CQ World-Wide WPX keppnin, SSB-hluti, fer fram eftir viku. Þetta er tveggja sólahringa keppni sem hefst kl. 00:00 laugardag 28. mars og lýkur kl. 23:59 sunnudag 29. mars. Hún fer fram á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Markmiðið er að hafa sambönd við kallmerki með eins mörg mismunandi forskeyti og frekast er unnt (VK1, VK2 o.s.frv.). Munur er gerður á stigagjöf eftir böndum, þ.e. QSO á milli meginlanda (e. continents) á 28, 21 og 14 MHz gefa 3 stig en 6 stig á 7, 3.5 og 1.8 MHz. Hvert forskeyti telst til margfaldara einu sinni (burtséð frá böndum).

CQ WPX keppnirnar eru með vinsælli alþjóðlegum keppnum og frábært tækifæri til að bæta í DXCC og WPX söfnin!

Vefslóð á keppnisreglur: https://www.cqwpx.com/rules.htm

Af óviðráðanlegum ástæðum verður félagsaðstaðan í Skeljanesi lokuð í kvöld, fimmtudaginn 19. mars.

Stefnt er á að opnað verði á ný fimmtudaginn 26. mars n.k.

Stjórn ÍRA.

Í gær, 17. mars, barst félaginu heimild frá Póst- og fjarskiptastofnun fyrir notkun á kallmerkinu TF3WARD. Viðskeytið er óvanalegt, því það er fjórir bókstafir sem standa fyrir World Amateur Radio Day. Kallmerkið verður eingöngu starfrækt einn dag á ári (18. apríl), en þann dag voru alþjóðasamtök landsfélaga radíóamatöra stofnuð í París, árið 1925.

Með þessu kallmerki, fetum við í fótspor systurfélaganna á Norðurlöndum (og víðar), sem starfrækja félagsstöðvar þennan mánaðardag ár hvert, með sérstökum kallmerkjum sem hafa hliðstæð viðskeyti. TF3WARD verður virkjað í fyrsta skipti frá Skeljanesi laugardaginn 18. apríl n.k. Það verður kynnt þegar nær dregur.

Í gær, 17. mars, færði Ársæll Óskarsson TF3AO, Mathíasi Hagvaag TF3MH QSL stjóra félagsins, sendingu QSL korta fyrir TF3YOTA. Kortin voru prentuð hjá Gennady, UX5UO, og hafði Ársæll milligöngu um verkefnið.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ ungmennafulltrúi ÍRA, annaðist hönnun kortsins og fékk leyfi listamannsins, Tómasar Freys Kristjánssonar, til að nota þessa sérstöku ljósmynd af Kirkjufellinu við Grundarfjörð, með norðurljósin í bakgrunni. Þess má geta, að bæði Elín og listamaðurinn eru Grundfirðingar.

Fyrir viku, 12. mars, færði Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, félaginu radíódót með kveðju frá Bjarna Magnússyni TF3BM, samanber meðfylgjandi ljósmyndir.

Bestu þakkir til allra viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

Kallmerkið TF3WARD verður virkjað í Skeljanesi á Alþjóðadag Radíóamatöra 18. apríl n.k.
Mathías Hagvaag TF3MH, var mjög ánægður með prentgæði nýja TF3YOTA QSL kortsins frá UX5UO.
Hluti af radíódótinu sem TF3FG færði félaginu frá Bjarna Magnússyni TF3BM í síðustu viku.
Hluti af radiódótinu sem TF3FG færði félaginu frá Bjarna Magnússyni TF3BM í síðustu viku. (Ljósmyndir: TF3JB).

Opið verður í Skeljanesi fimmtudaginn 19. mars.

Líkt og áður hefur komið fram, hefur öllum öðrum viðburðum verið frestað til haustsins.

Það eru tilmæli, að félagar sem hafa hug á að koma í félagsaðstöðuna, fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Stjórn ÍRA.

Opið er Skeljanesi í kvöld, fimmtudaginn 12. mars.

Líkt og áður hefur komið fram, hefur öllum öðrum viðburðum verið frestað til haustsins.

Það eru tilmæli, að félagar sem hafa hug á að koma í félagsaðstöðuna, fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Stjórn ÍRA.

Ný stjórn félagsins, sem kjörin var á aðalfundi ÍRA 2020, koma saman á 1. fundi sínum þann 10. mars og skipti með sér verkum. Skipan embætta starfsárið 2020/21 er eftirfarandi:

Jónas Bjarnason TF3JB, formaður.
Óskar Sverrisson TF3DC, varaformaður.
Georg Kulp TF3GZ, ritari.
Jón Björnsson TF3PW, gjaldkeri.
Guðmundur Sigurðsson TF3GS, meðstjórnandi.
Sæmundur Þorsteinsson TF3UA, varamaður.
Heimir Konráðsson TF1EIN, varamaður.

