Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður haldið fimmtudaginn 29. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Ágúst H. Bjarnason, TF3OM, í Skeljanes með erindi um: „Fjarstýringu á amatörstöð yfir netið“.

Ágúst hefur ekki farið varhluta af auknum truflunum í viðtöku í HF sviðinu hin síðari ár fremur en aðrir leyfishafar búsettir í þéttbýli. Hann býr það vel að hafa til ráðstöfunar sumarhús í uppsveitum Árnessýslu þar sem hann hefur komið fyrir stöð sem hann getur stjórnað yfir netið frá heimili sínu í Garðabæ.

Í sumarhúsinu notar hann endafætt 39 metra langt EFHW 80-10 vírloftnet, sem gerir honum kleift að vinna á 80/40/30/20/17/15/12/10 metra böndunum, án loftnetsaðlögunarrásar. Loftnetið er í um 8 metra hæð yfir jörðu þar sem lægst er.

Hann segir okkur m.a. frá reynslu sinni að nota RemoteRig búnað frá Mike Styrefors, SE2R í sumarhúsinu, þar sem nánast engar truflanir eða suð eru í stuttbylgjusviðinu. Þessi búnaður fær mjög góðar umsagnir á Eham.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

Ágúst H. Bjarnason TF3OM verður í Skeljanesi 29. nóvember. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.


Úr fjarskiptaherbergi TF3OM heima í Garðabæ. Ljósmynd: Ágúst H. Bjarnason.

TF3OM í fjarskiptaaðstöðunni í sumarhúsinu. Ljósmynd: Ágúst H. Bjarnason.

Helgina 24.-25. nóvember stóð hópur félagsmanna í ströngu í Skeljanesi. Verkefnið var að skipta út turni, Alfa Spid Rak rótor, Fritzel FB-33 loftneti og fæðilínu. Eftirfarandi var gert:

Nýr turn var settur upp – hærri og öflugri. TF2LL gaf og gerði nýjan turn kláran og smíðaði öflugar botnfestingar (fellanlegar) sem og rótorsæti sem er rétt staðsett í turninum. Nýi rótorinn er frá ítalska framleiðandanum Pro.Sis.Tel. af gerðinni PST-61 og stóð félagssjóður straum af kostnaði hans. Nýja loftnetið er breytt OptiBeam OB5-20 einsbands Yagi fyrir 14 MHz. Georg endurvann allar stærðir í samráði við framleiðandann og er nýtt loftnet félagsins í raun 4 elementa OptiBeam OB4-20OWA eftir þær breytingar. Ný fæðilína er „Hardline 1/2“ frá Andrews.

Sex félagar báru hitann og þungann af uppsetningu og frágangi í Skeljanesi um helgina. Það voru Georg Magnússon, TF2LL sem gaf turninn, 4 staka einsbands Yagi loftnet og alla undirbúningsvinnu sem var gríðarlega mikil eða nær 200 tímar – auk vinnu þessa tvo daga. Ólafur B. Ólafsson, TF3ML, sem tengdi og gaf 40 metra langa fæðilínu og kom að undirbúningsvinnu, auk vinnu þessa tvo daga. Þórður Adolfsson, TF3DT sem gaf alla vinnu þessa tvo daga og kom með vörubíl með krana, sem reyndist ómetanlegt framlag. Jón Gunnar Harðarson, TF3PPN, sem gaf alla vinnu þessa tvo daga, en hann annaðist m.a. alla vinnu uppi í turninum. Baldvin Þórarinsson, TF3-Ø33, sem kom að undirbúningsvinnu, auk vinnu þessa tvo daga svo og Ásgeir Bjarnason sem aðstoðaði fyrri daginn.

Stjórnarmenn á staðnum: Jónas Bjarnason, TF3JB; Óskar Sverrisson, TF3DC og Elín Sigurðardóttir, TF2EQ. Einnig: Mathías Hagvaag, TF3MH; Guðmundur Ingi Hjálmtýsson, TF3IG (fyrri dag) og Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A (síðari dag). Gestir: Jón Björnsson, TF3PW (fyrri dag) og Wilhelm Sigurðsson, TF3AWS (síðari dag).

