JB,

formaður.

Góðar fréttir bárust til félagsins í morgun, 21. nóvember,  þess efnis að radíótíðniráðstefna Alþjóða fjarskiptasambandsins ITU, WRC-19, hafi samþykkt frumvarp IARU um að 50 MHz bandinu verði úthlutað til radíóamatörþjónustunnar. Endanlegur frágangur samþykktarinnar verður afgreiddur þegar ráðstefnunni lýkur í næstu viku.

Samþykktin er stigskipt (eins og við var búist), þ.e. 44 þjóðríki á Svæði 1 munu veita leyfishöfum ríkjandi aðgang á 500 kHz (á 50-54 MHz) og 26 ríki munu veita ríkjandi aðgang að öllu sviðinu.  Öll þjóðríki í Svæði 1 hafa samþykkt að veita radíóamatörum víkjandi aðgang að tíðnisviðinu 50-52 MHz. Aðrar þjónustur sem fyrir voru með úthlutun í Svæði 1 og Svæði 3 munu halda heimildum. Núverandi ríkjandi aðgangur radíóamatöra að 50-54 MHz í Svæðum 2 og 3 helst óbreyttur.

Nánari útfærsla er gerð af stjórnvöldum í hverju þjóðríki eftir ráðstefnuna.

Stjórn ÍRA sendi erindi í morgun til Póst- og fjarskiptastofnunar og til framkvæmdastjórnar IRAU og IARU Svæðis 1 með þakklæti fyrir hönd íslenskra radíóamatöra.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 21. nóvember.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti.

Mathías Hagvaag, TF3MH, QSL stjóri félagsins, tæmir pósthólfið hvern miðvikudag og verður búinn að flokka nýjar QSL sendingar fyrir opnun á fimmtudagskvöld.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Myndin var tekin í fundarhléi 7. nóvember s.l., þegar Yngvi Harðarson TF3Y flutti erindið “Að minnka truflanir í móttöku í HF fjarskiptum“. Á myndinni stillir Yngvi inn tíðni í móttöku á magnetíska lúppu. Wilhelm Sigurðsson TF3AWS heldur á lúppunni og aðstoðar með að leita eftir besta merki. Hrafnkell Sigurðsson TF8KY fylgist með. Ljósmynd: TF3SB.

CQ World Wide DX morskeppnin 2019 verður haldin 23.-24. nóvember. Keppnin er 48 klst. og hefst kl. 00:00 á laugardag og lýkur kl. 23:59 á sunnudag.

Keppnin fer fram á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Í boði eru fjölmargir keppnisriðlar (sjá reglur).

Þátttaka var ágæt frá okkur í fyrra (2018); þá sendu fimm TF kallmerki inn keppnisdagbækur: TF3DC, TF3SG, TF3W, TF3Y og TF8KY. TF3VS og TF4M sendu inn viðmiðunardagbækur (e. check-log).

Með ósk um gott gengi,

Stjórn ÍRA.

Heimasíða keppninnar: https://www.cqww.com/

Keppnisreglur: https://www.cqww.com/rules.htm

Fyrsta sunnudagsopnun á vetrardagskrá ÍRA var sunnudaginn 17. nóvember. Jónas Bjarnason, TF3JB, mætti í Skeljanes og fjallaði um viðurkenningar radíóamatöra.

Fram kom m.a. að viðurkenningar hafa verið í boði til radíóamatöra í a.m.k. 96 ár og að þær eru vinsæll þáttur hjá mörgum sem hluti af áhugamálinu. Fram kom einnig, að margar eru erfiðar eða jafnvel mjög erfiðar að ná og að það getur tekið mörg ár eða jafnvel áratugi að uppfylla kröfurnar.

Þær þekktustu eru DXCC, WAZ, WAC, WAS, IOTA, WAE og EUROPA DIPLOM. Þær eiga það allar sammerkt að það liggur töluverð vinna á bak við þær. Sá leyfishafi sem á flestar viðurkenningar hér á landi nálgast 2000 og er enn jafn áhugasamur og hann var daginn sem hann byrjaði.

Á staðnum voru til sýnis 30 innrammaðar viðurkenningar sem TF3JB hefur safnað í gegnum árin, m.a. DXCC, 5BDXCC, DXCC CHALLENGE, WAZ, WPX, WAS, WAJA, VUCC og fleiri.

Alls mættu 11 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan ágæta sunnudagsmorgun.

Vefslóð á glærur: http://bit.ly/345WdY1

Skeljanesi 17. nóvember. Frá vinstri: Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Ársæll Óskarsson TF3AO, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Jónas Bjarnason TF3JB og Mathías Hagvaag TF3MH (snýr baki í myndavél). Í guggunum má sjá raðað sex af þrettán DXCC viðurkenningum TF3JB. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.
Hluti af viðurkenningum sem voru til sýnis í Skeljanesi. Frá vinstri sést í VUCC sem er skammstöfun fyrir “VHF/UHF Centruy Club Award” og er hliðstæð DXCC viðurkenningum á HF. Þetta er eina VUCC viðurkenningin sem hefur verið gefin út til TF á 50 MHz. Fyrir miðju er WAJA (Worked All Japan Prefectures Award). TF3JB upplýsti að það hafi tekið hann 38 ár að safna upp í kröfur japanska landsfélagsins þegar hann fékk hana loks í febrúar 2015. Aðrar viðurkenningar sem sjást (eða sést í) eru WAZ (Worked All Zones) og WAS (Worked all States Award). Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.

