Kaffi og kleinur í Skeljanesi í kvöld. Allir velkomnir.

Við mælum sérstaklega með að nemendur á námskeiði komi og hitti amatör reynslubolta.

Ölvir Sveinsson, TF3WZ, þiggur ábendingar og spjall um nýja heimasíðu.

Skólabíll í eigu Steingríms Hjartarsonar.

Með þessum fór ég í skólann í ófá ár. Oft í slæmu veðri eða mikilli ófærð var hnoðast áfram í þessum Rússa útbúnum dílsel vél úr Datshun. Alvöru olíumiðstöð hélt á manni sjóðhita.

Þó CB stöðvar hefði verið út um allt þá þótti manni rosalega merkilegt að sjá þessa risa stöð sem var plantað ofan á mælaborðið. Þó Yaesu gamli hefði búið hana til gekk hún einfaldlega undir nafninu Gufunesstöðin. Steingrímur smíðaði festingar fyrir loftnetið og fyrir vikið varð loftnetið einkennismerki þessa skólabíls. Þó ég hafi átt handstöð sem bar nafnið Handic þegar ég var lítill vill ég meina að þetta sé fyrsta alvöru stöðin sem ég komst í tæri við.

Þessi stöð þótti mikið öryggistæki sérstaklega fyrir skólaakstur en svo “leystu” NMT símarnir þessar græjur af hólmi fljótlega upp úr 1986 minnir mig.

Myndin hér fyrir ofan er tekin um 1985. Þetta er hjá Laugum í Sælingsdal og var allt í kafi í snjó, íbúðarhús sem skóli. Bílar fundust meira að segja með vorinu. Það var gaman að vera lítil og skrattast í þessum snjó og er ein minningin sterk þegar við vorum að fara í skólann og það var ný búið að moka. Þá keyrðum við í gegnum göng eftir snjóblásara með fleiri metra háa snjó veggina sitthvoru megin. Aðeins toppurinn á loftnetinu stóð upp úr.

Krækja á frétt sem í dag var birt á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar.

Takmörkun á ábyrgð vegna fjarskiptatruflana

20. mars 2017

Rafmagnsgirðing

Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp dóm þar sem staðfestur er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur sem felldi úr gildi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) frá árinu 2013 þar sem bónda á Vestfjörðum var gert skylt að að framkvæma úrbætur á eigin kostnað til að fyrirbyggja fjarskiptatruflanir sem rekja mátti til rafmagnsgirðingar á jörð hans.

Málavextir eru þeir að fyrir nokkrum árum barst Póst- og fjarskiptastofnun kvörtun um að rafmagnsgirðing á jörð í Vesturbyggð ylli truflunum á talsímaþjónustu á nálægum bæjum. Í ákvörðun sinni nr. 7/2013 komst PFS að þeirri niðurstöðu að fjarskiptatruflanirnar væru af völdum rafmagnsgirðingarinnar og beindi fyrirmælum til ábúandans um að framkvæma úrbætur á eigin kostnað til að fyrirbyggja fjarskiptatruflanirnar, sem fólust í því að færa girðinguna að hluta. Var ákvörðunin byggð á 2. mgr. 64. gr. fjarskiptalaga þar sem segir:

„Nú liggur fyrir að rafföng, tæki, raflagnir, pípur, leiðslur eða því um líkt valda skaðlegri truflun á rekstri fjarskiptavirkis og er Póst- og fjarskiptastofnun þá heimilt að beina fyrirmælum til eiganda slíks hlutar um að hann grípi á eigin kostnað til viðeigandi úrbóta án tafar, taki t.d. niður, færi eða fjarlægi viðkomandi hlut sem veldur skaðlegri truflun.“

Ábúandinn taldi aftur á móti að sér væri ekki skylt að bera kostnað af nauðsynlegum úrbótum, m.a. á grundvelli þess að rafmagnsgirðingin hafi verið sett upp áður en jarðsímastrengurinn var lagður.  Kærði hann ákvörðun PFS til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sem staðfesti hana.  Þann úrskurð kærði ábúandinn til Héraðsdóms sem felldi ákvörðun PFS úr gildi. Þeim dómi áfrýjuðu bæði PFS og Míla ehf. til Hæstaréttar sem nú hefur kveðið upp dóm sinn.