Bóma nýja loftnetsins er 7,5 metrar að lengd, lengsta element er 11,16 metrar og þyngd 60 kg. Ávinningur er 6,3 dbd / 13,6 dBi og 23 dBi F/B. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, tengdi RigExpert loftnetsgreini TF2LL við nýja netið eftir uppsetningu og kom það afar vel út, eða með standbylgju 1.1 á 14.175 MHz; 1.3 á 14.000 MHz og 1.2 á 14.350 MHz.

Það var síðan Þórður Adolfsson, TF3DT, sem hafði fyrsta sambandið frá TF3IRA á nýja loftnetinu síðdegis á sunnudeginum við EA9ACE. Skilaboðin voru góð frá Ceuta eða R/S 5/9 plús 20dB.

Stjórn ÍRA þakkar viðkomandi frábært framlag í þágu félagsins.

25. nóvember í Skeljanesi. Nýtt 4 el Yagi loftnet fyrir TF3IRA komið upp á nýjan turn, með nýjum rótor og tengt nýrri fæðilínu.

Turninum lyft í fullri lengd.

Loftnetið komið á turninn.

Jón Gunnar Harðarson TF3PPN uppi í turninum að festa Yagi loftnetið.

Óskar Sverrisson TF3DC rúllar út “hardline” fæðilínunni á meðan hann ræðir við Ásgeir Bjarnason. Fjær: Georg Magnússon TF2LL vinnur við nýja Yagi loftnetið.

Baldvin Þórarinsson TF3-033 gengur frá “hardline” fæðilínunni frá turni í fjarskiptaherbergi TF3IRA.

Kátt á hjalla. Ólafur B. Ólafsson TF3ML, Óskar Sverrisson TF3DC, Þórður Adolfsson TF3DZ og Baldvin Þórarinsson TF3-033.

Þórður Adolfsson TF3DT fjarstýrði krananum á vörubílnum af mikilli leikni. Óskar Sverrisson TF3DC fylgist með. Í fjarlægð: Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG og Ásgeir Bjarnason.

Stund á milli stríða. Georg Magnússon TF2LL og Jón Gunnar Harðarson í stiganum að ganga frá fæðilínunni.

Þórður Adolfsson TF3DT tók fyrsta QSO’ið frá TF3IRA á nýja Yagi loftnetið. Óskar Sverrisson TF3DC fylgist með.

Veðrið var eins og “pantað” báða dagana í Skeljanesi; blankandi logn og hitastigið í kringum frostmarkið.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 22. nóvember og hélt erindi undir heitinu: „Möguleikar radíóamatöra til smíða á eigin búnaði.“

Útgangspunkturinn var að kynna þá fjölbreyttu möguleika sem radíóamatörum bjóðast í dag í heimasmíðum, án þess (eins og hann sagði sjálfur) að þurfa að hafa heilt radíóverkstæði í bílskúrnum.

Vilhjálmur fór fyrst yfir hefðbundin sendi- og viðtæki og skipti þeim í þrjá smíðaflokka: Framleidd ósamsett tæki, hálf-framleidd tæki og tæki smíðuð alveg frá grunni.

Þá fjallaði hann um ýmis önnur tæki sem nýtast í fjarskiptunum, s.s. magnara, loftnetsaðlögunarrásir og margt fleira í þeim dúr. Í framhaldi tók hann fyrir ýmsar aðferðir til að útfæra tæki, fyrirkomulag á prentplötum og frágangsmöguleika í kassa og aðrar umbúðir.

Hann sýndi dæmi um það sem hann fjallaði um – ýmist með myndum og ekki síður – með heimasmíðuðum tækjum sem hann dró fram meðan á erindinu stóð. Í lokin gafst svo tækifæri til að skoða búnaðinn nánar, spyrja og spjalla.

Að lokum (kl. 22:35) var klappað vel og Vilhjálmi þakkað fróðlegt og vel heppnað erindi. Alls mættu 33 félagsmenn í Skeljanes þetta frábæra fimmtudagskvöld.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 22. nóvember.