Fundargerðir stjórnar ÍRA á heimasíðu enda í nóvember 2018. Fundargerðir sem á vantar til dagsins í dag – hafa verið birtar jafn óðum í CQ TF og hengdar upp á tilkynningatöflu í Skeljanesi. Auk þess, má lesa fundargerðir fyrra starfsárs í Ársskýrslu 2018/19. Hvorutveggja skýrsla og CQ TF eru til niðurhals á PDF formi hér á heimasíðunni.

Fundargerðir í Ársskýrslu 2018/19:
– Stjórnarskiptafundur 2018; 20. mars, bls. 92.
– Fundur 1/2018; 4. apríl, bls. 94.
– Fundur 2/2018; 2. maí, bls. 98.
– Fundur 3/2018; 11. júní, bls. 102.
– Fundur 4/2018; 8. ágúst, bls. 107.
– Fundur 5/2018; 3. október, bls. 112.
– Fundur 6/2018; 13. nóvember, bls. 117.
– Fundur 7/2018; 16. janúar, bls. 120.

Fundargerð í 2. tbl. CQ TF 2019:
– Fundur 8/stjórnarskiptafundur 2019; 26. febrúar,  bls. 37-38.

Fundargerðir í 3. tbl. CQ TF 2019:
– Fundur 1/2019; 26. febrúar; bls. 40-41.
– Fundur 2/2019; 26. mars, bls. 41-43.

Fundargerðir í 4. tbl. CQ TF 2019:
– Fundur 3/2019; 11. júní, bls. 41-44.
– Fundur 4/2019; 8. júlí; bls. 44-46.

Á meðan unnið er að uppfærslu fundargerða á heimasíðu sem og á fleiri undirsíðum er beðist velvirðingar á því óhagræði sem það kann að valda. Stefnt er að því að ljúka verkefninu fljótlega.

Stjórn ÍRA.

Vefslóðir:

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/02/20190216-arsskrysla-tf3jb.pdf

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/09/cqtf_33arg_2019_04tbl.pdf

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/06/cqtf_33arg_2019_03tbl.pdf

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/03/cqtf_33arg_2019_02tbl.pdf

Fundargerðir stjórnar eru hengdar upp á tilkynningatöflu í Skeljanesi jafn óðum og þær hafa verið hlotið samþykki sem og í næsta hefti CQ TF. Loks eru allar fundargerðir hvers starfsárs birtar í ársskýrslu. Myndin að ofan var tekin 23. september s.l. í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Félaginu barst að gjöf jeppafylli af radíódóti frá Sigurði Harðarsyni, TF3WS, fimmtudagskvöldið 14. nóvember. Þá lauk Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, við uppfærslu þriðju tölvunnar í fjarskiptaherbergi TF3IRA (Lenovo ThinkCentre). Síðast, en ekki síst, áttu félagsmenn góðar umræður um áhugamálið yfir kaffibolla.

Að venju var mikið rætt um tækin, loftnet, „Sark 110“ loftnetsgreininn (sem einn var nýbúinn að panta), skilyrðin á 80 metrum nú um stundir, verkefni sem menn eru með á vinnuborðinu o.m.fl. Einn félagsmanna kom færandi hendi með stóra dós af jólakonfekti frá Quality Street (Christmas 2019 Edition), og smakkaðist innihaldið vel með kaffinu.

Radíódótið frá TF3WS verður til afhendingar til félagsmanna frá og með 17. nóvember, en á sunnudag verður svokallaður „sófasunnudagur“ í Skeljanesi.

Alls mættu 19 félagar og 1 gestur í Skeljanes í heiðskírri froststillunni þetta ágæta vetrarkvöld.

Hluti af radíódótinu sem barst frá TF3WS 14. nóvember. M.a. mikið af spennum, aflgjöfum, a.m.k. 1 RF magnari o.m.fl. Mynd: TF3JB.
Yfirlitsmynd yfir radíódótið sem TF3WS færði félaginu. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
TF1A gengur frá nýju skjákorti í Lenovo ThinkCentre tölvuna, sem notast við Icom iC-7610 stöð TF3IRA. Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS. Ljósmynd: Jónas Bjarnason, TF3JB.

Sunnudaginn 17. nóvember kl. 11 árdegis verða svokallaðar „sófaumræður“ í Skeljanesi; þær fyrstu á yfirstandandi vetrardagskrá. Til umfjöllunar verða viðurkenningar radíóamatöra. Jónas Bjarnason, TF3JB, leiðir umræður.

Viðurkenningar hafa fylgt áhugamálinu í tæp 100 ár. Leitast verður við að svara nokkrum grundvallarspurningum, þ.á.m.:

  • Hvað eru viðurkenningar radíóamatöra?
  • Fyrir hvað standa þær til boða?
  • Hvað þurfa menn að gera til að fá þær?
  • Hverjir gefa þær út?
  • Hvað gerir maður síðan við viðurkenningarnar?

Sófaumræður eru það fyrirkomulag, þegar boðið er upp á umræður á messutíma sem eru hugsaðar sem afslappaðar, þ.e. þar sem menn sitja með kaffibolla í stóra sófasettinu og ræða amatör radíó. Tiltekinn leyfishafi sem hefur staðgóða þekkingu á viðkomandi umræðuefni, leiðir síðan umræðuna og svarar spurningum.

Húsið opnar kl. 10:30. Vandaðar kaffiveitingar frá Björnsbakaríi.

Stjórn ÍRA.