Fjarskipti eru samfélagslega mikilvægur þjónustuþáttur og eru miklir hagsmunir fólgnir í því að hægt sé að reiða sig á samfellt og órofið fjarskiptasamband. Af þessum sökum hefur löggjafinn búið svo um hnútana að veita fjarskiptum tiltekna lagalega vernd gegn skaðlegum truflunum sem geta skert gæði fjarskiptaþjónustu eða valdið algjöru rofi á henni. Boðskipti í fjarskiptakerfum geta verið viðkvæm fyrir rafsegulgeislun frá öðrum fjarskiptavirkjum eða rafföngum, en dæmi eru um að bilaðir örbylgjuofnar og þvottavélar hafi valdið alvarlegum fjarskiptatruflunum.

Hvað varðar rafföng sérstaklega er gert ráð fyrir að fjarskiptavirki njóti ákveðins forgangs fram yfir rafföng og að eigendur raffanga beri hlutlæga ábyrgð ef þau valda truflunum á fjarskiptum eins og fram kemur í 2. mgr. 64. gr. fjarskiptalaga sem vitnað er til hér að ofan. Rafmagnsgirðingar teljast til raffanga í skilningi þessa ákvæðis og eru mörg dæmi um að þær hafi valdið skaðlegum truflunum á fjarskiptum í jarðsímastrengjum.

Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar sætir hlutlæg ábyrgðarregla vegna truflana á fjarskiptum, samkvæmt 2. mgr. 64 fjarskiptalaga, takmörkun þegar um er að ræða raffang sem komið var upp á undan því fjarskiptavirki sem það veldur truflun á. Um þetta segir Hæstiréttur:

“Þegar horft er til einstakra núgildandi málsgreina þessarar lagagreinar er ljóst að þær snúa í öllum tilvikum að því að vernda fjarskiptavirki, sem þegar eru fyrir hendi, fyrir röskun af framkvæmdum eða annars konar aðgerðum, sem síðar koma til. Ekki eru efni til annars en að líta svo á að þessu til samræmis hefði átt að skýra áðurnefnda 4. mgr., sem nú er fallin brott úr lagagreininni, á þann hátt að henni hafi verið ætlað að sporna við truflunum á rekstri fjarskiptavirkis af völdum raflagna, pípna eða leiðslna, sem síðar yrðu lagðar. Í orðalagi 2. mgr. 64. gr. laga nr. 81/2003 kemur hvergi skýrlega fram að reglan þar hafi að þessu leyti víðtækara gildissvið en eldri reglan, sem hún leysti af hólmi, þannig að hún gæti nú náð meðal annars til raffanga og raflagna, sem voru þegar fyrir hendi áður en fjarskiptavirki varð til. Gagnvart þeim aðstæðum, sem uppi eru í málinu, myndi slík skýring á orðalagi þessa ákvæðis að auki skerða réttindi stefnda, sem varin eru af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, enda væri honum þá ekki aðeins gert að sæta með lögum almennri skerðingu á eignarréttindum sínum, svo sem heimilt er í þágu almannahagsmuna, heldur jafnframt að bera kostnað af skerðingunni.”

Í framhaldi af þessum dómi Hæstaréttar er ljóst að skoða þarf hver skuli bera kostnað við lagfæringar við þær aðstæður að truflanir á fjarskiptasambandi verða af völdum raffanga og raflagna sem fyrir eru þegar fjarskiptavirki er staðsett og skiptir þá ekki máli hvor viðkomandi raffang er í lagi eða ekki.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 418/2016

Stjórn IRA 2017. Frá vinstri, TF3JA, TF3WZ, TF3NE, TF3DC, TF8KY, TF3EK og TF3EO.

Aðalfundur ÍRA var haldinn í Skeljanesi í dag. Fjölmargir sóttu fundinn og voru hin ýmsu mál rædd.

Haraldur Þórðarson, TF8HP, stýrði fundi. Jón Þóroddur Jónsson formaður, TF3JA, stiklaði á stóru yfir liðið ár félagsins. Margir tóku til máls bæði með yfirferð á tilteknum málum sem og ábendingar frá fundargestum um málefni sem betur máttu fara.

Almenn ánægja var með félagsstörf. Fundargestir þáðu kaffi og með því, skrúfuðu í sundur gamlar talstöðvar smíðaðar á íslandi og spáðu í pólitíkina.