Setið var í öllum rýmum. Frá vinstri: Stefán Arndal TF3SA, Eiður Kristinn Magnússon TF3-071, Einar Kjartansson TF3EK, Óskar Sverrisson TF3DC, Bjarni Sverrisson TF3GB, Elín Sigurðardóttir TF2EQ, Mathías Hagvaag TF3MH, Kristján Benediktsson TF3KB, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Sæmundur Þorsteinsson TF3UA, Þórður Adolfsson TF3DT og Sigurður Kolbeinsson TF3-066.

Frá vinstri: Elín Sigurðardóttir TF2EQ, Annna Henriksdóttir TF3VB, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Mathías Hagvaag TF3MH, Njáll H. Hilmarsson TF3NH, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Sigurður Kolbeinsson TF3-066, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Kristján Benediktsson TF3KB, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Sæmundur Þorsteinsson TF3UA og Þórður Adolfsson TF3DT.

Frá vinstri: Jón Hörður Guðjónsson TF3JHG, Bjarni Sverrisson TF3GB, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Stefán Arndal TF3SA og Jón Björnsson TF3PW.

TF3TB og TF3KB ræða málin. Á myndinni: Sigurður Kolbeinsson TF3-066, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Kristján Benediktsson TF3KB og Mathías Hagvaag TF3MH.

Hver segir að YLs hafi ekki áhuga á smíðum? Anna Henriksdóttir TF3VB og Elín Sigurðardóttir TF2EQ. Í bakgrunni: TF3-071, TF3SB og TF3DC.

Smíðahlutir TF3VS sem voru til sýnis. Allt saman heimasmíðað. Til þess var tekið hve vel íhlutum var fyrir komið í tilheyrandi kössum.

(Ljósmyndir: Mynd nr. 1: TF3SB; aðrar myndir: TF3JB).

CQ World Wide DX morskeppnin 2018 verður haldin 24.-25. nóvember. CQ WW er 48 klst. keppni og hefst kl. 00:00 á laugardag og lýkur kl. 23:59 á sunnudag.

Keppnin fer fram á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Í boði eru fjölmargir keppnisriðlar, bæði fyrir einmennings- og fleirmenningsþátttöku (sjá reglur).

Þátttaka var ágæt frá okkur í fyrra (2017); þá sendu sjö TF kallmerki inn keppnisdagbækur: TF3CW, TF3DC, TF3GB, TF3JB, TF3SG, TF3VS og TF3W.

Á þessu ári eru 70 ár liðin frá fyrstu CQ WW DX keppninni árið 1948. Þá voru 3 íslenskir leyfishafar á meðal þátttakenda í morshlutanum, þeir Ásgeir Magnússon TF3AB, Einar Pálsson, TF3EA og Sigurður Finnbogason TF3SF.

Keppnisreglur: https://www.cqww.com/rules.htm
Heimasíða keppninnar: http://www.cqww.com/

Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS verður með erindið „Möguleikar radíóamatöra til smíða á eigin búnaði“ í félagsaðstöðunni í Skeljanesi 22. nóvember kl. 20:30.

Vilhjálmur ræðir þá fjölbreyttu möguleika sem radíóamatörum bjóðast í dag í heimasmíðum, án þess (eins og hann segir sjálfur) að þurfa að hafa heilt radíóverkstæði í bílskúrnum.

Hann nefnir þá miklu breidd sem býðst í þeim efnum eða í raun allt frá því að smíða nútíma sendistöð yfir í einföld hljóðkortatengi.

Vilhjálmur kemur með tillögur og tekur með sér sýnishorn af eigin smíðum.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS verður með erindi í Skeljanesi þann 22. nóvember um möguleika radíóamatöra til smíða á eigin búnaði. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Óskar Sverrisson, TF3DC, leiðbeindi á nýju hraðnámskeiði: „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“ sem var haldið í Skeljanesi laugardaginn 17. nóvember.

Námskeiðið er hugsað til að hjálpa leyfishöfum sem eru með nýtt eða nýlegt leyfisbréf til að byrja í loftinu. Hugmyndin er að skapa andrúmsloft sem er afslappað þar sem menn geta spurt allra spurninga og prófað sig áfram með reyndum leiðbeinanda og öðlast öryggi til að fara í loftið.

