Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 25. júní. Húsið opnar stundvíslega kl. 20:00.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og veglegt meðlæti.

Mathías Hagvaag TF3MH, QSL stjóri ÍRA, tæmir pósthólfið á miðvikudag og flokkar innkomin kort fyrir opnun.

Sjáumst í Skeljanesi!

Stjórn ÍRA.

.

Úr félagsstarfinu. Frá vinstri: Ómar Magnússon TF3WK/OZ1OM, Þórður Adolfsson TF3DT og Óskar Sverrisson TF3DC í fjarskipta-herbergi TF3IRA í Skeljanesi 2. nóvember 2019. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

„CQ Kids Day“ er í dag, laugardaginn 20. júní. Þennan dag bjóða bandarískir radíóamatörar ungu fólki að kynnast amatör radíói með því að hafa sambönd í gegnum stöðvar sínar.

Viðburðurinn hefst kl. 18 að íslenskum tíma. Mælt er með að byrja á að skiptast á nöfnum, aldri, staðsetningu og upplýsingum um uppáhalds lit.

Félagsmenn eru hvattir til að vera með. Elín Sigurðardóttir, TF2EQ, ungmennafulltrúi ÍRA tekur þátt frá félagsstöð TF3IRA í Skeljanesi.

Miðað er við að nota eftirfarandi tíðnir, eftir því sem skilyrði leyfa:

10 metrar: 28.350–28.400 MHz; 12 metrar: 24.960–24.980 MHz; 15 metrar: 21.360–21.400 MHz; 17 metrar: 18.140–18.145 MHz; 20 metrar: 14.270–14.300 MHz og 80 metrar: 3.740–3.940 MHz.

Vefslóð: http://www.arrl.org/news/kids-day-in-the-age-of-covid-19

ARRL efnir til “CQ Kids Day” viðburða tvisvar á ári. Myndin er frá fyrri deginum sem haldinn var í janúar s.l. Ljósmynd: ARRL.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi var opin fimmtudaginn 18. júní. Þetta var 2. opnun eftir 3 mánaða hlé en aðstaðan var samfleytt lokuð frá 12. mars til 11. júní s.l. vegna Covid-19.

Vandað var með kaffinu að venju, nýjustu tímaritin lágu frammi og QSL stjóri hafði flokkað kortasendingar. Mikið var rætt um loftnet, búnað, skilyrðin og m.a. hugsanlegt YOTA mót á Íslandi næsta sumar, sem Elín Sigurðardóttir, ungmennafulltrúi kynnti m.a. fyrir félagsmönnum á aðalfundi ÍRA 15. febrúar s.l.

Hans Konrad Kistjánsson, TF3FG kom færandi hendi með nokkra kassa af radíódóti (sjá myndir) sem verður til afhending-ar frá og með næsta fimmtudagskvöldi. Þakkir til Konna.

Góð sumarstemning var í Skeljanesi þetta ágæta fimmtudags-kvöld og mættu alls 18 félagar á staðinn.

Mynd: Hans Konrad TF3FG, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Elín Sigurðardóttir TF2EQ. (Fáar myndir fylgja að þessu sinni því tíðindamaður hafði gleymt að hlaða myndavélina).

Radíódót sem Hans Konrad Kristjánsson TF3FG færði félaginu 18. júní. Sumt er nýtt og enn í plastinu.
Radíódót sem Hans Konrad Kristjánsson TF3FG færí félaginu 18. júní. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 18. júní.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og veglegt meðlæti.

QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og flokka innkomin kort fyrir opnun á fimmtudagskvöld.

Sjáumst í Skeljanesi!

Stjórn ÍRA.

VHF/UHF búnaður TF3IRA og TF3IRA-1Ø á FM og APRS. YAESU FT-7900E og SMB-201 borðfestingin og ICOM IC-208H ásamt GW-1000 APRS Total Solution frá CG-Antenna. Ljósmynd: TF3JB.

Magnús Ragnarsson, TF1MT, hefur sett upp APRS stöðina TF1MT-1, sem iGátt og W1 stafavarpa frá nýju QTH í Landeyjum. Hann á von á að stafvarpinn lesi merki frá Bláfjöllum, Búrfelli, Þorbirni og Reynisfjalli, þegar sú stöð fer í loftið.