Kaffi og kleinur!

Ný heimasíða er komin í loftið eins og sjá má.

Mikið af efni hefur þegar verið flutt af gömlu heimasíðu félagsins. En mikið verk er eftir og er verið að vinna í því statt og stöðugt að flytja upplýsingar yfir á nýju síðuna.

Allar ábendingar eru vel þegnar bæði um efni sem vantar og tillögur að breytingum. Síðan er og verður alltaf í vinnslu, við viljum halda henni lifandi og þægilegri fyrir þá sem eru að nota hana.

Vinsamlegast sendið ábendingar á ira@ira.is.

Ölvir S. Sveinsson, vefstjóri.

Námskeið til radíóamatörprófs hefst á föstudag 10. mars klukkan 19 í Skeljanesi. Námskeiðið stendur yfir um tæplega tveggja mánaða skeið.

Allar upplýsingar eru á heimasíðu ÍRA, http://www.ira.is/dagskra-namskeids-2017/

Þáttaka tilkynnist til félagsins á póstfangið ira@ira.is

F5LBD á Morse-lyklinum

Áhugaverð grein um H-Pól loftnet.

Hér er linkur á umfjöllunina. H-pól fjölbanda loftnet

H-Pól Loftnet

Núna fyrir stuttu hóaði Jón Þóroddur (TF3JA) í mig og bað mig að aðstoða Lucy (KD2MFV) með að senda myndir með SSTV til bandaríkjanna.

Þar sem ég er frekar grænn í radíó amatör heiminum hafði ég ekki hugmynd um hvað hann var að tala. SSTV? Ég gúglaði svolítið áður en ég mætti niður í Skeljanes og þóttist vita helling þegar þangað var komið.

Eftir að hafa rætt svolítið við Lucy kom í ljós hvað hún var að spekúlera með SSTV. Lucy er radíó amatör, ljósmyndari og listamaður. Hún var hér að taka myndir af snjó/ís. Myndirnar gerir hún svart hvítar og líta þær út eins og halastjörnur. Hennar hugsun var að senda myndirnar í gegnum SSTV og fá sama “effect” og þegar NASA sendir myndir frá tunglinu á sínum tíma.

Hér er heimasíðan hennar Lucy, http://www.lucyhelton.com/

Eftir smá æfingar með tölvuna hennar tengdum við hana við iCom 7300 stöðina og gerðum prufu sendingu. Við sendinguna notuðum við Ham Radio Deluxe. Prufu sendingin fór ekki langt. Við sendum á 0 wöttum og fór merkið heila 10 metra yfir í næsta loftnet og tókum við á móti með Yaesu stöðinni, þar notuðum við MMSSTV. Virkað flott.

Á laugardeginum var ætlunin að senda mynd til BNA. Við reyndum á 17 og 30 metrunum sem virkuðu ekki en 20 metrarnir voru hinsvegar álitlegir nema að það var keppni í gangi og allt troðið. Við ákváðum að vera ekki að trufla keppendur og ætla ég að prufa að senda henni myndina við betra tækifæri.

Hér er mynd af Jóni (TF3JA) og Lucy (KD2MFV) með einn af úrvals safngripunum okkar sem er í fullu fjöri. Jón er að sýna Lucy hvernig merkið leit út. Það sést reyndar ekki á myndinni en þarna var ægilega falleg bylgja sem við dáðumst að meðan stöðin sendi út myndina frá Lucy.

Hér er Ölvir (TF3WZ), Lucy (KD2MFV) og Jón (TF3LM) að spekulera í stöðlum sem hægt er að nota til að senda myndina. Hvaða forrit henntar best o.s.frv.

Hér er ein af myndunum sem Lucy tók. (Birt með leyfi Lucy)

Ölvir S. Sveinsson, TF3WZ

Lucy ætlar að halda áfram tilraunum með SSTV sendingar með aðstoð tveggja íslenskra radíóamatöra.

Ölvir, Lucy og Radíó Hundurinn!

Allir radíóáhugamenn eru velkomnir í heimsókn þó ekki væri nema til að spjalla og fá sér kaffi með kleinu. Tilvalið væri að prófa hljóðnema eða grípa í lykil og prófa félagsstöðina.

Einnig verða einhverjir við málningu og tiltekt í aðstöðu ÍRA, öll hjálp er velþegin.

stjórn ÍRA