Að þessu sinni voru þátttakendur þrír. Óskar sagði að það væri þægilegur fjöldi til að menn fái sem mest út úr námskeiðinu – en reiknað er með fjórum að hámarki. Þegar tíðindamann bar að garði um hádegisbilið var verkefnið í fullum gangi, sbr. meðfylgjandi ljósmyndir.

Fyrirkomulag var þannig, að fyrst fengu menn sér kaffi í fundarsal á meðan leiðbeinandi fór yfir grundvallaratriði, s.s. reglugerðina og viðauka hennar, uppsetningu stöðvar og loftnets, tæknileg öryggisatriði, mikilvægi þess að hlusta, skráningu í fjarskiptadagbók o.m.fl.

U.þ.b. hálftíma síðar var síðan farið upp í fjarskiptaherbergi á 2. hæð, stillt á böndin og farið yfir helstu stillingar stöðvarinnar á morsi, tali og FT8 (stafrænni tegund útgeislunar). Rækilega var farið yfir virkan sendisins og tekin sambönd á FT8 – sem gekk mjög vel.

Þegar tíðindamaður yfirgaf staðinn var mikið fjör í fjarskiptaherbergi TF3IRA og menn á einu máli um nytsemi námskeiðsins. Þeir munu síðan mæta aftur á sama stað að viku liðinni og treysta sig enn frekar í fjarskiptum á böndunum.

Nemendur Óskars voru að þessu sinni þeir Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Mathías Hagvaag TF3MH.

Skeljanesi 17. nóvember. Frá vinstri: Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Mathías Hagvaag TF3MH, Óskar Sverrisson TF3DC og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Mikill áhugi! Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Óskar Sverrisson TF3DC, Mathías Hagvaag TF3MH og Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A mætti í Skeljanes 15. nóvember og hélt erindi undir heitinu: „Þetta FT8 sem er svo vinsælt um þessar mundir“.

Ari svipti leyndardómnum röggsamlega af þessari „nýju“ tegund útgeislunar sem hefur náð gríðarlegri útbreiðslu undanfarið eitt og hálft ár.

Hann sýndi okkur hve bráðsnjallt og aðgengilegt stafrænt forrit K1JT er fyrir FT8, en þegar tal og morsmerki eru t.d. ekki lengur til staðar á bandinu eru stafrænu merkin enn „bullandi“ sterk, enda mögulegt að hafa sambönd jafnvel niður í -25 dB undir suði.

Ari hafði lifandi sýnikennslu úr fundarsal á 40 metrunum og tengdist eigin stöð yfir netið. Strax komu inn merki frá S-Ameríku og allt gekk fumlaust og fljótt fyrir sig. Um leið benti hann okkur á hvernig forðast ber algeng mistök og m.a. hve mikilvægt er að hafa klukkuna rétt stillta í tölvunni (grunnforsenda). Því má auðveldlega bjarga með innsetningu þar til gerðs forrits.

Hann fór sérstaklega yfir stillingar sendis fyrir þessa tegund útgeislunar og sýndi okkur á skjámynd muninn á merkjum þegar ekki er notuð rétt ALC stilling; sem helst þarf að vera þannig að ALC vísunin rétt tifi til að brengla ekki merkið.

Ari Þórólfur leysti úr fyrirspurnum jafn óðum auk þess að fá margar spurningar í lokin. Hann leysti snöggt og vel úr þeim öllum. Þess er að vænta að glærur frá erindinu verði til innsetningar á vefsíðu ÍRA.

Að lokum (um kl. 22:30) var klappað vel og lengi og Ara þakkað fróðlegt og vel heppnað erindi. Flestir viðstaddra geta tekið undir umsögn Garðars Valbergs Sveinssonar, TF8YY á Facebook, þar sem hann náði að orða upplifunina stutt og vel: „Flott, fræðandi og gaman“.

Alls mættu 32 félagsmenn og 2 gestir í Skeljanes þetta vel heppnaða fimmtudagskvöld.

Ari Þórólfur Jóhannesson í Skeljanesi 15. nóvember. Frá vinstri: Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Mathías Hagvaag TF3MH, Snorri Ingimarsson TF3IK, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Þórður Adolfsson TF3DT, Einar Kjartansson TF3EK, Baldvin Þórarinsson TF3-033, Sigurður Smári Hreinsson TF8SM, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Sigurður Kolbeinsson TF3-066.

