Japanskir radíóamatörar fengu í gær (21. apríl) uppfærðar tíðniheimildir á 160 metrum. Tíðnisvið þeirra eru nú: 1800–1810 kHz og 1825–1875 kHz; allar tegundir útgeislunar. Innifalið er m.a. SSB sem þeir hafa ekki haft áður á þessu bandi.

Hingað til hafa sambönd við Japan á bandinu, t.d. á FT8 samskiptahætti, farið fram á skiptri tíðni (e. split frequency) eins margar TF stöðvar hafa reynslu af. Þessi breyting mun hafa verulega einföldum í för með sér á þessu erfiða bandi.

Eftir breytinguna 21.4.2020 er hægt að hafa sambönd við JA stöðvar t.d. á FT8 samskiptahætti á 1840 kHz en áður þurftu slík sambönd að fara fram á skiptri tíðni (hlustað á 1908 kHz). Ljósmynd: TF3JB.

Nýtt kallmerki ÍRA, TF3WARD, var virkjað á Alþjóðadag radíóamatöra laugardaginn 18. apríl. Alls voru höfð 320 QSO á morsi og tali á 20, 30 og 40 metrum við 46 DXCC einingar, þ.á.m. Afganistan og Taíland. Mikil virkni var á böndunum þennan dag í þokkalegum skilyrðum, þ.á.m. alþjóðlegar keppnir.

Meðal stöðva sem kölluðu á okkur var PA8ØØD á 40 metrum, SSB. Á hljóðnemanum var Elín Sigurðardóttir, TF2EQ, en kallmerkið tilheyrir klúbbstöð radíóamatöra í borginni Dordrecht í Hollandi þar sem hún er búsett. Elín bað fyrir kveðjur heim.

Óskar Sverrisson, TF3DC, sá um innsetningu kallmerkisins á LoTW (Logbook of The World) og Yngvi Harðarson, TF3Y, sá um innsetningu á QRZ. Mathías Hagvaag, TF3MH, annast QSL mál; m.a. hönnun á sérstöku QSL korti fyrir kallmerkið.

Þakkir til Yngva Harðarsonar, TF3Y, fyrir að virkja nýja kallmerkið.

Stjórn ÍRA.

Alþjóðadagur radíóamatöra er laugardaginn 18. apríl. Þann mánaðardag árið 1925 voru alþjóðasamtök landsfélaga radíóamatöra, International Amateur Radio Union IARU stofnuð, fyrir 95 árum. Aðildarfélög voru í upphafi 25 talsins, en í dag eru starfandi landsfélög radíóamatöra í 160 þjóðlöndum heims, með yfir 4 milljónir leyfishafa.

Félagið Íslenskir radíóamatörar mun halda upp á daginn með því að virkja í fyrsta skipti, nýtt kallmerki félagsins, TF3WARD (World Amateur Radio Day). ÍRA mun þannig feta í fótspor systurfélaganna á Norðurlöndum (og um allan heim), sem starfrækja þennan mánaðardag á ári hverju, kallmerki með hliðstæðu viðskeyti.

IARU skiptist á þrjú svæði: Svæði-1 sem nær yfir Evrópu, Afríku, Miðausturlönd og norður hluta Asíu; Svæði-2 sem þekur Norður- og Suður Ameríku og Svæði-3, sem nær yfir Ástralíu, Nýja Sjáland, Kyrrahafseyjar og stærstan hluta Asíu.

Stjórn ÍRA.

Glæsilegt loftnet félagsstöðvar ÍRA í Skeljanesi er 4 staka Yagi frá OptiBeam af gerðinni OB4-20OWA. Ljósmynd: TF3JB.

Orðsending frá Hrafnkeli Sigurðssyni TF8KY, umsjónarmanni Páskaleika ÍRA:

Kæru félagar !

Jæja, þá er páskaleikum 2020 lokið.  Ég vil þakka öllum sem tóku þátt fyrir frábæra skemmtun. Vefsíðan verður opin til miðnættis sunnudag 19. apríl.  Þá ættu allir að hafa lokið við að leiðrétta innsláttarvillur.

Það liggur nokkuð ljóst fyrir að TF3ML fór með sigur af hólmi. Óskum Óla til hamingju með sigurinn!  Þetta var verðskuldaður sigur. Hann var víðförull og á skráð QSO í leikunum úr mörgum reitum (HP74, HP84, HP85, HP94, HP93). Úr flestum þessum reitum hafði hann samband við stöðvar í 4-5 öðrum reitum, sem gaf honum alls 21 margfaldara. Auk þess voru flest hans QSO yfir langar vegalengdir á VHF og UHF (64 af 90 QSO‘um yfir 100 km).

Nokkrir þátttakendur áttu fleiri en 100 sambönd…TF2MSN 177 QSO; TF1OL 148 QSO og TF3VE 110 QSO. Þakka þeim fyrir flott starf og mikla yfirsetu. Vel gert!  16 TF kallmerki með skráða þátttöku í ár samanborið við 17 kallmerki sem skiluðu inn gögnum í fyrra (2019).