Stjórn ÍRA.

Á fundi í stjórn ÍRA í kvöld, 10. mars, var ákveðið að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði opin áfram á fimmtudagskvöldum.

Hins vegar var ákveðið að fresta öllum öðrum viðburðum í auglýstri vetrardagskrá fram á haustið, frá og með deginum í dag.

Ástæðan er, ríkjandi aðstæður vegna útbreiðslu kórónaveiru sem veldur CONVID-19 sjúkdómi, sem breiðist hratt út en tilfellin hér á landi eru orðin alls 81. Mörg fimmtudagserindi í boði á vetrardagskrá hafa verið vinsæl og ekki óalgengt að um 40 manns hafi verið samankomnir og sitja þétt, þannig að smithætta getur verið fyrir hendi.

Það eru tilmæli stjórnar, að félagar sem hafa hug á að koma í Skeljanes á fimmtudagskvöldum, fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður

Myndin er af 14 MHz OptiBeam 4 staka Yagi loftneti TF3IRA í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Stjórn ÍRA hefur ákveðið að fresta auglýstum flóamarkaði sem kynntur er á vetrardagskrá að verði haldinn sunnudaginn 8. mars.

Ástæðan er, ríkjandi aðstæður vegna útbreiðslu kórónaveiru sem veldur CONVID-19 sjúkdómi, en tilfellin á Íslandi eru orðin alls 35.

Flóamarkaðir ÍRA hafa, síðustu ár, verið fjölsóttustu viðburðir félagsins og gjarnan hafa komið um og yfir 50 manns í Skeljanes. Ljóst er, þegar slíkur fjöldi mætir í salinn, verða mikil þrengsli. Leitað var til fagaðila um álit vegna þessa í dag og okkur ráðlagt að fresta viðburðinum, sé þess kostur.

Því hefur verið ákveðið að fresta flóamarkaði ÍRA 2020 til sunnudagsins 3. maí n.k. Eins leitt og það annars er að fresta viðburði, er það mat okkar að betra sé að sýna fyrirhyggju í þessu máli.

Stjórn ÍRA.

OptiBeam OB4-20OWA 4 staka Yagi loftneti TF3IRA í Skeljanesi. LJósmynd: TF3JB.

Nú styttist í marshefti CQ TF sem kemur út sunnudaginn 29. mars n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur efnis er til 15. mars n.k. Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 5. mars. Að venju verður húsið opnað kl. 20:00.

Góður félagsskapur, kaffi, te og meðlæti og nýjustu tímaritin.

Mathías Hagvaag TF3MH, QSL stjóri ÍRA, verður búinn að flokka nýjar kortasendingar erlendis frá til félagsmanna fyrir opnunartíma.

Stjórn ÍRA.

Í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi. Yaesu FT-7900E VHF/UHF stöðin + MB-201 borðfesting og Icom IC-208H VHF/UHF stöðin fyrir APRS fjarskipti með GW-1000 APRS Total Solution búnaði frá CG-Antenna. Ljósmynd: TF3JB.

Hraðnámskeið var í boði á vetrardagskrá ÍRA sunnudaginn 1. mars þegar Yngvi Harðarson, TF3Y, mætti í Skeljanes með upprifjunarnámskeið á Win-Test keppnisforritinu.

Yngvi, sem hefur mikla reynslu af notkun Win-Test, fór vel yfir uppsetningu, notkun og viðhald forritsins. Hann sýndi uppsetninguna (skref fyrir skref), uppfærslu gagna, tengingarmöguleika og stillingar (fyrir mismunandi keppnir), auk þess sem nytsamar ábendingar um notkun fylgdu.

Hann fór vel yfir getu og möguleika forritsins, bæði í „Run“ og „S&P“ ham. Og fjallaði um mismunandi eiginleika í CW, SSB og RTTY keppnum, þ.á.m. stillingu tengiviðmóts, wtDX Telnet (hliðarforritisins) og uppsetningu á „Voice keyer“, RIGblaster og MicroHam búnaði. Þá kynnti hann nytsemi og möguleika mismunandi glugga á skjánum, út frá eigin reynslu.