Þétt setinn bekkurinn. Sigurður Kolbeinsson TF3-066, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Sigmundur Karlsson TF3VE, Haraldur Þórðarson TF8HP, Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Mathías Hagvaag TF3MH, Snorri Ingimarsson TF3IK, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Einar Kjartansson TF3EK, Þórður Adolfsson TF3DT, Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Sigurður Smári Hreinsson TF3SM.

Ekki voru til stólar fyrir alla. Frá vinstri: Bjarni Sverrisson TF3BG, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN og Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK. Aðrir í sal hafa verið taldir upp áður.

(Ljósmyndir: TF3JB).

Nýtt og spennandi hraðnámskeið verður í boði laugardaginn 17. nóvember kl. 10-12. Það nefnist: „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“. Farið verður í loftið í fjarskiptaherbergi félagsins í Skeljanesi – á CW, SSB eða FT8 – allt eftir óskum þeirra sem mæta.

Námskeiðið er hugsað til að hjálpa þeim leyfishöfum sem eru með nýtt eða nýlegt leyfisbréf til að byrja í loftinu (eldri leyfishafar eru ekki síður velkomnir). Hugmyndin er að skapa andrúmsloft sem er afslappað og þar sem menn geta spurt allra spurninga og prófað sig áfram með reyndum leiðbeinanda til að öðlast öryggi í að fara í loftið.

Í boði er að menn taki með sér eigin búnað og fái kennslu á hann. Laugardaginn viku síðar (24. nóvember) verður síðan framhaldsnámskeið þar sem nemendur ráða ferðinni og spyrja spurninga eftir að hafa æft sig heima í millitíðinni.

Ath. að fjöldi er takmarkaður. Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig sem fyrst beint hjá leiðbeinanda, Óskari Sverrissyni, TF3DC í síma 862-3151.

Óskar Sverrisson TF3DC og Vala Dröfn Hauksdóttir TF3VD. Myndin var tekin í Skeljanesi 20. október s.l. á JOTA/JOTI 2018 þegar Óskar afhenti Völu Dröfn prentað eintak af 3. tbl. CQ TF 2018, en þær TF3VB prýða forsíðumynd blaðsins. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður haldið fimmtudaginn 15. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A í Skeljanes með erindi um: „Þetta FT8 sem er svo vinsælt um þessar mundir“.

Hann sviptir leyndardómnum af þessari „nýju“ tegund útgeislunar sem hefur náð gríðarlegri útbreiðslu á meðal leyfishafa um allan heim á skömmum tíma og var fyrst kynnt fyrir 16 mánuðum, eða 29. júní 2017.

Ari sýnir hvað til þarf til að verða QRV á FT8, sýnir á staðnum hvernig QSO er haft (þ.e. beint úr fundarsal), upplýsir hvernig menn ná árangri í DX og svarar spurningum.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A í fjarskiptaherbergi TF3IRA í september s.l. Þess má geta, að Ari er með okkar reynslumestu mönnum á FT8. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Sæmundur Þorsteinsson TF3UA mætti í Skeljanes fimmtudaginn 8. nóvember og hélt erindi undir heitinu „Flutningslínur“.

Fram kom í upphafi, að fæðilínur eru jöfnum höndum kallaðar flutningslínur og flytja afl (merki) á milli sendis og loftnets, yfirleitt í báðar áttir. Fram kom einnig, að flutningslínur þykja lítt áhugaverðar þegar bylgjulengdin er miklu lengri en línan sjálf. Farið var yfir mismunandi gerðir lína, hraðastuðul í kóaxköplum og margt fleira.

Sæmundur fór á áhugaverðan hátt (með dæmum) út í “praktíska” þætti eins og t.d. gerð línuspenna úr kóaxköplum og aðlögun sendis og loftnets. Þá skýrði hann fyrirbærin „balun“, „unun“ og standbylgjur enda áhugi mikill hjá viðstöddum á efninu.