Frekari úrvinnsla á gögnum leikjavefsins verður eftir lokun kerfisins 19. apríl. Verðlaunaafhending verður kynnt síðar.

Takk aftur fyrir þátttökuna og frábæra skemmtun!

73, TF8KY.

TF3ML/M við Svörtuloftavita yst á Skálasnaga á Svörtuloftum, vestast á Snæfellsnesi (suður frá Öndverðarnesi). Viti hefur verið þarna frá 1914, en núverandi viti frá 1931. Ljósmynd: Ólafur B. Ólafsson TF3ML.
ICOM IC-9700 stöðin QRV á FM og SSB á 2 metrum, 70 sentímetrum og 23 sentímetrum. Ljósmynd: Ólafur B. Ólafsson TF3ML.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum gleðilegrar páskahátíðar.

Við vonum að þessir dagar bjóði upp á góðar stundir í faðmi fjölskyldunnar við þær óvenjulegu aðstæður sem nú ríkja hér á landi sem annars staðar.

Stjórn ÍRA.

W3LPL, skrifar í dag á netinu (10. apríl) að líklegt sé að botninum í skilyrðunum hafi verið náð um jólaleytið 2019. Hann segir þó að ekki verði hægt að staðfesta það fyrr en síðar á árinu.

Þetta eru góðar fréttir fyrir radíóamatöra og hann segir, að vonandi getum við látið okkur hlakka til að lota 25 fari af krafti í gang á þessu ári. Hann nefnir í því sambandi, að af síðustu fimm sólblettum hafi einvörðungu AR-2557 tilheyrt lotu 24.

Fréttir berast af skilyrðum á 50 MHz vestanhafs. W2OR nefnir góðar opnanir í skrifum sínum á netinu í gær (9. apríl) niður til Suður-Ameríku og Karíbahafsins (á morsi og FT8 samskiptahættinum), auk sambanda á milli  KG4NE (á Guantanamo) og CE54DXU (í Chile). Þetta lofar góðu fyrir okkur hér uppi í norðrinu þótt skilyrðin á 6 metrum opnist yfirleitt seinna hér heldur en þessum heimshlutum.

Mynd frá 25. júní 2018 þegar TF3JB varð QRV á FT8 samskiptahætti á 50 MHz. Glöggir lesendur taka eftir skrúfstykkinu lengst til hægri á myndinni, en aðstaðan fyrir 6 metra stöðina var á þessum tíma staðsett á vinnuborði í bílskúrnum. Ljósmynd: TF3JB.

Erindi frá Hrafnkeli Sigurðssyni TF8KY, umsjónarmanni Páskaleika ÍRA:
(Uppfært 11.4. kl. 08:50)

Kæru félagar !

Byrjum að hlaða byssurnar!  Nú fer að styttast í stóru stundina.  Allir með!

Leikjasíðan fyrir Páskaleika 2020 er komin í loftið.  Fyrir þá sem ekki hafa séð síðuna áður, þá er þetta frekar þægilegt.  Fara í nýskrá, gefa upp kallmerki, nafn eða gælunafn, tölvupóst og lykilorð (tvisvar). Þú færð tölvupóst með PIN númeri sem þú notar í fyrsta skipti þegar þú skráir þig inn (notar lykilorðið og PIN númerið). Mátt gleyma PIN númerinu eftir það, skráir þig framvegis inn, bara með kallmerki og lykilorði.

http://leikar.ira.is/paskar2020/

Skráningarblað fyrir Páskaleika.
Hér má hlaða niður skráningarblaði fyrir Páskaleika, hlekkurinn virðist ekki virka í kerfinu: QsoSkraning.pdfPDF

Fyrir leikinn þá kynnir þú þér reitanúmerið.  Það er hægt að gera með „appi“ í snjallsíma, t.d. “QTH Locator”.  Á Íslandi byrja allir reitir á HP eða IP, t.d. HP83TX.  Ef „appið“ gefur upp 8-stafa reitanúmer þá notar þú fyrstu 6 stafina.  Eftir fyrsta samband man kerfið reitanúmerið og þarft ekki að slá það inn nema þú færir þig á annan stað.  Við hvert samband gefur þú upp reitanúmer og QSO númer.  Tekur við því sama frá hinum og skráir það ásamt bandinu sem var notað, t.d. 70cm.

Ef eitthvað er óljóst, ekki hika við að hafa samband.  Ég og fleiri erum meira en til í að aðstoða; “hrafnk hjá gmail.com”

Það eru þegar komin „feik“ QSO í kerfið, endilega prófið að logga sambönd.  Bæði til að átta ykkur á þessu og til að „spotta“ mögulegar villur í kerfinu.  Þetta er ekki fullkomið og það væri vel þegið að fá að vita af villum sem finnast.  QSO „loggurinn“ verður hreinsaður eftir kl. 19 á föstudag og allt gert klárt fyrir leikinn.

Sjáumst í loftinu, góða skemmtun !

73 de TF8KY.

TF3IRA verður QRV í páskaleikunum 2020. Til gamans er birt mynd úr Skeljanesi þegar félagsstöðin tók þátt í fystu páskaleikunum 31. mars til 1. apríl 2018. Ljósmynd: TF3JB.

