Úr félagsstarfinu. Hressir félagar í sól og 17°C hita í ágúst 2012 á Vita- og vitaskipahelginni við Garðskagavita. Frá vinstri: Baldvin Þórarinsson TF3-033, Svanur Hjálmarsson TF3AB og Ólafur B. Ólafsson TF3ML. Ljósmynd: TF3JB.

Opið hús verður í Skeljanesi fimmtudaginn 17. janúar kl. 20-22.

Opin málaskrá, kaffi og kex og góður félagsskapur.

Vetrardagskrá 2019 hefst síðan á fullu 7. febrúar n.k.

Fyrir skömmu var rætt á Facebook um þörf á vettvangi þar sem menn geta sett inn auglýsingar um amatörstöðvar og/eða búnað til sölu – eða óskað eftir að kaupa slíkt dót.

Nú hefur Ágúst, TF3OM, sett upp Facebook  síðu fyrir okkur sem kemur til móts við þessar þarfir. Nýja síðan heitir „Flóamarkaður Radíóamatöra“.

Ágúst skrifar eftirfarandi formála með síðunni:

Þetta er Flóamarkaður Radíóamatöra þar sem hægt er að birta auglýsingar er varða áhugamálið.

Vinsamlegast eyðið auglýsingum eða merkið með “Selt” eftir að viðskipti hafa farið fram.

Þessi vefur er ekki ætlaður fyrir hljómflutningstæki, sjónvörp og þess háttar. Hann er ekki ætlaður fyrir almennt spjall, til þess eru aðrir vefir.

73 de Ágúst, TF3OM.

Slóðin er:  https://www.facebook.com/groups/radiofloamarkadur #�lvl

1. tbl. CQ TF kemur út á heimasíðu félagsins 25. janúar n.k.

Opið er fyrir innsendingu efnis fram á sunnudag, 13. janúar.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB


Opið hús verður í Skeljanesi fimmtudaginn 10. janúar frá kl. 20.

Opin málaskrá, ilmandi kaffi og góður félagsskapur.

Vetrardagskrá 2019 hefst síðan 31. janúar n.k.


Mynd úr félagsstarfinu. Hressir félagar í Skeljanesi í nóvember s.l. Frá vinstri: Bjarni Sverrisson TF3GB, Jón Hörður Guðjónsson TF3JHG og Jón Björnsson TF3PW. Ljósmynd: TF3JB.

Í samræmi við starfsáætlun stjórnar ÍRA og að höfðu samráði við Prófnefnd og Umsjónarmann námskeiða, hefur verið ákveðið að kanna áhuga á þátttöku í námskeiði til amatörprófs.

Fyrirhugað er að námskeiðið hefjist 12. febrúar n.k. og ljúki með prófi Póst- og fjarskiptastofnunar 11. maí. Kennt verður tvo daga í viku í húsnæði Háskólans í Reykjavík, kl. 17-21:30. Námskeiðið er öllum opið og ekki eru gerðar kröfur um sérstaka menntun eða undirbúning.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang á “ira hjá ira.is”. Ath. að skráningu fylgir engin skuldbinding, en veitir félaginu mikilvægar upplýsingar um fyrirhugaðan fjölda nemenda.

Fyrirspurnum má beina á sama tölvupóstfang.

Skráning er opin til 20. janúar n.k. Félagið setur þann fyrirvara um námskeiðshald, að lágmarksþátttaka fáist.


Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A mætti með mælitækin í Skeljanes laugardaginn 5. janúar.

Að þessu sinni voru sérstaklega til skoðunar gæði í sendingum á einhliðarbandsmótun (SSB) frá nokkrum þekktum amatörstöðvum á 14 MHz. Þessar stöðvar voru: ELECRAFT KX-2, ICOM IC-706, IC-7300 og IC-7620, KENWOOD TS-2000 og YAESU FT-1000. Allar stöðvarnar stóðust lágmarkskröfur.  Ari Þórólfur hefur til skoðunar að taka saman greinargerð til birtingar í CQ TF.

Gæði í sendingu voru skoðuð á mismunandi afli. Skoðað var m.a. afleiðing þess að skrúfa upp mögnun til að kalla fram bjögun og fylgst með aflestri á ALC-mæli um leið. Prófuð voru áhrif á gæði í sendingu með innsetningu talpressu (e. processor) og prófanirnar gerðar á mismunandi afli. Fram kom m.a. að venjulegur aflmælir sýnir kannski mest 10W þegar notuð er einhliðabandsstöð á fullu afli (100W) út í loftnet eða gerviálag, en til að fá „raunverulega“ aflmælingu þarf að nota PEP aflmæli.