Að lokum var klappað lengi og Sæmundi þakkað fróðlegt og vel heppnað erindi. Alls mættu 28 félagsmenn og 2 gestir í Skeljanes þetta frábæra fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 8. nóvember. Sæmundur Þorsteinsson TF3UA flytur erindi um flutningslínur. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.

Frá vinstri: Yngvi Harðarson TF3Y, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Jón Björnsson TF3PW, Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Njáll H. Hilmarsson TF3NH, Mathías Hagvaag TF3MH, Óskar Sverrisson TF3DC, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Ólafur Örn Ólafsson TF1OL. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Mathías Hagvaag TF3MH, Þórður Adolfsson TF3DZ, Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS, Einar Kjartansson TF3EK og Bjarni Sverrisson TF3BG. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.

Frá Vinstri: Njáll H. Hilmarsson TF3NH, Mathías Hagvaag TF3MH, Þórður Adolfsson TF3DT, Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS, Sigmundur Karlsson TF3VE, Heimir Konráðsson TF1EIN, Einar Kjartansson TF3EK, Bjarni Sverrisson TF3GB, Óskar Sverrisson TF3DC, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Ólafur Örn Ólafsson TF1OL. Ljósmynd: Jónas Bjanason TF3JB.

Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS, Sigmundur Karlsson TF3VE og Heimir Konráðsson TF1EIN. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.

Jón Björnsson TF3PW og Jón Hörður Guðjónsson TF3JHG. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason.

Umræðurnar héldu áfram eftir að erindinu lauk. Í ljós kom, að Sæmundur þekkti að sjálfsögðu vel til “Antennenbuch” eftir Karl Rothammel DM2ABK, sem er ein af uppáhalds loftnetabókum Bjarna. Frá vinstri: Sæmundur Þorsteinsson TF3UA, Jónas Bjarnason TF3JB og Bjarni Sverrisson TF3GB. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður haldið fimmtudaginn 8. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Sæmundur Þorsteinsson, TF3UA, í Skeljanes með erindi um „Flutningslínur“.

Þess má geta að fæðilínur eru jöfnum höndum kallaðar flutningslínur og flytja afl (merki) á milli sendis og loftnets – yfirleitt í báðar áttir. Sæmundur mun einnig ræða skyld atriði er varða aðlögun sendis og loftnets, þ.á.m. standbylgjur.

Stjórn ÍRA hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.
_

Sæmundur Þorsteinsson TF3UA verður með erindi um flutningslínur 8. nóvember. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar hann flutti erindi um SDR tæknina í Skeljanesi. Ljósmynd: Jón Svavarsson TF3JON.

Jónas Bjarnson TF3JB mætti í Skeljanes 4. nóvember og leiddi sófaumræður á sunnudegi um reglugerðarumhverfi radíóamatöra og WRC-19 (e. World Rado Conference).

Hann opnaði umfjöllunina með erindi sem skiptist í inngang og fimm stutta kafla:

• Settar reglugerðir 1947-2017.
• Helstu breytingar á þessu tímabili skv. reglugerðum, reglum og sérákvörðunum.
• Umsóknir ÍRA til Póst- og fjarskiptastofnunar á þessu ári (2018).
• Fyrirhugaðar umsóknir ÍRA til Póst- og fjarskiptastofnunar á næsta ári (2019).
• WRC-19 og framtíðin.

Jónas benti m.a. á að 70 ár hafi verið liðin á síðasta ári (2017) frá því fyrsta reglugerð um starfsemi radíóamatöra var sett þann 8. febrúar 1947. Af því tilefni dreifði hann útprentun af fyrstu reglugerðinni til viðstaddra.

Líflegar umræður urðu í framhaldi og var m.a. fjallað um einstök tíðnisvið, tegundir útgeislunar, sendiafl, truflanir, eftirlitshlutverk opinberra aðila o.m.fl.

Efnistökum verða gerð skil í sérstakri samantekt í næsta hefti CQ TF, sem kemur út þann 27. janúar 2019. Alls mættu 10 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan sólríka sunnudagsmorgun.

Skeljanesi 4. nóvember. Jónas Bjarnason TF3JB fjallar um reglugerðarumhverfi radíóamatöra og WRC-19. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.