Uppsetning APRS iGáttar á Akureyri er í undirbúningi og sjá þeir Þór Þórisson, TF1GW og Guðmundur Sigurðsson, TF3GS, um þá vinnu. Búnaðurinn verður í umsjá Daggeirs Pálssonar, TF7DHP, sem er búsettur í bænum.

Það verður áhugavert að fá stafavarpa QRV frá Akureyri í APRS-IS kerfið. Bestu þakkir til þeirra TF1MT, TF1GW, TF3GS og TF7DHP fyrir gott framtak.

.

.

Til vinstri: Diamond VHF loftnet TF1MT-1. Ljósmynd: Magnús Ragnarsson TF1MT.

APRS búnaður TF1MT-1 frá nýju QTH í Landeyjum. Motorola GM-300 VHF stöð, Microsat WX3in1 Mini APRS Digipeater/I-gate og Kenwood PS-8 aflgjafi. Ljósmynd: Magnús Ragnarsson TF1MT. 

Félagsaðstaðan í Skeljanesi var opnuð á ný fimmtudaginn 11. júní. Þá hafði síðast verið opið fimmtudaginn 12. mars, réttum þremur mánuðum áður.

Vandað var með kaffinu að venju og nýjustu tímaritin lágu frammi. Eins og gefur að skilja höfðu menn um mikið að tala og var umræðuefnið dæmigert fyrir árstímann, þ.e. um skilyrðin, loftnet og áform manna um að setja upp loftnet í sumar.

Alls mættu 17 félagar í Skeljanes þetta ágæta sumarkvöld.

Frá vinstri: Jón Björnsson TF3PW, Mathías Hagvaag TF3MH og Baldvin Þórarinsson TF3-Ø33.

Frá opnunarkvöldi í Skeljanesi 11. júní: Þórður Adolfsson TF3DT, Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Sigurður Smári Hreinsson TF8SM, Heimir Konráðsson TF1EIN og Sigmundur Karlsson TF3VE. Flaskan með handsprittinu og eldhúsrúllan er á sínum stað á borðinu. Ljósmyndir: TF3JB.

Tilkynnt hefur verið um nýja uppfærslu WSJT-X forritsins. Það er útgáfa v2.2.0 sem kemur í stað núverandi útgáfu, v2.1.2.

Margar TF stöðvar nota forrit Joseph H. Taylor, Jr., K1JT, m.a. í fjarskiptum á FT4 og FT8 samskiptaháttum. Ýmsar nýjungar eru kynntar í uppfærslunni, m.a. er 10% bætt geta forritsins í að lesa merki undir erfiðum kringumstæðum (QRN, QRM o.þ.h.).

Leiðbeiningar höfundar:
https://physics.princeton.edu/pulsar/K1JT/wsjtx-doc/wsjtx-main-2.2.0_en.html#NEW_FEATURES

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin á ný frá og með fimmtudeginum 11. júní.

Tólf vikna tímabilið frá 12. mars til 11. júní 2020 er líklega einstætt í nær 73 ára sögu ÍRA, en þessa þrjá mánuði var starfsemi félagsins haldið í lágmarki vegna COVID-19 faraldursins sem er af völdum svokallaðrar kórónaveiru, sem smitast milli manna og getur valdið alvarlegum veikindum.

Ákvörðunin um opnun félagsaðstöðunnar 11. júní, byggir á minnisblaði sóttvarnalæknis varðandi afléttingu takmarkana á samkomum vegna COVID-19 dags. 25. maí 2020. Ný skilgreining á tveggja metra reglu skiptir sköpum fyrir okkur, sem er að tveggja metra reglan geti verið val fólks. Þannig má fólk sitja eða standa þétt – en bjóða þarf þeim sem það vilja, að halda tveggja metra fjarlægð.

