Annað kvöld koma TF3UA og TF3Y í Skeljanes og fjalla um truflanir frá sendingum radíóamtörs inná önnur kerfi.

Þeir félagarnir í EMC-nefnd ÍRA ætla sérstaklega að fjalla um vandamál sem kom upp hjá amatör í Mosfellsbæ þegar Síminn breytti DSL tenginu úr ADSL í VDSL.
Kaffi og kleinur.

Bréf frá Herði Harðasyni hjá Póst og Fjarskiptastofnun 4.1.2017.

“Meðbréfi 2014120011 dags 2.12.2014 heimilaði PFS radíóáhugamönnum tímabundna notkun tíðnisviðsins 5260-5410 kHz út árið 2016.  25 radíóáhugamenn sóttu um slíka heimild og fengu. Ofangreind heimild framlengist hér með til 1.5.2017 á meðan framhaldið er skoðað.

Með kveðju

Hörður R. Harðarson

Sérfræðingur í tíðnimálum / Head of Frequency Management”

Kæru félagar og aðrir radíóáhugamenn,

Við í stjórn ÍRA sendum ykkur bestu óskir um heillaríkt komandi ár og þökkum stuðning ykkar við félagið á liðnum árum.

Við byrjum nýja árið næsta fimmtudagskvöld á að fara yfir Útileika síðustu tveggja ára og ræða um okkar reynslu af Útileikunum og hugmyndir sem komið hafa fram sem leitt gætu til aukinnar þáttöku. Ýmislegt annað verður til umræðu allt eftir tíma og ykkar áhuga.

Nú fer að styttast í aðalfund og frestur til að skila tillögum um breytingar á lögum félagsins rennur út 14. janúar.

Við minnum ykkur líka á að muna eftir að endurnýja  sérleyfin á 1850-1900 kHz, 160 metrum og 70.000-70.200 MHz, 4 metrum ef þið ætlið að nota þau tíðnibönd. Sjá nánar á: Tíðnisvið radíóamatöra á Íslandi. Sérleyfið á 60 metrum er í skoðun og endurmati en þau leyfi sem veitt hafa verið gilda áfram eða þar til PFS gefur út endurnýjað leyfi eða sérleyfi. Þeir sem eru með gilt sérleyfi til 31.12.2016 þurfa ekkert að gera í bili en þeir sem ekki hafa haft leyfi á 60 metrunum en vilja fara í loftið á bandinu núna næstu daga ættu að senda póst á Hörð hjá PFS hrh@pfs.is, við látum ykkur vita hvernig þessu verður háttað eins fjótt og niðurstaðan verður ljós.

f.h. stjórnar ÍRA 73 de TF3JA

Hörður Harðarson hjá PFS staðfesti í vikunni í símtali að sérleyfið á 60 metrunum gildir áfram óbreytt þar til annað verður ákveðið. sjá: Sérheimild á 60 metrum.

f.h. stjórnar ÍRA

73 de TF3JA

Neyðarfjarskiptastjórar radíóamatöra á svæði 1 vilja beina því til allra radíóamatöra að hlaða rafgeymana og vera tilbúnir með vararafmagn fyrir komandi vikur.

Hér er listi yfir aðal neyðarfjarskiptatíðnir radíóamatöra á svæði 1.

3760, 5390, 7110 & 14300 kHz.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári. Þökkum ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.

Þessi einfalda og fallega mynd er fengin að láni hjá VFÍ. Tæknifræðingar og verkfræðingar tóku nýlega þá löngu tímabæru ákvörðun að sameinast frá næstu áramótum í einu félagi undir nafni VFÍ, til hamingju tækni- og verkfræðingar.

Eitt aðalsmerki radíóamatöra er alheimssamvinna á öllum sviðum, við tölum öll sama málið.

Opið verður í Skeljanesi frá kl. 20 – 22 báða fimmtudagana sem eftir eru á þessu ári og boðið uppá kaffi og piparkökur.

Fyrsta fimmtudaginn á nýju ári, 5. janúar 2017 höldum við radíóáhugamenn uppskeruhátíð þar sem ýmislegt verður til umfjöllunar.

Gleðileg jól f.h. stjórnar ÍRA 73 de TF3JA

Undirbúningur er hafinn fyrir útsendingu með Alexanderson 200 kW alternatornum á VLF 17,2 kHz að morgni aðfangadags klukkan 08:00 UTC. Byrjað verður að keyra sendinn upp klukkan 07:30 UTC.

Búnaðurinn er gamall og alltaf hætta á að ekki verði af sendingu, fylgist með á:  www.alexander.n.se.

Sendingunni verður sjónvarpað á www.alexander.n.se

Amatörstöðin SK6SAQ verður einnig í loftinu á tíðnunum 7035 CW or 14035 CW

IC-7610, arftaki IC-7600 var kynnt til sögunnar einu ári á eftir fyrsta SDR sendiviðtækinu frá ICOM, IC-7300, á Tokyo Ham Fair í ágúst. Tækið er í hönnunarferli og áætlað í sölu á næsta ári. Verðið er áætlað um 3000 $.

IC-7610

Ekki er mikið vitað um eiginleika IC-7610 nema að tækið verður á svipaðri línu og IC-7300 en með ýmsum bætingum eins og tengi fyrir aukaskjá.