Loks sýndi hann samhæfingu stöðvar og forrits með því að tengja eigin stöð á staðnum, þ.e. Elecraft KX-2. Glærur verða settar inn á heimasíðu, en þar til má smella á hlekkinn:  http://bit.ly/2PD61mZ

Alls mættu 12 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan veðurmilda og ágæta vetrarmorgun í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA þakkar Yngva fyrir vandað, nytsamt og vel undirbúið námskeið.

Skeljanesi 1. mars. Yngvi Harðarson TF3Y flutti upprifjunarnámskeið um Win-Test forritið.
Ein af mörgum fróðlegum glærum sem Yngvi sýndi um Win-Test forritið.
Við ræðupúltið í Skeljanesi. Yngvi tók með sér eigin stöð, Elecraft KX2 og sýndi á skemmtilegan hátt samhæfingu forrits og stöðvar.
KX2 stöðin frá Elecraft er vel búin QRP stöð fyrir 80-10 metra böndin. (Ljósmyndir: TF3JB).

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Jón G. Guðmundsson TF3LM, mættu  í Skeljanes laugardaginn 29. febrúar. Mælitæki voru sett upp í salnum til að mæla VHF og UHF stöðvar bæði fyrir amatörböndin og utan þeirra.

Þrennt var prófað: Afl sendis, næmleiki viðtækis og áberandi sterkar yfirsveiflur (frá 1mW). Allar prófanir voru gerðar í gerviálag.

Félagsmönnum var boðið að mæta á staðinn með eigin stöðvar og komu menn alls með 25 stöðvar (bílstöðvar, handstöðvar og heimastöðvar). Eftirspurn var þannig mjög góð og entist tíminn til að prófa alls 15 stöðvar.

Yfirsveiflur voru mældar upp að 1,5 GHz. Algengt var að sjá yfirsveiflur í kringum 800 MHz og lélegar Kínastöðvar, sem sendu merki fyrir neðan senditíðni (undirsveiflur). Þótt niðurstöður hafi almennt reynst góðar, sagðist Ari vilja benda á að ekki væri að vita hvernig tækin hegða sér t.d. á mismunandi bílnetum. Niðurstöður verða birtar á næstunni þegar búið verður að vinna úr niðurstöðum.

Mælitæki: Rohde & Schwarz CMU-300 Universal Radio Communication Tester (6 GHz), DBD Communications 100W gerviálag (6 GHz) og DAIWA CN-801V VHF/UHF standbylgju- og aflmælir. Aflgjafar: Diamond GSV3000 (25A), QJE PSV30SWIV (30A) og Astron SL-11A (11A).

Innan tíðar verður boðið upp á framhald mælinga í Skeljanesi til að ljúka mælingum á VHF/UHF stöðvum sem bíða, auk þess sem kallað verður eftir fleirum enda mikið um fyrirspurnir.

Stjórn ÍRA þakkar þeim Ara Þórólfi Jóhannessyni TF1A og Jóni G. Guðmundssyni TF3LM fyrir frábæran viðburð.

Alls mættu 30 félagar og 2 gestir þennan ágæta laugardag í Skeljanes, þrátt fyrir mikla snjókomu í vesturbæ Reykjavíkur.

Mælingarlaugardagur í Skeljanesi 29. febrúar. Frá vinstri: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Sveinn Aðalsteinsson (bak í myndavél), Jón G. Guðmundsson TF3LM og Sigurður Smári Hreinsson TF8SM.
Frá vinstri: Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Georg Kulp TF3GZ, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Sveinn Aðalsteinsson TF1SA (bak í myndavél) og Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE.
Strax upp úr klukkan 14 var mikið komið af félögum í hús. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF1A (bak í myndavél), Hörður Bragason TF3HB, Georg Kulp TF3GZ, Sveinn Aðalsteinsson TF1SA og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A. Síðan koma þeir Baldvin Þórarinsson TF3-033, Sigurður Smári Hreinsson TF8SM, Jón G. Guðmundsson TF3LM og Björgvin Víglundsson TF3BOI (allir með bak í myndavél).
Sumar mælingar vöktu kátínu. Frá vinstri: Georg Kulp TF3GZ, Jón Björnsson TF3PW, Sveinn Aðalsteinsson TF1SA, Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE, Sigurður Smári Hreinsson TF8SM, Jón Guðmundur Guðmundsson TF3LM, Snorri Ingimarsson TF3IK (bak í myndavél) og Benedikt Sveinsson TF3T.
Áfylling sótt á kaffið. Frá vinstri: Baldvin Þórarinsson TF3-033, Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Óskar Sverrisson TF3DC, Snorri Ingimarsson TF3IK og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS. (Ljósmyndir: TF3JB).