Alls mættu 12 félagar og 2 gestir í Skeljanes þennan ágæta laugardagseftirmiðdag. Ara Þórólfi Jóhannessyni TF1A eru hér með færðar bestu þakkir fyrir skemmtilegan viðburð og fróðlegar tilraunir. Hugmyndin er að hittast á ný að 2 vikum liðnum með nýtt verkefni (verður auglýst síðar).

Mælingarlaugardagur í Skeljanesi 5. janúar. ICOM IC-7610 til skoðunar. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Jón G. Guðmundsson TF3LM, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Þórður Adolfsson TF3DT, Yngvi Harðarson TF3Y, Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Jón Björnsson TF3PW.
Næst var ICOM IC-7300 tekin til mælinga. Frá vinstri: Jón G. Guðmundsson TF3LM, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Þórður Adolfsson TF3DT.
Mælingarnar kalla á fulla einbeitingu! Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Þórður Adolfsson TF3DT.
PDF Embedder requires a url attribute
ICOM IC-706 til mælinga. Frá vinstri: Jón G. Guðmundsson TF3LM, Mathías Hagvaag TF3MH, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Þórður Adolfsson TF3DT, Yngvi Harðarson TF3Y, Jón Björnsson TF3PW, Heimir Konráðsson TF1EIN og Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Á myndina vantar Sigurð Kolbeinsson TF3-066.
Elecraft KX-2 til mælinga. Frá vinstri: Jón G. Guðmundsson TF3LM, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Yngvi Harðarson TF3Y og Þórður Adolfsson TF3DT.
Og loks var komið að Kenwood TS-2000. Jón G. Guðmundsson TF3LM og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.

Ari Þór Jóhannesson TF1A kemur með mælitækin í Skeljanes á morgun, laugardag 5. janúar.

Hugmyndin er að skoða útsendingargæði nokkurra amatörstöðva; m.a. að skipta út hljóðnemum og skoða tíðnisvörun og hvernig má varast að nota of mikla mögnun.

Húsið opnar kl. 14. Kaffi á könnunni.


Nú hafa öll blöð gefin út af amatörfélögum á norðurlöndunum verið sett á netið frá síðasta ári. Svíarnir virðast vera hvað duglegastir og er fyrsta tölublað 2019 SSA komið á netið.

Í valmynd má finna blöðin hér: Félagið -> Fréttablöð -> Norðurlandablöð NRAU.

Við minnum á að félagar þurfa að vera skráðir inn til að geta skoðað blöðin. Síðan sem hýsir blöðin verður ekki sýnileg fyrr en búið er að skrá sig inn.

Hér má finna síðu The Nordic Radio Amateur Union: https://www.nrau.net/

Nú styttist í janúarhefti CQ TF.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur efnis er til sunnudags 13. janúar n.k. Netfang er: tf3sb@ox.is

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á nýju ári.

Myndin er tekin í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi. Mathías Hagvaag QSL stjóri TF ÍRA QSL Bureau. Ljósmynd: TF3JB.

Áramótaútsending korta frá TF ÍRA QSL Bureau (kortastofu) fer að þessu sinni fram mánudaginn 14. janúar 2019. Áramótaútsending er í raun, þegar nánast öll kort sem safnast hafa upp hjá stofunni, (t.d. til smærri staða) eru “hreinsuð upp” og póstlögð til systurstofnana landsfélaga radíóamatörfélaga um allan heim.

Síðasti skiladagur vegna áramótaútsendingar 2018/19 er fimmtudagskvöldið 3. janúar 2019. Þau kort sem berast í QSL kassann í Skeljanesi það kvöld verða örugg með að komast í flokkun og til útsendingar í janúar.

Reykjavík 29. desember 2018.

Mathías Hagvaag, TF3MH,
QSL stjóri ÍRA.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður lokuð fimmtudaginn 27. desember 2018.

Húsið verður næst opið fimmtudaginn 3. janúar 2019 kl. 20-22.

Jóla- og áramótaóskir til félagsmanna og fjölskyldna þeirra.

Stjórn ÍRA.