Erindi frá Elínu Sigurðardóttur, TF2EQ, Ungmennafulltrúa ÍRA:

Kæru félagsmenn:

Um páskahelgina, 10.-13. apríl, verður NOTA (Nordics On The Air) viðburðurinn í loftinu. Kallmerki landsfélagana á Norðurlöndum (með YOTA viðskeyti) verða virkjuð hvern páskadag. Það verður auglýst á samfélagsmiðlum (sjá vefslóðir neðar) hvenær hver stöð fer í loftið. Endilega reynið að ná sambandi við okkur eða láta heyra í ykkur í loftinu, ég stóla á ykkur!

Vala Dröfn, TF3VD og Oddný ætla að virkja TF3YOTA heiman að frá sér í Garðabæ, a.m.k. á annan í páskum (13. apríl). Frekari upplýsingar um þeirra virkni verður einnig auglýst á samfélagsmiðlum. Undirrituð, PA/TF2EQ verður QRV frá Hollandi á mánudag.

73, Elín TF2EQ.

www.ham-yota.com/nota-activation

http://www.facebook.com/hamyota/

Ágæt skilyrði hafa verið á 80 metrum um helgina á innanlandstíðninni 3637 kHz. Þar eru menn aðallega virkir á tali (SSB) um helgar, á bilinu frá klukkan 9 árdegis fram að hádegi. Þessar stöðvar voru virkar í morgun, sunnudaginn 5. apríl:

TF4AH (Patreksfirði); TF7DHP (Akureyri); TF2LL (Borgarfirði); TF8PB (Vogum); TF1EIN (Hveragerði); TF3OM (Geysi í Haukadal); TF1JI (undir Eyjafjöllum); TF3VE (Hafnarfirði) og TF1A og TF3Y (Reykjavík).

Í gær, laugardag 4. apríl, voru að auki þessi kallmerki QRV á 3637 kHz: TF3GS (Úlfljótsvatni) og TF8SM (Garði).

Tilkynning til félagsmanna frá Hrafnkeli Sigurðssyni, TF8KY, umsjónarmanni páskaleikana:

Þá er stóra stundin að renna upp. Páskaleikar 2020 renna upp um næstu helgi.  Vika til stefnu!!!

Leikurinn byrjar á laugardag 11. apríl kl. 00:00 (eftir miðnætti föstudagskvöld) og endar sunndag (Páskadag) 12. apríl kl. 23:59.

Að venju verður “online” loggur og rauntíma stigaskráning sem uppfærist um leið og hvert samband er skráð og staðfest.  Hlekkurinn á síðuna verður kynntur síðar.

Notum HF / VHF / UHF og hvetjum til notkunar hærri tíðna í tilraunaskyni.

Leikurinn er alltaf í þróun og vegna fjölda áskoranna er verið að endurskoða stigareikninginn. Það er helst fólgið í að verðlauna langdræg sambönd betur en síðast en halda þó margfaldarakerfinu sem fyrir var.

Fyrirspurnir má senda á tölvupóstfangið “hrafnk hjá gmail.com”

73 de TF8KY.

Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, umsjónarmaður Páskaleikana. Myndin var tekin á aðalfundi ÍRA 15. febrúar s.l. Ljósmynd: TF3JON.
Mynd af viðurkenningum félagsins fyrir bestan árangur í Páskaleikunum í fyrra (2019). Ljósmynd: TF3JB.

Keppnisnefnd CQ hefur birt bráðabirgðaniðurstöður (e. raw scores) í SSB-hluta CQ World Wide WPX keppninnar 2020, sem fram fór helgina 28.-29. mars s.l.

5 TF-stöðvar sendu inn gögn í 4 keppnisflokkum.

TF1AM – Öll bönd, einmenningsflokkur, háafl.
TF8KY – Öll bönd, einmenningsflokkur, lágafl.
TF3AO – 20 metrar, einmenningsflokkur, aðstoð, háafl.
TF2LL – 80 metrar, einmenningsflokkur, háafl.
Viðmiðunardagbók (e. check-log): TF3SG.

https://www.cqwpx.com/logs_received_ssb.htm

Japanskir radíóamatörar hafa í dag heimildir á tíðnisviðunum 1810-1825 kHz á morsi og 1907.5-1912.5 á morsi og stafrænum tegundum útgeislunar. Þeir fá nú uppfærða tíðniúthlutun á 160 metrum, þ.e. á 1800-1810 kHz og 1825-1875 kHz, auk þess sem talheimild (SSB) bætist við.

Fram að þessu hafa sambönd við Japan á FT8 samskiptahætti á 160 metrum farið fram á skiptri tíðni (e. split frequency). Þessi breyting mun hafa verulega einföldum í för með sér á þessu erfiða bandi. Nýjar heimildir þeirra taka gildi á næstunni.

Frá 4. desember 2018 á QRG 1840 kHz. Á skjánum á tölvunni má m.a. sjá japönsk kallmerki á FT8 samskiptahætti. Ljósmynd: TF3JB.