  • Háskerpu rauntíma TFT snertiskjár
  • HF+50 MHz
  • 100 wött
  • Samtíma tvíhlustun
  • Innbyggð loftnetsaðlögun
  • Tengi fyrir aukaskjá

Núna 10. desember opnaði Icom Japan dyrnar á aðalskrifstofu sinni í Osaka fyrir gesti og gangandi á sýningu sem kölluð er “Icom amateur radio festival”. Aðal athygli vakti nýja IC-7610 HF+50MHz stöðin.

Sýningareintak var sett á borð fyrir gesti til að skoða og prófa. Tækið er ekki fullbúið og ennþá vantar ýmsa fyrirhugaða virkni í tækið.

IC-7610 er 100 watta HF plús 50 MHz stöð með verulega bættum eiginleikum frá IC-7600.

Aðalbreytingin er að tækið er ekki lengur með millitíðni heldur með beinni afmótun “direct sampling”. Í tækinu er engin tíðnibreyting heldur er merkið úr loftinu tekið beint inná AD-breytu.

Viðtækið verður mun betra en í IC-7300 með tveimur aðskildum viðtökurásum og fullkominni tvíhlustun eins og er í IC-7851. Tíðnival verður aðskilið milli viðtökurásanna og hægt verður að taka á móti mismunandi mótunum á sitt hvorri rásinni á sitt hvorri tíðninni á sama tíma.

Jafnvel verður hægt að vera með tvö mismunandi loftnet á sama tíma og hlusta á sitt hvora rásina í heyrnatólum eða hátölurum samtímis.

Skjárinn er 7 tommur, innbyggður hátalari verður stærri, tvö USB tengi, DVI tengi og  SD-flögu rauf.

Allt sem komið hefur fram bendir til þess að tækið gæti jafnvel orðið enn betra en IC-7851.

IC-7610 verð og fyrsti söludagur.

Aðspurður svaraði sölumaður Icom verð á IC-7610 væri ekki ákveðið, en yrði í meðalflokki og sett í sölu sumarið 2017.

Radíóamatörar athugið að um áramótin renna út sérleyfin á fjórum og sextíu metrum.

Eins og fram kom í tölvupósti sem við sendum á irapóstinn í gær verða þeir sem ætla að nota áfram 4 metra bandið að endurnýja sín leyfi frá næstu áramótum. Tólf íslenskir radíóamatörar hafa haft leyfi til að nota 4 metra bandið samkvæmt upplýsingum PFS.

Um áramótin rennur líka út sérleyfið fyrir sextíu metra bandið og allar líkur á að þá taki gildi ákvörðum WRC-15 frá því í fyrra:

Radíóamatörar óskuðu eftir nokkuð víðtækri heimild til tíðnibands og afls á 60 metrunum en niðurstaðan varð málamiðlun sem tekur gildi um næstu áramót að öllu óbreyttu.

Radíóamatörar fá leyfi til að nota bandið 5351,5 – 5366,5 kHz eða í allt 15 kHz og mega mest senda út 15 wött e.i.r.p. með þeirri undantekningu að í Mexíkó mega radíóamatörar senda út 20 wött og 25 wött í suður- og mið-Ameríku.

Ekki þarf að sækja sérstaklega um leyfi til að nota 60 metra bandið frá áramótum ef þetta verður niðurstaðan. Rétt er að benda á að innan alheimssamtaka radíóamatöra fer fram umræða um hvernig bandið verður best nýtt og sterkar óskir hafa komið upp um að nota bandið fyrst og fremst fyrir stafræna mjóbandshætti. Rétt er líka að benda á að radíóamatörar fá leyfið á “secondary basis” sem þýðir að radíóamatörar verða að víkja fyrir umferð af annnarri tegund og mikilvægt að tryggja að útgeislað afl fari ekki yfir 15 wött.

60mR1

Hér fyrir ofan er mynd af afriti úr tilmælum IARU R1 um hvernig radíóamatörar noti 60 m bandið. Eins og sjá má leggur IARU ríka áherslu á að radíóamatörar noti, 15 kHz bandskákina sem WRC-15 úthlutaði radíóamatörum, ekki nema ef radíóamatörar í viðkomandi landi hafa ekki leyfi fyrir víðara bandi á 60 metrum eins og við hér á landi höfum haft undanfarin ár leyfi fyrir tíðnisviðinu 5260 til 5410 kHz.

Óskir um að halda áður útgefnum leyfum á 60 metrum hafa komið fram hjá amatörum í öðrum löndum og við munum fylgjast með hver þróunin verður hjá okkar nágrönnum.

PFS 4 metrar

f.h. stjórnar

73 de TF3JA

Stew Perry Topband Keppnin á 160 metrun verður haldin um helgina, 17.-18. desember.

Krækja á reglur keppninnar.

Keppnin er Morse-keppni og hefst á laugardag kl. 15:00. Keppninni  lýklur á sunnudag kl. 15:00.

TF4M 160m

Myndin sýnir sendiloftnet TF4M á 160 metrum í Otradal. Myndin er úr fyrirlestri sem TF3DX hélt í ÍRA á árinu 2011.

Kaffi og piparkökur í Skeljanesi í kvöld.

fh. stjórnar ÍRA

73 de TF3JA

Næsta IARU svæðis 1 ráðstefna verður haldin í Landshut Þýskalandi dagana 16. – 23. september á næsta ári.

Landshut-Trausnitz

Upplýsingar um ráðstefnuna eru á: http://www.iaru-r1.org/index.php/general-conference/landshut-2017

Síðasti dagur til að tilkynna þáttöku er föstudagurinn 16. desember eftir viku.

f.h. stjórnar ÍRA, 73 de TF3JA