Stjórn ÍRA þakkar félagsmönnum frábæran stuðning og góðar tillögur á þessum tíma faraldurs – sem vonandi er brátt að baki. Áfram gilda þau tilmæli, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes á fimmtudagskvöldum, fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Morshluti CQ World Wide WPX keppninnar fór fram helgina 30.-31. maí s.l. Fjórar TF stöðvar skiluðu gögnum til keppnisnefndar tímaritsins samkvæmt eftirfarandi:

TF3W, einmenningsflokkur, öll bönd, aðstoð, háafl (op. TF3DC).
TF3VS, einmenningsflokkur, öll bönd, lágafl.
TF3JB, einmenningsflokkur, 20 metrar, lágafl.
TF3SG, viðmiðunardagbók (e. check-log).

Þátttakendur voru sammála um að skilyrði hafi almennt verið ágæt.

https://www.cqwpx.com/logs_received_cw.htm

Ólafur B. Ólafsson, TF3ML, varð QRV á ný á 50 MHz og 70 MHz laugardaginn 30. maí. Hann setti upp, fyrir utan bílskúrinn á planinu hjá sér í Grímsnesi, sérútbúinn 4 tonna vagn (sem hann keypti á sínum tíma frá Frakklandi) með áfestum turni, sem hækka má í allt að 28 metra hæð yfir jörðu. Öflugur rótor fylgir með turninum.

Að þessu sinni setti hann upp ný Yagi loftnet fyrir 6 metra og 4 metra böndin frá InnovAntennas. Það er annarsvegar, 8 el LFA Yagi á 50 MHz. Bómulengd: 12.5m og ávinningur: 14.05 dBi. Og hinsvegar, 9 el LFA Yagi á 70 MHz. Bómulengd: 10.4m og ávinningur: 14.72 dBi. Óli sagðist vera ánægður með árangurinn það sem af er þegar haft var samband við hann.

Myndin af Ólafi var tekin í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Turninn er glæsilegur og verkleg smíð. Hann er gerður fyrir færanleg fjarskiptavirki. Ljósmynd: Ólafur B. Ólafsson TF3ML.
Nýju loftnetin eru ekki síður glæsileg. Loftnetið fyrir 6M bandið er neðar og fyrir 4M ofar. Ljósmynd: Ólafur B. Ólafsson TF3ML.

 

Nú styttist í júníhefti CQ TF, 3. tbl. 2020, sem kemur út sunnudaginn 28. júní n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur efnis er til 16. júní n.k. Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Góð DX-skilyrði hafa verið undanfarna daga bæði á HF og VHF.

Efri böndin hafa verið vel opin á 17, 15, 12 og 10 metrum. Á „cluster“ má sjá að mörg TF kallmerki hafa haft áhugaverð DX-sambönd, m.a. TF1OL, TF2MSN, TF3GB, TF3VS, TF5B, TF6JZ og fleiri.

6 metra bandið verið líka verið spennandi; og eins og einn leyfishafi lýsti skilyrðunum þar, „…að 6 metrarnir hafi nánast verið opnir allan sólarhringinn að undanförnu“. TF1A, TF2MSN og TF8KY eru allir með ný loftnet á bandinu, þar af eru Óðinn og Hrafnkell báðir með stór 6el LFA Yagi loftnet frá InnovAntennas.

Spennandi opnanir hafa ennfremur verið á 4 metrum (70 MHz). Smári, TF8SM, birti t.d. mynd á FB síðum af skráningum á „cluster“ sem sýna sambönd 28. og 29. maí, m.a. við 9A, 9H1/9H4, DL, EA8, G (mörg kallsvæði), OX, PA og S5. Þess má geta að Smári er með nýtt Yagi loftnet á bandinu.

Radíóvitar TF3ML á Mýrum í Borgarfirði hafa sannað gildi sitt að undanförnu (eins og svo oft áður) og margar skráningar hafa borist inn á “cluster”. Þeir er á 6M (50.457 MHz) og 4M (70.057 MHz). Báðir nota sama kallmerki, TF1VHF.

Myndin er af glæsilegu 6 el LFA Yagi loftneti TF2MSN fyrir 50 MHz bandið sem hann setti saman ásamt Hannesi syni sínum 23. maí s.l. Þess má geta, að Hrafnkell TF8KY, setti samskonar loftnet upp skömmu áður. Ljósmynd: Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN.